Grindavíkurstríðið 1532 – III. hluti
Eftirfarandi lýsing var hraðskrifuð upp á námskeiði er Jón Böðvarsson hélt um Grindavíkurstríðið í Saltfisksetrinu í Grindavík. Hún er birt með fyrirvara – hugasanlega er þörf á einhverri leiðréttingu – eftir er að bera hana saman við skriflegar heimildir, s.s. í „Ensku öldinni„og „Tíu þorskastríð„, sbr. innihald texta:
“Grindavíkurstríðið”
III. hluti – 17. mars 2004.
“Filmurnar reyndust við leit vera á Þjóðskjalasafninu. Þær liggja hins vegar ekki á lausu.
Í Fornbréfasafninu (nr. 16, bls. 536-717) er heilmikið af skjölum og gögnum vegna eftirmála Grindavíkurstríðsins, langflest á latínu og þýsku, en örfá á íslensku. Friðarviðræðurnar fóru fram í bænum Bad Segenberg, skammt norðan borgarinnar Lübeck í Þýskalandi.
Þorskastríðin voru 10 talsins.
1. 1415-1425. Í lok þess varð Ísland opinn fiskmarkaður.
2. 1447-1449, en eftir það tengdist Ísland danska ríkinu.
3. 1467-1473. Björn Þorleifsson var drepinn og loks samið um óbreytt ástand.
4. 1484-1490. Englendingar fengu heimild Danakonungs til fiskveiða og verslunar við Ísland. Árið 1484 hófst flotavernd Englendinga á Íslandsmiðum. 1485 var orrustan við Bosworth. Á árunum 1485-1509 var Hinrik VII. við völd í Englandi og Hinrik VIII. á árunum 1509-1547.
5. 1532-1533 var Grindavíkurstríðið.
6. 1896-1897 voru firðir, víkur og flóar opnaðir öllum til veiða.
7. 1952-1956 var landhelgin færð út í 4 mílur til verndunar fiskistofnum.
8. 1958-1961 var hún færð út í 12 mílur. 1972-1973 var hún færð út í 50 mílur og loks
10. (1975-1977) út í 200 mílur.
Grindavíkurstríðinu sjálfu lauk í raun 21. júní er Þóðverjar létu úr höfn á Peter Gibson. Erlendur Þorvarðarson á Strönd og önnur stjórnvöld voru eindregið á því að líta á atburðina sem lögregluaðgerð gegn lögbrjótum, en stjórnvöld út í heimi voru hins vegar á öðru máli. Helstu borgir Þjóðverja voru þá Lübeck og Hamborg. Þýskaland var í raun mörg nokkuð sjálfstæð borgríki. Danir stóðu t.d. í stríði við Lübeck, en Hamborgarar voru hliðhollir Danakóngi. Danir vildu styrkja umboðsstjórn sína á Íslandi og víðar og þeim þótti því þægð í því að hafa þýskar skipshafnir hér, sér til halds og trausts. Danakóngur lék þó tveimur skjöldum því hann var tilbúinn til að semja við Englendinga ef þurfa þótti gegn því að þeir versluðu ekki hér á landi. Íslendingar vildu hins vegar fyrir alla muni halda í verslunina við Englendinga. Samkeppnin skapaði lægra verð fyrir innfluttan varning og hærra verð fyrir útflutninginn. Þetta kom berlega í ljós eftir að Englendingar fóru héðan því þá breyttust hlutföllin Íslendingum í óhag. Mikið var gert að því að prjóna sokka og vettlinga til að selja Englendingum, en Danir reyndu að banna alla slíka verslun. Þeim tókst þó ekki að framfylgja banninu. (Skv. vísindavef HÍ barst prjón fyrst til Íslands á fyrri hluta 16. aldar).
Enskir sjóræningar rændu bæði ensk og þýsk skip á þessum tíma. Hinrik VIII. samdi t.a.m. við þá um að ræna einnig spænsk skip. Talsverðar skærur hlutust af. Þegar enskir sökktu þýskum skipum brugðust Þjóðverjar ókvæða við og reyndu jafnan að hefna hatrammlega fyrir slíkt.
Í upphafi var litið á átökin á Básendum og í Grindavík sem sjóræningjaskærur. Þjóðverjar lögðu hald á enska skipið á Básendum og íslensk yfirvöld, Erlendur á Strönd og hirðstjóri Danakonungs, Diðrik af Minden, hikuðu t.d. ekki við að leggja hald á herfang sitt í Grindavík. Eitt skipanna fórst á skerjum á flóttanum, en þremur tókst að komast til Englands. Þar bar áhöfnin umsvifalaust fram kvörtun og kærur við Englandskonung.
Í Hamborg voru margir Íslendingar á þessum tíma, s.s. Gissur Einarsson, fyrsti lútherski biskupinn á Íslandi. Líklegt er að þeir hafi verið Þjóðverjum til ráðgjafar vegna þess sem á eftir fylgdi. Yfirvöld hér á landi sendu Hinriki VIII. frekjulegt bréf og sögðust einungis hafa staðið í lögregluaðgerðum við Grindavík. Þjóðverjar í Hamborg skrifuðu einnig Hinriki VIII. bréf og töldu Englendinga á Íslandi hafa verið lögbrjótana, en ekki þá þýsku. Töldu þeir þar ýmislegt máli sínu til stuðnings, m.a. að Englendingar hefðu verið orðnir aðsópsmeiri við Ísland en Íslendingar sjálfir, lægju á djúpslóð og kæmu í veg fyrir fiskigengd í firði og víkur. Einnig að Englendingar neyddu Íslendinga til að afhenda sér fisk með illu og hefðu þar að auki á brott með sér fólk, settu það í land í Færeyjum eða hnepptu jafnvel í þrældóm. Þetta er kannski svolítið ýktar lýsingar hjá Þjóðverjum. Hið rétta er að fátækir bændur létu Englendinga stundum fá stráka um fermingu til að túlka fyrir þá. Þessir strákar fóru stundum út með þeim, ólust upp í Englandi og komu síðan með þeim sumir hverjir til landsins að vori þar sem þeir heimsóttu sitt fólk. Þá töldu Þjóðverjar upp að Englendingar ynnu leynt og ljóst gegn Danakonungi á Íslandi og teldu sig jafnvel eiga þar meiri rétt en aðrir. Stælu þeir fiski og jafnvel skatti frá Dönum.
Þjóðverjar ráku atvikin á Básendum í bréfi sínu til Hinriks VIII. og töldu síðan upp nokkur atvik um yfirgang Englendinga, sem þeir hefðu komist upp með fram að þessu vegna þess að ekkert lögregluvald væri til staðar í landinu, heldur “stjórnuðust viðbrögð af hefndum og gömlum vana”. Líklegt er að Gissur hafi hjálpað Þjóðverjum að semja bréfið til Hinriks VIII. Sá taldi hins vegar að þýskir hafi byrjað að skjóta á landsmenn sína og ritaði hástemmt bréf til baka og óskaði eftir samningaumræðum um skaðabætur og annað, sem tiltekið var. Friðrik II. Danakonungur svaraði hortugur fyrir sig og sagði sína þegna á Íslandi saklausa af öllum ásökunum Englendinga vegna lögregluaðgerðanna hér.
Hinrik VIII. vildi láta dæma Ludtkin Smith fyrir hans þátt í málinu, ekki síst fyrir að hafa haldið heljarinnar veislu í virkinu eftir drápin ofan við Stóru-Bót. Þjóðverjar svöruðu og bentu á að Englendingar hefðu nú áður ætlað að bjóða Íslendingum í “þjóðverjakjöt” eftir væntanlegan sigur þeirra yfir þýskum á Básendum. Englendingar reyndu þá að útskýra að þar væri um einhvern misskilning að ræða – kjöt frá Þjóðverjum hefði átt að vera þar í matinn.
Hinrik VIII. sendi mann að nafni Thomas Lee til Danakonungs til viðræðna og samninga, en vegna tungumálaerfiðleika gekk hvorki né rak. Lee talaði einungis ensku og latínu. Úti í heimi voru átök um, verslun, trúarbrögð og stéttaskiptingu. Um var að ræða flókna blöndu. Hinrik VIII. var t.a.m. kaþólskur eins og meginþorri Evrópubúa, en Hansakaupmenn voru t.d. flestir lútherskir. Hinrik var studdur af borgarastéttinni, en lýðurinn bankaði á dyrnar. Inn í þett allt blönduðust kvennamál Hinriks.
Þannig stóðu málin við upphaf friðasamninga er fylgdu í kjölfarið. Fyrsti fundurinn var haldinn í Hamborg þann 30. janúar 1553. Hálfur mánuður fór í þýðingar gagna. Enski sendifulltrúinn var Thomas Lee. Hann skrifaði á latínu, en Þjóðverjar vildu hafa allt á þýsku. Kristján Friðriksson (Danakonungssonur) var einn fulltrúi Danakonungs. Hann hélt nokkuð vel á málstað Íslendinga, en þeir áttu sjálfir engan fulltrúa í viðræðunum.
Nú kemur þar að er búið var að þýða öll gögn og undirbúningi lokið. Þá stóð í stappi um fundarstað. Varð úr að hann var fluttur til Segenbergs. Samningahöllin stóð þar sem nú er torg. Englendingar heimtuðu enn skaðabætur, en Þjóðverjar sögðust einungis hafa verið þátttakendur í lögregluaðgerðum. Lee dró þá upp drög að reglugerð um höndlun friðar vegna siglinga til Íslands. Þar sem minnst er á fiskveiðar í þeim eru þær taldar að hluta til jafngilda verslun. Annars var efni þeirra í megindráttum eftirfarandi:
1. Þeir sem fyrstir koma til hafnar á Íslandi mega ekki reka aðra er á eftir koma á brott, eins og verið hefur, heldur leyfa þeim að versla í friði.
2. Ef ekki er nægur fiskur á boðstólnum fyrir nógu mörg skip eiga þau forgang er fyrstir komu.
3. Sömu reglur gilda um öll skip.
4. Orðið viðskipti á einnig við um sölu á fiski.
5. Kaupmenn mega ekki sprengja upp verðið hver hjá öðrum.
6. Kaupmenn mega ekki merkja sér fisk áður en þeir greiða fyrir hann (flestar deilur milli kaupmanna höfðu stafað af því). Komi upp deildur eiga íslensk yfirvöld að fjalla um málið. (Hér er um merkilega viðurkenningu að ræða frá því sem var).
7. Skipstjórar skulu áminntir um að hafa ekki ofbeldismenn í áhöfn, einungis góða sjómenn.
Samningaviðræður hófust nú fyrir alvöru. Sáttarfundir stóðu í 3 daga, 15.-17. febrúar. Niðurstaðan varð sú að engar kröfur Englendinga voru teknar til greina. Þeir voru sagðir hafa sjálfir kallað yfir sig aðgerðirnar á Íslandi, auk þess sem Kristján hafði í hótunum um að svipta Englendinga öllum veiði- og verslunarheimildum á Íslandi. Lee varð auðsveipari og lofaði að Englendingar myndu ekki grípa til refisaðgerða gegn Þjóðverjum, en hann vildi í staðinn fá tryggingu fyrir áframhaldandi veiðiheimildum Englendingum til handa.
Skjöl og gögn frá viðræðunum eru varðveitt í ríkisbókasafninu í Hamborg. Björn Þorsteinsson er líklega eini Íslendingurinn (“Enska öldin – Fimm þorskastríð”) sem hefur skoðað þau. Friðarsamingurinn, sem loks var gerður, er þar í heild sinni. Í lok hans er samþykkt að “duggarasigling skipist burt undan landinu”, þ.e. að einungis verði leyft að fiskur verði keyptur hér, en ekki veiddur.
Að loknum samningum slógu Þjóðverjar upp mikilli veislu til heiðurs enska fulltrúanum, ekki síst vegna eftirlátssemi hans. Hann fór síðan til Englands mánuði síðar og í framhaldi af því skrifaði Hinrik VIII. Þjóðverjum bréf og þakkaði þeim beinan fulltrúa sínum til handa.
Englendingar höfðu haft 6 herskip tilbúin til Íslandssiglinga. Skotar voru um þessar mundir að hertaka ensk skip og ræna. Varð það til þess að verulega dró úr áhuga og getu Englendinga til siglinga til Íslands. Andstaðan gegn Englendingum hér var enn mikil eftir lætin fyrir og í kringum Grindavíkurstríðið og var ýmislegt fundið þeim til foráttu. Eymdi enn af fyrri reynslu. Kristján III. gerði loks erlenda fiskimenn brottræka af Íslandsmiðum.
Hinrik VIII. varð í raun til þess að bola Englendingum af Íslandsmiðum með aðgerðarleysi sínu. Völd þau er Englendingar höfðu haft á Íslandi með siglingum sínum voru ekki endurnýjuð. Kristján III. kvartaði enn yfir yfirgangi Englendinga við Hinrik VIII, einkum í Grindavík. Um 1539 hurfu Englendingar svo til af Íslandsmiðum. Danir voru þá orðnir staðráðnir í að ná undir sig versluninni til handa dönskum kaupmönnum. Á Alþingi 1545 voru eigur útlendra kaupmanna gerðar upptækar hér á landi. Englendingar urðu fyrir litlum skaða vegna þessa því þeir voru farnir frá öðrum stöðum en Vestmannaeyjum. Þær höfðu þeir fengið í spilaskuld frá Skálholtsbiskupi árið 1420, en urðu nú frá að víkja. Smám saman hröktu Danir einnig Þjóðverja frá landinu. Árið 1602 var einokun Dana til verslunar á Íslandi lögleidd.
Um 1500 voru í raun tveir “kaupstaðir” á Íslandi; Hafnarfjörður og Grindavík. Síðarnefndi staðurinn stóð betur að vígi því hann var aðalhöfn Skálholtssbiskups, sem hafði skip í förum. Bændur greiddu m.a. skatt sinn í osti, sem seldur var í Evrópu, en korn o.fl. flutt til landsins í staðinn. Grindavík var því mikil höfn um langan tíma og það löngu eftir að “Grindavíkurstríðinu” lauk. Enn má sjá minjar veru, sjósóknar og verslunar útlendra ofan við Stóru-Bót. Þar er hóll sem sagður er hafa verið virki Jóhanns breiða og manna hans og Engelska lág er þar undir hólnum þar sem enskir eru sagðir hafa verið grafnir af eftirlifandi félögum sínum. Vestar má sjá móta fyrir görðum Junkaragerðis. Á Kóngsklöppinni í Staðarhverfi, litlu vestar á nesinu, ráku Danir verslun eftir að þeir komu til landsins og tóku við af Þjóðverjum. Þar má enn sjá talsverðar minjar eftir þá verslun, m.a. tóftir húsa”.
Sjá IV. hluta.