Gvendarborg – Rauðhólssel – Kolhólasel

Gvendarborg

Gengið var að Gvendarborg, um Þráinsskjaldarhraun að Rauðhólsseli.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Spurnir höfðu borist af tóftum í lítilli dalkvos nokkru suðvestan borgarinnar. Ekki er að sjá að þær hafi verið skráðar eða ljóst hvaða tilgangi þær hafi þjónað. Um er að ræða land frá Vatnsleysu svo líklegt má telja að þessi selstöð hafi tilheyrt þeim bæ. Nefndum hana Kolhólasel.
Eftir nokkra göngu fram og aftur um svæðið fundust minjarnar norðvestan undir hæðardragi. Gróið er undir hæðinni. Þrjár tóftir eru nokkuð þétt saman og enn ein skammt vestar. Hún gæti hafa verið stekkur, en hinar hús.

Kolhólasel

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki er ósennilegt að þarna hafi verið sel fyrrum, en það fallið í gleymsku. Þannig hefði og orðið um mörg hin selin í heiðinni ef ekki hafi komið til áhugi og dugnaður örfárra heimamanna við að leita uppi og varðveita staðsetningu þeirra.
Haldið var upp heiðina austan Þórustaðastígs með stefnu í Rauðhólssel. Það er frekar lítið sel frá Vatnsleysu. Í Jarðabókinni 1703 er þess getið að oft hafi ekki verið vært í því vegna draugagangs. Líklegt er einnig að vatnsskortur hafi háð búskapnum þarna í þurrkum.
Gengið var til baka um Rauðhólsselsstíg, norður með vestanverðum hraunkanti Afstapahrauns.
Bakaleiðin var og nýtt til berja, enda af nógu að taka.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.