Gvendarvör – byrgi – garðar
Gengið var um svæðið á ströndinni austan Ísólfsskála í fylgd Jóns Guðmundssonar frá Ísólfsskála (1921). Jón fræddi þátttakendur um örnefni á svæðinu sem og notagildi strandarinnar og mannvirkja, sem standa þarna skammt ofan við hana.
Skálavör, stundum nefnd Bótin eða Börubót, er neðan við Ísólfsskála. Austar er Gvendarvörin, Trantar og Hattvík yst. Rangargjögur er skammt austar. Við gjögrin voru forn reka- og landamörk Grindavíkur og Selvogsþinga, en á seinni tímum hafa landamerki Ísólfsskála og Krýsuvíkur jafnan verið miðuð við klettinn Dágon við Selatanga.
Nótarhóll er ofan við Gvendarvör. Við hann eru allnokkur hlaðinn mannvirki, bæði garðar og byrgi. Hraunið nefnist Skollahraun.
Jón sagði að jafnan hafi verið róið úr Gvendarvör. Það hefðu gert þeir Brandur og Hjálmar, föðurbræður Jóns. Þeir gerðu út tvö skip. Oftast var unt að lenda í vörinni eða í Bótinni.
Hann myndi eftir því að aðeins einu sinni hafi þeir þurft að snúa við og hleypa út í Nes, en annars gátu þeir alltaf lent við Gvendarvör. Ef slæmt var í sjó var þó jafnan lent í Bótinni (Börubót) neðan við sumarbústaðinn, þar sem sjóbúðin var og enn má sjá svolítil ummerki um.
Klöpp er í Gvendarvör, sker, slétt eins og bryggja. Þar var hægt að henda upp aflanum líkt og við lendinguna á Selatöngum. Hún var ástæða þess að garðarnir og byrgin voru hlaðin þar ofan við. Hörkuduglegir karlar frá Hafnarfirði réru með bræðrunum og voru þeir mikið fyrir vín. Einn þeirra (Guðmundur) var stundum sendur fótgangandi í Hafnarfjörð eftir brennivíni og taldi hann það alls ekki eftir sér.
Steinn einn mikill er á hlaðinu á Ísólfsskála. Hann datt eitt sinn úr bjallanum og lenti á höfði Guðmundar föður hans. Steinninn er um 400 pund og má að líkum láta hver áverkinn hefur verið. Afi hans, Guðmundur Hannesson, tók steininn upp af höfði hans og var sárið síðan heimasaumað. Margar sagnir eru til af Guðmundi Hannessyni. Fræg er sagan af honum er hann bar hreindýrskálf heim ofan af heiði alla leið úr Dyngjunni. Guðmundur stundaði mikið hreindýraveiðar við Hrútargjárdyngju. Salt bar hann frá Keflavík, 100 pund í hvorri hendi. Hann var og mikill veiðimaður.
Reyndar var hann meira og minna á veiðum, ýmist að eltast við refi, seli eða hreindýr. Dýrin skaut hann eða veiddi á annan hátt, t.d. í gildrur. Eitt sinn skaut Guðmundur hval. Hann var þá með rennilóð framan við bæinn, í Skálabótinni, og hafði framhlaðning sinn, stóran og mikinn, tilbúinn í von um að eitthvert kvikyndi léti sjá sig. Skyndilega bar þar að hval og brá þá Guðmundur snöggt við, skaut hvalinn og dró hann á land.
Fiskverkunin fór fram á Nótarhól, en við hann var einnig mikið af sel.
Byrgin og garðar notaðir til að þurrka fiskinn. Eitt húsið var notað til verkunarinnar. Veitt á færi, ekki önnur veiðifæri til þá. Dregið var helvíti mikið á stundum og fylltu þeir Hjálmar og Brandur stundum skip sín, einkum ef mikið var um sílfisk. Stundum var hann slíkur að einungis þurfti að róa út á lónið og mátti þá sjá fiskinn vaða þar um á yfrborðinu. Þá var líka mikið veitt.
Oftar en ekki voru fjölmargar skútur utan við Bótina. Stundum var róið út í þær og fengið kex í skiptum fyrir vettlinga og fleira vaðmáls og einstaka sinnum komu sjómemnirnir í land, einkum til að sækja vatn eða snjó. Eitt sinn taldi Jón á fjórða tug skútna þarna fyrir utan.
Byrgin og garðarnir austan við Skála hafa verið þar mjög lengi. Sama verkun fisksins var þar viðhöfð og á Selatöngum. Allt var nýtt, hausar, hryggir og þunnildi. Slorið var hins vegar stundum notað til að græða upp túnin á hrauninu og gekk það furðu vel.
Við Nótarhól eru langri garðar og fjölmörg byrgi, ágætar minjar um fiskverkun fyrri tíma.
Frábært veður. Birtan var einstök. Gangan tók 66 mín.