Hádegishóll – skilti

Kópavogur

Á Hádegishól í Kópavogi er „Stupa„. Við hana er upplýsingaskilti. Á því má m.a. lesa eftirfarandi:
Hádegishóll eða Hádegishólar draga nafn sitt af því að eystri hóllinn var eyktarmark frá bænum Fífuhvammi sem var syðst Kópavogsjarðanna fjögurra. Hóllinn var í hásuður frá bænum og bar því sól yfir hann á hádegi.

Kópavogur

Stupan á Hádegishól.

Eyktarmark er fastur punktur í landslagi sem sólina ber í frá tilteknum bæ á vissum tíma dags. Helst átti að miða áttina frá eldhúsinu á bænum. Algegnt var að fjallstindur, hæðir, skörð eða jafnvel hlaðnar vörður væru eyktarmörk.
Fyrr á öldum var sólarhringnum skipt upp í eyktir sem voru 8 talsins. Ekki er hægt að tímasetja eyktir nákvæmlega eftir stundarklukku nútímans en nöfn þeirra eru; ótta (um kl. 3), miður morgunn eða rismál (um kl. 6), dagmál (um kl. 9), miðdegi eða hádegi (um kl. 12), nón (um kl. 15), miður aftann eða miðaftann (um kl. 18), náttmál (um kl. 21) og miðnætti eða lágnætti (um kl. 24). því eru til örnefni eins og Miðmorgunsvörður, Dagmálahnúkur, Hádegishóll, Nónskál, Miðaftansdrangur og Náttmálaborg.
Hádegishólar eru ávalir grágrýtishólar með áberandi ísaldarminjum (hvalbökum) og jökulrákum). Bergið í klöppunum tilheyrir svokölluðu Breiðholtsgrágrýti en það liggur ofan á Reykjavíkurgrágrýtinu sem Kópavogur stendur að mestu á og er um 300.000-400.000 ára gamalt. Af því má ráða að Hádegishólar eru með yngri jarðmyndunum í Kópavogi og eru yngri en t.d. Víghólar og Borgarholt.
Hvalbök nefnast jökulsorfnir klapparhólar og þekkjast á því að sú hlið klapparinnar sem vissi á móti skriðstefnu jökulsins og jökulþunginn mæddi mest á, er freur slétt og aflíðandi. Hin hlið sem vissi undan skriðstefnunni er hins vegar oft brött og stöllótt, enda náðijökullinn að rífa flyksur úr berginu þeim megin. Jökulrákir á Hádegishólum urðu til fyrir um 10.000 árum þegar jökullinn skreið fram og rispaði undirlagið með urð og grjóti. Af stefnu hvalbaka og jökulráka má ráða að jökullinn sem síðast gekk yfir Kópavog hafði stefnuna NV-SA.

Stupa

Stupan.

Stupur eru forn asísk mannvirki sem upphaflega voru reist sem minnisvarðar um fornar hetjudáðir. Með tilkomu búddatrúar fyrir um 2500 árum breyttist tilgangur þeirra í að vera minning um brautryðjendur í þroska mannkynsins og hvatning um að feta í fótspor þeirra og leita leiða til andlegs þroska.
Stupan á Hádegishólum er byggð samkvæmt tóbeskum hefðum og reglum. Sérhver form felur í sér táknræna merkingu um leiðir til innri þroska. Í heild sinni táknar stupa uppljómaðan hug.

Kópavogur

Stupan á Hádegishóli.

Hug sem hafinn er yfir allar takmarkanir og neikvæða eiginleika. Hug með fullkomið jafnvægi kærleiks og visku.
Ytri, innri og dulin (esoterisk) gerð stupu veitir henni lækningamátt, umbreytir neikvæðri orku í nánasta umhveri og hefur hulin djúpstæð áhrif á allar skynverur sem koma nærri henni. Vegna þessara eiginleika stupa hafa þær verið byggðar víðsvegar um heim.
Stupunni var valinn staður á Hádegishólum vegna velvilja og víðsýni bæjaryfirvalda í Kópavogi.
Landið þar sem stupunni var fundinn staður var blessað 21, ágúst 1992 af Ven Thrangu Rinpoche. ven Lama Zopa Ronpoche vígði stupuna 18. nóvember 1993.
Frumkvæði að byggingu stupunnar hafði íslensk kona sem búið hefur meðal tíbeskra flóttamanna í Indlandi í áratugi og naut hún aðstoðar listamanna frá Íslandi, Tíbet, nepal, Indlandi og Ungverjalandi. Alls kom á annað hundrað manns af ólíku þjóðerni og trú að gerð stupunnar.

Kópavogur

Hádegishóll – skilti.