Hafnarfjörður – syðri hafnargarðurinn
Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar árið 1950 er fjallað um byggingu „Syðri hafnargarðsins“ í höfninni:
„Nokkru fyrir mitt ár 1948 var hafin bygging syðri hafnargarðsins. Bygging garðsins hefir gengið mjög vel og er hann nú orðinn fullir 390 metrar að lengd, og nemur dýpi við fremsta hluta hans 7 metrum um stórstraumsfjörur.
Byggingu garðsins hefir nú verið hætt um sinn, þar eð hann er nú kominn á það dýpi, að ekki verður sama byggingarfyrirkomulagi komið við við framhaldsbyggingu hans og hingað til hefir dugað. Gera má ráð fyrir að veður fari að spillast og vetrarsjóar geti grandað viðbótarbyggingunni ef áfram yrði haldið í vetur. Og í þriðja lagi hefur þegar verið unnið fyrir það fé, sem til mannvirkis þessa hefur fengizt í ár.
Þessar eru þá þrjár megin stoðir, er gert hafa nauðsynlegt að hætta við frekari byggingu garðsins í ár. Alþýðublað Hafnarfjarðar hefir leitað sér upplýsinga um, hvernig bygging garðsins stendur nú, og fengið upplýst að frá ársbyrjun í ár og þar til síðast í marzmánuði var haldið áfram byggingu garðsins á sama hátt og áður, að grjót var sprengt úr Hvaleyrarholti og flutt í garðinn. Í marzlok hóf dýpkunarskipið Grettir að grafa innan við garðinn, og vann hann við það til 17. maí. Það af uppgreftrinum, sem nothæft þótti var notað til undirburðar og sett samhliða grjótflutningnum niður í framhaldi garðsins, þannig að myndaður var malarhaugur, er var ca. 60 m. langur í fullri hæð þ.e. undir stórstraumsfjöruborð, en botnbreidd hans var um 50 m.
Garðurinn er nú kominn fram af malarhaugnum á um 7 m. dýpi miðað við stórstraumsfjöruborð. Lengd hans nemur, eins og fyrr er getið 390 m., þar af viðbót á þessu ári 80 m. Skjólveggur er 373 m. Viðbót á árinu 93 m., en lengd steyptrar plötu og fláa á úthlið nemur 382 m. Viðbót í ár var 83 m.Frá garðsendanum hefir nú verið gengið þannig, að raðað var stórgrýti fyrir hann frá fjöruborði og uppúr með svipuðum halla og hliðar garðsins.
Framan af árinu, á nokkrum kafla áður en garðurinn gekk fram á malarbinginn, bar á því að hann sigi, og einnig nokkuð nú undanfarið, eftir að kom fram á malarbingnum, og mest síðast. Hins vegar hefir sig vart orðið merkjanlegt á þeim kafla, sem garðurinn hvílir á malarbingnnum.
Að verkinu hafa að jafnaði unnið um 20 menn, auk verkstjóra. 3 bílar hafa annast grjótflutninginn. Kostnaður við byggingu garðsins í ár nemur um einni og kvart milljón króna. Á s.l. ári var við hann unnið fyrir röska milljón. Vonandi tekst að halda byggingu hans áfram á næsta ári.“
Í sama blaði árið 1951 er fjallað um „Innrásarker til Hafnarfjarðar„:
„Um klukkan 6 árdegis á miðvikudaginn var, kom til Hafnarfjarðar steinsteypukassi, sá fyrri af tveimur, er hafnarnefnd Hafnarfjarðar lét kaupa í Hollandi nú fyrir 2 mánuðum. Er þetta mikið mannvirki. Kassinn er 62 metrar á lengd, 9—10 m. á breidd, og álíka hár. Verður hann notaður sem togarabryggja innan við hafnargarðinn. Er ákveðið að innan við þessa togarabryggju verði skipakví um 70 m. breið, fyrir togara næst kerinu, og fyrir vélbáta þar fyrir ofan, við hafnarbakka, sem væntanlega verður byggður þar síðar. Í þeim krók, nú þegar, að geta orðið fullkomið var, á hverju sem gengur. Er mikill fengur fyrir fyrir höfnina að fá afgreiðslupláss þetta, og hina rólegu skipakví þar á bak við. Að visu mun verða að hæka steinkerið um 1—2 m. áður en það verður tekið til afnota, vegna vatnsdýpisins, þar sem það er látið, en þar er dýpi fyrir nýsköpunartogara. Er viðbúið að sú hækkun á kerinu verði að bíða næsta árs, vagna annarra framkvæmda er kalla meira að.
Um miðjan næsta mánuð er svo eitt kerið væntanlegt. Það er jafnlangt, en hærra og breiðara en þetta og verður notað í hafnargarðinn sjálfan. Hollenzkur dráttarbátur dregur kerin hingað, einn sá stærsti, er Hollendingar eiga, en þeir eru, eins og kunnugt er, alþekktir fyrir dugnað sinn og leikni við að draga ýms ferlíki um heimshöfin, þvert og endilangt. Ferðin hingað gekk mjög vel, hún tók aðeins tæpa 9 daga frá Amsterdam til Hafnarfjarðar, en gert hafði verið ráð fyrir minnst 10 dögum. Fékk skipið einmuna gott veður alla leið með kassann.
Þessi ker eiga sér allfræga sögu. Þau voru notuð í styrjöldinni síðustu, þegar Englendingar og Bandaríkjamenn réðust inn í Frakkland og fluttu þessa kassa með sér í hundraðatali og gerðu úr þim höfn svo að segja á einni nóttu, án þess að Þjóðverjar vissu neitt um það áður, á opinni strönd Normandí, í Frakklandi, þar sem engum datt í hug að lent mundi verða. Innrásin í Frakkland var einn af úrslitaatburðum styrjaldarinnar og kerin þessi áttu sinn þátt í því að þessi innrás heppnaðist. Eftir styrjöldina hafa þessi ker, mörg, verið tekin upp og notuð víða um heim til hafnarframkvæmda. —
Er þess að vænta að kerin komi engu síður að gagni til friðsænlegra þarfa okkar hér útí á Íslandi en þau gerðu í Frakklandi í mestu átökum styrjaldarinnar.“
Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 21. tbl. 28.10.1950, Syðri hafnargarðurinn, bls. 1 og 2.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 12. tbl. 23.06.1951, Innrásarker til Hafnarfjarðar, bls. 4.