Hafnir – Hunangshella

Hunangshella
Þegar gengið er eftir gömlu götunni, alfaraveginum sunnan Ósabotna til Hafna, er slétt jökulsorfin grágrýtishella á hægri hönd, nú orðin nokkuð gróin. Á hellunni, sem nefnd er Hunangshella, er varða.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Ósa – að Jamestownsrekanum

Gamla gatan er vörðuð, en vörðurnar eru nú flestar fallnar. Á Hunangshellu, segir sagan, var finngálkn unnið fyrrum.
Finngálkn er það dýr kallað sem köttur og tófa geta saman. Er það grimmt mjög og öllum vargi skaðlegri fyrir sauðfé manna og skotharðast allra dýra. Vinnur engin kúla á finngálknið og verður það ekki skotið nema með silfurhnapp eða silfurkúlu. Það er og styggt mjög og ákaflega frátt á fæti.

Einu sinni lagðist finngálkn á sauðfé Hafnamanna og annarra þar nærlendis. Hélt það sig mest umhverfis Ósana, sem kallaðir eru og gjörði tjón mikið. Reyndu menn á allar lundir að drepa finngálknið en það tókst ekki.

Hunangshella

Hunangshella.

Gekk svo lengi þangað til loksins að maður einn sem vissi jafnlangt nefi sínu hitti upp á því að hann makaði hellu eina við Ósabotnana með hunangi. Vissi hann að finngálkn er mjög sólgið í sætindi, helzt hunang. Síðan lagði maðurinn sig í leyni skammt frá hellunni. Dýrið rann á hunangslyktina og fór að sleikja helluna. Skaut þá maðurinn dýrið og hafði silfurhnapp af bol sínum fyrir kúlu. Þótti öllum mjög vænt um verk þetta.
Hellan er síðan kölluð Hunangshella sem fyrr segir.

-Jón Árnason I 611

Hunangshella

Varða á Hunangshellu.