Hamarinn í Hafnarfirði II
Margt fróðlegt hefur verið sagt um Hamarinn í Hafnarfirði, enda einn af hornsteinum bæjarins – í bókstaflegum skilningi þess orðs.
Örn Arnarsson hefur lítið ort um merkilega staði, eða náttúrufræðileg fyrirbrigði, sem löngum hafa þó seitt fram ljóð á tungu skáldanna. Til þess stendur hann of föstum fótum i mannlifinu. Og þegar hann yrkir um Hamarinn í Hafnarfirði, gerir hann þessa hamraborg að tákni, sem tjáir honum sérstaka sögu og gefur honum tilefni til að koma að því efni, sem jafnan er honum hugstæðast:
Hamarinn í Hafnarfirði
horfir yfir þétta byggð,
fólk að starfi, fley sem plœgja
fjarðardjúpin logni skyggð.
Hamarinn á sína sögu,
sem er skráð í klett og bjarg.
Stóð hann af sér storm og skruggu,
strauma, haf og jökulfarg.
Hamarinn í Hafnarfirði
horfði fyrr á kotin snauð,
beygt af oki kóngs og kirkju
klæðlaust fólk, sem skorti brauð,
sá það vaxa að viljaþreki
von og þekking nýrri hresst,
rétta bak og hefja höfuð
hætt að óttast kóng og prest.
Hamarinn í Hafnarfirði
horfir fram mót nýrri öld.
Hann mun sjá, að framtið færir
fegra líf og betri völd.
Þögult tákn um þroska lýðsins:
Þar er hæð, sem fyrr var lægð,
jökulhefluð hamrasteypa,
hafi sorfin, stormi fægð.
Hvergi hefur Örn túlkað betur ást sína á alþýðunni en i þessu stílhreina kvæði.
Þóroddur Guðmundsson frá Sandi fjallar um Hamarinn í Alþýublaði Hafnarfjarðar árið 1962 undir fyrirsögninni „Hugleiðingar um Hamarinn“. Þar skrifar hann m.a.:
„Á nöktum klöppunum Hamarsins sjást rákir, sem allar stefna í sömu átt, frá suðaustri til norðvesturs, og bera vitni um ísaldarjökulínn, sem gekk þar yfir á sínum tíma, en úrkomur og vindar hafa síðan jafnað yfir allt. Auðvitað vantar margt og mikið í þessa sögu, svo sem upphaf hennar og svo náttúrlega það, sem gerzt hefur á þeim stutta tíma, sem liðinn er.
Um forsögu Hamarsins verð ég fáorður, enda ekki allt of margvís um hana. Þess má þó geta, að hann er myndaður úr svo nefndu grágrýti, og gerðu það „Guð og eldur“, eins og Jónas Hallgrímsson komst að orði um náttúruundrin við Þingvöll, hraunið, björgin og gjárnar, en þó miklu fyrr, því að grágrýtið hefur, eins og merkin sýna, myndazt löngu áður en Þingvallar- og Hafnarfjarðarhraun runnu, sem gerðist ekki fyrr en eftir jökultíma, og þó löngu áður en Ásbjörn Özurarson nam land milli Hraunsholts og Hvassahrauns, sem í Landnámu segir frá.
Saga Hamarsins þau rösku þúsund ár, sem liðin eru síðan, skal ekki heldur rakin. Aðeins vil ég minna á, að bærinn Hamarskot mun lengi hafa staðið, þar sem Flensborgarskólinn stendur nú. Og eftir að Hamarskot var rifið, stóð um árabil fjós, þar sem suðurálman er. Mætti friðsæld sú, ró og öryggi, sem jafnan fylgir kúnum, gefa vistmönnum skólans eitthvað af blessun sinni, auk mjólkurinnar sem þar er neytt dags daglega.
Þegar sá, er þetta ritar, í fyrsta sinn kom til Hafnarfjarðar og gekk upp á „Hamarinn, sem hæst af öllum ber,“ eins og ég heyrði þá um hann sagt, stóð sunnan í honum áður nefnt fjós eða rúst af því, man ekki hvort heldur var. Síðar hefur mér veríð sagt, að eigandi fjóssins hafi verið merkiskonan Valgerður Jensdóttir, systir þeirra Bjarna bónda í Ásgarði í Dölum og Friðjóns læknis á Akureyri.
Hamarinn minnti mig þá þegar og minnir enn á hæðir þær erlendis, til að mynda í Bretlandseyjum, sem kastalar voru reistir á til varnar árásum óvina. Hins vegar getur naumast ólíkari manna verk en vopnavígi og virkiskastala gagnvart fjósi Valgerðar Jensdóttur og húsi Flensborgarskóla. Hefðu Íslendingar áður fyrr átt í styrjöldum við aðrar þjóðir, mundu þeir án efa hafa reist á Hamrinum hervirki. Og hvers virði hefði það verið, hjá beztu höín suðvestan lands? í stað þess byggðu þeir þar friðsaman bóndabæ, síðar fjós og loks ungmennaskóla. Mér finnst þetta táknrænt fyrir íslenzkan friðarvilja, sjálfsbjargarhvöt og menningarviðleitni.
Víkjum því næst að síðasta tímabilinu í sögu Hamarsins, og þá um leið hlutdeild hans í menningarbaráttu Hafnfirðinga, með því að hann um aldarfjórðungs skeið hefur nú verið grunnur Flensborgarskóla, eins helzta menntaseturs bæjarins og þótt víðar sé leitað. Má því með sanni segja, að núverandi hús skólans hafi verið grundvallað á bjargi. En slíkt var af meistaranum frá Nasaret forðum talið viturlega gert.
Ég hef að vísu heyrt gamla Flensborgara hneykslast á því, að skólinn skyldi vera fluttur neðan frá sjó og upp á Hamar. Um slíkt geta eðlílega verið skiptar skoðanir. En hitt orkar ekki tvímælis, að góður skóli er þjóðþrifastofnun, hvort sem hann er byggður á bjargi eða sandi, hlutrænt skoðað, því að hinn andlegi grundvöllur skólans skiptir mestu máli: að hann sé bjarg þekkingar, trúmennsku, víðsýni og skilnings. Frá hendi Guðs og glóðum elds er Hamarinn meistaraverk og bæjarprýði eigi síður en aðrir bergkastalar lands vors. Og hann hefur sérstöðu meðal hamraborga: stendur í miðdepli f jölmenns kaupstaðar og er grundvöllur elztu menntastofnunar hans.
Hár er hann ekki, Hamarinn í Hafnarfirði, í metrum talið. Þó er hægt að beinbrjóta sig í brekkum hans, ef hált er og ógætilega farið.
Eflaust gengur margt ungmennið upp á þennan og fleiri hamra og þykist hafa hamingjuna í hendi sér, en missir hana. Sporin af jafnsléttu barnæskunnar upp á setberg unglingsáranna eru ýmsum erfið, jafnvel nauðug, þrátt fyrir það að þau eru óhjákvæmileg.
Enn þá grænkar Hamarskotstúnið á vorin. Veturlangt og daglega ár eftir ár leggja mörg hundruð ungmenni leið sína upp á þennan Hamar í leit að fróðleik og þroska, óafvitandi eða vitandi vits, með namingjuvonina í brjósti og lýsigull eftirvæntingar í hendi sér, og um tveir tugir leiðsögumanna styðja þau í þessari leit. Hvern árangur skyldi hún bera?“
Jón Símon Jóhannsson fjallar um álfana í Hamrinum í Degi árið 1998 undir fyrirsögninni „Baráttukveðjur frá álfunum“:
Í Hafnarfirði er heilt konungsveldi – álfa. Í Hamrinum býr kóngafólkið og börnin þar tala þýsku.
„Það eru aðallega íbúar í húsunum við Hamarinn sem verða varir við álfana og geta sagt frá samskiptum sínum við þá. Sjáendur segja að þeir séu vel klæddir og vel efnum búnir. Sumir hafa sagt að þessir álfar séu af konungakyni. Þetta séu höfðingjar meðal álfa. Svo er það fólkið sem hefur búið kringum Hamarinn. Þeir segja frá því að hlutir hafi horfið og hafa staðið í þeirri trú að álfarnir hafi tekið hlutina,“ segir Símon Jón Jóhannsson þjóðfræðingur.
Engin hætta fyrir börn
Símon Jón er kennari í Flensborgarskóla í Hafnarfirði og hefur meðfram starfi sínu þar kannað þjóðsögur úr Hafnarfirði með það að markmiði að gefa út bækling eða litla bók. Hann segist lítið hafa fundið af beinum þjóðsögum tengt álfatrúnni og álfabyggðinni í Hafnarfirði enda ekki rétt að blanda þeim við það sem sjáendur segja. Í þjóðsögunum sé frekar fjallað um þá staði sem álfatrúin sé tengd við.
Hann segir að af öllum stöðum loði álfatrúin mest við Hamarinn, klettinn við Flensborg. Álfatrúin komi helst fram í samtölum við fólk, nágranna álfanna.
„Það orð fer af Hamrinum að þar sé börnum engin hætta búin. Talsvert er um að börn séu að leika sér þar og menn fullyrða að þar hafi ekki orðið slys þó að klettarnir séu háir. Börn, sem leika sér þar, meiða sig ekki,“ segir Símon Jón sem sjálfur hefur verið nágranni álfanna í Hamrinum en hann bjó í einu af húsunum undir Hamrinum um nokkurt skeið.
Hann segist sjálfur ekki hafa séð álfa eða orðið var við þá en hafa fundið það vel á mannfólkinu grönnum sínum í húsunum í kring, fólki sem hafði búið þar lengi, að það gekk út frá því að álfar byggju í Hamrinum.
Vildu ekki barnaheimilið
„Fyrir tiltölulega fáum árum stóð til að byggja barnaheimili nærri Flensborg sem jafnframt hefði orðið í grennd við Hamarinn. Það voru átök í bæjarsamfélaginu vegna þessarar byggingar. Þá hafði samband við Kristján Bersa Ólafsson, skólameistara í Flensborg, miðill sem sagði að álfar hefðu haft samband við sig og beðið sig um að koma á framfæri baráttukveðjum til Kristjáns. Þeir vildu ekki barnaheimili við Hamarinn. Síðar var hætt við að byggja barnaheimilið á þessum stað en það var ekki vegna álfanna,“ segir Símon Jón. Hann bendir jafnframt á að sjáendur hafi greint frá því fyrir nokkrum árum að álfabörnin leiki sér mikið á svæðinu kringum Flensborg og að þau tali þýsku.
Flensborg sé náttúrlega þýsk borg auk þess að vera framhaldsskóli í Hafnarfirði. Þýskustofurnar í skólanum snúi út að Hamrinum og hann rifjar upp að kennararnir hafi gantast með það fyrir nokkrum árum að það sé laglegt ef þeir séu með mun fleiri í þýskutímunum en virðist við fyrstu sýn. Kannski ágætis ábending í kjarabaráttu…
„Mér skilst á fólki, sem hefur búið lengi á þessu svæði, að það reikni með því að það sé álfabyggð í Hamrinum,“ segir hann.
Sjá meira um Hamarinn HÉR, HÉR og HÉR.
Heimildir:
-Skinfaxi, 1. okt. 1948, Stefán Júlíusson – Um skáldskap Arnars Arnarssonar, bls. 86
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 15. des. 1962, Þóroddur Guðmundsson frá Sandi – Hugleiðingar um Hamarinn, bls. 4-5.
-Dagur, Lífið í landinu, 2. april 1998, Símon Jón Jóhannsson – Baráttukveðjur frá álfunum, bls. 1.