Helgadalur – tótt – hellir – hleðslur
Gengið var frá Kaldárseli, fyrir vatnsverndargirðinguna, yfir austari Kaldárhnúk og niður í Helgadal. Ætlunin var að leita að útilegumannahelli þeim er getið er um í Setbergsannál á 15. öld, en þar segir m.a. að “12 þjófar [voru] í einu teknir syðra í helli þar sem nefnt er Húsfell”.
Með í huga hvar annállinn var skrifaður og hvenær var ákveðið að miða við Helgadal, en hann mun hafa verið vel þekktur á þeim tíma, enda talið að áður hafi verið í eða við dalinn. Gamla þjóðleiðin frá Hafnarfirði í Selvog lá um dalinn og má sjá tótt við götuna í dalnum sunnanverðum. Haldið var suður og austur fyrir hæðina, yfir í hraunið austan Mygludala á milli Húsfells og Búrfells. Beygt var til suðurs að Víghól og staðan metin. Norðan og austan við hólinn er eldra hraun, en að austan er Húsfellsbruni og að norðan er Búrfellshraun. Þar er Kringlóttagjá sunnan við fellið. Meginstofn þeirra hrauna sem Hafnarfjöður og Garðabær standa á runnu frá þessari eldstöð fyrir um 7300 árum. Á þessu svæði eru allnokkur jarðföll og op. Sunnan Víghóls sér vel í “Gálgakletta”.
Ekki er vitað hvaðan nafnið Víghóll er komið, en ef menn vilja leika sér svolítið með nafngiftir á svæðinu gætu sumar þeirra hafa tengst veru útilegumanna og sakamanna í hraununum. Þeir hafa áreiðanlega gætt þess vel að ekki væri hægt að koma þeim að óvörum. Hafi það hins vegar gerst gætu þeir hafa flúið á Víghól og einhverjir þeirra verið vegnir þar. Hafi einhverjir yfirvaldsins menn einnig verið drepnir við þá atlögu gæti hefndarþorsti hafa blossað upp í sigurvegurunum og þeir ákveðið að hengja hina handteknu þegar í stað í hæsta gálga á svæðinu. En þetta eru nú einungis hugrenningar, ekki tilvitnun í fyrri lýsingar.
Hvað sem þessum hugrenningum líður á eftir að fara eina ferð á svæðið til að sannreyna hvar útilegumannahellirinn er. Nú er einn staður líklegri en aðrir, þ.e. Rauðshellir norðaustan Helgadals. Þar við sést móta fyrir hleðslum, nokkurs konar aðhaldi, en auðvelt ætti þaðan að hafa verið fyrir þjófana að ná sér í fé á fæti, bæði í Búrfellsgjá og Selgjá og einnig í Kaldársel. Inni í helli, sem er um 60 metra langur, er hleðsla. Ætlunin er að aka næst að sauðfjárveikigirðingunni sunnan Helgadals og ganga þaðan frá Fosshelli um austurjaðar Mygludala, um hraunið þar austan við og nálgast síðan Helgadal úr austri. Ef ekkert nýtt finnst á þeirri leið má telja líklegt að framangreindur staður sé sá sem líklegast kemur til greina að hafa hýst útilegumennina forðum. Hins vegar verður sennilega aldrei hægt að ákvarða það með neinni vissu, fremur en svo margt annað.
Rauðshellir er ekki langt frá Selvogsgötunni, en auðvelt er að dyljast í honum. Einnig er hægt að komast út úr honum á fleiri en einum stað svo undankomuleiðir hafa verið fyrir hendi. Inni í eystri hluta hellisins er ráshluti er veitir gott skjól. Þar er nokkuð þurrt og erfitt að koma auga á þann eða þá, sem þar væru, séð frá opinu.
Veður var frábært – sól og stilla. Gangan tók um 2 og ½ klst.