Kapelluhraun

Jónatan Garðason skrifaði grein í Morgunblaðið 1995 undir fyrirsögninni “Lýst er eftir hrauni – Finnandi vinsamlegast skili því til Hafnarfjarðar“:

Auðvinnanlegasta efnið er skafið ofan af, segir Jónatan Garðarsson, og landið skilið eftir í sárum.

Jónatan garðarson“Umhverfismál eru í brennidepli, landeyðing hér á landi er með því mesta sem þekkist í heiminum og stöðvun gróðureyðingar er afar brýnt verkefni. Þjóðin er að vakna til vitundar um ástandið, það sýnir áhugi almennings á hverskyns ræktun og uppgræðslu.
Mörg fyrirtæki hafa lagt lóð á vogarskálarnar, sala áburðarpökum gerir sitt gagn og ekki má gleyma fjölda félagasamtaka sem vinna þrotlaust starf á þessu sviði. í okkar harðbýla landi þarf lítið að fara úrskeiðis til að röskun verði á lögmálum náttúrunnar. Um aldir gekk þjóðin ótæpilega á gæði landsins eins og óþrjótandi nægtarbrunn. Það var því mikið gæfuspor þegar Skógrækt ríkisins var stofnuð samkvæmt lögum árið 1907. Hlutverk hennar er m.a. að vernda, friða og rækta skóga og skógarleifar, græða upp skóga þar sem henta þykir og leiðbeina um meðferð skóga og kjarrs svo nokkuð sé nefnt. Starfsemi skógræktarfólks hefur leitt til mikilla framfara í ræktunar- og uppgræðslumálum þjóðarinnar og víða hefur útliti landsins verið breytt úr auðn í græna reiti. Það skýtur því skökku við að í landi Skógræktar ríkisins í Kapelluhrauni á sér nú stað gríðarleg landeyðing. Fyrir nokkrum áratugum fékk skógræktin um 2.000 ha lands úr Kapelluhrauni að gjöf til ræktunar. Svæðið telst hluti af Almenningi og utan skipulags. Þar hefur ræktunarstarf skapað myndarlega lundi á fallegum reit sem á eftir að gleðja komandi kynslóðir. Í hluta gamallar hraunnámu á sömu slóðum var rallykross-braut komið fyrir uppúr 1990, með leyfi skógræktarinnar og bæjaryfirvalda í Hafnarfirði.
Náman átti að vera aflögð, en 6. febrúar 1992 gerði Skógrækt ríkisins samning við Borgartak og seldi fyrirtækinu 1.000.000 m3 (eina milljón rúmmetra) af hraunfyllingu í Kapelluhrauni. Vinnslusvæðið er í miðju hrauninu, sem er mosagróið apalhraun með stökum birkihríslum, burknum, lyngi og öðrum hraungróðri á stangli í skjólgóðum gjótum. Hraunið rann á sögulegum tíma, árið 1151, úr eldstöð í Undirhlíðum, yfir eldra hraun og er því stundum nefnt Nýjahraun. Þarna má lesa jarð- og gróðursögu á mjög glöggan og skýran máta.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – námusvæðið.

Samningurinn við Borgartak færði skógræktinni 12.000.000,- krónur í nettó tekjur eða kr. 12 án vsk. á rúmmetra. Borgartak selur síðan hvern m3 af unnu efni á 104 krónur án vsk. í ársbyrjun 1995 komu fram upplýsingar um að búið væri að vinna 1/4 efnisins eða 250.000 m3, en í maílok, aðeins 5 mánuðum síðar, kemur í ljós að Borgartak hefur nú þegar unnið helming umsamins efnis, 500.000 rúmmetra.

Mosi

Mosi í Selhrauni.

Verktakinn hefur líkast til fjórfaldað kaupverðið og hagnast um tugi milljóna, enda gerði hann einkar hagstæðan samning við skógræktina. Ef eingöngu hefði verið unnið frekara efni úr gömlu námunni, hún t.d. dýpkuð og jarðefni unnin nokkra metra niður í hraunæðina hefði mátt réttlæta vinnsluna. En verktakinn er fyrst og fremst að yfirborðsvinna mosagróið hraun upp á eina milljón fermetra. Það er unnið hörðum höndum við að ryðja burt gróðurþekjunni á sem skjótastan hátt. Efsta laginu af grónu landi er rutt burt, en samkvæmt stefnumörkun bæjaryfirvalda í Hafnarfirði er alfarið lagst gegn slíkri yfirborðsvinnslu á óröskuðu hrauni. Þessu mikla jarðraski virðist ætlað að tryggja frekari námavinnslu þarna í framtíðinni. Aðeins er farið einn til tvo metra niður þar sem dýpst er unnið ofan í hraunæðina, auðvinnanlegasta efnið skafið ofan af og landið skilið eftir í sárum.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – námusvæðið sunnan Hafnarfjarðar.

Það kom íbúum Hafnarfjarðar í opna skjöldu að verið væri að aka tugþúsundum tonna úr. Kapelluhrauni á sama tíma og Umhverfisnefnd og bæjarverkfræðingur voru að móta stefnu um efnistökumál í bæjarlandinu. Samningurinn virðist hafa verið gerður án vitundar bæjaryfirvalda og komst málið nýverið í hámæli. Náttúruverndarráði Íslands var heldur ekki tilkynnt um þessar fyrirætlanir skógræktarinnar. Nú hefur ráðið blandað sér í málið og reynir að leita samninga, en tíminn vinnur með verktakanum. Á meðan heldur gegndarlaus efnistaka áfram af fullum krafti. Flest bendir til að reynt hafi verið að láta samningsgerðina fara hljótt.

Raiðimelur

Stóri-Rauðimelur neðan Almennings 2023.

Almennt var álitið að landspjöll vegna yfirborðsvinnslu hrauns heyrðu sögunni til. Í greinargerð sem Þóroddur F. Þóroddson jarðfræðingur vann fyrir bæjaryfirvöld 27. október 1986 um „Hagnýt jarðefni í landi Hafnarfjarðar” mælir hann eindregið gegn slíkri vinnslu í Kapelluhrauni og víðar: „Efnistaka úr apalhrauni er yfirleitt til mikilla lýta í landinu,” segir í greinargerðinni. Þá segir Þóroddur einnig: „Efnistaka eins og tíðkast hefur t.d. meðfram Krýsuvíkurvegi og Bláfjallavegi er óverjandi frá sjónarmiði umhverfisverndar. Mikið efni má fá af svæðum sem „búið” er að vinna með því að hirða upp hrúgöld og ganga betur frá námusvæðum.” Hraunvinnslu í bæjarlandinu var að mestu hætt þegar skýrslan kom fram, en um langt árabil hafði Landgræðslusjóður leyft umfangsmikla vinnslu í landi sínu sunnan Straumsvíkur og haft um 50 milljónir á núvirði í tekjur af efnissölunni. Hraunvinnsla á vegum Hafnarfjarðarbæjar var einnig að mestu aflögð á þessum tíma, en sú vinnsla var þó margfalt minni í sniðum en í landi Landgræðslusjóðs. Á þessum tíma var einhugur að skapast um að opna ekki nýjar námur til vinnslu, heldur nýta betur „gamlar námur” að undangenginni skipulegri úttekt á efnisgæðum námanna.

Kaspelluhraun

Kapelluhraun – gróðurvin í hrauninu.

Það hefur verið merkilegt að fylgjast með viðbrögðum Jóns Loftssonar skógræktarstjóra við málinu. í frétt sem birtist í DV 22. apríl sl. vegna mótmæla skotveiðimanna á malarnáminu í Kapelluhrauni er haft eftir Jóni: „Ég átta mig ekki á því hvað mennirnir eru að fara. Þarna var náma sem ekki var nógu vel gengið frá. Þá er gert ráð fyrir samkvæmt skipulagi að þarna rísi iðnaðarbyggð. Þess vegna var gengið til þessara samninga og gerðar strangar kröfur um frágang. Þegar þetta verður búið verða tilbúnar þarna lóðir og þá geta Hafnfirðingar tekið til við að byggja þarna einhverjar ljótar verksmiðjur.”

Lönguhlíðahorn

Mosi undir Lönguhlíðahorni.

Skógræktarstjóri heldur í það haldreipi að svæðið sé skipulagt fyrir iðnað og því þarft að ryðja það. Þetta er alrangt. Hið sanna í málinu er að árið 1990 var lögð fram tillaga að aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1988-2008. Þar var m.a. sýnt iðnaðarsvæði sem gæti komið til álita eftir 40-50 ár. Tillögunni var hafnað hjá skipulagsstjórn ríkisins og fór aldrei í kynningu og auglýsingu í samræmi við skipulagslög. Hún hefur því ekkert lagalegt gildi. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1980-2000 er gert ráð fyrir framtíðariðnaðarbyggð einum kílómetra suður af núverandi iðnaðarsvæði eða um tvo kílómetra frá umræddu hrauntökusvæði. Það er því ljóst að ætlunin var alls ekki að hreyfa neitt við hrauninu í landi skógræktarinnar.
Í ársbyrjun 1992 sótti Skógrækt ríkisins til bæjaryfirvalda um leyfi til að skipuleggja iðnaðarbyggð á þessu svæði, en málið var ekki samþykkt. Þrátt fyrir það fór stórfelld jarðvinnsla í gang. Stærð vinnslusvæðisins sem skógræktin seldi er milljón rúmmetrar og jafnast það á við 150-200 fótboltavelli á stærð við Laugardalsvöllinn. Ef mið er tekið af íbúðarbyggð má reisa 15 einbýlishús á ha, en svæðið er 100 ha og gætu 1.500 einbýlishús rúmast á því. Samkvæmt núgildandi staðli búa 3,5 íbúar í hverju einbýlishúsi sem þýðir 5.200 íbúa byggð og mun það teljast eitt og hálft skólahverfi. Námaréttindi á þessu svæði seldi skógræktin fyrir 12 milljónir króna, sem er u.þ.b. verðgildi eins einbýlishúss.

Kapelluhraun

Kapelluhraun.

Skógræktin og Landgræðslusjóður hafa unnið mikið gagn við erfiðar aðstæður þrátt fyrir rýra sjóði. Það réttlætir samt ekki allar gerðir þeirra. Þeim hafa einfaldlega verið mislagðar hendur hin síðari ár í þessum efnissölumálum. Sjónarmiðin voru vissulega önnur á árum áður, þegar augu fólks voru lokuð fyrir málefninu. En svona vinnubrögð eiga ekki að tíðkast í dag.
Það er ekki óraunhæf krafa, að stjórnendur Skógræktar ríkisins og Landgræðslusjóðs ígrundi málin vel og leiti utanaðkomandi álitsgerða áður en ákvarðanir af þessu tagi eru teknar. Að sjálfsögðu verða þeim á mistök eins og öðrum, það er mannlegt. En tímarnir breytast stöðugt og kröfurnar með og þess vegna er nauðsynlegt að líta öðru hvoru yfir farinn veg og leiðrétta mistök sem kunna að hafa verið gerð. Þetta á jafnt við um menn og málefni, stofnanir og stjórnvöld.

Mosi

Mosahraun á Reykjanesskaga.

Nú er Náttúruverndarár Evrópu og megináhersla er lögð á náttúruvernd utan friðlýstra svæða. „Tilgangur Náttúrverndarársins er að opna augu almennings, landeigenda, landnotenda, skipulagsyfirvalda og bæjar- og sveitarstjórna fyrir því að það er ekki nóg að vernda náttúruna á ákveðnum friðlýstum svæðum, svo sem þjóðgörðum, friðlöndum eða fólkvöngum. Eigi náttúruvernd að vera virk og árangursrík er jafnframt nauðsynlegt að hlúa að náttúrunni utan slíkra svæða,” segir Sigurðar Á. Þráinssonar, starfsmaður umhverfisráðuneytis, í grein sem birtist í Morgunblaðinu 20. apríl s.l. Í ljósi þessa er óskiljanlegt að skógræktarstjóri skuli reyna að verja gerð samningsins við Borgartak. Hann yrði maður að meiri ef hann viðurkenndi einfaldlega að um mistök hafi veriðað ræða, rifti samningnum og stöðvaði efnistökuna áður en meiri spjöll verða unnin á svæðinu. Hraunið tilheyrir fornum Almenningi Álftneshrepps, sem nú er með réttu í lögsögu Hafnarfjarðar, og ég leyfi mér að efast um rétt skógræktarinnar eða annarra aðila, til að selja, gefa eða ráðstafa þessu landi með einum eða öðrum hætti.
Skógræktarstjóri hefur slæman málstað að verja og framganga hans í málinu hingað til hefur aðeins grafið undan því trausti sem fólk hefur borið til Skógræktar ríkisins um áratugaskeið. Skógræktinni ber að bæta land, ekki eyða því eins og nú er verið að gera í Kapelluhrauni.”

Heimild:
-Morgunblaðið, 146. tbl. 01.07.1995, Lýst er eftir hrauni – Finnandi vinsamlegast skili því til Hafnarfjarðar, Jónatan Garðarsson, bls. 34.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – Helgafell fjær.