Herdísarvíkurhraunshellir I
Eftirfarandi boð komu frá einum FERLIRsþátttakanda eftir ferð hans um Herdísarvíkursvæðið:
„Fann skemmtilegt gat neðarlega í Herdísarvíkurhrauni, þar 3-4 m í botn og nokkuð gímald. Býst svo sem ekki við því að þarna séu neinar fallegar myndanir, landið er svo slétt. Fáið samt hnitið ef einhver er í stuði með stiga.“ Með upplýsingunum fygldu viðeigandi hnit af staðnum.
Lagt var stað með fjögurra metra langan stiga niður Herdísarvíkurhraun frá Sængurkonuhelli neðan við Lyngskjöld (á Klifhæð) með stefnu á gatið. Á leiðinni var gengið yfir gömlu þjóðleiðina milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur þar sem hún liðast fallega um lyng- og kjarrivaxið mosahraunið. Hraunið neðan við Klifhæðina er nokkuð slétt og auðvelt yfirferðar. Rjúpur sáust kúra undir klettum.
Þegar komið var að u.þ.b tveggja fermetra gatinu skammt ofan við Háaberg, vestan við Rauðhól, eftir 20 mín. gang með hjálp staðsetningartækis, reyndist stiginn aumlega stuttur. Hann var því lagður til hliðar, en þess í stað rýnt niður í gímaldið. Það virtist a.m.k. 8 metra djúpt. Hægt væri að komast af með 6 metra stiga með því að forfæra hann, en fullnægjandi langur væri ákjósanlegastur. Undirliggjandi undirbúi virtist gefa ofanlítendum góðan gaum.
Við yfirlitsskoðun á niðurfallinu í „Herdísarvíkurhraunshelli“ kom í ljós að þarna niðri kunna að leynast lágar rásir, norður og suður. Í undirniðrinu vestanverðu virtist myrkur undir stórum steinum. Burkni vex á syllum og fagurgrænn mosagróður vex í slikju niðri í dagsskímunni.
Við skoðun á næsta umhverfi fannst rás, með því að forfæra steina inn undir brún skammt norðaustar, í ílöngu stóru jarðfalli. Þar er hægt að komast inn á slétt gólf á lágri rás. Einnig liggur rás til norðurs um gat skammt norðar. Þetta þarf allt að skoða betur.
Þegar gengið var upp slétt mosavaxið helluhraunið, áleiðis að vörðuðu greni, sást mórauð tófa skjótast á harðahlaupum austur yfir hraunið skammt ofar. Einhver grenjaskyttan hefði fengið „kikk“ út úr því að sjá krýlið þarna á hlaupum, en FERLIRsþátttakendum fannst það bara samsvara landslaginu nokkuð vel. Greinilegur selstígur liggur á ská til suðvesturs niður slétt helluhraunið frá þjóðleiðinni að Herdísarvíkurseli. Gatan er merkt (stein á stein (S.G)). Margt var að skoða í lygnunni – hvort sem var um að ræða flóru, jarðfræði eða fánu.
Vestar er úfið apalhraun Eldborgarhraunanna. Innundir því, í eldra hrauninu, er m.a. Bálkahellir sem og hellar í sömu hraunrás ofan og vestan við hann. Ofan við þjóðveginn, svo til beint norðan við Herdísarvíkurhaunshelli er Sængukonuhellir. Hans er getið í heimildum og í honum fundust mannvistarleifar þegar fyrst var að komið í seinni tíð. Allt er það þó enn ósnert. Hellirinn fannst að kvöldlagi og enginn svaraði í síma Fornleifaverndar þegar reynt var að tilkynna fundinn, enda ekki símasamband austan við Sveifluháls. Ef FERLIR ætti að tilkynna alla þá fornleifafundi, sem hann hefur uppgötvað í gegnum tíðina, væri símareikningurinn orðinn ansi hár. Gildandi lög þarfnast því endurskoðunar, eða a.m.k. gildandi starfsfyrirkomulag.
En þetta var nú útidúr til að fylla upp í rými fyrir seinni myndina, sem fylgir þessum skrifum.
Farið verður fljótlega aftur á vettvang – og þá með nógu langan stiga.
Frábært veður – logn og hiti. Gangan tók 1 klst og 40 mín.