Hlíð í Selvogi – minjar
Í Örnefnalýsingu fyrir Hlíð (höfundur ónafngreindur) segir m.a.: „Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandarkirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar.
Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Hlíðartún er nú óræktarskiki, en hafði verið mun stærra í eina tíð. Auk Bæjarhólsins eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Fornmannshóll er í túninu norðaustan og ofan bæjarins.
Hlíðarvatn liggur undan túnfætinum og voru mikil hlunnindi að, enda galt Hlíðarbóndinn þangskurð og reka með silungi til annarra jarða í Selvogi.“
Síðan er örnefnum við vatnið lýst, en auk þess segir: „Vestast voru mörkin milli Hlíðar og Stakkavíkur um vik niður undan Urðarskarði. Innar eða fyrir miðri Urðinni er Bleikjunef; þar var góður veiðistaður. Handan við Vondavik er Réttartangi, og eru þar Selvogsréttir, með safngirðingu, almenningi og dilkum. Í Réttartanga skerst vik, sem sumir kalla Selvik, en suður frá réttunum eru Selbrekkur.
Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman.“ Þórarinn Snorrason á Vogsósum upplýsti FERLIR um að ofan við Selbrekkur hafi fyrrum verið heimasel frá Vogsósum, enda í þeirra landi. Selið hafi jafnan verið nefnt Vogsósastekkur, enda voru yfirleitt ekki önnur mannvirki í heimaseljum.
„Skútar nokkrir, sem fé leitaði skjóls í, voru uppi undir Hömrunum. Helgutorfa var flöt austan við Hlíðarskarð. Borgaskörð voru skörð í Hlíðarfjall austarlega. Á einum stað milli þeirra var Háhamar. Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur [Hlíðarsel] og Stekkatún.“ Í Hlíðarseli eru greinilegar selminjar, nokkur hús, hlaðið smalaskjól og stekkur, sem stundum hefur verið nefnd Valgarðsborg, en hún ber öll einkenni stekks, þ.e. tvískipt aðhald. Skammt norðar er Hlíðarborgin, stekkkur, sem væntanlega hefur tekið við af selinu eftir að það lagðist af. Hlíðarsel er í landi Hlíðar. Þórarinn ók FERLIRsfélögum upp að Híðarborginni fyrir allnokkrum árum og benti þeim þá m.a. á seltóftirnar sunnan heiðargirðingarinnar.
„Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu.“
Gísli Sigurðsson skráði örnefnalýsingu í landi Hlíðar. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:
„Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandarkirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar.
Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Hlíðartún er nú óræktarskiki, en hafði verið mun stærra í eina tíð. Auk Bæjarhólsins eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Fornmannshóll er í túninu norðaustan og ofan bæjarins. Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu.“
Gísli Sigurðsson skráði einnig örnefni á Selvogsafrétti.
Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I“, sem Fornleifastofnun Íslands gerði 2015, segir m.a: um einstakar minjar í landi Hlíðar:
[Hafa þarf í huga að talsvert virðist vanta í skráninguna og hún lítt gaumgæfð. Svo virðist sem ef örnefna eða minja sé ekki getið í örnefnalýsingum þá eru þær ekki til. Lítið sem ekkert virðist hafa verið gert til að rýna svæðið á vettvangi, t.d. út frá heilbrigðri skynsemi].
Hlíð
Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Jarðardýrleiki xx að sögn manna, en engin geldst hjer tíund af.“ JÁM II, 463 Ekki til túnakort. Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Lyngrif til eldiviðar bjarglegt. Silúngsveiðivon er góð og hefur oft að merkilegu gagni verið. Eggver í vatnshólmum hefur að nokkru gagni verið, en fer mjög til þurðar. Sölvafjöru og grasafjöruítak á jörðin fyrir Vogshúsalandi sem áður segir, vide Vogshús. Túnunum grandar fjallsskriður og landbrot, sem Hlíðarvatn gjörir að neðan. Engjar, sem áður voru litlar með vatninu, hefur sama vatn eyðilagt.“ JÁM II, 464
Bæjarhóll – bústaður
„Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar. Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn,“ segir í örnefnalýsingu. Bærinn fór í eyði árið 1906.
Slétt grund sem nær allt frá vatnsborðinu og upp að fjallsrótum. Þjóðvegurinn liggur um túnið um 70 m norðan við bæjarrústirnar. Enn er nokkur rækt í túninu. Það er ekki slegið, ógirt og sækja kindur í það. Veiðihús stendur á vesturenda bæjarrústanna og hefur sennilega raskað þeim að litlum hluta en miklar rústir eru á hólnum austan við húsið. Hefur bæjarröðin legið frá austri til vesturs og bærinn snúið með framhlið í suður.
Kirkjuhóll – bænhús
„Auk Bæjarhóls eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð,“ segir í örnefnalýsingu. Nú er ekki vitað hvar Bænhúshóll var. Yfirleitt voru kirkjur og bænhús í næsta nágrenni við bæjarhóla og með hliðsjón af því er helst að giska á ávalan hól í túni fast austan við bæjarhól. Óslegið tún. Hóllinn er sporöskjulaga og nokkuð ávalur en ekkert rústalag á honum, 15-20 m í þvermál. Enginn annar hóll virðist líklegri.
Hlíðarsel – sel [Vogsósasel]
„…suður frá [Selvogs]réttunum eru Selbrekkur. Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman,“ segir í örnefnalýsingu. Í annarri lýsingu segir: „Selbrekkur. Á þeim stað könnuðust þeir [heimildamenn í Stakkavík] við Stekkjardældir.“ Engar dældir eru suður frá Selvogsréttum en hins vegar eru grösugar brekkur og dældir um 300 m austur af þeim og hlýtur að vera átt við þann stað. Þetta er rétt tæpan 1 km SA af bæjarhól. Vel grónar og fallegar valllendisbrekkur og -dældir mót vestri og gróin grund þar niður af.
Eina tóftin sem þekkt er á þessum slóðum er sú sem Þórarinn Snorrason í Vogsósum nefnir Vogsósastekk. Þess má geta að Ómar Smári Ármannsson hefur kallað aðrar tóftir Hlíðarsel. Sú túlkun er ekki útilokuð þótt tóftirnar teljist of langt í burtu til að passa við lýsingu örnefnaskrár.
[Þeir, sem lesið og metið hafa örnefnalýsingar, vita að þær eru takmarkandi, misvísandi og jafnvel rangar. Þær ber ávallt að taka með fyrirvara, þ.e. ekki allt of bókstaflega. Í heimildum eru framangreindar Selbrekkur nefndar Vatnsdalur upp af Selvik, ofan Réttartanga. Gísli minnist ekki á Hlíðarborg, einungis Hlíðafjallsbrekkur og Hlíðargil, sem þar eru efra. „Sunnan undir þeim eru Selbrekkur. Skammt suðaustar er Hlíðarsel“. Þ.S.]
Borgaskörð – fjárskýli
„Borgaskörð voru skörð í Hlíðarfjall austarlega. Á einum stað milli þeirra var Háhamar,“ segir í örnefnalýsingu. Undir skörðunum er tóft sem skörðin gætu hafa dregið nafn sitt af, um 130 m austur af stekk. Hlíðarborg og Valgarðsborg eru sunnar.
Lyngmói, sumsstaðar með hraunnibbum og -hólum. Hlíðargata liggur áfram til austurs fast sunnan við tóftina.
Tóftin er í háum og gróskumiklum valllendishól sem er nokkuð áberandi og sést vel að. Hún er lítið uppbyggð en að mestu leyti grafin niður í hólinn. Hann sjálfur er nokkuð hringmyndaður en hólfið er aftur næstum ferkantað. Mögulegt er að byggingin hafi upphaflega verið fjárborg en síðan verið endurbyggð sem fjárhús.
[Önnur fjárborg, miklu mun eldri, er skammt ofar, enda jafnan talað um Borgarskarðaborgir. Hún er nánast jarðlæg, en þó má enn sjá móta fyrir hringlaga hleðslum í henni.]
Stekkatúnsbrekkur – stekkur
„Stekkatúnsbrekkur voru brekkur í fjallinu vestan við Háhamar, og þar hafði verið Stekkur og Stekkatún,“ segir í örnefnaská. Stekkjartóft er einmitt á þessum stað, undir Hlíðarfjalli um 600 m ANA af bæjarhól. Smákvos í lyngmóa sem víða er grasi gróinn. Hraunnibbur stingast upp úr hér og þar og talsvert er um stórgrýti. Hraunhólar eru suðaustan við stekkinn. Varla er hægt að segja að túnblettur sé kringum stekkinn. Ljómandi falleg tóft, byggð utan í jarðfasta kletta. Hún er tvískipt og L-laga, alls um 9×8 m stór.
Rekið hefur verið inn að sunnanverðu í dálitla rétt sem er um 7×5 m stór frá norðri til suðurs að utanmáli. Klettarnir mynda norðurgafl réttarinnar. Úr henni er svo op til vesturs, nyrst við klettana, í heldur þrengri kró sem er rúmlega 4×3 m stór frá austri til vesturs. Mikið grjót sést í innanverðum veggjum sem eru mest um 1 m háir.
[Sagan segir að þarna hafi hokrað maður stuttan tíma og að Borgarskarðaborgirnar hafi tengst búrekstrinum – ÞS.]
Hlíðargata – leið
„Hlíðargata lá frá Hlíð austur og inn með fjallinu,“ segir í örnefnaskrá. Gatan sést enn vel austan túns, t.d. um 390 m austur af bæ en einnig fast við stekkjartóftina. Grónar valllendiskvosir eru næst fjallinu en síðan tekur við lyngmói í gömlu hrauni. Greinilegur kindatroðningur liggur til austurs inn með fjallinu og sést vel víðast hvar. Sennilega eru það leifar af gömlu Hlíðargötunni. Að sögn Þórarins Snorrasonar var ekki fært með hesta upp Hlíðarskarðið og því oft farið inn með fjallinu og síðan til norðurs.
[Ofan við Borgarskörðin er Dísurétt í hraunkvos, fallega hlaðin og hefur haldið sér nokkuð vel frá árinu 1938. Erfitt er þó að finna réttina vegna legu hennar í hrauninu. Frá henni er ágætt útsýni upp Strandardal og yfir víðan Hliðardalinn vestan Svörtubjarga. Dísurétt var nefnd eftir stúlkubarni er fæddist í Torfabæ 2. október 1937 og síðar var skírð Eydís Eyðþórsdóttir. Hún lést í Reykjavík 2. apríl 2010. Faðir hennar var Eyþór Þórðarson í Torfabæ.]
Hlíðarborg – fjárskýli
Hlíðarborg er fjárborg úti í hrauninu 1,7 km austan bæjarhóls. Hún er um 150 m norðan við girðingu sem liggur frá skilaréttinni við Hlíðarvatn og austur fyrir Urðarfell. Borgin er byggð vestan í hraunhól, sem er klofinn eftir endilöngu, og þjónar hraunið sem austurveggur. Umhverfis er hálfgróið hraun og sumstaðar valllendisblettir. Borgin sjálf er nokkurn veginn hringlaga, alls um 13×14-15 m að stærð. Veggir eru allir hrundir og mikið grjót í þeim, einna minnst þó að norðanverðu og þar er hleðslan best gróin. Ekki sjást dyr á borginni. Mannvirkið er mjög óvenjulegt að því leyti að tóft, sennilega af fjárhúsi, er inni í borginni og fyllir út í hana að mestu, alls um 6×5 m stór frá NA-SV. Sennilega er hún yngri en borgin og heldur meiri gróska er í veggjum hennar en borgarinnar. Hleðsla er fyrir húsdyrum, um 3 umför af stórum og þykkum hellum og er það að heita má eina heillega hleðslan í tóftinni. Hlaðið hefur verið frá norðausturhluta hústóftarinnar að klettinum sem er austar og er hleðslan um 3-4 m löng. Hvorki sést garði né jötur í fjárhúsinu og ekki hlaða heldur.
Valgarðsborg – sel [Hlíðarsel]
Tóftir eru tæpa 300 m suður af Hlíðarborg, á allgrösugum bletti vestan í klettahól. Sennilega eru þær nálægt mörkum móti Vogsósum en þau liggja úr Nefjavörðu austur í Hellholt. [Línan í Hellholt er mun sunnar]. Umhverfis er hálfgróið hraun og sumstaðar valllendisblettir. Milli Hlíðarborgar og umræddra tófta liggur girðing allt frá skilarétt við Hlíðarvatn og austur fyrir Urðarfell. Tóftirnar eru a.m.k. þrjár [dæmigert fyrir sel á þessu landssvæði] og ná yfir svæði sem er rúmlega 30×30 m stórt. Nyrst er greinileg en vallgróin tóft, dálítið grafin inn í brekkuna. Hún er einföld, um 7×5 m stór frá norðri til suðurs og dyr heldur sunnar en fyrir miðjum vesturvegg. Dýpt nemur allt að rúmum 1 m. Nokkrar dældir eru norðan og norðvestan við tóftina og gætu þar leynst fleiri mannvirki eða útbyggingar. Um 8 m austar, uppi á hól, er hleðsla, sem gæti verið yngri, sennilega refagildra. [Hleðslan ber engin einkenni refagildru]. Þetta er grunnur að hlöðnu hólfi sem er um 1,5 x 0,8 m stórt NA-SV og snýr op í SV. Hleðslan er aðeins eitt umfar og um 0,2 m há.
Hellir – fjárskýli [Áni]
Fjárhellir er úti í hrauni undir Borgarskörðum og um 1 km austur af bæjarhól. Hann er um miðja vegu milli Hlíðarfjalls og girðingar sem liggur frá Hlíðarvatni og austur fyrir Urðarfell. Hálfbert hraun. Hellisopið snýr mót norðaustri. Það er einfaldlega skúti, fyrst nánast beint niður og svo innundir hraunhelluna til suðvesturs. Laglega hefur verið hlaðið um munnann á allar hliðar en þó er hægt að komast að honum úr austri. Hleðslan er úr hraungrýti og myndar hólf sem er hér um bil ferkantað og um 4,5×3 m að stærð SV-NA. Hleðslan er hæst að suðvestan, allt að tæpur 1 metri. Lítil varðaer á hleðslunni að suðvestan og að auki liggur einföld hleðsla um 3 m til suðvesturs frá hólfinu. Ekki var farið niður í hellinn en hann sýnist manngengur.
[Annar svipaður fjárhellir er skammt norðar. Hleðslur eru við opið.]
[Hlíðardalur – tóft
Í heimildum er getið um Sælubunu við Selvogsgötuna (Suðurferðaveginn). Þar segir m.a.: „Hlíðardalur stendur Strandardal ofar mót hækkandi heiðlendi. Hann er hvammslaga og vel grösugur upp á brún. Efst í dalnum stóð eitt sinn bær Indriða lögréttumanns, Jónssonar.“
Í Hlíðardal er greinileg tóft. Sjá má móta fyrir grunnsteinhleðslum í grónum aflíðandi hvammi.]
Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands 2015, bls 240-250.
-Selvogsafréttur, Árnessýsla – Selvogshreppur, Örnefnalýsing
-Hlíð – Örnefnalýsing.
-Hlíð í Selvogi, Gísli Sigurðsson, Örnefnalýsing.