Hraun – sögu- og minjaskilti

Hraun

Sögu- og minjaskilti var vígt við Hraun austan Þórkötlustaðahverfis í Grindavík. Þetta var sjöunda skiltið á jafnmörgum stöðum víðsvegar í Grindavík. Af því tilefni var efnt til gönguferðar um svæðið með leiðsögn.
Skiltið er staðsett við Ísólfsskálaveg á mörkum Hrauns og Þórkötlustaða. Á því er örnefna- og minjakort og auk þess má m.a. lesa eftirfarandi fróðleik:

Uppdráttur

„Molda-Gnúpur Hrólfsson nam land í Grindavík árið 934. Lítið sem ekkert er vitað um sögu Grindavíkur næstu aldir. Hrauns er getið í rekaskrá Skálholtsstaðar árið 1270.  Í Fitjaannál segir að árið 1602 hafi 24 piltar og 1 stúlka drukknað þegar stórt farmskip Skálholtsstaðar fórst utan við Hraun. Þau voru grafin við kirkjuna á Hrauni. Annað skip frá Skálholtsstóli fórst með allri áhöfn 8. mars árið 1700, auk þriggja annarra frá Grindavík.
Tvær hjáleigur voru í landi Hrauns árið 1703. Önnur var við heimabæinn en bar ekkert sérstakt nafn og hin var hjáleigan Vatnagarðar. Þriðja hjáleigan nefndist Garðhús. Ekki kemur fram hvar hún var. Um gæti verið að ræða býli við túngarðinn í svonefndu Draugagerði við Tíðahliðið. Um miðja 19. öld var heimræði frá Hrauni aflagt vegna erfiðra lendingarskilyrða og var eftir það aðallega róið úr Þorkötlustaðanesi.
Jón Jónsson bjó á Hrauni eftir 1822. Hann reisti m.a. þrjú stór og reisuleg timburhús á jörðinni. Voru það fyrstu timburhúsin í hreppnum.
Selstaða frá Hrauni fram til u.þ.b. 1900 var inn undir Núpshlíðarhálsi. Minjar þar sjást enn.
HraunSkammt austan við gamla bæjarhólinn, sem fjárhúsin eru nú, eru tóftir. Þar var áður sjóbúð ofan við Hraunsvörina. Ofan við hana var kirkjan.
Þegar kemur fram á 19. öld er Hraun orðið hið mesta myndarbýli. Þrjár hjáleigur eru þá á Hrauni, auk Vatnagarða; Hraunkot, Sunnuhvoll og Bakkar (Bakki).
Skammt ofar, milli Húsafells og Fiskidalsfjalls, var loftskeytastöð  hersins um og eftir miðjan síðasta áratug. Við Hraun hefur löngum verið eitt stærsta kríuvarp landsins.

Túngarður, brunnur og refagildra
VatnagarðurHlaðinn garður heimatúnanna sést enn. Honum hefur verið haldið við, enda fékk Jón bóndi „Dannebrogsorðuna“ fyrir hleðslu garða við Hraun. Í þá tíð vildi Danakóngur hvetja þegna sína, ekki síst á Íslandi, til uppbyggingar og framþróunar á ýmsum sviðum – stundum með góðum árangri. Grjót úr görðunum var fyrir miðja síðustu öld tekið og notað undir Grindavíkurbryggjur.
Gömul hlaðin refagild
ra er ofar í hrauninu og önnur nær. Austar er Gamlibrunnur á Hraunssandi. Í hann sótti fólk úr Þórkötlustaðahverfi vatn í þurrkatíð.

Kapellulág

garður

Í Kapellulág (ofan Hrólfsvíkur) er þúst. Við hana er merki: „Friðlýstar minjar”. Á 6. áratug 20. aldar gróf Kristján Eldjárn, þáverandi þjóðminjavörður, þar upp kapellu og fann í henni ýmsa gripi. Síðan var sandi mokað yfir minjarnar. Talið er að kapellan sé frá því á 14. öld.

Dys

Kapellan

Þegar „Tyrkir“ rændu hér á landi árið 1627 gerðu þeir landgöngu í Grindavík.  Sagt er að þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.
„Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkir væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir. Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest.
Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.“

„Tyrkirnir“ eru sagðir hafa verið settir í Dysina, sem er rétt við þjóðveginn.

Hellar
FiskigarðarVið Efri-Hellu sunnan undir Húsafelli er hellir. Um hellinn er sagt að í hann ætluðu Grindvíkingar að flýja kæmu „Tyrkir“ aftur. Var talið að hellirinn myndi rúma alla Grindvíkinga. Opið, eða öllu heldur opin, eru vandfundin.
Guðbjargarhellir er skammt ofan við Hraun. Í hann á samnefnd kona frá Hrauni að hafa flúið er hún vildi fá að vera í friði.

Festarfjall
Frá Hrauni blasir Festarfjall við í norðnorðaustri. Í miðju berginu er grá rák, berggangur upp í gegnum bergið, og nefnist Festin. Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefur verið auðvelt að láta heita eftir henni. Hangir festin því enn óhreyfð. 

Hnyðlingar

Dysin

Í Hrólfsvíkinni eru hnyðlingar; brot úr framandbergi. Brotin eru úr gígrás eða úr þaki kvikuþróar. Oft eru þau úr grófkornóttu djúpbergi og skera sig því greinilega úr fín- eða dulkornóttum bergmassanum. 

Gamlar götur
Frá Hrauni lágu fyrrum götur til vesturs yfir í Þorkötlustaðahverfi. Neðst (syðst) var Eyrarvegur (Randeiðarstígur), ofar Hraunkotsgata og Þorkötlustaðagata og efst Hraunsvegur. Leið lá einnig til austurs frá Hrauni um Siglubergsháls.

Fiskgarðar
SunnuhvollÍ Slokahrauni eru miklir fiskgarðar, svonefndir Hraunsgarðar, og -byrgi frá þeim tíma þegar fiskur var þurrkaður. Talið eru að þeir séu að hluta frá þeim tíma er Skálholtsstóll átti og gerði út frá Hrauni.

Kirkja
Bænahús eða kirkja var á Hrauni frá 1397 og fram yfir 1600. Þegar kirkjan var aflögð var hún flutt að Stað. Í lýsingu kirkjunnar að Stað segir m.a.: „Hún á tvær klukkur og þriðju sem kom frá Hrauni“.
Í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon: „Á Hrauni í Grindavík hefur verið kirkja. Sér enn nú til kirkjugarðs og stendur þar nú í staðinn skemma. Þessi kirkja er úr fallin fyrir 100 árum.“

Þórkötlustaðagata

Skömmu eftir aldamótin 1900 hafði vertíðarfiskur verið saltaður í sjóhúsi við Hraunsbæinn. Um vorið fór pækillinn að renna úr stíunni út á túnið. Á Hrauni, eins og allsstaðar, var hvert strá dýrmætt í þá daga, og til þess að saltvatnið brenndi ekki grasið var tekið á það ráð að grafa holu utan við húsvegginn. Átti að veita pæklinum í hana. Við fyrstu skóflustunguna komu upp mannabein. Var þá fljótt hætt við gröftinn. Sýnt þótti, að hér var grafreitur hinnar fornu kirkju, þar sem Skálholtssveinar höfðu verið grafnir eftir sjóslysið mikla á þorranum 1602.
Á Hrauni má sjá signingarfont frá kaþólskri tíð. Sigurður Gíslason á Hrauni fann gripinn er hann var að grafa við framangreinda skemmu (nú fjárhús). SauðagerðiGætti Sigurður þess að halda honum til haga.

Cap Fagnet
Aðfaranótt 24. mars 1931 strandaði franski síðutogarinn Cap Fagnet á Hraunsfjörum utan við Skarfatanga í slæmu veðri. Áhöfnin, 38 menn, gátu ekki yfirgefið skipið á björgunarbátum togarans. Slysavarnadeildin Þorbjörn í Grindavík, sem stofnuð hafði verið tæpum fimm mánuðum áður, brást skjótt við. Fluglínutæki voru flutt á strandstað. Í fyrsta skipti var skotið úr línubyssu til björgunar á Íslandi. Skipbrotsmenn voru dregnir á land í björgunarstól og gekk allt að óskum. Ekki mátti tæpara standa með björgun skipverja því örfáum mínútum eftir að sá síðasti var kominn í land valt skipið enn meira á skerinu. Síðar um daginn brotnaði það í spón.

Steinn

Björgunin markaði tímamót og færði mönnum sannindi þess hversu öflugt björgunartæki línubyssan var og flýtti mjög fyrir útbreiðslu hennar. Alls eiga vel á þriðja þúsund íslenskir og erlendir sjómenn fluglínutækjum og björgunarsveitum á Íslandi lífið að launa.

Þakkir
Uppdrátturinn er byggður á örnefnalýsingum fyrir Hraun. Sigurði Gíslasyni frá Hrauni eru færðar sérstakar þakkir fyrir ómetanlegan fróðleik og vísan á örnefni og einstakar minjar. Þá er öðrum heimildarmönnum, Herði Sigurðssyni, Gísla Sigurðssyni, Árna Jóni Konráðssyni og Lofti Jónssyni, færðar þakkir.“

Skiltið er lokaþáttur í þriggja ára áætlun um gerð sögu- og minjaskilta í Grindavík – frá Skiltiðvestri til austurs. Líklega getur ekkert annað sveitarfélag á landinu státað af því að eiga heilstæðan uppdrátt af örnefnum og sýnilegum minjum í bæjarfélaginu. Verkefnið hefur, og mun verða, notað til kennslu í grunnskólum bæjarins. Uppdrættirnir eru þegar aðgengilegir íbúum og gestum þeirra í Saltfisksetrinu (fyrir sanngjarnt verð), auk þess sem ætlunin er að útbúa á næstunni handhægan bækling með öllum uppdráttunum, ítarlegri textum, teikningum og ljósmyndum af einstökum minjum og minjasvæðum í bæjarfélaginu.

Gengið um HraunÞað er FERLIR (ÓSÁ) sem hefur séð um upplýsinga- og heimildaöflun, texta, uppdrætti, ljósmyndir og teikningar á sögu- og minjaskiltum þessum. Martak hefur séð um hönnun og smíði standsins og Stapaprent um setningu og prentun. Saltfisksetur Íslands, Grindavíkurbær og Pokasjóður fjármögnuðu verkið og verkefnastjóri viðburðardagskrár Grindavíkurbæjar, Sigrún Jónsdóttir Franklín, hefur annast undirbúning, kynningar og framkvæmd sögugangna í tengslum við vígslu skiltanna. Aðstoðarfólk og heimildarmenn eru fjölmargir og eiga allir miklar þakkir skyldar.Hraun