Hrútagjárdyngjuhraun – hrauntröð – skúti
Í Hrútagjárdyngjuhrauni er gígur í gígaröð og falleg hrauntröð út frá honum. Heimildir herma að í hrauntröðinni sé lítill hellir eða stór skúti. Í honum er hlaðið undir bæli. Mosagróin hrossabein eru við opið. Ætlunin var m.a. að finna staðinn – og kíkja á gíginn.
Hrútadyngjuhraun varð til í Hrútagjá fyrir u.þ.b. 5000 árum síðan. Lítið fell suðaustan við Sandfell nefnist Hrútafell. Það gæti hafa dregið nafn sitt af gjánni – eða öfugt.
Annars er Hrútagjár(miðkjarna)svæðið stórbrotið jarðfræðifyrirbæri. Glóandi kvikan hefur þrýst yfirborðinu upp þannig að fyrrum slétt helluhraunið myndar nú líkt og næstum lóðrétta veggi umhverfis hana, einkum að norðaustan- og suðvestanverðu. Gígurinn er nú hringlaga tjörn þar sem kvikan hefur storknað líkt og tappalaga lægð. Í jöðrunum eru djúpar gasuppstreymisrásir. Þegar hraunkvikan leitaði frá uppsprettunni lá leið hennar um traðir, sem nú eru mest greinilegar næst gígnum. Gífurlegur hraunmassi kom upp í gosinu og myndaði hann allt undirlendið, allt að Óttarstöðum í útnorðri (norðvestri) og að jöðrum Þráinsskjaldar (sem einnig er dyngja) í vestri. Nú er Hrútagjárhraunið þakið birki og víði, lyngi, fjalldrapa, grasi og öðrum þeim plöntutegundum er prýtt geta gamalt hraun hér á landi.
Til að auka enn á áhrif dyngusvæðisins seig landið vestan við hana og myndaði sigdal á milli misgengja. Um er að ræða sama virknisreinina og sjá má á Þingvallasvæðinu. Svæðið hefur væntanlega sigið einna mest á síðari öldum því nýrri hraun bæði fylla sigdalinn og efri brúnir hans beggja vegna. Um hefur verið að ræða þunnfljótandi helluhraun, nálægt 1/2 meters þykkt, sem nú er nær eingöngu þakið þykkum hraungambra. Þetta hraun kom upp á sprungurein Trölladyngjusvæðisins líkt og önnur hraun á svæðinu eftir að dyngjugosinu sleppti. Vestar er gígaröð utan í Trölladyngju, við Mávahlíðar, en það hraun rann m.a. niður Einihlíðar, og síðan gígaraðir austan við Fíflavallafjall og loks þessi, sem hér var ætlunin að skoða nánar. Að öllum líkindum er hér um að ræða hluta af gígaröðinni er myndaði Ögmundarhraun að sunnanverðu og Kapelluhraun að norðanverðu árið 1150. Hraunið við þennan hluta er ekki óáþekkt þessum hraunum og gróningarstaðan svipuð. Gígaröðin er um 25 km löng og nær frá Núpshlíðarhorni í suðri að Helgafelli í norðri.
Skammt austan gígaraðarinnar er gjá, sem þunnfljótandi hraunið hefur náð að fylla að hluta. Útsýni til norðurs er stórbrotið; hamraveggir og kollurinn á Fjallinu eina í fjarska. Til norðvesturs má sjá Mávahlíðahnúk og Mávahlíðar sunnan hans. Norðlingahálsinn skagar útnorður úr Sveifluhálsi. Vestan hans er falleg klettamyndun. Skammt raunsunnar eru Köldunámur.
Í leiðinni var komið við í hluta Hrútagjárinnar og gjáin fetuð með háa bergveggina til beggja handa. Gjáin gefur Almannagjá og Hrafnagjá lítið eftir hvað mikilfengleik varðar.
Eftir að áð hafði verið í stærsta gígnum var röðinni fylgt til norðurs. Víða mátti sjá göt í gjám, en í jarðfalli einu miðlungsstóru var lítið op. Þar undir niðri virðtist vera stór hellir. Ekki varð komist þangað niður nema með aðstoð reipis. Ætlunin er að fara þangað fljótlega og skoða fyrirbærið. Stærðin gefur von um merkilegheit.
Klettamyndanir utan í vestari hamraveggnum eru stórbrotnar. Þrátt fyrir nákvæma leit utan í honum fannst hvorki skúti né lítill hellir. Þegar stefnan var tekin upp á austari brún misgengisins tók við úfnara mosahraun, en þó ekki ógreiðfært. Ljóst er að víðast hvar á svæðinu geta verið rásir og skútar, sem nýta hefði mátt sem afdrep eða skjól um tíma, a.m.k. bentu ummerki austan hraunbrúnarinnar til þess. Þar var hlaðið gerði og flóraður stígur að því – sennilega eftir einhvern nútímamanninn.
Hrútagjárdyngjan sem og hraunasvæðin milli Hálsanna eru stórbrotin útivistarsvæði og koma sífellt á óvart hvað fegurð og mikilfengleik varðar. Að þessu sinni var umhverfismyndin einstök á að líta því hitinn frá sólinni náði að endurheimta regnvatnið frá deginum áður. Við það varð fagurgrænn mosinn smám saman grár, auk þess sem gufan steig svo til beint upp af honum í logninu.
Ætlunin er að fara fljótlega aftur á vettvang og þá skoða hellinn, sem fengið hefur nafnið Ellefuhundruðogfimmtíu, betur með aðstoð hellamanna.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.