Húshöfði – Hvaleyrarvatn – Selhöfði

Flórgoði

Gengið var um Húshöfða og Höfðaskóg þar sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur aðstöðu á austanverðum Beitarhúsahálsi. Félagið hefur stundað þarna trjárækt frá 1956, fyrst á 32 ha landi við Húshöfða, en síðan hefur félagið aukið ræktunarsvæði sitt til muna í Höfðalandi.

Stekkur

Húshöfði – stekkur.

Góðir og greiðfærir stígar liggja um skóginn í hlíðinni og ef fólk vissi ekki betur mætti vel halda að verið væri að ganga um skóg einhvers staðar í útlandinu. Skógarþrestir höfðu hópað sig saman í kvöldkyrrðinni og fóru um loftin í stórum flokkum.
Hvaleyrarvatn er neðan við hlíðina. Það er í fallegri kvos sem er umlukin lágum hæðum á þrjá vegu. Að vestan er Vatnshlíð, austanvert stendur Húshöfði, Miðhöfði og Fremstihöfði og Selhöfði að sunnan. Vestan vatnsins er Selhraun sem lokar fyrir afrennsli þess úr kvosinni. Áður fyrr höfðu Ásbændur og Hvaleyrarbændur í seli við vatnið og sjást frá hlíðinni tóftir undir Selhöfða þar sem selstöðurnar munu hafa verið.

Selhöfði

Selhöfði – fjárborg.

Húshöfði dregur nafn sitt af gömlu beitarhúsi eða fyrrum selstöðu frá Jófríðarstöðum og eru tóftir þess enn sýnilegar í höfðanum. Við Vatnshlíðina vestan við Hvaleyrarvatn er skógræktarsvæði Hákonar Bjarnasonar skógræktarstjóra ríkisins sem átti þar sumarhús og lagði gjörva hönd á plóginn við ræktunarstörfin.
Á síðustu árum hefur Skógræktarfélagið lagt göngustíga um Höfðaskóg og komið upp trjásýnireit sem áhugavert er að skoða. Ganga kringum Hvaleyrarvatn er auðveld því göngustígur hefur einnig verið lagður umhverfis það. Að þessu sinni var fyrst gengið að hlöðnum stekk eða gerði norðvestan við skála Skógræktarfélagsins. Hann tengist sennilega notkun beitarhústófta austar á hálsinum. Þar er nokkuð stór beitarhústóft og önnur minni skammt norðvestar. Hún virðist nokkuð eldri og er mun jarðlægari. Ekki er ólíklegt að beitarhúsið, sem var brúkað frá Jófríðarstöðum, hafi verið byggt þar upp úr eldri selstöðu eftir að hún lagðist af.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Skammt austar í hlíðinni er minningarlundur um Kristmundsbörn er munu hafa tengst upphafi skógrækar í Hafnarfirði. Skammt frá er Ólafslundur, til minningar um Ólaf Daníelsson, skógræktarmann.
Gengið var niður að vatninu og suður með því að austanverðu. Skammt sunnan við skála St. Georgs gildisskáta, sem stendur í miðri hlíð Kjóadalsháls, var komið að hálfgerðu nesi er skagar út í vatnið undir Selhöfða. Þar er komið að tóftarbrotum Ássels. Lúpínan er farin að teygja sig í selstöðuna. Einstaka blágresi reynir lyfta kolli sínum upp fyrir hanan til að ná í a.m.k. einhverja sólargeisla.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Skammt utar með vatninu eru tóftir Hvaleyrarsels. Það mótar enn fyrir seltóftunum og auðvelt að glöggva sig á húsaskipan. Trjágróður er farin að þrengja að rústunum. Saga tengist selinu. Hún segir frá nykri, sem átti að vera í vatninu og láti seljamatsstúlku í selinu (sjá HÉR).

Seldalur

Tóft í Seldal.

Haldið var áfram suður með vatninu þangað til komið var upp á veginn áleiðis í Seldal. Sunnan hans er hlaðinn stekkur og fyrirhleðsla undir hraunbakka. Selhraunshóll, stakur klofinn hraunhóll, sést þaðan í vestri. Hóllinn er áberandi kennileiti og vegvísir þegar Stórhöfðastígur var fjölfarin alfaraleið milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur á fyrri tíð. Í honum er tófugreni að sunnanverðu.
Fremur létt er að ganga upp í hlíðar Selhöfða eftir gamla akveginum og fæst þá góð sýn yfir svæðið. Suðvestan hans er svonefndur Seldalshálskofi, tvískipt tóft á hálsinum. Ekki eru neinar kunnar heimildir um hvaða hlutverki kofinn gegndi, en líklega hefur hann verið smalaskjól eða hluti selstöðunnar handan höfðans, s.s. stekkur. Hálsinn er þarna mjög vel gróinn, en mikil jarðvegseyðing allt um kring. Auðvelt er að ímynda sér að þarna hafi verið gróðursælt áður fyrr og því ekki ólíklegt að þar hafi verið útselstaða um tíma.

Miðhöfði

Haldið var á Selhöfða. Uppi á honum eru a.m.k. tvö mannvirki. Annað, það syðra og stærra hefur að öllum líkindum verið tvískiptur stekkur, rétt eða fjárborg, en hið nyrðra hefur líklega verið kví eða önnur afmörkun. Grjóthleðslurnar gefa útlitið glögglega til kynna, en sennilega hafa veggir verið tyrfðir, en þeir síðan horfið ásamt öðrum gróðri á höfðanum og grjótið þá fallið bæði út og inn í mannvirkið. Af Selhöfða er mjög gott útsýni yfir Seldal og Stórhöfða í suðaustri og Hvaleyrarvatn og Bleiksteinsháls í norðvestri. Einnig yfir að Undirhlíðum, Lönguhlíðum, Helgafelli, Búrfelli og Húsfelli í austri.

Stórhöfði

Stórhöfði.

Gengið var norður Selhöfða, um Kjóadalaháls og síðan yfir á Húshöfða. Þaðan var haldið til suðausturs að Miðhöfða. Bæði efst á Húshöfða og á honum suðvestanverðum eru vörður. Fuglaflokkurinn hélt för sinni áfram, fram og til baka yfir skóginum. Nánar um Höfðavörðurnar HÉR.
Frábært veður – sól og blíða. Gangan tók 59 mín.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.