Hvaleyrarvatn – tóttir – sel – borgir
Hvaleyrarvatn er í kvos sem er umlukin hæðardrögum á þrjá vegu; Vatnshlíð að norðanverðu, Húshöfða að austanverðu og Selhöfða að sunnanverðu. Selhraun lokar fyrir afrennsli vatns að vestanverðu. Vatnssveiflur eru jafnan að mestu háðar veðurfari.
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hóf uppgræðslu við vatnið árið 1956. Nú er svæðið orðið kjörið útivistarsvæði. Göngustígar liggja um skóginn og í kringum vatnið, um 20 mínútna léttur gangur. Á svæðinu eru einnig nokkrar minjar frá tímum fjárbúskapar, sem gaman er að skoða, auk þess sem hlaðin hafa verið ágæt skeifuskjól á stöku stað.
Hús Skógræktarfélags Hafnarjarðar er í Húsmúla, en í Selhöfða er skáli Gildisskátanna. Sumarhús er undir Vatnshlíðinni, en vestan hans er Bleikingsháls.
Ákjósanlegt er að byrja göngu frá bílastæðinu norðan við vatnið. Í Húshöfða má t.d. sjá tótt af hlöðnum stekk efst á hæð, Beitarhúsahálsi, norðan húss Skógræktarfélagsins. Sunnan hússins er nokkuð stór tótt í hlíðinni. Það er rúst beitarhúss, Veturhúss, frá Jófríðastöðum, en var síðast nótað árið 1922 frá Ási. Þar skammt sunnar í hlíðinni við göngustíg er minnisvarði í svonefndum Systkinalundi. Hann er um Kristmundarbörn, en þau létu eftir sig minningarsjóð til styrktar skógræktarstarfi í Hafnarfirði.
Sunnan við Hvaleyrarvatn, undir Selhöfða eru tóttir tveggja selja. Austar eru tóttir, líklega sels frá Ási, niður undan skátaskálanum, en vestar, á grónum tanga, eru tóttir Hvaleyrarselsins. Þar lagðist selsbúskapur af eftir að smali frá Hvaleyri fann selsstúlku látna og illa leikna niður við vatnið. Talið var að nykur, sem átti að hafa haldið til í vatninu annað hvert ár, hafi ráðist á og banað stúlkunni. Nykurinn átti, skv. sögnum, að búa hitt árið í Urriðakotsvatni, en hann mun hafa drepist þar frostaveturinn mikla árið 1918. A.m.k. sást aldrei til hans eftir það.
Vestan við veginn, sem liggur vestan við vatnið, eru hleðslur í klapparkvos. Þar gæti hafa verið stekkurinn frá Hvaleyrarseli. Sunnan við Selhöfða er Seldalur, þangað sem vegurinn liggur. Sunnan hans er Stórhöfði. Uppi á hálsinum, vinstra megin við veginn þegar komið er að Seldal, er tótt. Norðan hennar er ágæt gönguleið til norðurs upp á Selhöfða.
Þegar þangað er komið er beygt til hægri, upp á klapparhæðina, sem þar er. Á henni eru leifar gamallar fjárborgar, auk annarrar minni og eldri skammt austar, líklega eldri stekkur.
Auðvelt er fyrir vant fók að koma auga á hvorutveggja, en erfiðara fyrir aðra. Þær eru augljósastar þegar staðið er norðan við hleðslurnar og horft í átt að Stórhöfða. Þá sjást þær vel.
Ágæt gönguleið er niður af Selhöfða til vesturs, á milli furulunda. Þá er komið að vatninu á milli seljanna og auðvelt að ganga meðfram því til baka – að bílastæðunum.
Þessi ganga tekur u.þ.b. klukkustund.