Hveragerði – minnismerki
Í Hveragerði eru nokkur minnismerki.
Hveragerði – Blóm í bæ 2010
Þessi silfurreynir er gjöf frá Garðyrkjufélagi Íslands til Hveragerðisbæjar í tilefni af 125 ára afmæli félagsins.
Hann er beinn afkomandi elsta trés landsins sem talið er að hafi verið gróðursett 1884 við hús Schierbech landlæknis við Suðurgötu í Reykjavík.
Gunnar Björnsson
„Trjálundur þessi er til minningar um Gunnar Björnsson garðyrkjubónda í Álfafelli 1913-1977“.
Minnismerkið er á steyptum stöpli í Listigarði Hvergerðinga.
Reykjakirkjugarður
Í Hveragerði, neðan við Garðyrkjustöðina, er Reykjakirkjugarður. Garðurinn sá forni hefur nú verið enduvakinn, bæði með málamyndauppgreftri, tilbúnum garðhleðslum, en ekki síst öllu merkilegra skilti á vegg er vísar á nafngiftina. Skiltið má þakka Sesselju Guðmundsdóttur.
Þessara merku minja virðast hvergi getið í vefheimildum.
Gísli Sigurbjörnsson 1907-1994
Gísli Sigurbjörnsson fæddist 29. okt. 1907 í Reykjavík. Hann lést 7. janúar 1994.
Gísli lauk prófi frá Verslunarskóla Íslands 1927. Hann stofnaði Elli- og hjúkrunarheimilið Grund árið 1938 og var forstjóri þess frá stofnun og jafnframt forstjóri Áss í Hveragerði frá 1952. Auk þess að vinna brautryðjendastarf í þágu aldraðra sinnti Gísli mikið íþróttamálum, bindindismálum og ferðamálum alla tíð. Hann var einn af stofnendum Krabbameinsfélags Íslands og formaður Knattspyrnufélagsins Víkings um skeið. Hann gegndi auk þess fjölda trúnaðar- og ábyrgðarstarfa á ýmsum vettvangi.
Minnisvarðinn var afhjúpaður 3. sept. 1995. Hann stendur á lóð Dvalarheimilisins Áss í Hveragerði. Brjóstmyndina gerði Helgi Gíslason myndhöggvari.
Lárus J. Rist (1879-1964)
„Munit, at léð er lýði land fyrir kraft og anda. [M. Joch.]“
Árið 1936 kom Lárus J. Rist sundkennari frá Akureyri til Hveragerðis. Hann hafði stundað nám við lýðháskólann Askov í Danmörku og lokið prófi frá fimleikaskólanum í Kaupmannahöfn árið 1906. Lárus hafði um árabil unnið við sundkennslu á Akureyri og 6. janúar 1907 vann hann það afrek að synda yfir Eyjafjörð. Lárus gekk í Ungmennafélag Ölfusinga og varð fljótlega mikilvirkur í félagsstarfinu. Hann var stórhuga og setti sér það markmið að í Hveragerði skyldi byggð vegleg sundlaug, stærsta sundlaug landsins. Lárus tók forystu í sundlaugarnefnd og valdi sundlauginni stað í gilinu fyrir neðan gróðurskálana á Reykjum. Þar seytlaði volgur lækur milli grasigróinna bakka og hjálpaði hann til að grafið var fyrir lauginni á þessum stað.
Í ágústmánuði árið 1959 var afhjúpaður minnisvarði um Lárus J. Rist í Laugaskarði í tilefni áttræðisafmæli hans. Þetta var brjóstmynd gerð af listamanninum Ríkharði Jónssyni.
Það var hátíðarblær yfir staðnum þennan dag og hundrað börn og unglingar steyptu sér til sunds í laugina. Jóhannes úr Kötlum flutti frumsamið kvæði að fornum hætti. Gunnar Benediktsson rithöfundur las kvæði Matthíasar Jochumssonar í tilefni af Eyjarfjarðarsundi Lárusar árið 1907.
Brjóstmyndin er eftir Ríkarð Jónsson myndhöggvara.
Elna Ólafsson (1912-1998) – Unnsteinn Ólafsson (1913-1966)
„Hjónin Elna Ólafsson og Unnsteinn Ólafsson skólastjóri 1939-1966“.
Unnsteinn var skólastjóri Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi.
Nemendur og vinir reistu honum þennan minnisvarða sem stendur í Unnsteinslundi ofan við Garðyrkjuskólann. Helgi Gíslason myndhöggvari gerði minnisvarðann.
Unnsteinslundur
Árið 1943 átti Unnsteinn Ólafsson skólastjóri frumkvæði að gerð grasagarðs hér í hlíðinni, sem nú er við hann kenndur.
Á sumardaginn fyrsta 1998
Garðyrkjuskóli ríkisins
Jóns Kristjánsson
Minnisvarðinn er við Náttúrulækningafélagið í Hveragerði.
Garðahlynur
Við Varmahlíð er hlynur. Við hann er skilti: „Garðahlynur“.
Undir honum er bekkur. Á bekknum er skilti: „Margrét Sverrisdóttir – Greta, 7.12.1942-3.4.2021. Minningin lifir“.
Minningabekkur gegnt Reykjafossi, norðan árinnar.
„Njótum útsýnis og kyrrðar. Blessuð sé minning hjónanna í Laugaskarði, Hjartar og Margrétar. Bekkurinn er gjöf frá börnum og tengdabörnum“.
Heimild:
-https://eirikur.is/minnisvardar/sudurland/