Í Suðurkoti í kringum aldarmótin 1900

Suðurkot

Í Morgunblaðinu árið 1991 er minningargrein um Þórdísi Símonardóttur í Suðurkoti á Vatnsleysuströnd. Minningar afkomenda hennar lýsa vel stöðu kvenna sem og gefandi mannlífinu á Ströndinni um og í kringum aldarmótin 1900:

Þórdís Símonardóttir

Þórdís Símonardóttir (1894-1991).

„Þórdís Símonardóttir fæddist árið 1894 að Götu í Holtum, dóttir hjónanna Gróu Guðmundsdóttur og Símonar Símonarsonar. Systkini Þórdísar voru átta, sex bræður og tvær systur. Ung að aldri fluttist hún með foreldrum sínum suður á Miðnes og síðan á Vatnsleysuströnd þar sem hún bjó alla tíð síðan. Giftist hún afa mínum, Kristjáni Hannessyni, átján ára gömul og bjó hún með honum lengst af í Suðurkoti á Vatnsleysuströnd. Eignuðust þau átta börn.
Það var gott að geta farið til ömmu, yfir í Suðurkotið, í frímínútum þegar ég var í Brunnastaðaskólanum. Hún átti alltaf eitthvað í svanginn, góð ráð, plástra og í raun hvað eina sem á þurfti að halda. Á seinni árum barnaskólans fór ég að fara oftar til ömmu og gista hjá henni nótt og nótt. Það var svo sannarlega ekki bara af skyldurækni, vegna þess að hún var orðin gömul og ein í húsinu, heldur miklu frekar vegna þess að ég hafði ómælt gaman af. Það fór ekki illa um mig þegar hún bar mér heitt súkkulaði í „beddann“ á sunnudögum eða þegar hún klóraði mér og sagði mér jafnframt sögur úr Biblíunni eða frá fyrri árum.

Suðurkotsskóli

Suðurkotsskóli (Brunnastaðaskóli). Suðurkotsskóli var byggður 1872.
Árið 1938 breytir Suðurkotsskóli um nafn og heitir eftir það Brunnastaðaskóli.

Það hefur verið góður skóli fyrir mig sem krakka að heyra hve margt hafði breyst á hennar löngu ævi, og oft hefur verið þröngt í búi hjá henni blessaðri, sem upplifði tvær heimsstyrjaldir og þær geysilegu breytingar sem orðið hafa á íslensku þjóðlífi á ævi hennar.
Hún var ekki rík af veraldlegum auði, en þeim mun ríkari af andlegum, sem við afkomendur hennar fengum svo sannarlega að kynnast. Ég mun líka seint gleyma því þegar hún kenndi mér að verka grásleppur, í Norðurkotinu, þegar ég strákguttinn tók upp á því að vilja framleiða signar grásleppur eftir að hafa sníkt þær af grásleppukörlunum í hverfinu. Það var líka ómæld elja sem einkenndi hana. Við munum örugglega mörg eftir henni þar sem hún studdi sig við hækjuna og bakaði flatkökur á gömlu eldavélinni sinni.
Þórdís SímonardóttirEn svo fór þó að hún gat ekki lengur verið í Suðurkoti og flutti hún sig því um set í Vogana til okkar. Alltaf fylgdi góða skapið henni og var hún oft skondin og snögg í tilsvörum. Henni fannst það óþarfa uppátæki þegar ég tók upp á því að fara til náms í Þýskalandi og spurði hún mig oft, með stríðnissvip, hvort ég hefði nokkuð rekist á hann Hitler. Alltaf þekkti hún mig og gat gert að gamni sínu þegar ég heimsótti hana.
Brunnastaðaskóli var þinghús hreppsins á þeim tíma, og allar samkomur og skemmtanir fóru þar fram. Segja má að menningarstraumar hreppsins hafi legið í gegnum Suðurkotshlaðið og kom þá oft í ömmu hlut að sjá um veitingar fyrir þá embættismenn sem þinguðu i skólanum. Oft var því mikið að gera og margt um manninn í Suðurkoti. Það voru margar flatkökurnar sem hún bakaði á gömlu olíueldavélinni sinni, því að flatkökurnar hennar Dísu voru bestar af öllum.
SuðurkotEins var það, þegar krakkarnir meiddu sig í skólanum, þá var alltaf farið til hennar Dísu á Hól og hún látin gera að sárunum. Eftir að afi dó flutti ég niður til ömmu. Ég man þegar hún vakti mig í fyrsta skipti eldsnemma á páskadagsmorgun til að sýna mér, hvernig sólin kæmi dansandi upp frá Keili. Hún sagði að sólin dansaði alltaf þennan morgun til að fagna upprisu frelsarans.
Upp frá því vöknuðum við amma alltaf saman þennan morgun og horfðum á þessa stórkostlegu sjón.

Suðurkot

Suðurkotshúsið núverandi var byggt 1930.

Það var alltaf fastur siður hjá okkur að draga mannakorn sem svo eru kölluð áður en við fórum að sofa á kvöldin. Þá drógum við til skiptis upp úr kassanum og hún las svo þær ritningargreinar, sem við hittum á. Oft fengust þar beinlínis svör við því sem við vorum að hugsa um þá stundina. Alltaf talaði hún amma lengi við Guð persónulega upphátt á hvetju kvöldi áður en hún lagðist til svefns og eins áður en hún klæddist á morgnana. Lengi rak hún sunnudagaskóla með ömmu í Austurkoti og systrunum Maríu og Margréti.
Það var stór barnahópur sem þangað kom. Mikið var sungið og lesið þessar sunnudagsstundir og öllum þótti gaman. Alltaf gátum við systkinin komið til hennar ömmu með áhyggjur okkar og vandamál, því að hún hlustaði alltaf og gaf góð ráð. Svo voru líka þær stundir þar sem var hlegið og gert að gamni sínu, því að amma var mjög létt í skapi og gat hlegið mikið.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ. Grund er efst á uppdrættinum.

Þórdís og Kristján byrjuðu búskap á Grund. Það var lítill bær á Tanganum þ.e. Béringstanga. Þar fæddust fimm elstu börnin en 1922 var flutt inn í Suðurkot og byggður þar bær. Þar fæddust tvö börn til viðbótar. 1930 var byggt húsið sem enn stendur og þar fæddist yngsta barnið.
Á Grund var það sem kallað var tómthús, þ.e. eingöngu búið með kindur. Sjálfsagt hafa þær ekki verið margar. Það var sjávarfangið sem þetta fólk lifði á, sem bjó í þessum litlu bæjum. Því alls staðar var róið. Það var ekki svo aumt kot að ekki væri til bátur.
Ég er stundum að hugsa um hvernig þetta fólk komst fyrir. Það var bókstaflega ekkert gólfpláss eins og í gamla bænum í Suðurkoti, en samt var eins og alltaf væri nóg pláss. Það var leikið sér þarna, inni gengið í kringum jólatré um jólin, sungið og spilað. Dísa og Stjáni, eins og ég kallaði þau alltaf, voru ákaflega létt í lund og þar sem foreldrar mínir bjuggu á hinum helmingi jarðarinnar var þarna mikill samgangur og við frændsystkinin lékum okkur saman. Það er margs að minnast frá mínum æskudögum í Brunnastaðahverfinu. Þá voru 11 bæir og sums staðar fjölmenn heimili, fólk rétti hvort öðru hjálparhönd ef með þurfti, þess er gott að minnast.
SuðurkotÞað er stór hópur afkomenda þeirra Þórdísar og Kristjáns, alls 130 manns. Það er mikið starf sem þessi kona hefur innt af hendi á sinni löngu ævi, lengst af við engin þægindi í þröngum húsakynnum mörg fyrstu búskaparárin. Því það voru ekki eingöngu innistörf, það var verið í heyskap og farið í fjós. Það var alltaf góður andi á heimilinu, þau voru bæði létt í lund, ég man hvað hann Stjáni gat hlegið innilega.
Í Suðurkoti var Þórdís búin að vera húsmóðir í rösk 60 ár. Kristján andaðist 10. nóvember 1961, eftir það var hún ein í sinni íbúð. En síðustu 8 árin var hún til heimilis hjá Hrefnu dóttur sinni í Vogum.“

Heimild:
Morgunblaðið, 77. tbl. 06.04.1991, Þórdís Símonardóttir, Minning, bls. 45.

Suðurkotsskóli

Suðurkot og nágrenni – loftmynd 2024.