Illahraun – Arnarsetur – Skógfellahraun – Dalahraun – Gálgaklettar

Gálgaklettar

Gengið var um hraunin ofan Grindavíkur, þ.e. Illahraun, Arnarseturshraun, Skógfellshraun og Dalahraun. Síðastnefnda hraunið er um 3000 ára gamalt, en Arnarseturshraun er yngst, mun hafa runnið á sögulegum tíma, eða árið 1226.

Gyltustígur

Gyltustígur (t.h.).

Gangan hófst við vestanvert Þorbjarnarfell, við svonefndan Gyltustíg. Stígurinn er náttúruleg læna upp fellið vestast í því sunnanverðu. Annars er Þorbjarnarfell í daglegu tali nefnt Þorbjörn. Það er stakt móbergsfell (243 m.y.s). Af því er gott útsýn yfir mikinn hluta Reykjanessfjallgarðsins. Uppi á fellinu er gjá eða sprunga sem heitir Þjófagjá, að sögn eftir 15 þjófum sem höfðust við í gjánni og stálu fé Grindvíkinga. Sá misskilningur hefur komist á spjöld að á Þorbjarnarfelli hafi farist í flugslysi í síðari heimstyrjöldinni C. Andrews, yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna á Norður-Atlantshafssvæðinu, ásamt fleiri háttsettum foringjum.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Brak úr vélinni er í Kastinu utan í Fagradalsfjalli. Aðeins einn maður komst lífs af úr þessu flugslysi og beið hann björgunar á annan sólarhring. Á fellinu hafði herinn hins vegar aðstöðu á styrjaldarárunum og má þar sjá leifar hennar, s.s. grunna, hleðslur, ofn og slóða.

Fyrrnefnd þjóðsaga segir að „skammt ofan við byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, oftast nefnt Þorbjörn.

Þjófagjá

Þjófagjá.

Í toppi þess er hamragjá sem heitir Þjófagjá. Er svo sagt að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar sem lögðust á fé Grindvíkinga.
Eigi sáu byggðamenn færi á að vinna þá fyrr en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri sem er á Baðsvöllum, norðan undir fjallinu.

Einn gætti klæða þeirra meðan þeir voru í baðinu og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan sem fætur toguðu til bæja og sagði hvernig komið væri.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell – Baðsvellir nær.

Það fór eins og hann ætlaðist til: þjófunum varð tafsamt að komast í fötin og ekki fóru þeir í önnur föt en nærklæðin og eltu hann síðan en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu.

Nú þustu byggðamenn að þeim og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar sem síðan heita Gálgaklettar. Bóndasonur varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.“ Um vettvang sögunnar, þ.e. Baðsvelli og minjarnar á þeim, laugina og Gálgakletta, er fjallað í annarri FERLIRslýsingu.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Gengið var vestur með suðurkanti Skipsstígshrauns yfir á Skipsstíg, hina gömlu þjóðleið milli Grindavíkur og Njarðvíkur. Þarna vestan við Lágafellið hefur stígurinn verið lagaður á um 300 metra kafla. Þetta hefur sennilega verið á fyrstu árum 20. aldar er gera átti stíginn vagnfæran. Svo er að sjá að hætt hafi verið við framkvæmdina, en framkvæmdir við gerð gamla Grindavíkurvegarins frá Stapanum, að Seltjörn, um Skógfellshraun og Arnarseturshraun, um Selháls og niður í Grindavík hófust árið 1913.
Við Skipsstíginn er Dýrfinnuhellir, hraunskúti með hleðslum fyrir. Sagan segir að þangað hafi samnefnd kona úr Grindavík flúið með börn sín eftir komu Tyrkjanna og dvalið þar um sinn.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð.

Skipsstíg var fylgt spölkorn til norðurs, en síðan beygt af honum til austurs. Gengið var yfir Illahraun að Sýlingafelli (Svartsengisfelli). Hraunið er að vísu illt yfirferðar næst Þorbirni, en þegar komið er inn í það er auðvelt að komast í gegn. Vestan Grindavíkurvegarins var komið að hlöðnu hringlaga gerði, ein af mörgum minjum eftir vegagerðina forðum.

Tvö hlaðin hús eru í lægð handan vegarins. Inni í krika Svartsengis liggur stígur vegagerðarmanna inn á Arnarseturshraunið og áleiðis upp á Gíghæð, þar sem fyrir eru meginbúðir þeirra er enn sjást.  Svartsengi er talið hafa verið nefnt eftir hrútnum Svarti, sem þar mun hafa unað sér vel.

Arnarseturshraun

Hrauntjörn í Arnarseturshrauni.

Þegar komið var að Arnarsetri var genginn stígur austur yfir hraunið, að Stóra-Skógfelli. Þar var beygt til suðurs og Skógfellastígnum fylgt í gegnum Dalahraun að Eldborgunum og Sundhnúkunum. Stígurinn, sem er gömul þjóðleið milli Voga og Grindavíkur, er vel klappaður í bergið þar sem hann liggur á milli Skógfellanna. Sundhnúkarnir eru falleg gígaröð utan í Vatnsheiði, en þaðan mun meginhraunið, sem Grindavík stendur á, vera komið, um 2400 ára gamalt. Eldborgirnar eru enn ósnertar og sýna vel hvernig gos á sprungureinum hefur myndast, en þau eru allnokkur á Reykjanesskaganum.

Hagafell

Gálgaklettar í Hagafelli.

Gengið var upp með Hagafelli og að Gálgaklettum þeim, sem þjófarnir forðum eiga að hafa endað lífdaga sína. Haldið var niður eftir Selhálsi þar sem Hópsselið er undir hlíðinni og síðan gamla Grindavíkurveginum fylgt suður með austanverðu Þorbjarnarfelli um Klifhólahraun að upphafsstað. Suður hraunið liggur greinilega gömul gata áleiðis að Járngerðarstöðum, en bæirnir þar höfðu m.a. í seli á Baðsvöllum áður en selstaðan var færð upp á Selsvelli, auk þess sem aðrar nytjar hafa eflaust verið hafðar af völlunum fyrrum.

Heimild um Þorbjarnarfell:
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_thorbjarnarfell.htm
mÞjóðsagan er af:
-http://www.hs.is/fyrirtaekid/addragandi.asp

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gíghæð.