Kálfatjörn – Norðurkot

Kálfatjörn

Gengið var um Kálfatjörn frá kirkjunni, brunnurinn skoðaður sem og sjóbúð og tjörnin sjálf. Skoðaðar voru minjar með ströndinni til vesturs, komið við í tóftum Goðhóls og fiskbyrgjunum neðan við Þórustaði og síðan haldið út með einni fegurstu sandströnd á norðanverðum Reykjanesskaganum, neðan Þórustaða og Landakots. Þá var stefnan tekin á Norðurkot, en tilfærsla þess kl. 16.00 þetta síðdegi var einmitt tilefni göngunnar. FERLIR hafði lofað góðu gönguveðri og einnig að í ferðinni myndu þátttakendur sjá aldargömlu húsi lyft af grunni sínum og það fært um set. Auðvitað trúði enginn þeirri lýsingu sem fyrri daginn – og því varð staðreyndin áhrifaríkari en ella.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – gömlu húsin, um 1960, sett inn í mynd frá 2020.

Tilgangurinn með ferðinni var einnig að reyna að berja lóuna, vorboðann ljúfa, augum, en fréttir höfðu einmitt borist fyrr um daginn af ferðum hennar við Höfn í Hornafirði, tveimur dögum fyrr en venjulega. Það gefur von um gott vor.
Skoðaður var brunnurinn frá Kálfatjörn, en oft reynist erfitt að finna hann þegar líða tekur á sumarið vegna njóla og annars þróargróðurs. Ágætt kennileiti er þó eftir götu eða lögstum garði að honum út frá Víti til vesturs. Þar liggur gata vestan slóða niður að Kálfatjörninni sjálfri. Ef garðinum/götunni er fylgt að enda birtist brunnlokið. Tilraun var gerð til að finna brunninn síðsumars árið áður, en án árangurs. Þarna var hann hins vegar án þess að nokkuð skyggði á tilvist hans.

Kálfatjörn

Goðhóll.

Gengið var með syðri hluta Rásarinnar að tóft sjóbúðar sunnan Kálfatjarnar, hún skoðuð, og síðan haldið niður að skiparéttinni ofan við sjávarmál. Þar eru og hleðslur gamallar sjóbúðar, sem ártalssteinn 17. aldar fannst hjá fáum misserum fyrr. Steinn sá er nú við safnaðarheimiðið norðan kirkjunnar. Kunnugir segja, en vilja ekki staðfesta skriflega, að þegar grunnur safnaðarheimilisins hafi verið gerður, hafi komið upp ýmsir steinar sem og reglulegar hleðslur, en þá hafi blinda augað komið sér vel hjá nærstöddum, enda kirkjugarðurinn og gamlar minjar eigi alllangt undan.
Rifjuð var upp sögnin af sækúnum í Kálfatjörn. Með tóftir hinnar gömlu hæðbúnu sjóbúðar að baki og kirkjuna í bakgrunni var ekki komist hjá upprifjun sjósókna fyrri alda sem og aðbúnaðar vermanna á þeim tímum. Rifjuðu var upp ferð um svæðið á liðnu ári með Ólafi Erlendssyni á Kálfatjörn, en þá lýsti hann vel og vandlega kotunum norðan og austan við kirkjuna.

KálfatjörnÁ Kálfatjörn var bær, kirkjustaður og prestsetur. Prestasetur var þar til 1907 er sóknin var lögð niður til Garða á Álftanesi. Á Kálfatjörn var kirkja helguð Pétri postula á kaþólskum sið. Núverandi kirkja var reist árið 1892-1893 og vígð 11. júní 1893. Kirkjan er byggð úr timbri, járni varin steinhlöðnum grunni. Kirkjan tekur 150 manns í sæti á báðum gólfum. Sögu hennar og umhverfi hefur verið gerð góð skil í annarri FERLIRslýsingu.
Skoðaðar voru minjar Goðhólls, bæði gamla bæjarins og útihúsa auk garða, sem þar eru. Skammt norðvestar eru gamlar mógrafir frá Kálfatjörn. Hlið er sunnar og Tíðargerði vestan þess. Hvorutveggja eru gömul kot vestan við Kálfatjörn.

Kálfatjörn

Ártalssteinninn á Kálfatjörn í gömlu sjóhúsi.

En gömul kot geta orðið að gersemi sem og svo margt annað. Ekki er langt um liðið síðan sjá mátti síðanefnda kotið auglýst til sölu ásamt Norðurkoti, sem er þarna skammt vestar, á 40 milljónir króna. Stórhuga menn hafa haft áhuga á landinu, m.a. með fyrirhugaða sumarhúsabyggð og þróun golfvallarins að augnamiði. Staðreyndin er sú, hvað sem líður landkostum, að óvíða er fagurrra útsýni en á þessari, að því er virðist, flatneskjulegu strönd. Útsýnið er síbreytilegt og bæði ströndin og heiðin skammt undan eru tiltæk til uppbyggjandi gönguferða.
Lóan lét sjá sig, en erfiðara reyndist að ná mynd af henni. Það heyrðist hins vegar ágætlega í henni. Smánafna hennar, sandlóan, var hins vegar róleg þar sem hún stóð í hópum á skerjum, og leyfði góðfúslegar myndatökur. Lómur syndi utar og úmaði.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær. Norðurkot lengst t.v.

Nú er Norðurkotið stekkur. Norðurkotið á Vatnsleysuströnd var flutt um set, í sólskinsblíðu, stafalogni og 12° hita. Húsið, sem að sögn var byggt árið 1903 sem skólahús, var híft á dráttarvagn og síðan ekið yfir að Kálfatjörn þar sem því verður ætlaður staður til frambúðar á fyrirhuguðum safnareit. Keilir lék baksviðs meðan á flutningnum stóð, en sólin umvafði þetta gamla hús geislum sínum er það notaði tækifærið og snéri sér í hring hangandi í kranavírunum. Andar genginna kynslóða fylgdust með. Fjórir svanir flugu yfir í fagurri fylkingu, snéru við og komu til baka, líkt og til að leggja áherslu á samþykkið að handan. Rifjað var upp minnistætt flug svananna 12 framan við áhorfendur á krirstnitökuhátíðinni á Þingvöllum árið 2000. Þeir snéru einmitt við, líkt og þessir, og endurtóku flugið fyrir áhorfendur. Fæstir skyldu þó tilganginn, en aðrir, sem bæði vita og skilja, gerðu sér grein fyrir honum. Aldur Norðurkots er ekki fullviss af nákvæmni. Það gæti verið eitthvað eldra en frá 1903. Ólafur Erlendsson frá Kálfatjörn segir t.d. að faðir hans, Erlendur Magnússon hafi gengið þar í skóla árið 1904 og að húsið gæti verið frá því rétt fyrir aldamótin 1900.

Norðurkot

Norðurkoti lyft af grunni sínum og síðan flutt að Kálfatjörn.

Það var Minjafélag Vatnsleysustrandarhrepps, sem lét flytja húsið með dyggri aðstoð verktaka. Það hrikti í vírum hífikranans við lyftinguna, en húsið hvorki æmti né skræmti þótt aldrað væri. Stoðir þess eru greinilega enn styrkar – og höfðu verið styrktar enn um betur að innanverðu af vönum verkmönnum.
Norðurkot var notað sem skólahús fram til 1910 eða ’11. Kennarahjón bjuggu þá á loftinu, en skólastofan var á jarðhæð. Hlaðinn kjallari var undir húsinu. Síðast mun húsið hafa verið notað til reglulegar íbúðar árið 1935.
Í húsinu voru fyrir merkar heimildir um skólahaldið, s.s. kennslubækur, ritgerðir og einkunnir einstakra nemenda. Þá hafði verið safnað í það ýmsum munum úr sveitinni, s.s. reiðtygum, veiðarfærum, handverkfærum o.fl. Eflaust mun eitthvað af því nýtast fróðleiksfúsum í framtíðinni. Afkomendur Erlendar Magnússonar frá Kálfatjörn gáfu Minjafélaginu húsið.
Uppgert Norðurkotið mun án efa setja svip sinn á hinn nýja safnareit við Kálfatjarnarkirkju í framtíðinni.
Til baka var gengið eftir gömlu kirkjugötunni að Kálfatjörn. Gatan hefur verið jöfnuð þar sem fyrir er golfvöllurinn nýmóðis, en kylfingarnir kunnu sig. Þeir lutu í lotningu fyrir göngufólkinu, sem gekk líkt og kirkjugestir vestan af Ströndinni forðum, áleiðis að Kálfatjarnarkirkju.

Norðurkot

Norðurkotsbrunnur.

Ofar, við gömlu götuna vestur á Strönd, mátti sjá klöpp huldukonunnar, sem getið er í þjóðsögu og á að hafa gerts þar árið 1892. Heimasætan, nýfermd, dreymdi að hún væri stödd suður á túninu á Kálfatjörn. Sá hún þá hinum megin við túngarðinn á Hliðstúninu grannleita konu, frekar fátæklega búna vera að reka kú. Hún hljóp til hennar og ætlaði að hjálpa henni að reka kúna en spyr hana um leið hvar hún eigi heima.
Þá svarar konan: „Ég er huldukona og á heima í þessari klöpp“, og bendir á klöpp sem fólk var vant að ganga yfir þegar það fór að heiman suður á Ströndina.
Stúlkan bauð huldukonunni að þiggja hring ömmu hennar, sem ég er með á hendinni. Huldukonan baðst undan svo góðri gjöf en bað um flauelspjötlur, sem stúlkan hafði. „Það á líka að ferma hjá mér dóttur mína, en ég er svo fátæk að ég get ekki keypt flauel á treyjuna hennar. Ég skal skila þeim öllum jafnóðum aftur, þegar ég hef notað þær“, sagði huldukonan. „Ég skal sjá til þess að þú verðir lánsmanneskja“, bætti hún við. Var svo draumurinn ekki lengri.
Líður svo tíminn fram á haust. Einn dag er það, er stúlkan opnar kistilinn sinn að allar pjötlurnar liggja þar eins og hún skildi við þær um vorið.
Þarna eru sögur til um hvern hól og sérhverja tóft.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11. mín.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.