Kapella í Kapelluhrauni – Þorbjarnarstaðir
Gengið var að „kappellunni“, sem eitt sinn átti að hafa verið í Kapelluhrauni, Brunanum eða Nýjahrauni, eins og hraunið var nefnt eftir að það rann seint á 12. öld (1188).
Við „kapelluna“ er merki er segir til að þarna sé um friðlýstar fornminjar að ræða. Kristján Eldjárn, ásamt fleirum, gerði rannsókn á kapellunni í Kapelluhrauni árið 1950, en þá var kapellan í óröskuðu hrauni, “niðurgrafin” í það að mestu. Í rústinni fundust ýmsir munir, m.a. líkneski af heilagri Barböru, verndardýrlingi ferðalanga og síðar málmiðanaðarmanna. Um kapelluna er m.a. skrifað í “Heilög Barbara mær og kapella hennar” (Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Rvk. 1973, bls. 88). Þá skrifaði Kristján Eldjárn um hana í grein sinni: “Kapelluhraun og Kapellulág” (Fornleifarannsóknir 1950 og 1954). Einnig í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1955-1956, Rvk. 1957, bls. 5-34. Þá er fjallað um kapelluna í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. II bindi. Rvk. 1954, bls. 78.
Nú er “kapellan” skammt sunnan Keflavíkurvegar gegnt Álverinu, en hraunið dregur nafn sitt af kapellu þeirri er Kristján Eldjárn rannsakaði árið 1950. Síðan hefur mikið gengið á, hraunið fjarlægt, hinni fornu kapellu verið raskað og “ný” hlaðin á hraunhól í hennar stað. Eftir að Kristján Eldjárn rannsakaði kapelluna ásamt fleirum 1950 segir hann svo frá:
„Fyrir sunnan Hafnarfjörð liggur leiðin yfir úfinn brunafláka sem á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Í þessu hrauni er Kapellan og eftir henni heitir hraunið Kapelluhraun, en hefur heitið Nýjahraun á miðöldum, því að það hefur runnið eftir að land byggðist, líklega þó mjög snemma á öldum. Kapellan er lítil opin húsarúst rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur hefur verið þegar eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.“ Rétt er að geta þess í þessu sambandi að gamli stígurinn (Alfararleiðin) í gegnum hraunið lá (og liggur) sunnan Þorbjarnarstaða, ofan Gerðis, í krikann, sem þar er og þaðan lá hann í gegnum hraunið. Hefur hann stefnt á vörðu, sem enn sést og er sunnan vegarins skammt austan Álversins. Þaðan lá hann á ská í gegnum hraunið áleiðis að Hvaleyri.
Núverandi “kapella” er norðan við þennan stíg, sem þá var. Segja má að „kapellan“ haldi við að nokkru minningunni um gömlu kapelluna sem og tilgang hennar á langri leið í gegnum úfið hraun, sem reyndar var það eina á Alfararleiðinni því alls staðar annars staðar er um um greiðfært helluhraun að fara, nema ef vera skyldi við rönd Afstapahrauns í Kúagerði.
Núverandi “Kapella” er 2,40 m á lengd og 2,10 m á breidd að innanmáli. Veggirnir eru hlaðnir úr hraunhellum og að mestu uppistandandi. Ekki vottar fyrir mosató á veggjum, líkt og sjá má á myndunum af gömlu kapellunni frá 1950, en þá var rústin þakin gamburmosa.
Við uppgröftinn 1950 fundust allmargir gripir. Sá merkasti þeirra er lítið líkneski af heilagri Barböru, brotið um mjaðmir en nú um 3,3 cm á hæð. Líkneskið er varðveitt í Þjóðminjasafni (Þjms. 14293). Þessi fundur benti til þess að húsið væri í raun og veru kapella frá katólskum tíma og að ferðamenn um hraunið hafi komið þar við og gert bæn sína. Þann 4. des. 1981 var styttu af heilagri Barböru, gerð af W. Millmann, komið fyrir í hinni nýju „kapellu“ í Kapelluhrauni.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi verið drepinn í Kapelluhrauni og grafinn í kapellunni til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans. Engin ummerki eru á staðnum (endar búið að raska öllu svæðinu meira og minna) benda þó til þess að þessi sögn eigi stoð í raunveruleikanum, en hins vegar styrkja frásagnir af aðförinni að Kirkjubóli á Rosmhvalanesi, þar sem sótt af að Kristjáni skrifara og þeim er hann hýsti eftir dráp Jóns Arasonar 1550, að nokkru þá frásögn. Þar voru drápsmenn Jóns handteknir, sumir drepnir en aðrir færðir áleiðis til yfirvaldsins á Bessastöðum. Á leiðinni leiddist mönnum þófið og stjaksettu við kapelluna í Kapelluhrauni. Það segir sagan að minnsta kosti. Líklega hefur verið erfitt að „grafa“ menn í hrauninu, en þá hefði verið hægt að husla.
Frá “kapellunni” var gengið að Þorbjarnarstöðum í Hraunum. Á leiðinni var litið á síðustu leifar elsta hluta Keflavíkurvegarins í Hafnarfirði þar sem hann kom niður í Brunnann ofan við Straumstjarnir. Gengið var að gömlu heimaréttinni norðan við Þorbjarnarstaði, skoðað bæjarstæðið, en það er hið síðasta er hýsti „hafnfirskan“ torfbæ í þeirri gömlu mynd, kíkt á Gránuskúta og loks gengið suður yfir Alfararleiðina gömlu og upp að Þorbjarnarstaðarréttinni austan við Miðmundarhól (sem á er Miðmundarvarða). Falleg kvöldsólin gyllti grænt grasið innan réttarveggjanna.
Hraunin lágu milli Straumsvíkur og Hvassahrauna og tilheyrðu Álftaneshreppi frá fornu fari. Árið 1878 urðu þau hluti Garðahrepps þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp. Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi 1908 fleygaði bærinn Garðahrepp í tvennt, en Hraunin tilheyrðu áfram Garðahreppi. Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær skika úr landi Straums sem var í eigu Bjarna Bjarnasonar fyrrum skólastjóra Flensborgar og Skógræktar ríkisins og 1955 var gerður makaskiptasamningur við Skógræktina um viðbótarhluta úr landi Straums. Árið 1964 höfðu Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur makaskipti á löndum og komu Hraunajarðirnar sunnan bæjarins í hlut Hafnarfjarðar. Fyrir u.þ.b. tveimur árum keypti Álfélagið landið sunnan þess, umhverfis Þorbjarnarstaði, af Skógrækt ríkisins. Jafnhliða því “seldi” Hafnarfjarðarbær félaginu hluta af Þorbjarnarstaðalandi án þess kannski að gera sér grein fyrir því hvað var verið að selja í raun og veru. Svæðið, þótt lítið sé eftir að því, er í raun og veru hið merkilegasta í ljósi sögu og búskaparhátta í Hraunum í gegnum aldirnar. En því miður eru þeir ekki margir til, sem áhuga hafa á þeirri hlið umhverfis- og búsetumálanna. Nóg um það í bili.
Íbúum Reykjanesskagans hefur löngum verið skipt í útnesjamenn sem bjuggu utan Kúagerðis og innnesjamenn sem bjuggu í Álftaneshreppi og innan hans. Í Hraunum bjuggu Hraunamenn sem voru jafnframt innnesjamenn.
Fornir stígar og götur vísuðu nesjamönnum og ferðalöngum veginn um Suðurnes fyrrum. Fjölförnustu göturnar voru svokallaðir Alfaravegir sem liggja út og inn Reykjanesið. Þvert á Alfaraveg eru síðan stígar eins og Rauðamelsstígur, sem liggja suður í Almenning og upp í fjöllin ýmist til Grindavíkur eða Krýsuvíkur. Innan Hraunahverfis voru einnig margir stígar og götur s.s. Sjávargata, Straumsvegur, Skógarstígur, Jónsbúðarstígur og Lónakotsgata.
Ekki er vitað með vissu hvenær búskapur hófst í Hraunum. Þó er talið, útfrá fornum rústum og skipan þeirra, að búskapur hafi verið við Óttarsstaðir í kringum árið 1200.
Fáein bæjarhús frá síðustu öld standa enn í Hraunum, en mun algengara er að sjá tóftir býla, hjáleiga og gripahúsa. Helstu lögbýli í Hraunum voru (talið frá suðri til norðurs): Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot. Þessum býlum fylgdu hjáleigur og þurrabúðir s.s. Gerði, Péturskot, Litli Lambhagi, Þýskabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarsstaðargerði og Eyðikot. Túnskikar voru yfirleitt girtir vandlega hlöðnum tvöföldum grjótgörðum sem sjást enn, þá má víða sjá upphlaðna brunna og skjólgarða sem marka kvíaból, fjárréttir og nátthaga.
Sunnan Reykjanesbrautar í Almenningi eru selin í 3 – 4 km fjarlægð frá bæjunum. Selin voru einskonar framlenging á búskap jarðanna. Snemma á sumrin flutti vinnufólk sig upp í selin með kindur og kýr og stundaði þar búskap til haustsins. Á þessum tíma var aflað matar og afurðir unnar fyrir komandi vetur.
Við helstu götur og við sum selin eru náttúrulegir brunnar í klöppum sem geymdu rigningarvatn fyrir ferðalanga, fjársmala, matselju og þá sem leið áttu hjá. Þá má ennfremur sjá nátthaga, fjárskjól og smalaskúta við selin.
Sauðfjárbúskapur var aðalbúgreinin í Hraunum. Sauðfé var haft á útigangi í Almenningi eða á fjörubeit. Sauðir voru ekki teknir á hús og leituðu sjálfir í skjól eða skúta í illviðrum. Fjárskjól leynast víða í Hraunum. Sauðamenn eða smalar fylgdu sauðum sínum og unnu einmanalegt og erfitt starf. Lömb sem sett voru á að hausti voru höfð í lambakofum og hrútar í hrútakofum. Víða má sjá réttir s.s. Þorbjarnarstaðarétt sem var haustrétt Hraunabænda, Óttarstaðarétt og réttina við Lónakot sem tók 70-80 fjár. Þessar réttir gegndu mikilvægu hlutverki þegar sá siður að færa frá var enn tíðkaður, en hann lagðist af seint á 19. öld.
Á 18. öld var algeng búfjáreign í Hraunum 1-3 kýr og 18-20 kindur en fækkaði þegar bráðapestir eða fjárkláðar geisuðu. Um miðja 19. öld og fram á 20. öldina fjölgaði sauðfé í Hraunum og héldu bændur þá 80-100 kindur að meðaltali.
Mjólkandi kýr gátu verið tvær og kvíga til viðbótar. Oft fylgdu kýrnar með í selið eða voru hafðar nær bæjum í kúarétt á sumrin. Flestir bændur áttu tvo hesta, en kotungar engan eða í besta falli einn hest til flutninga.
Búskapur lagðist af að mestu á kreppuárunum eða um 1930. Búið var í Óttarsstöðum eystri til ársins 1952 og í þeim vestri til 1965. Síðasti ábúandi Hraunanna var Guðmundur Sigurðsson bátasmiður, sem lést árið 1986. Í dag eru aðeins sumarbústaðir í Hraunum og eru þar elst húsa Óttarsstaðir vestri og Eyðikot.
Sjósókn var Hraunamönnum nauðsyn. Heimaræði kallaðist útræði sem stundað var frá jörðum sem lágu við sjó. Uppsveitarbændur fengu oft leyfi sjávarbænda til að stunda sjósókn frá jörðum þeirra og senda vermenn á vertíð. Var það kallað að hafa inntökuskip á jörðinni og bændur sem sendu menn í ver nefndust útvegsbændur. Minjar um útræði eru víða í Hraunum; þurrabúðir, vörslugarðar og fiskreitir. Í fjörunni innan skerjagarða mótar fyrir uppsátrum, fiskbyrgjum og vörum þar sem bátar voru dregnir upp öldum saman, t.d. Péturskotsvör, Straumsvör, Þýskubúðarvarir tvær, Jónsbúðarvör, Óttarsstaðavör og Eyðiskotsvör.
Söltekja, skeljafjara og hrognkelsafjara voru hlunnindi. Skelfiskur var oft notaður til beitu, en verðmeiri voru auðfönguð hrognkelsi, sem fjaraði undan í fjörupollum.
Sérhver þúfa, gjóta, hóll og hæð hefur sitt nafn, sem gefur umhverfinu merkingu og aukið gildi. Oft reyndust hólar og hæðir vera merkileg kennileiti eða vegvísar og gerðu mönnum auðveldara að ferðast um svæði og vísa til vegar þegar kennileiti hétu einhverjum nöfnum. Mörg örnefni hafa haldist óbreytt um aldir, en sum hafa breyst eftir búsetu fólks, t.d. er ekki óalgengt að kot eða túnskiki hafi breytt um nafn eftir því hvað ábúandinn hét.
Þá eru sum örnefni sem einungis hafa haft gildi fyrir afmarkað svæði. Í því sambandi má nefna nöfn hóla og hæða umhverfis bæjarhús Óttarsstaða, sem þjónuðu þeim tilgangi að segja til um sólargang, svokölluð eyktarmörk. Það eru örnefni eins og Hádegishæð (kl. 12:00), Miðmundarhæð (um kl. 13:30), Nónhóll (kl. 15:00), Miðaftansvarða (kl. 18:00) og Náttmálahóll (kl. 21:00). Slík eyktarmörk koma einnig fyrir að einhverju leyti við Þorbjarnarstaði og hafa þá einungis gilt fyrir það svæði. Svo eru mörg örnefni sem gefa skýra mynd af því hvaðan þau eru upprunnin, eins og t.d. Smiðjubali, Fjárhlið, Markhóll og önnur í svipuðum anda.
Textinn er að hluta til fenginn að láni frá UÚH.