Karlshóll í Vogum

Vogar

Í bókinni „Strönd og Vogar“ fjallar  Árni Óla m.a. um „Karlshól“ í Vogum. Hóllinn er nú horfinn þrátt fyrir að hafa verið talinn álagablettur fyrrum:

Vogar

Karlshóll – loftmynd 1999 t.v..

„Karlshóll heitir í túninu á Norðurkoti í Vogum. Þetta er hraunhóll, en mjög gróinn og er talið, að þar muni vera bústaður huldufólks. Þau álög hvíla á hólnum, að hann má ekki slá, og hafa menn forðazt það. Ekki er vitað hvað við liggur, ef hóllinn er sleginn. En komið hefir það fyrir, hvað eftir annað, ef slegið var hærra í hólinn en vant var, að einhver ótjálga kom í kýrnar í Norðurkoti eða þá að þeim hlekktist eitthvað á.
Hefir það skeð í minnum þeirra manna, er enn em á lífi. En mörg ár em nú síðan svo hátt hefir verið slegið í hólinn, að það hafi getað valdið óhappi.“

Í Dagblaðinu-Vísi árið 2006 er fjallað um „Álfavandræði í Vogum“:

Vogar

Vogar – heimili eldri borgara 2020.

„Sveitarstjórn Voga á Vatnsleysuströnd leitaði nýlega til Erlu Stefánsdóttur álfasérfræðings og bað hana að koma og leysa vandamál í tengslum við byggingu fyrir eldri borgara. Á byggingarreit við Vogagerði, þar sem Búmenn ætla að reisa svokallað Stórheimili fyrir eldri borgara, stendur álfhóll. Sveitarstjórninni var umhugað um að styggja ekki álfana vegna framkvæmdanna við byggingu hússins og því var Erla fengin til að ræða við álfana og bjarga málinu.

Erla Stefánsdóttir

Erla Stefánsdóttir.

„Það er ekkert merkilegt við þetta,“ segir Erla. „Ég er oft fengin til að leysa svipuð vandamál víða um land.“ Að sögn Erlu fór hún einfaldlega með þuluna gömlu úr þjóðsögunum: „Fari þeir sem fara vilja og veri þeir sem vera vilja mér og mínum að meinalausu…“ Auk þess að biðja bæn.
Aðspurð um hvort hún hafi séð álfa á þessum umrædda bletti segir Erla svo vera og að þeir séu í raun lítt frábrugðnir fólki. Og klæðnaður þeirra hefur einnig fylgt tíðarandanum, margir þeirra hafi skipt vaðmálsbuxum út fyrir gallabuxur svo dæmi sé tekið.
Á vefsíðu sveitárfélagsins er greint frá þessu máli og undanfara þess en nokkrir íbúar sveitarfélagsins lýstu yfir áhyggjum sínum vegna röskunar á þessum forna álagabletti sem varðveittur hefur verið í margar kynslóðir. „Allt fram til dagsins í dag hafa verið til óskrifaðar reglur um það að háreisti barna og hvers konar rask sé ekki viðhaft á hólnum. Til eru sögur sem segja frá samskiptum íbúa hólsins við aðra Vogabúa, aðallega þó um hrakfarir þeirra síðarnefndu eftir að hafa átt við hólinn. Fleiri álagabletti er að finna í sveitarfélaginu Vogum og er Karlshóll sem stendur við Hafnargötu gott dæmi um farsælt sambýli álfa og manna,“ segir meðal annars á vefsíðunni.
Róbert RagnarssonÁ fundi skipulags- og byggingarnefndar í vor var ákveðið að kalla á Erlu til að ræða við íbúa hólsins um þær miklu framkvæmdir sem nú standa fyrir dyrum. Á kvenréttindadaginn, þann 19. júní, kom Erla og ræddi við íbúana. „Álfarnir fullvissuðu Erlu um að þeir væru sáttir við það að á þessum stað yrði reist Stórheimili þar sem eldri borgarar í Sveitarfélaginu Vogum geta átt notalegt heimili með glæsilegu útsýni yfir Faxaflóann. Hólsins verður eflaust saknað en álfarnir hafa nú fundið sér annan samastað, en vildu ekki gefa hann upp.“ Segir á vefsíðunni.
Róbert Ragnarsson sveitarstjóri í Vogum segir að Erla hafi verið kölluð til sem sérfræðingur og að hún hafi fengið greitt í samræmi við það.
„Þetta var þó ekki há upphæð,“ segir Róbert. „Raunar ein hagstæðasta ráðgjöf sem við höfum keypt.““

Heimildir:
-Strönd og Vogar, Árni Óla, 1961, bls. 268.
-Dagblaðið-Vísir, 106. tbl. 30.06.2006, Álfavandræði í Vogum, bls. 70.

Vogar

Vogar – loftmynd frá 1954 sett yfir loftmynd frá 2020.