Kerlingaskarð – brennisteinsnámur – Kistufellshellar
Gengið var upp Selvogsgötuna um Kerlingaskarð.
Áður en komið var efst í skarðið var beygt til austurs að tótt brennisteinsmanna undir hlíðinni. Enn sést móta vel fyrir hleðslum umhverfis húsið, sem þar var. Efst í skarðinu var staðnæmst við drykkjarsteininn, sem er vinstra megin við stíginn. Skálin var full af tæru vatni. Ofan skarðsins var beygt til vesturs ofan Tinda og haldið inn eftir sléttu helluhrauni Stórkonugígs norðan Draugahlíða. Á móti blasti Draugahlíðagígurinn, en rauði liturinn utan á honum gerir hann frábrugðinn öðrum gígum, sem eru fjölmargir, á svæðinu. Vatn er í gíg á hálsinum vestan Stórkonugígs. Gengið var niður hann að vestanverðu, eftir sléttum dal norðan hálsanna þar sem brennisteinsnámurnar eru sunnan undir.
Fast undir þeim að sunnanverðu eru tóttir af húsi námumanna. Englendingar hófu þar brennisteinsnám í kringum 1880 fyrir atbeina Skotans W.C. Spence Paterson, sem kenndi á Möðruvöllum í tvo vetur og varð síðan ræðismaður í Hafnarfirði. Það þurfti að brjótast í gegnum 3-4 m þykka hraunskorpu til að komast að brennisteininum og flutningar voru erfiðir, þannig að þessi starfsemi varð ekki langvinn. Flutningaleiðin var um Grindaskörð til Hafnarfjarðar.
Þegar komið var í hallann upp að Kistufelli var byrjað að leita að niðurföllum, sem þar áttu að vera. Í ljós komu þrjú op á stórri rás, sem lá NV-SA í brekkunni. Rás er upp í fyrsta opið, en þó ekki nema um 5 metra löng.
Þriðja opið er stærst. Niður úr því liggur stór rás, en mikið hrun er í henni. Hún endar í hruni eftir um 20 metra. Í neðsta opinu er einnig rás niður á við, um 15 metra löng. Hún virðist lokast í hurni. Alls virðist rásin vera vel á annað hundrað metra á lengd. Engin merki voru í rásinni.
Skoðaður var hellir norðaustan við Kistufellsgíg. Þar eru nokkar lágar rásir, en ein virtist þeirra stærst. Hún lofaði góðu, en lokaðist stuttu síðar.
Jarðföllin norðvestan við Kistufell voru skoðuð næst. Um er að ræða gríðarstóra katla. Í nokkrum þeirra eru hellar (geimar) og rásir. Í þeim geimum, sem kíkt var inn í, var merki HERFÍ. Á þeim stóð, auk nr. hellanna, “Hér voru á ferð Björn Símonarson og Sverrir P. Símonarson, 30. 08. 1997”.
KST-1, sem fékk staðarnafnið “Ískjallarinn”, er í vesturenda efsta jarðfallsins, sem hellar eru í. Gatið liggur um 10 metra niður á við. Hægt er að komast ofan í hellinn með því að fara vinstra megin niður með niðurfallinu og þaðan af stórum steini á botninn. Rásin þar niður í er um 15 metra löng. Á leiðinni þarf að fara yfir ísfoss og síðan niður ísbrekku. Gæta þarf varúðar.
KST-2 fékk viðurnafnið “Jökulgeimur”. Þegar komið er niður í geiminn blasir ísgólf við. Það fyllir gólfið á milli veggja. Dropar falla úr loftinu og hafa þeir mótað bolla í ísinn. Bollarnir eru fullir af vatni og myndar samspil dropanna hljómkviðu í hellinum. Undir niðri heyrist í læk, sem rennur undir ísnum. Um 15 metrar eru á milli veggja og lofthæðin er mikil. Innar í hellinum er talsvert hrun. Inni á milli í hruninu eru glærir ísklumpar. Þegar komið er yfir hrunið tekur við rás áfram. Í henni er einnig allnokkur ís. Innst í hellinum er fallegur rauður litur í lofti. Alls er þessi hellir um 60 metra langur.
KST-3 var nefndur “Kistufellsgeimur”. Um er að ræða vítt gat í nýlegra hruni í minna jarðfalli ofan við eldra og stærra jarðfall. Þegar komið er inn og niður er komið í stóra hvelfingu.
KST-4 fékk nefnuna “Loftgeimur. Nafngiftirnar eru aðallega skráningarlegs eðlis m.t.t. GPS-punkta. Hellirinn er austan í miklu jarðfalli. Opið er stórt, en innan við það hefur loftið fallið í einu lagi ofan á hellisgólfið. Innar er grágrýtisgeimir. Hellirinn er ekki nema um 20 metrar.
Norðvestan við jarðföllin er mikil fallin hraunrás. Yfir hana liggur breið steinbrú. Greinilegt er að fallið hefur nýlega úr steinbrúnni beggja vegna. Í rásinni eru einnig mikil jarðföll og höft á milli. Stór op eru sumstaðar, en hellarnir eru stuttir. Þeir lokast yfirleitt með hruni. Gjá þessi er allöng og endar þar sem helluhraun hefur runnið í enda hennar þar sem hún er opin á móti nýja hrauninu.
Skammt austan við þessa miklu hraunrás eru nokkur op á rásum. Kíkt var inn um eitt opið, sem nýlega virtist hafa fallið niður. Hellirinn var nefndur Nýhruni, en þessi hluti hans var stuttur. Hann lokaðist í hruni eftir einungis nokkra metra. Hins vegar má sjá hraunrásina liggja áfram til austurs og á þeirri leið eru allnokkur op.
Norðan við Kistufell er alllöng gróin hraunrás. Víða í henni eru op og hellar innundir. Síðast er FERLIR var á ferð á þessum slóðum var gengið fram á a.m.k. tvö göt í hrauninu norðan við þessa grónu rás. Götin voru u.þ.b. 2-3 metrar í þvermál og virtust um 12-15 metra djúp.
Opið var þrengst og vítkuðu rásirnar niður. Snjór var í botninum á annarri þeirra. Þessi op sáust ekki fyrr komið var alveg að þeim. Þau urðu á vegi FERLIRs þegar gengið var frá Kerlingagili með beina stefnu á skarðið vestan við austustu hæðina norðan Kistufellsgíg. Þau eru ekki allfjarri brún hinnar nefndu hraunrásar. Opin fundust ekki að þessu sinni, en ætlunin er að ganga síðar sömu leið og fyrrum til að freista þess að finna þau aftur.
Skoðaðir voru á annan tug hella á Kistufellssvæðinu, en enginn var þó öðrum fremri.
Á leiðinni til baka var gengið yfir mikla hraunrás er lá til norðvesturs. Hún var um 10 metra breið og um átta metra há, slétt og gróin í botninn. Hvergi virtist vera þak á þessari rás.
Gengið var ofan hamrana í átt að Hvirfli, síðan niður í dalina og til baka ofan Draugahlíða. Í stað þess að fara niður Grindarskörð var farið niður skarðið vestan Grindarskarðstinda og síðan niður dalinn norðan þeirra. Það er mjög falleg leið. Þrjár rjúpur.
Gengið var tæplega 15 kílómetra. Veður var með ágætum – logn og hlýtt.