Kirkjuhöfn – Sandhöfn – Eyri
Gengið var frá bifreiðastæðinu sunnan Hundadals (þar sem laxeldisstöðin er sunnan Junkaragerðis) að Systrum, séstæðum vörðum á hólum norðaustan við gömlu Hafnarbæina. Sunnan í öðrum hólnum virðist vera fjárborg, sú 75. er FERLIR hefur skoðað á Reykjanesi fram að þessu.
Af hólnum sést vel yfir gömlu Hafnarbæina. Nokkrir hólar er með sjónum og hylja þeir tóttir gömlu bæjanna, Kirkjuhafnar, Sandhafnar og Eyrar(hafnar) eða Hafnaeyri. Þegar gengið er vestur eftir veginum, eins og nú var gert, sjást fyrst hlaðnir garðar á hægri hönd. Því næst sést grashóll, einnig á hægri hönd. Skv. upplýsingum Leós Jónssonar, sem mikið hefur gengið um þetta svæði og kynnt sér það af kostgæfni, heitir hóllinn Stekkhóll.
Leó ritaði góða lýsingu á svæðinu í 3. tbl. Áfanga árið 1991. Vinstra megin við veginn er klapparhóll. Á honum er hlaðið byrgi og varða trjónir hærra. Þá taka við hlaðnir garðar á hægri hönd og grashóll svo til alveg fram við fjörukampinn. Vestan hans er stór grashóll, Kirkjuhafnarhóll. Vestan hans er minni hóll, greinileg tótt. Handan vegarins er hóll og utan í honum garðhleðslur á tvo vegu. Að sögn Leós er þetta talinn vera gamall kirkjugarður Kirkjuhafnar, sem mun hafa lagst af um miðja 14. öld. Á norðanverðum hólnum er hringlaga tótt. Þarna gæti verið um gamla kapellu eða guðshús að ræða. Einnig myndarlega gröf, en tóttin norðan vegarins, sem minnst var á, gæti einnig verið tótt kirkju. Heimild er einnig um bæ á þessum stað, nefndur Bæli.
Vikið var út af þjóðveginum og gengið eftir stíg, sem nostrað hefur verið við. Stígurinn liggur út að öðrum stórum grashól, Sandhafnarhólnum. Í honum eru hleðslur og suðvestan undir honum eru garðhleðslur. Þar gæti hafa verið heimatúngarður. Vestan við hólinn er enn annar grashóll. Norðaustan í honum er hlaðinn garður og á honum sjálfum eru hleðslur. Þessi hóll mun hafa tilheyrt Sandhöfn.
Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru fyrr á öldum stórbýli og helsta útræði í Höfnum að sögn Leós. Talið er að býlin hafi farið í eyði á 17. öld. Gífurleg landeyðing hefur orðið á svæðinu. Gróður hefur eyðst og sandur lagst í lægðir. Munu Sandhafnabæirnir hafa verið tveir; Stóra- og Litla-Sandhöfn.
Umhverfis alla byggðina liggur vörslugarður, sem hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sést enn móta fyrir honum svo til alla leiðina. Samskonar garður umlykur einnig bæina austan Hundadals. Þegar staðið er á Sandhafnarhól og horft er til suðvesturs má sjá hleðslur austan við klapparhól. Þar er um að ræða gamla rétt. Hleðslur hennar eru nokkuð heillegar.
Norðvestar eru tóttir bæjarins Eyri, sem mun hafa verið í byggð fram á 4. áratug 19. aldra. Heillegasti hluti þessa gamla bæjar er hlaðin kálgarður á tanganum. Ofan og utan við tangann eru tóttir gamla bæjarins. Sá má hleðslur í þeim. Frá Eyri liggur stígur til vesturs upp á Hafnaberg. Efst á berginu eru vörður í Siginu og Berghóll (Bjarghóll). Í berginu vestan við vörðurnar er hellirinn Dimma.
Ofan við Eyri eru klapparhóll. Á honum eru þrjú hákarlabyrgi er nefnast einu nafni Hákarlabyrgi. Miðbyrgið stendur heilt að hálfu. Á milli þess og vestasta byrgisins er hlaðinn refagildra.
Svæði þetta er sennilega eitt það afskiptasta á landinu, en þó svo nálægt. Þegar laxeldisstöðin var reist í Hundadal var klippt á gamla Reykjanesveginn, sem liggur þarna meðfram gömlu byggðinni. Staðurinn hefur upp á allt að bjóða fólki, sem vill ganga um og skoða sögulega minjar og fallega náttúru. Þarna þarf að tengja gamla þjóðveginn þeim nýja og lagfæra hann svolítið. Upplýsingatafla á staðnum með skýringarmyndum myndi enn auka áhuga fólks á að koma þarna við, skoða sig um og njóta svæðisins. Veðurblíðan er og jafnan með eindæmum.
Frábært veður. (Sjá meira HÉRog HÉR.)