Kirkjustígur – frá Reynivöllum að Fossá
Kirkjustígur er gamla kirkjugatan um aldir millum kirkjunnar á Reynivöllum annars vegar og Fossár og Hvammsvíkur hins vegar. Áður en lagt var á hálsinn var tekið hús á séra Gunnari Kristjánssyni að Reynivöllum.
Gunnar sagðist aðspurður hafa farið stíginn oftleiðis. Hann sagði stíginn vel greinilegan á köflum. Mikilvægt væri þó að hitta strax rétt á hann Reynivallamegin. Best væri að skoða hlíðina fyrst úr fjarlægð og þá mætti sjá hvar stígurinn liggur á ská upp í hana beint fyrir ofan kirkjuna. Hann sýndi hvernig hún lá í þversniðum upp hlíðina millum Kippgils og Þinghúsgils. Um væri að ræða u.þ.b. 1 og 1/2 klst gang að Fossá.
Fyrst væri komið í svonefnda Fannhlíð, vel gróna brekku. Þaðan væri gott útsýni yfir Reynivelli og Kjósardalinn. Þegar komið væri upp á hálsinn væri einnig mikilvægt að kunna að gera sér grein fyrir framhaldinu. Gömul varða væri efst á brúninni og vörðubrot á leiðinni. Þegar upp væri komið yrði stígurinn smám saman öllu greinilegri.
Gunnar sagði leiðina hafa verið mikið farna milli Reynivalla og Fossár og Hvammsvíkur. Og þegar Ingunnarstaðakirkja var lögð niður hefði fólkið í Brynjudal sótt kirkju að Reynivöllum. Auk þess hefði meðhjálparinn átt heima á Fossá á 20. öld og þurfti að fara þar reglulega um. Útsýni yfir Kjós og Hvalfjörð væri ægifagurt af Reynivallahálsi.
Kirkjustígur var rakinn frá þeim stað er gamla kirkjan hafði staðið ofan við kirkjugarðinn. Þar má enn sjá leifar af henni í skriðu, sem á hana féll. Gatan liggur á ská upp hæð til austurs. Búið er að planta trjám í götuna á þessum kafla. Við hana, inni í skógarlundi, er tóft, hugsanlega hestagerði þar sem kirkjugestir gætu hafa geymt hesta sína meðan þeir voru í kirkju.
Ofar beygir stígurinn til norðurs, framhjá fjárhústóftum Við þær er gerði og heykuml. Skammt ofar er lítil ferningslaga tóft. Þar beygir gatan til norðvesturs, áleiðis að Kippgili. Þegar komið er að gilinu beygir hún aftur til norðausturs og hlykkjast síðan upp hlíðina líkt og Gunnar lýsti og sjá má á meðfylgjandi uppdrætti.
Þegar komið var upp í Fannhlíð var tækifærið notað og rifjaðir upp heimildir og lýsingar um leiðina og svæðið í kring.
Í örnefnalýsingur Ara Gíslasonar eftir séra Halldóri og Sigurjóni á Sogni segir m.a. „Úr Kippgili rennur lækurinn Kippur fyrir vestan Hjallholt og Kirkjugarðinn. Þessi litli lækur getur orðið geysivatnsfall í leysingum.
Austan við Kippgil tekur við stórt og mikið holt, sem heitir Hjallholt og er upp af kirkjunni. Hér upp af bæ lá gamall vegur yfir hálsinn og var nefndur Kirkjustígur. Hann byrjaði vestur við Kipp á Hjallholti heldur smáhækkandi, rétt austur að Þinghúsgili, er síðar getur. Síðan aftur til baka og áfram í krókum. Austur af Kirkjustíg og Hjallholti er gil eða lækur, sem heitir Þinghúsgil eða Stígsgil. Úr því er Þinghúslækur. Utan í Hjallholti er Kirkjubrekka. Þegar Stígsgil er nefnt því nafni, er það kennt við Kirkjustíginn.
Þegar komið er upp á neðri brún Reynivallaháls upp úr Kirkjustíg, blasir við grasigróin brekka, sem nær frá Þinghúsgili að Kippsgili og heitir Fannahlíð. Ótrúlegt er að hér sé ekki meira uppi. [Guðmundur Á. Jónsson frá Sogni (sjá nánar um hann þar) fór yfir skrá Reynivalla 26/7 1976 og skráði Páll Bjarnason eftir honum þessar upplýsingar: „Kippur: Guðmundur vandist því að nefna gilið þessu nafni, hann heyrði sjaldnast talað um Kippgil. Þegar komið er upp úr Fannahlíð, er lind, nefnd Gvendarbrunnur„.]
„Austan við götuna upp af Kirkjustíg er ás, sem heitir Prestsás, og á honum er varða rétt austan götunnar, Prestsvarða.“ [Gunnar Finnbogason segir nafnið eiga að vera Prestás ekki Prestsás]. „Svo er ás, sem snýr norður og suður og heitir Langimelur. Þar var eini staðurinn, sem hægt var að spretta úr spori uppi. Austan við Langamel að Langás heita Jöfnur, jafnir mosaflákar. Langás er einkennilegur.“ [Gunnar Finnbogason bætir við; „Holt við Langamel heitir Langholt og Þrívörður eru þar rétt hjá“.] „Þvert yfir hálsinn við norðurenda hans, í Fossárlandi, er Dyrahnúkur. Uppi á miðjum hálsi eru Teitsvörður.“
Séra Gunnar Kristjánsson lýsir svæðinu í ritverkinu Úr Kjósinni. Þar fjallar hann m.a. um Reynivallaháls, Kirkjustíg, Gíslagötu og Svínaskarðsveg, auk Reynivalla.
„Reynivallaháls
Hálsinn dregur nafn sitt af kirkjustaðnum, sem nánar segir frá síðar. Hann liggur í landsuður frá Hálsnesi í sveig inn að Fossárdal og Seljadal, um það bil tíu kílómetra leið. Austan við er svo Þrándarstaðafjall, nyrst, þá Hornafell og Kjölurinn, þar sem landið hækkar verulega og nær 738 metra hæð, þar sem hæst ber. Reynivallaháls er nokkuð jafnhár, hæstur er hann um miðbikið, á Grenshæðum, sem eru í 425 m hæð. Austan við Vindás rís svo Sandfell upp úr Hálsinum og er það 395 m yfir sjávarmál. Þar er Hálsinn breiðastur.
Víða er Hálsinn klettóttur mjög, einkum að norðanverðu upp af Grænuvík og Hvammsvík, þar sem þverhníptir klettar gera hann ókleifan. Sunnan til er brúnin einnig víðast hvar klettótt og illkleif. Hvarvetna eru hlíðarnar grasi grónar neðan til og sama er raunar að segja um mikinn hluta Hálsins uppi, þar sem víðast hvar skiptast á balar og flóar. Vestan við miðju er hann þó gróðurlítill þótt vestan Grenshæða séu gróskumiklar spildur, sem féð kann vel að meta.
Sunnan undir Hálsinum eru nokkrir bæir. Yst eru Hálsbæirnir, Neðri-Háls, Háls I og Háls II. Þá taka við Grímsstaðir, sem eru nýbýli úr landi Valdastaða, sem taka við þar fyrir innan. Þá er Sogn, sem í fornum skjölum heitir ýmist Sorn eða Sofn. Innan hans eru Reynivellir. Nokkru innar er Vindás fjær fjallinu en hinir bæirnir. Allt eru þetta frjósamar jarðir með góðu beitilandi, slægjur hafa löngum þótt bestar á bökkum og nesjum við ána. Löngum hefur dalurinn þótt votlendur vestan við Vindás en framræsla síðustu áratuga hefur bætt þar verulega um.
Yfir Hálsinn liggja þrjár fornar alfaraleiðir, sem nú verður getið nánar. Vestast er Kirkjustígur, beint upp af kirkjunni, þar fyrir innan er Gíslagata á landamærum Reynivalla og Vindáss, og loks þjóðleiðin forna, Svínaskarðsvegur, austan til í hlíðum Sandfells. Allar liggja þessar leiðir að lokum niður að Fossá norðanvert í Hálsinum.
Kirkjustígur
Kirkjustígur er beint upp af Reynivallakirkju milli Kippsgils að vestan og Þinghússgils að austan. Hann er allbrattur og er þó oft farinn bæði af gangandi fólki og ríðandi, sem teymir hesta sína upp stíginn eða niður.
Leiðin var fjölfarin fyrr á tímum, ekki hvað síst af þeim, sem sóttu kirkju frá bæjunum í Brynjudal, Fossá og Hvítanesi.
Efst á stígnum er grösug hlíð, er Fannahlíð nefnist. Ofan við hana er lind, sem heitir Gvendarbrunnur. Vestan við Kirkjustíginn hækkar landið í átt til Grenshæða en stígurinn heldur áfram til landnorðurs, skáhallt yfir Hálsinn. Langimelur heitir melurinn á miðjum Hálsinum. Við syðri enda melsins er Prestsvarða en við þann nyrðri eru Teitsvörður. Þegar halla tekur norður af er hægt að fara í átt til Hvítaness, það er leið sú er farin var til kirkju fyrr á tímum frá þeim bæ.
Útsýni efst á Krikjustígnum er forkunnarfagurt og gott að staldra við þar og skoða, það sem fyrir augu ber. Það fyrsta, sem grípur augað er Laxá, þar sem hún liðast út dalinn í mjúkum hreyfingum og má vel átta sig á hinum frjósömu nesjum, sem hún myndar. Beint niður af Reynivöllum er Stekkjarnes norðan árinnar, þar fyrir vestan og sunnan ár er Hurðarbaksnes, vestan þess og norðan árinnar er Kotabakki og Garðsnes austast, þá Baulunes. Vestan þess sunnan árinnar er nes mikið er heitir Hrosshólmi, vestan og sunnan til í honum er farið yfir Heyvað og er þá komið yfir á Suðurnes. Handan þess er svo Fauksnes, sem er milli Laxár og Bugðu, en sjá má hvar hún rennur í Laxá gegnt Ásgarði, barnaskólanum, sem stendur á Valdastaðaás.
Suður af Suðurnesi eru tveir bæir, Káranes nær ánni en Káraneskot fjær. Káranesfljót nefnist sá hluti Laxár, sem rennur vestur með Suðurnesi, norðan til í því er vað á ánni er heitir Laxavað.
Undir Meðalfelli má sjá tvo bæi, austar eru Þorláksstaðir en vestan þeirra er Hurðarbak. Utan til í Meðalfelli er klettur einn mikill hátt í brúninni er Hurð nefnist. Austan við Káraneskot má sjá sef nokkuð er Káranessef heitir, enn austar er mun stærra sef, það er Hurðarbakssef, Valdastaðasef er þriðja sefið á þessum slóðum, það er niður undan Grímsstöðum.
Sé horft lengra til vesturs blasir Laxvogurinn við og Laxárnesbærinn; norðan vogsins eru Hálsbæirnir. Sunnan til í vognum vestan Laxárnes er Harðbali, upp af honum er Eyrarfjallsvegur. Í vestri blasir Akrafjall við og sjá má allt vestur í Melasveit.
Esjan gægist yfir Meðalfellið og sé horft í austur tekur við Möðruvallaháls, Skálafell, Hádegisfjall og nær er svo Vindás.
Þegar haldið er áfram norður yfir Hálsinn tekur við fagurt útsýni til norðurs yfir Hvalfjarðarstrandarfjöllin og lengra til norðurs má sjá Ok og Langjökul en austan við Hvalfjörð eru Þyrill, Múlafjall, Hvalfell og Botnssúlur.
Gíslagata
Önnur leið yfir Hálsinn er á landamerkjum Vindáss og Reynivalla upp með Gíslalæk, það er Gíslagata. Hún hefst á Gíslholti, þar sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur hafið skógrækt og komið sér upp bækistöð. Síðan liggur vegurinn eftir vel merkjanlegri slóð upp á Hálsinn. Efst taka svo við Gíslagötudrög. Vegurinn beygir til austurs þegar upp er komið og er þar farið yfir Gíslalækinn og haldið síðan nánast beint til norðurs yfir Hálsinn.
Austan götunnar eru Dauðsmannsbrekkur, sem svo heita vegna þess að þjóðsagan greinir frá stigamennsku Magnúsar bónda á Fossá, sem sat þar fyrir ferðamönnum á 18. öld. Þegar upp á Hálsinn er komið blasir Sandfell við í suðaustri og vestan við það er Sandfellstjörn.
Svínaskarðsvegur
Svínaskarðsvegur dregur nafn sitt af Svínaskarði milli Skálafells og Móskarðshnúka í Esju og segir frá syðri hluta leiðarinnar annars staðar í þessari bók. Vegurinn liggur út Svínadal, yfir Laxá og upp með Vindáshlíð austan Sandfells og er leiðin auðfundin enda oft farin á sumrin, einkum af hestamönnum en einnig göngumönnum.
Leiðin sameinast af Gíslagötu norðan til í Hálsinum. Svínaskarðsleið liggur norður af sunnan við svonefnda Hryggi, síðan beygir leiðin til norðurs með fram Dauðsmannsbrekkum, sem eru þá á hægri hönd og sér þaðan niður í Seljadal. Það er grösugur dalur og sér enn móta fyrir rústum bæjar, er þar stóð í miðri austurhlíðinni; þar bjó síðast Gísli Einarsson ásamt fjölskyldu sinni 1897-1921. Þar er gott sauðfjárland. Austan Seljadals er Hornafell en norðvestan við bæjarrústirnar eru Hjaltadalur, í honum rennur Hjaltadalsá. Í ánni er Folaldafoss.
Eftir Seljadal rennur Seljadalsá, sem breytir um nafn eftir að Hjaltadalsá hefur sameinast henni og heitir þaðan í frá Fossá og dalurinn Fossárdalur.
Leiðin liggur sem fyrr segir ekki niðri í dalnum heldur vestan til í honum, uns hún fer niður í lítið dalverpi er Sperribrekkugil heitir og er ársprænan Mígandi í því gili. Við dys eina, sem er rétt ofan við Míganda, sameinast Svínaskarðsleið Gíslagötu.
Þegar komið er niður í Fossárdalinn liggur leiðin eftir vesturhlíð Þrándarstaðafjalls, eftir svonefndum Reiðhjalla og beygir síðan til austurs inn á við í átt til Brynjudals. Önnur leið liggur svo til vesturs.
Í Fossárdal er forvitnilegt að svipast ofurlítið um og skoða gömlu fjárréttina niðri við ána, um það bil 250 metra frá steypta veginum. Niðri við veginn er svo önnur hlaðin rétt í Kálfadal, hún er allmiklu yngri en hin. Fossinn neðst í ánni nefnist Sjávarfoss.
Loks mætti nefna eina leið enn upp á Hálsinn að sunnanverðu, milli Gíslagötu og Svínaskarðsvegar, suðvestan til í Sandfelli, skammt austan Vindáss. Þetta er allbrött leið, sem liggur upp á Hálsinn vestan við Sandfell inn á Gíslagötu. Selstígur, en svo heitir þessi leið, lá upp að Vindásseli í Seljadal framanverðum.“
Þá fjallar Gunnar um Kirkjustaðina í Kjós. Hér er athyglinni sérstakleg beint að Reynivallakirkju.
„Kirkjustaðir í Kjós
Til forna voru kirkjur á sjö stöðum í Kjósinni. Kirkja var á Ingunnarstöðum fram til 1820 (hún var uppistandandi þegar sr. Sigurður Sigurðsson ritaði sóknarlýsingu sína 1840). Þá var kirkja í Hvammi fram á 18. öld og eru þar örnefni er á hana minna, t.d. Kirkjuklettar (líka til Kirkjusteinn um sama stað) skammt vestan við Hvammsós. Þá var kirkja á Meðalfelli fram yfir aldamótin 1800. Í Eyjum var kirkja til forna og þar eru örnefni, er á tilvist hennar minna, t.d. Kirkjuhjalli og Kirkjuhjallagil. Í Miðdal var kirkja fram eftir öldum, þar eru örnefni eins og Kirkjubrekka og Kirkjuhamar, sem á hana minna, einnig á Eyri og loks á Reynivöllum, þar sem kirkja hefur staðið frá ómunatíð og allt til þessa dags.
Ævafornir máldagar eru til fyrir kirkjurnar á Ingunnarstöðum, Eyjum og Reynivöllum. Það var enginn annar en Þorlákur biskup hinn helgi Þórhallsson, sem setti kirkjunum á Ingunnarstöðum og í Eyjum máldaga árið 1180. Ingunnarstaðir voru á síðari tímum taldir meðal stólsjarða frá Skálholti. Í máldaga kirkjunnar segir m.a., að hún sé helguð heilagri Agötu, og var hún allvel búin, átti m.a. tíðabækur fyrir allt árið, messuföt, silfurkaleik, róðukross, tvenn altarisklæði, altarisbríkurklæði o..fl.
Í Eyjum var Maríukirkja eins og á Reynivöllum. Í máldaga hennar segir, að hún eigi skóg í Svínadal! Þessi kirkja var vel búin gripum, hún átti „búning allan í tjöldum og altarisklæðum, krossum og klukkum og kertastjökum“.
Í Vilkinsmáldaga er getið um kirkju í Mýdal, þ.e. Miðdal, og í sömu máldagaskrá, sem er frá 1397 er að finna máldaga Meðalfellskirkju. Sá Máldagi hefst á þessa leið: „Á Meðalfelli í Kjós er kirkja vígð með Guði, Maríu drottningu og hinum heilaga krossi, Jóni postula, Ólafi konungi, Þorláki biskupi og Maríu Magdalenu“. Um búnað hennar er þess m.a. getið, að hún hafi átt „2 klukkur, útiklukku eina, 2 smáklukkur, 3 altarisklæði og 2 bríkarklæði, kross með líkneskjum, Maríuskrift, Ólafsskrift, Þorláksskrift, eina mundlaug“ o.fl. Loks er rétt að minna á, að auk Reynivallakirkju er nú kirkja í Vindáshlíð, sem að vísu er ekki sóknarkirkja.
Kirkjustaður og prestssetur hefur verið á Reynivöllum frá því elstu heimildir herma. Þar var einnig lengst af miðstöð byggðarinnar. Um langan aldur var þar þingstaður sveitarinnar og þinghús, þar var rekinn fyrsti barnaskólinn í Kjósinni, hann var stofnaður kringum 1880 og starfaði í sérstöku húsnæði, sem byggt var fyrir skólastarfið. Þá var prestur á Reynivöllum sr. Þorkell Bjarnason, sem áður er getið. Hann var afkastamikill á ýmsum sviðum menningarlífsins, ritaði m.a. Íslandssögu, sem lengi vel var eina Íslandssagan, sem kennd var í skólum landsins. Þá skrifaði hann einnig stórmerka bók um sögu siðbótarinnar hér á landi auk fjölda ritgerða um ýmis efni. Áður hefur verið getið um frumkvæði hans í laxeldi.
Eftirmaður hans var sr. Halldór Jónsson, sem prestur var á Reynivöllum í hálfa öld, frá 1900 til 1950. Sr. Halldór var sömuleiðis merkur prestur á sinni tíð, framfarasinnaður í búskaparháttum og tónskáld ágætt. Oddviti sveitarinnar var hann um árabil. Hann hefur ritað endurminningar sínar, sem eru merk heimild um líf og starf Kjósverja í þá hálfu öld, sem hann var sálnahirðir þeirra.
Kirkja sú, er nú stendur á Reynivöllum, er ein elsta timburkirkja landsins. Hún var reist árið 1859 í tíð sr. Gísla Jóhannessonar og skammt frá hafði bærinn staðið frá ómunatíð, uns hann var færður á svipaðar slóðir og hann er nú, þó lítið eitt neðar, eftir skriðuföll mikil, sem gengu ítrekað yfir staðinn á 17. öld.
Leyfi til þess að flytja kirkjuna í Kirkjubrekkuna, þar sem hún er nú, fékkst þegar núverandi kirkja var reist. Er kirkjan í hefðbundnum stíl síns tíma en þó dálítið breytt frá upphaflegri mynd, hún hefur verið lengd ofurlítið, forkirkju bætt vestan við, og einnig hefur sú breyting verið gerð á henni að innanverðu, að prédikunarstóllinn, sem áður var fyrir ofan altari, var færður á suðurvegg. Þetta var gert skömmu fyrir 1930 og um svipað leyti voru pílárar í skilrúmi milli kórs og skips fjarlægðir og er þar nú aðeins lágur veggur eins og víða í kirkjum frá seinni hluta 19. aldar, sem svipaðar breytingar hafa verið gerðar á. Auk þess hafa bekkir verið endurnýjaðir í kirkjunni. Altaristafla eftir Brynjólf Þórðarson prýðir kirkjuna auk ýmissa annarra merkra gripa. Á Þjóðminjasafninu eru nokkrir góðir gripir úr Reynivallakirkju, m.a. tvær gamlar altaristöflur, kaleikur og patína frá 14. öld, ljósasax og fleiri gripir.“
Frá Fannhlíð liggur gatan uppleiðis með læk er rennur niður í Þinghúsgil (þeim vestari). Eftir að læknum sleppir má sjá a.m.k. 5 vörðubrot við götuna (fjórar grónar). Stígurinn verður greinilegri. Áður en hæstu brún er náð er komið að Prestási. Á honum er lítil varða. Ofar er komið að Teitsvörðum og gengur stígurinn á milli þeirra. Þaðan fer að halla niður að Fossá. Auðvelt er að gleyma sér með hið stórkostlega málverk sem fyrir augu ber (útsýnið yfir Hvalfjörð), en ekki má gleyma að líta sér nær (skófir og aðrar plöntur).
Auðvelt er að fylgja stígnum, en girðingarhorn liggur yfir hann þar sem hann beygir til norðurs. Vetur konungur hefur fellt girðinguna svo leiðin er greið. Hún sést vinstra megin við girðingarslóða. Þá beygir hún til norðausturs og fylgir landslaginu. Á tveimur stöðum hefur verið lagður slóði yfir gömlu leiðina og er það miður. Framkvæmdin er í raun dæmigert virðingarleysi fyrir fornleifum. Þegar tekur að halla verulega til norðurs hverfur gatan á kafla vegna vatnsaga, en birtist á ný skammt norðaustar. Þaðan er auðvelt að fylgja henni með brúnum áleiðis niður að Fossá. Þegar niður af Hálsinum er komið verður fyrir fallin varða á vinstri hönd, eyktarmark frá Fossá (sennilega hádegisvarða).
Fljótlega er ætlunin að skoða Gíslagötu og Svínaskarðsveg í einum áfanga.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín, þ.a. á göngu 1 klst og 40 mín. Um var að ræða 5.38 km. Hæst er hálsinn 326 m.y.s.
Viðbót í tilefni svæðisins:
Nýlega var tekið í noktun nýtt sveitarfélagsmerki fyrir Kjósarhrepp. Rökstuðningurinn með merkinu var eftirfarandi til útskýringar ásýndinni: „Sveitarfélagsmerki Kjósarhrepps. Staðsetning á umhverfi merkisins er engin tilviljun. Þetta er sá staður sem allir muna eftir sem komið hafa í Kjósina. Mikilfengleg Laxáin liðast niður í Laxvoginn með Reynivallaháls í bakgrunni og Botnssúlur í fjarska.
Íslenska sauðkindin er vanmetin. Hún hefur verið með okkur allt frá upphafi landnáms. Haldið á okkur hita á frostköldum vetrum og fætt okkur. Hvers vegna hefur hún ekki verið notuð sem tákn í neinu af íslenskum bæjar- eða sveitamerkjum? Er ekki kominn tími til að votta henni virðingu okkar?
Þegar mannsflótti var sem mestur frá Íslandi til betra lífs annars staðar í heiminum fór enginn héðan. Hér var blómleg sveit og gnægð matar. Kjósin er sveit.
Það sem ég er að reyna að koma til skila í merkinu er náttúrufegurð Kjósarinnar og að hér sé stundaður landbúnaður.“
Framangreint merki gerði Arnar Viðar Erlendsson á Þórsstöðum við Lækjarbraut.“
Heimild:
-Gunnar Kristjánsson, sóknarprestur á Reynivöllum, gönguleiðir og sérkenni Kjósarinnar, sérprent með Árbók Ferðafélags Íslands árið 1985.
-Örnefnalýsingar um Reynivelli.
-kjos.is