Kiwanis – saga

Kiwanis

FERLIR var mað kynningu á Kiwanisfundi Eldborgar í Hafnarfirði um dásemdir Reykjanesskagans, auk þess sem tækifærið var notað til að kynna sér félagsskapinn. FERLIR notar jafnan tækifærið á samkomum sem þessum að fræðast um viðfangsefnin því meðlimir klúbbanna búa sem einstaklingar yfir mikilli alhliða vitneskju.

1. Staðreyndir um Kiwanishreyfinguna
KiwanisKiwanishreyfingin var stofnuð í Detroit í Michiganfylki í Bandaríkjunum þann 21.janúar 1915. Þann 1.nóvember 1916 var fyrsti klúbburinn stofnaður í Kanada í Hamilton í Ontarioríki. Sama ár var heitið „Kiwanisklúbbur“ tekið upp á fundi í Cleveland í Ohio (USA). Átta árum síðar var heitinu breytt í „Kiwanis International“ (Alþjóðahreyfing Kiwanisfélaga) og þá var stofnskrá sú og lög staðfest, sem gilda enn í dag, svo og meginmarkmiðin sex. Kiwanishreyfingin óx jafnt og þétt, bæði í Bandaríkjunum og Kanada, í nær hálfa öld áður en ákveðið var að breiða hana út til annarra heimsálfa og þjóða, en það var árið 1961.

Árið 1962 var fyrsti klúbbur utan Bandaríkjanna og Kanada stofnaður, en það var í Mexíco og skömmu síðar var annar stofnaður á Bahamaeyjum. Árið 1963 voru 7 klúbbar stofnaðir í Evrópu, sá fyrsti 25. febrúar í Vínarborg í Austurríki. Fyrsti klúbburinn á Norðurlöndum var stofnaður 10.janúar 1964 í Osló í Noregi og fjórum dögum síðar var komið að Íslandi, en þá var Kiwanisklúbburinn Hekla stofnaður í Reykjavík og var hann 9. klúbburinn sem stofnaður var í Evrópu.

Kiwanis á Íslandi

FERLIR

Fulltrúi FERLIRs rakti söguna…

Tveimur árum síðar eða 31.mars 1966 var annar klúbbur stofnaður en það var Kiwanisklúbburinn Katla í Reykjavík. Þar með má segja að Kiwanishreyfingin hafi náð fótfestu á Íslandi og voru fjölmargir klúbbar stofnaðir í kjölfarið. Kiwanisklúbburinn Helgafell sem starfar í Vestmannaeyjum var stofnaður af Kötlu 28.september 1967 og er nú langstærsti Kiwanisklúbbur á Íslandi og þó víðar væri leitað og hefur verið lengi. Félagafjöldi Helgafells starfsárið 1999-2000 er 78 félagar. Kiwanisklúbburinn Harpa var stofnaður 15.júní 1989 og var fyrsti klúbburinn sem eingöngu er skipaður konum.

2. Hvað er Kiwanis

Kiwanis

Á Kiwanisfundi.

Kiwanis er alþjóðleg þjónustuhreyfing manna og kvenna, sem hafa áhuga á að taka virkan þátt í að bæta samfélagið, og láta gott af sér leiða. Í samstarfi fá þessir aðilar áorkað því sem einstaklingar geta ekki einir. Frjálst samstarf gerir þeim kleift að vinna að alþjóðlegum verkefnum innan hinnar alþjóðlegu hreyfingar. Þeir vinna einnig að umbótum á landsvísu. Ekki síst vinna þeir að mannúðar og framfaramálum sem horfa til heilla fyrir bæjarfélag þeirra, sem opinberir aðilar annað hvort vilja ekki eða geta ekki sinnt. Þannig verða þeir leiðandi aðilar í sínu byggðarlagi.

Sem dæmi má nefna aðstoð við ungt fólk eða aldrað, náttúruvernd, þróun félagslegrar aðstöðu og eflingu vináttu og skilnings milli manna og þjóða. En hvert svo sem markmið Kiwanisfélaga er, er þeim öllum sameiginlegur þjónustuviljinn og löngunin til að eignast góða félaga innan klúbbsins síns og Kiwanishreyfingarinnar.

Nokkrar skilgreiningar:

Kiwanis

Nokkrir Kiwanisfélagar Eldborgar.

Kiwanishreyfingin er þjónustuhreyfing en ekki afþreyingarfélag. Þó geta menn eignast þar góða vini í samvinnu við aðra Kiwanisfélaga um ýmis þjóðþrifa- og framfaramál í hinum sanna Kiwanisanda.
Kiwanisfélagar starfa fyrir opnum tjöldum enda er hér ekki um leynilegan félagsskap að ræða. Kiwanisfélagar vilja einmitt gjarnan vekja athygli á störfum sínum til þess að afla sér stuðnings í þjónustustarfi sínu.
Kiwanishreyfingin leggur áherslu á manngildi og eflingu félagskenndar meðal félaganna.
Hver klúbbur reynir að þjóna sem best því samfélagi, sem hann starfar í. Kiwanishreyfingin skyldar hvorki klúbba né einstaka félaga þeirra til að taka þátt í neinni sérstakri starfsemi.

Nafnið
Nafnið „Kiwanis er tekið úr máli indíánaþjóðflokks sem eitt sinn byggði það svæði þar sem Kiwanishreyfingin var stofnuð. Upprunalega hljómaði þetta sem „Nunc Keewanis“ í þeirra munni og þýðir nánast „sjálfstjáning“. Þetta var stytt í „Kiwanis“ – „tjáning“.

3. Kjörorðin og hin sex megin markmið

Kiwanis

Í Kiwanis er meiri áhersla lögð á andleg verðmæti en veraldleg.

Undir kjörorðinu „Við byggjum“ hefur Kiwanishreyfingin vaxið og dafnað og orðið víðkunn um allan heim. Undanfarin ár hafa íslensku umdæmisstjórarnir haft að leiðarljósi kjörorðið „Börnin fyrst og fremst“ og hefur íslenska hreyfingin unnið að málefnum barna undir þessu kjörorði.

Hin sex megin markmið Kiwanishreyfingarinnar:
-Að láta andleg og mannleg verðmæti skipa æðri sess, en verðmæti af veraldlegum toga spunnin.
-Stuðla ber að því að dagleg breytni manna á meðal byggist á hinni gullvægu reglu: „Eins og þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“.
-Að beita sér fyrir bættum viðskiptaháttum, starfsháttum og félagslegri hegðun.
-Að efla borgaralegar dyggðir með góðu fordæmi.

Kiwanis

Á Kiwanisfundir Eldborgar.

-Að skapa, með stofnun Kiwanisklúbba, leiðir til þess að menn geti bundist varanlegum vináttuböndum og ósérhlífnir innt af höndum þjónustustörf og stuðlað að betra samfélagi.
-Að vinna saman að mótun og eflingu heilbrigðs almenningsálits og göfugrar hugsjónastefnu, sem er undirstaða aukinnar ráðvendni, bættrar stundvísi, vaxandi þjóðrækni og bræðralags.

4. Tímamót í Kiwanishreyfingunni

Árið 1915. Kiwanishreyfingin er stofnuð 21.janúar 1915. Þann dag var Kiwanisklúbbi nr. 1 í Detroit veitt stofnskjal frá Michiganríki í Bandaríkjunum.
Árið 1916. Fyrsti Kiwanisklúbburinn stofnaður utan Bandaríkjanna í Hamilton, Ontario, Kanada, í nóvember.
Árið 1964. Fyrsti klúbburinn stofnaður á Íslandi, Kiwanisklúbburinn Hekla.

5. Fjöldi Kiwanisklúbba og félaga
KiwanisHeildarfjöldi Kiwanisklúbba í heiminum er um 8600 og félagatala þeirra er rúmlega 310 þúsund manns. En ef teknir eru með meðlimir klúbba úr ungliðahreyfingu Kiwanis og fleiri hliðarklúbba hreyfingarinnar eru um 600 þúsund manns tengdir hreyfingunni.
Fjöldi Kiwanisklúbba í umdæminu Ísland-Færeyjar hefur mest orðið 49. Í dag eru starfandi 42 Kiwanisklúbbar í umdæminu með rúmlega ellefu hundruð félögum.
Lengi vel var Kiwanishreyfingin eingöngu skipuð körlum. En á árinu 1987 var samþykkt á heimsþingi Kiwanis, að leyfilegt væri að taka konur inn í hreyfinguna. Stuttu síðar hófst innganga kvenna í íslensku Kiwanishreyfinguna. Fyrsti Kiwanisklúbburinn sem eingöngu var skipaður konum var stofnaður 1989 en það er Kiwanisklúbburinn Harpa.

6. Sameiginleg verkefni Umdæmisins Ísland-Færeyjar

Kiwanis

Kiwanis þýðir „tjáning“.

Stærsta verkefni íslensku Kiwanishreyfingarinnar er sala K-lykilsins sem er landssöfnun. Ágóðinn af verkefninu hefur runnið til styrktar geðsjúkum, undir kjörorðinu „Gleymum ekki geðsjúkum“. K-dagur var fyrst haldinn árið 1974 og hefur síðan verið haldinn þriðja hvert ár frá þeim tíma.

Annað stórt verkefni sem íslenska Kiwanishreyfingin tekur þátt í er alþjóðlegt verkefni sem hófst árið 1993, og er unnið í samvinnu við UNICEF. Það miðar að því að útrýma joðskorti í heiminum fyrir árið 2000. Þetta er gert með byggingu saltverksmiðja í löndum þar sem joðskortur ríkir og er joði bætt í saltið. Joð skortur veldur því meðal annars að mæður fæða andvana eða þroskaheft börn.

Frá stofnun fyrsta íslenska Kiwanisklúbbsins hefur íslensk/færeyska Kiwanishreyfingin veitt 550 milljónum króna til líknarmála á Íslandi og í Færeyjum fram til 1999.

7. Kiwanisfréttir
KIwanisKiwanisfréttir er blað sem Kiwanishreyfingin í íslenska umdæminu gefur út þrisvar sinnum á ári. Í Kiwanisfréttum birtast fréttir og tilkynningar frá umdæmisstjórn, pistlar frá umdæmisstjóra og fréttir frá klúbbunum í íslenska umdæminu. Kiwanisfréttir eru kjörinn vettvangur til að koma fréttum af starfi klúbbanna á framfæri en einnig ágætur vettvangur til skoðanaskipta innan hreyfingarinnar.

8. Kiwanis – Eldborg

Kiwanis

Kiwanis – Eldborg.

Kiwanisklúbburinn Eldborg í Hafnarfirði var stofnaður 27. nóvember 1969. Móðurklúbburinn er Katla. Fundarstaður er Helluhraun 22. Fundartími er annan hvern miðvikudag kl. 19:30.
Forsetinn er Magnús P. Sigurðsson, netfang: eldborg@kiwanis.is, ritari Bergþór Ingibergsson, féhirðir Sigurður Sigurðsson, kjörforseti Kristján Hannes Ólafsson, formúlutengill Sigurður Sigurðsson og meðstjórnendur Guðjón Guðnason, Skúli Gunnarsson og Guðmundur Guðmundsson.

Gamansemi

Kiwanis

Á Kiwanisfundi.

Kiwanisfélagar eru gamansamir og eru þekktir fyrir að sjá hið jákvæða í tilverunni. Þessi var látinn flakka á fundinum: „Jón var lagður inn á spítala. Fjarlægja þurfti vinstri fótinn. Eftir aðgerðina kom í ljós að í misgripum hafði hægri fóturinn verið fjarlægður. Slæmu fréttirnar voru þær að fjarlægja þyrfti vinstri fótinn, en góðu fréttirnar voru að sjúklingurinn í næsta rúmi var tilbúinn að kaupa af Jóni báða inniskóna.“

Heimild:
-https://kiwanis.is/page/saga-kiwanis
-https://www.facebook.com/people/Kiwaniskl%C3%BAbburinn-Eldborg/100069024344466/
Kiwanis