Kolbeinsvarða

Stapinn
Lengi hefur verið deilt um landamerki Innri-Njarðvíkur og Voga (Vatnsleysustrandarhrepps) – og ekki að ástæðulausu.

Innri-Skora á Stapanum

Í þinglýstu landamerkjabréfi Innra-Njarðvíkurhverfis og Voga, I-226-27, dags. 25/6 1889, þinglýst 16/6
1890, segir m.a.: „…“Úr miðri innri Skoru á Stapa, beina línu í Arnarklett svokallaðann, sem stendur í hrauninu fyrir ofan Vatnsgjár,…“ Í öðru landamerkjabréfi Stóru- og Minni-Voga, I-219-20, dags.23/5 1890, þinglýst 16/6 1890, sem og H-56 og Imb.37-41, segir: „…“Vestan og sunnan frá herjanssæti (Kerjansfæti sbr.H-56 eða Kerjanssæti??), eða úr uppgöngunum úr Kolbeinsskoru, þaðan sjónhending í Arnarklett, þaðan í klett er stendur norðan vert við Litlaskógfell“…“ Í þinglýstri lýsingu Jóns Daníelssonar, eiganda Stóru-Voga, Stóru- og Minni-Vogar, H-56, dags.20/8 1840, þinglýst 14/6 1887, segir: „…Vestan og sunnan: Frá Kerjansfæti, eður úr upp—Kolskoru, suður til Mörguvarða á gamla Stapavegi, þaðan sjónhending í Arnarklett, þaðan—nyrðri—á Litla-Skógfelli…“
Í landamerkjabréfunum er hvergi talað um Kolbeinsvörðu, sú varða er engu að síður til. Brúnavarðan (sumir vilja meina að það sé Kolbeinsvarða) rétt ofan við gamla Keflavíkurveginn þar sem hann liggur við Innriskoru er mið af sjó, eins og Magnús í Halakoti hefur staðfest. Þegar varðan ber í Stapafell er komið út fyrir brún, (hraunbrún) nánar tiltekið út í leirinn þar sem varla bregst ýsudráttur. „Það hef ég margreint og gefist vel“.
Innriskora, Grynnriskora, Kolbeinsskora, Kolskora eru reyndar fjögur heiti á sama stað. Þótt sjónhending hafi jafnan verið tekin sem sjónlína millum tveggja staða, hefur í seinni tíð, segja lögfróðir, að skilgreina megi sem beina línu þó ekki sjáist á milli.
Fótur "Kolbeinsvörðu" á Njarðvíkurheiði Það sem Jón Daníelsson skrifaði árið 1840 og lætur þinglýsa 1887 gæti vel rímað við þá kenningu að merkjalínan hefur legið úr Innri-Skoru (Grynnriskoru) í Kolbeinsvörðu og úr henni í Arnarklett. Þar lá línan nefnilega um Mörguvörður, sem nú hafa verið fjarlægðar líkt og svo til allar vörður í heiðinni, sem til voru fyrir um 1940. Ein af þeim var Kolbeinsvarðan.
Þær vörður, sem nú hafa verið nefndar „Mörguvörður“ eru nokkrar litlar á sléttu klapparholti, nokkru vestar.
Vörðufótur „Kolbeinsvörðu“ sést hins vegar enn. Gróið er um hann. Frá henni er sjónhending að Arnarkletti. Sjóhending er og hlýtur að hafa verið sjónlína – hvað sem svo sem hinir nýtilkomnu dómarar Hæstaréttar segja. Ef menn hafa viljað hafa það línu, á sjónhendingar, hefðu þeir einfaldlega skrifað „í línu“ eða´“beina línu“. Kolbeinsvarðan er ofan við Kolbeinsskor í Innri-Skoru (Grynnriskoru). Önnur varða sem hefði verið beint ofan við brúnina gæti aldrei haft sjónhendingu í Arnarklett. Þar hlýtur að hafa þurft a.m.k. eina vörðu á millum til – þ.e. vörðu þá er Ólafur frá Knarrarnesi tilgreinir. Hann sagði að sú varða hefði staðið þarna í heiðinni, há og mikil, uns bryggjugerðarmenn í Vogum komu á vörubíl, sóttu hana og sturtuðu í bryggjugarðinn. Skv. því ætti Vogalandið að ná allnokkuð vestar en nú er. Telja má að þetta landssvæði hafi ekki verið hátt metið fyrrum, hvorki af Njarðvíkingum né Vogamönnum og því hafi menn verið svolítið kærulausir um mörkin, jafnvel svo kærulausir að þeir fjarlægðu eina merkið, sem þar var.

Fótur "Kolbeinsvörðu" á Njarðvíkurheiði

Nú mætti halda að „Kolbeinsvarðan“ hafi fyrst verið dregin inn á þessa línu þegar Gísli Sigurðsson skráði örnefnaskrá um Voga. Ekki er minnst á Kolbeinsvörðu í framangreindum þremur landamerkjabréfum frá 19. öld. Gísli tilgreinir fremst í örnefnaskránni tvö þessara bréfa og fer rétt með, að því er virðist, nema hvað hann breytir skoru í skor í báðum bréfunum. Síðar í sömu skrá, þegar hann hefur upptalingu örnefnanna og byrjar við Njarðvík, þá dregur Kolbeinsvörðuna þar inní, og segir svo: „Suður eftir Stapanum liggja landamerki milli Stóru-Voga og Innri-Njarðvíkur frá svonefndu Herjanssæti í Kolbeinsskor eða Kolaskor. Skora þessi er einnig nefnd Innriskor eða Grynnriskor. Héðan liggur línan í Kolbeinsvörðu og þaðan yfir Stapaveginn, Gamla- í vörður nokkrar þar suður af er nefnast Mörguvörður, aðeins sunnar er svo þjóðvegurinn.
Héðan liggur línan suður á Bjalla. Austur og upp af Kolbeinsskor eru Þrívörður og þar hærra vörður sem nefnast Strákar.“
Þjóðvegurinn sem Gísli nefnir svo hlýtur að vera gamli Keflavíkurvegurinn (skrifað á þeim tíma). En hvar var sá „gamli Stapavegur“ sem Jón Daníelsson talar um 1840? Ekki Keflavíkurvegurinn sem lagður var 1912. Varla heldur Stapagatan eða Almenningsvegurinn sem þá hlýtur að hafa verið aðalleiðin og því varla kölluð „gamli“ Stapavegur, eða hvað?
Getur verið að eldri gata hafi legið sunnar, jafnvel á líkum slóðum og Reykjanesbrautin er nú? Þá gæti fyrr kenning um Kolbeinsvörðuna (mörkin) átt við rök að styðjast.
Magnús Ágústsson segist hafa róið undir Stapann í 20 ár á sínum yngir árum. Hann talaði um um Dýpri- og Grynnri-skoru. Kannaðist líka við Ytri- og Innri, en ekki við skor. „Við töluðum alltaf um skoru“, sagði hann. Gísli Sigurðsson talar ávallt um skor, minnist aldrei á skoru. Í annarri örnefnaskrá um Voga, sem Ari Gíslason skráði eftir Árna Klemens Hallgrímssyni, Ólafi Péturssyni, Knarrarnesi, „einhverjum í Grænuborg“ og Þorsteini Bjarnasyni, er talað um Innriskoru, öðru nafni Kolbeinsskoru“, ekki minnst á skor. Annars skiptir ekki höfuðmáli hvort og hver eða hvort talað um „skoru“ eða „skor“.
Magnús talaði mikið um Brúnavörðu sem mið en minntist ekki á Kolbeinsvörðu. Brúnavarða finnst í hvorugri örnefnaskránni, aðeins Brúnir.

Vogastapi ofanverður - Vogar fjær

Fyrst svolítið um Gísla. Hann setti óhemjumikið af upplýsingum á blað. Stundum hefur mátt heyra af „fótafúnu“ fólki að sumt af því hafi nú ekki verið alveg rétt. Reynsla þeirra, sem fylgt hafa skrifum Gísla, er hins vegar sú, eftir að hafa kannað og rakið það sem ekki á að hafa verið rétt, hefur reynst vera rétt. Málið er að það kannast ekki allir við öll örnefnanöfnin. Sumir þekkja þau undir öðrum nöfnum en aðrir, auk þess sem þau hafa tilhneigingu bæði til að breytast og færast til með tímanum. Þá breytast hljómyndanir og þar með nöfnin, sbr. hörsl og vik. Þá gátu jafnvel heilu fjöllin verið nefnd sitt hvoru nafninu, eftir því hvoru megin við það var spurt, sbr. fjöllin í Kjós. Þá er reynsla okkar, sem höfum gengið mikið um þetta svæði, að þótt reynt sé að ganga vandlega eftir lýsingum getur reynst mjög erfitt að staðsetja örnefnin, þótt ekki sé fyrir annað en að áttir fólks var misvísandi,“norður“ gat verið austur eða einfaldlega útnorður, „spölkorn“ gat verið langur gangur, „handan“ gat verið hvar sem var o.s.frv. Á Rosmhvalanesinu notuðu menn gjarnan Inn/Innri (suður) og Út/Ytri (norður).
Gísli vísaði gjarnan í heimildarmenn sína og gæti það gefið svar við misvísun á örnefnaheitum. Ýmislegt þurfti hann þó að leggja á minnið og skrá síðar, sbr. frásagnir starfsfélaga hans frá þessum tíma (sem FERLIR hefur haldið til haga). Eitt skemmtilegt nýlegt dæmi um ágreining um örnefnaheiti er vitinn á Þórkötlustaðanesi (sem þó er ekki örnefni). Þórkötlustaðabúar hafa aldrei nefnt vitann annað, enda á þeirra nesi. Landamerkin er í Markastein u.þ.b. 60 metrum vestar. Hópsmenn hafa löngum viljað teygja sig lengra inn á Nesið vegna reka og því ávallt kallað vitann „Hópsnesvita“, þrátt fyrir að hann sé alls ekki á Hópsnesi. Það nafn hefur þó ratað inn í gögn opinberra aðila, s.s. Vitamálastofunar. Svona getur þetta verið – ástæður nafngifta geta orðið af margvíslegum toga. Er núna að gera örnefnakort af Staðarhverfi í Grindavík. Þar er hóll, sem hefur heitið Holuhóll. Móakotsfólkið kallaði hann hins vegar Móakotshól.
Jæja – aftur að merkjunum. Stapagatan hefur varla verið kölluð Gamli-Keflavíkurvegur. „Gamli Stapavegur“, sem Jón Daníelsson talar um 1840, hefur að öllum líkindum verið Stapagatan. Grunur er um að vegarkafli (vagnvegur), sem enn sést hluti af austan við „Kolbeinsvörðu“, séu leifar af fyrsta akveginum, eða akslóðanum. Þegar bíllinn kom til landsins voru ekki til neinir vegir, einungis gamlar leiðir fyrir fólk og búfénað. Segja má að bíllinn hafi búið til fyrstu vegina, þ.e. ökumennirnir. Þeir fóru þá um svæði, sem líklegt væri að þeir kæmust áfram og greiðfærast var. Velta hefur um grjóti, en þeir hafa forðast miklar brekkur og líka gamlar djúpar götur. Ekki er ólíklegt að fyrsti slóðinn til Keflavíkur hafi myndast á þessum slóðum. Vegurinn 1912 hefur síðan tekið mið af nauðsynlegum breytingum og þörf á varanlegri gatnagerð.
Útsýni af Stapanum til VogaBrúnavarðan er, kv. ábendingu Magnúsar, varðan ofan við Innri-Skoru, rétt sunnan við Gamla-Keflavíkurveginn. Það að hún er ekki inni í örnefnalýsingu fyrir Innri-Njarðvík gæti bent til þess að hún hafi orðið til eftir gerð hennar, jafnvel sem mið, eins og Magnús lýsir. Vitað er þó að varðan hefur verið til a.m.k. frá því um 1940. Þá gæti hún hafa verið fjarlægð, en vegna mikilvægi hennar sem mið hafi hún verið endurhlaðin, eða einfaldlega hlíft af sömu ástæðu. Varðan er áberandi kennileiti frá sjó. Þar, eða skammt frá, gæti þess vegna hafa verið önnur varða fyrir, en verið fjarlægð. Mörg vörðubrot eru á Stapanum, en allflest eftir minni vörður.
Ekki er með öllu útilokað að „Kolbeinsvarðan“ gæti hafa verið varðan, sem Ólafur í Knarrarnesi sagði að hefði verið markavarða, „stór og mikil“ áður en hún var fjarlægð, allt nema neðsta lagið. Af ummerkjum þar virðist þessi varða ekki hafa verið í neinu samhengi við vörðuröð í heiðinni. Aftur á móti gæti hún líka hafa verið ónafngreindur „hornsteinn“ á mörkunum, því jafnan á að hafa verið „sjónhending“ milli merkja. Frá henni gæti hafa sést í næsta merki að austanverðu, Arnarklett, en það er ómögulegt frá vörðu ofan við Innri-Skoru. Ef þessi varða hefur verið landamerkjavarða verður það þó að teljast klaufalegt hjá Vogamönnum að fjarlægja hana við bryggjugerðina í ljósi ágreiningsmála er jafnan hafa verið um landamerki.
Skv. upplýsingum Sesselju Guðmundsdóttur hafði nefndur Ólafur heyrt framangreint frá föður sínum, Jóni G. Ben. Bendir hún á að í skrifum Jóns í Velvakanda 1983 segir Jón m.a.: Strandlengjan nær frá […] og að svonefnri Kolbeinsvörðu utanvert við Innri-Skor á Vogastapa“.  Sesselja telur að grjótið úr hinni einu sönnu Kolbeinsvörðu hafi svo alveg verið hreinsað burt á sínum tíma og er aðeins svarðgróinn grjóthringur eftir nú. Stóran varðan gæti hins vegar vel hafa verið á merkjum, en hún hafi aldrei heitið Kolbeinsvarða.Â
Ef „Kolbeinsvarða“ var á nefndum stað í Njarðvíkurheiði gæti það skipt sköpum, þótt ekki væri fyrir annað að nýtilkomið merki Reykjanesbæjar væri þá í landi Voga.
Þetta er að mörgu leiti áhugavert efni – og ekki víst
að allir verði sammála um allt – frekar en örnefnin. Hafa ber þó í huga framangreint; þótt einn telji eitthvað eitt vera hið rétta þarf það þó ekki að hafa verið hið eina rétta.

Stapi

Stapi – landamerkjavarða.