Konungur Íslands og drottning
Í Fálkanum 1930 (Alþingishátíðarriti) er grein um „Konung Íslands og drotningu„:
„Hinn fyrsta dag Alþingishátíðarinnar setur konungur Íslands og Danmerkur þingfund á Lögbergi. Á Lögbergi hafa áður konungar staðið, en þing hefir eigi verið haldið þar síðan löngu áður en fyrsti konungur Íslands kom hingað til lands. Atburður þessi verður því einslæður í sögu þjóðarinnar.
Liðin saga kennir oss, að konungar vorir hafi margir hverjir verið vinveittir oss Íslendingum og mistök þau, sem urðu á stjórnarfarinu voru að jafnaði því að kenna, að þeir menn, sem konungarnir höfðu sjer til aðstoðar um Íslandsmál voru alls ófróðir um hagi hinnar fjarlægu þjóðar. Það er talandi vottur um þetta, að einmitt á ríkisstjórnarárum hins fyrsta konungs, sem sótti Ísland heim, hefst sú framfaraöld íslenskrar þjóðmenningar, sem nú stendur.
Kristján konungur níundi kom fyrstur allra konunga vorra út hingað, með þá „frelsisskrá í föðurhendi“, sem varð undirstaða íslensks stjórnfrelsis. Hann varð Íslendingum það, sem Friðrik sjöundi varð Dönum. Og á efstu ríkisstjórnarárum hans er nýtt spor stigið í íslenskri stjórnarfarssögu, er ráðuneyti Íslands er flutt inn í landið.
Hinn göfuga vilja á því, að verða við óskum Íslendinga sýndi hinn næsti konungur vor, Friðrik áttundi, er hann á fyrsta ríkisstjórnarári sínu boðar íslenska Alþingismenn í heimsókn til Danmerkur, til þess að þeir kynnist dönskum stjórnmálamönnum og í vinahóp gæti rætt áhugamál sín og kröfur við þá. Árið eflir, 1907, heimsækir hann svo sjálfur Ísland með fríðu föruneyti og sýndi í þeirri för, eins og fyr og síðar, vilja sinn á því, að verða við óskum Íslendinga. Hann skipar millilandanefndina til þess að gera tillögur um sambandslög. Þó að ekki verði beinn árangur af starfi hennar, þá varð það samt beinn og nauðsynlegur viðkomustaður á leið þjóðarinnar til sjálfstæðis.
Það fjell í hlut Kristjáns konungs tíunda, að stíga stærstu sporin, sem stigin hafa verið í sjálfstæðismálum Íslendinga. Fyrst með stjórnarskránni frá 1915, sem veitti Íslendingum viðurkendan fána og síðan með sambandslögunum 1918, sem veittu Íslendingum viðurkenning sambandsþjóðarinnar fyrir því, að þeir væri frjáls og fullvalda þjóð. Dýrmætustu skjölin, sem geyma sönnunina fyrir sjálfslæði Íslands, bera nafn Kristjáns konungs tíunda, þess manns sem fyrstur konunga hafði nafn Íslands í heiti sínu.
Fullyrða má, að Kristján konungur tíundi, sje sá konungur Íslands, sem best hefir kynt sjer hagi þjóðarinnar og hefir hann íslenskan konungsritara sjer við hönd. Hann hefir átt tal við fleiri íslenska menn, en nokkur konungur annar. Og hann hefir tvívegis komið til Íslands, í fyrra skiftið er hann kom hingað í opinbera heimsókn 1921 og í síðara skiftið 1926. Og nú kemur hann í þriðja sinn.
Í bæði skiftin hefir Alexandrine drotning fylgt honum hingað og gerir enn. Hún er hin fyrsta drotning, sem til Ísland hefir komið og því hin fyrsta sem íslensk þjóð hefir haft kynni af. Og tvímælalaust hafa þau kynni orðið til þess að auka virðingu og ást Íslendinga á drotningum.
Konungshjónin koma hingað með herskipinu „Niels Juel“ hinn 25. júní.
Eftir að þau hafa verið á Alþingishátíðinni verða þau um tíma upp í Borgarfirði. Meðan þau standa við hjér í Reykjavík búa þau um borð í skipinu, en á Þingvöllum í konungshúsinu.“
Konungar Danmerkur og Íslands voru eftirfarandi frá upphafi 19. aldar skv. fróðleiksíðum Wikipedia:
- 1808 – 1839: Friðrik 6. — Ísland var undir stjórn Jørgen Jørgensens í tvo mánuði 1809 og Noregur gekk undan dönsku krúnunni 1814.
- 1839 – 1848: Kristján 8.
- 1848 – 1863: Friðrik 7.
- 1863 – 1906: Kristján 9. — Ísland fékk stjórnarskrá 1874 og heimastjórn 1904.
- 1906 – 1912: Friðrik 8.
- 1912 – 1918: Kristján 10. — Ísland varð fullvalda ríki 1. desember 1918.
1918 – 1944: Kristján 10. — Sveinn Björnsson, ríkisstjóri Íslands, fór með vald konungs 1941 – 1944.
Heimild:
-Fálkinn, 25.-26. tbl. 21.06.1930 (Alþingishátín), Konungur Íslands og drotning, bs. 6.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Konungur_%C3%8Dslands