Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi; Bjarni F. Einarsson

Krísuvík

Í skýrslu Bjarna F. Einarssonar; „Krýsuvík – Fornleifar og umhverfi“, frá árinu 1998 segir m.a. frá fyrstu heimildum um Krýsuvík, auk þess sem skýrslunni fylgir skrá um einstakar fornleifar tilheyrandi svæðinu. Hér verður rifjaður upp sögulegi kafli skýrslunnar:

Fyrstu heimildir um Krýsuvík

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson.

„Krýsuvíkur er fyrst getið í Landnámu, en þar stendur: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági. Böðmóðr, annarr son hans, var faðir Þórarins, föður Súganda, föður Þorvarðar, föður Þórhildar, móður Sigurðar Þorgrímssonar. Molda-Gnúpssynir byggðu Grindavík, sem fyrr er ritat“. (Landnáma 1968:392).
At Vági er sennilega Vogur í Selvogi, sem síðar hét Vogshús og enn síðar Vogsósar. Um staðsetningu Vága eru þó talsverðar efasemdir (Guðni Jónsson 1936-40:14).
Í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar, sem mun vera frá því um 1200, er kirkju í Krýsuvík getið (Í.F. Bd. XII, bls. 9).

Keflavík

Keflavík í Krýsuvík – einnig nefnd Kirkjufjara. Þangað átti Skálholtskirkja og síðar Strandarkirkja um tíma rekaítök undir berginu til forna og eftir siðaskiptin kirkjur á norðanverðum Reykjanesskaga, s.s. Viðey og Garðakirkja. Í Keflavík var jafnan nægt rekaviðs.

Árin 1234 og 1284 er Krýsuvík nefnd í máldaga Maríu kirkju og staðar í Viðey í sambandi við hvalreka. Þar stendur: „en sa maðr er byr j Krysvvik skal skylldr at festa hvalinn sva at eigi taki sør vt. oc gera orð til Viðeyiar fyri þriðiv.sol“. (Í.F. Bd. I, bls. 507).
Ábúandi átti sem sagt að sjá til þess að hval ræki ekki aftur út og gera Viðeyjarmönnum viðvart innan þriggja daga.
Elsti máldagi Maríukirkju í Krýsuvík er frá því um 1275. Sá máldagi er í stórum dráttum eins og máldagi frá 1307, en sá síðari þó fyllri.

Mölvíkurtjörn

Við Mölvíkurtjörn austan Herdísarvíkur. Þangað sótti Skálholtsstóll og Strandarkirkja löngum reka með vísan til fornra heimilda.

Í Rekaskrá Strandarkirkju frá um 1275 stendur: „skalhollt oc krijsevijk aa halfann allann reka under fuglberge vid strandar land. millum wogs oc hellis aa strendur land iiij vætter enn ef meire er þa aa skalhollt oc krijsvijk fiordung j øllum hual. Enn fyrer austann wog til vindass aa stadur j skaalhollte oc krijsevijk halfan tolftung i hual ef meire er enn iiij vætter. en ecke ellegar“. (Í. F. Bd. II, bls. 124-25).
Krýsuvíkur er síðan getið á mörgum stöðum í Fornbréfasafni og yfirleitt í sambandi við hvalreka, rekavið og grasnytjar. Hafa þessi hlunnindi því verið eftirsóknarverð frá ómunatíð (sjá nánar góða greinargerð um Krýsuvíkurkirkju í fornum heimildum í Sveinbjörn Rafnsson 1982).

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur Brynjúlfs Jónssonar.

Árið 1818 sendi séra Jón Vestmann (1769-1859), sem var prestur í Selvogi árin 1811-1842, bréf til hinnar konunglegu nefndar, Commissionen for oldsagers opbevaring, vegna fyrirspurna nefndarinnar um fornleifar í landinu. Í bréfinu tíundar Jón þær fornleifar sem hann þekkir og telur þess verðar að minnast á. Engar nefnir hann fornleifarnar í landi Krýsuvíkur sem nú er, en í Ögmundarhrauni segir hann svo frá fornleifum: „Hús-Hólmi nidur vid sióin í sama Hrauni; hefur þar verid mikil Bygd, ádur brann, sem sést af Húsa Tópta-Brotum, ad hvórium Hraunid géngid hefur, ad nordan –vestan -sunnan, – og næstum saman ad Austan-verdu; er þar 1t Tóptar-Form 12 Feta breidt, og 24 Feta Lángt, innan nidur fallinna Veggia Rústa; Húsid hefur snúid líkt og Kyrkiur vorar, meinast gamalt Goda-Hof; fundid hafa Menn þar nockud smávegis af Eyrtægi; þar er tvisett Túngards form med 20 fadma Milli-bili, hvar nú er Ling Mói; enn Graslendi innan ynnri Gards, austanverdt vid Hraunid“. (Frásögur um fornaldarleifar 1983:227).

Húsólmi

Uppdráttur af Húshólma frá fyrri tíð – (Haukur og Sigmundur).

Forsaga byggðar í Krýsuvík er að margra mati í hólmanum í Ögmundarhrauni sem getið er í svarbréfi Jóns prests hér að framan. Munu rústirnar þar gjarnan vera kallaðar Gamla Krýsuvík (Stefánsson 1967 (b)) eða Krýsuvík hin forna (Brynjólfur Jónsson 1903:48-50. Stefán Stefánsson (b) 1967:556. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:84).
Athyglisvert er að Jón Vestmann segir ekki orð um þessi munnmæli í lýsingunni hér að ofan. Hann nefnir þau hins vegar í annarri lýsingu sinni árið 1840 og segir að; „Meina menn, að Krýsuvík hafi þar verið, áður hraunið hljóp þar yfir,… (Sýslu- og sóknarlýsingar 1979:214). Enn í dag sjást talsverðar rústir í Húshólma og Kirkjulágum þar skammt hjá.

Húshólmi

Húshólmi – garður – uppdráttur – (Haukur og Sigmundur).

Um aldur Ögmundarhrauns eru talsvert skiptar skoðanir. Elst er það talið geta verið frá öndverðri 11. öld. Byggist sú tilgáta á geislakolsgreiningum. Aðrir telja hraunið runnið seint á tímabilinu 1558-1563 Einnig hefur verið talið að hraunið hafi runnið 1340. Síðustu niðurstöðurnar benda til þess að hraunið hafi runnið árið 1151 (Jón Jónsson 1982:196. Sveinbjörn Rafnsson 1982:422. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:71). Upptök hraunsins eru í Trölladyngju, nyrsta hluta Núpshlíðarháls.
Eins og áður hefur komið fram er elsta heimild um kirkju í Krýsuvík í kirknaskrá

Húshólmi

Húshólmi – meint kirkjutóft í Kirkjulág.

Páls biskups Jónssonar frá því um 1200 og nokkrum sinnum er kirkjunnar getið í 13. aldar heimildum. Ef Ögmundarhraun er rétt aldursgreint til ársins 1151 hljóta skrárnar að eiga við kirkju þá er stóð undir Bæjarfellinu, á núverandi stað. Þó hefur því verið haldið fram að kirkja hafi áfram staðið fram á 16. öld, úti í Ögmundarhrauni (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988:83-84).
Ekki eru rústirnar í Ögmundarhrauni þær einu sem kallaðar hafa verið Krýsuvík hin forna. Um Gestsstaði hefur einnig verið sagt að þeir hafi áður heitið Krýsuvík (Brynjólfur Jónsson 1903:50. Örnefnaskrá (a)).

Gestsstaðir

Gestsstaðir í Krýsuvík, skálatóft sunnan Gestsstaðavatns.

Elsta heimildin um Gestsstaði er Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem skráð var árið 1703. Þar segir: „Gestsstader skal hafa jörð heitið nálægt Krýsivík undir Móhálsum austanverðum, þar allnærri sem nú liggur almenníngsvegur. Sjer þar enn nú bæði fyrir túngarði og tóftum. En völlur er allur uppblásinn og kominn í mýri, mosa og hrjóstur, so ómögulegt er jörðina aftur að byggja. Þar með liggur hún aldeilis í Krýsivíkurlandi og kann ekki fyrir utan skaða Krýsivíkur landsnytjar að hafa. Hefur og so lánga tima í eyði legið, að engi veit til nær hún hafi bygð verið“. (1923-24:7).

Gestssaðir

Gestsstaðir – uppdráttur – ÓSÁ.

Um Gestsstaði segir Brynjólfur Jónsson svo: „Gestsstaðir heitir eyðibær, norðvestur frá Krýsuvík, þar sem hún er nú. Hann hefir staðið sunnanundir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar enn fyrir tóftum, og hefir þar verið stórbýli á sínum tíma. Bæjartóftin er 10 fðm. löng frá austri til vesturs, hefir engan miðgafl, og mun hafa verið þiljuð sundur. Dyr sjást ógjörla, en á suðurhliðinni hafa þær verið, því hvorki eru þær á endunum né norðurhliðinni. Skamt austar er fjóstóft, 6 fðm löng, og heygarður eigi lítill. Túnið hefir og verið mikið og umgirt, en nú er það víða komið í sand af árennsli.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – eystri tóftin og garður.

– Þau ummæli heyrði eg í Grindavík fyrir 40 árum, að Krýsuvík hefði í fyrstu heitið Gestsstaðir og staðið vestur við hálsinn. Nú þykist eg skilja sannleikann í þeim. Jörðin Gestsstaðir hefir verið eign Krýsuvíkurkirkju. Hefir bærinn og kirkjan því verið flutt í Gestsstaðaland eftir eldinn. En við það hafa Gestsstaðir verið sviftir nytjum, og meir og meir þrengt að þeim unz þeir lögðust í eyði“. (1903:50).

Húshólmi

Húshólmi – skálar. Hafa ber í huga að skv. lýsingunum skoðaði Bjarni einungis Húshólma „úr lofti“. Stundum skiptir samhengi hlutanna í nánd máli?

Tel ég munnmælin um Krýsuvík hina fornu í Ögmundarhrauni og við Gestsstaði vera seinni tíma útskýringar til að varpa einhverju ljósi á rústir sem voru mönnum annars með öllu óþekktar og óskiljanlegar. Benda má á að Svartadauða, sem geisaði árið 1402, hefur verið kennt um eyðingu margra óþekktra eyðibýla hér á landi, en aldrei hefur sambandið verið staðfest, öðru nær. Þau eyðibýli, sem rannsökuð hafa verið og heimildir eru til um að hafi farið í eyði vegna Svartadauða, eru öll mun eldri en plágan.

Krýsuvík

Krýsuvík – örnefnakort Ólafs Þorvaldssonar.

Túlkun Brynjólfs um eyðingu Gestsstaða er tilgáta en ekki staðreynd. Ekki er víst að neitt samband sé á milli eyðingar Gestsstaða og Krýsuvíkurbæjarins, heldur hafi staðreyndir skolað til og munnmæli og ímyndanir blandast saman svo úr varð þjóðsaga um Krýsuvík hina fornu. Hluti af þessum munnmælum er frásögn í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772 um hraunflóð sem eyddi kirkjustað sem hét Hólmastaður, en það er elsta lýsingin á rústunum í Ögmundarhrauni. Átti það að hafa gerst tveimur öldum fyrir heimsókn þeirra Eggerts og Bjarna. Í þeirri frásögn er hvergi minnst á sambandið við Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Í dagbókum þeirra félaga frá 31. maí 1755 segir svo frá rústunum: „… taget bort Nogle bajer som her til forne har Staaet, og der i bland Eet Kirke Stæd som heed Holma Stadur med Kirken og alting, dog Seer man endnu paa Een liden plet der er bleven til overs lidet Stykke af (sem det meenes) Kirke gaarden og faae Stykker af Husevæggene“. (Í Sveinbjörn Rafnsson 1982:420).

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn um 1789. Bæjarfellið rís yfir bænum og Vestarilækur liðast undir bæjarhólnum. Hér má gera sér einhverja grein fyrir kirkjugarðinum. Framarlega á myndinni, niður við lækinn, virðast vera kálgarðar. Á þessum slóðum er garðbrot í dag, sem gæti verið hluti af kálgarðinum. Á þessum slóðum fundust einnig rúst og stífla sem giskað er á að gætu verið leifar af brennisteinsstöðinni sem stóð við bæinn árin 1755-63. Kálgarðurinn gæti hafa verið settur niður við þær rústir. Horft til NNA. Myndin er úr bókinni Íslandsleiðangur Stanleys 1789. Ferðabók. Reykjavík 1979,
bls. 268.

Kannski hét jörðin í Ögmundarhrauni Hólmur í fyrstunni, síðan Hólmastaður þegar kirkja var reist á staðnum. Fornleifafræðirannsókn gæti skorið úr um þessi mál, en þangað til verður ekki hægt að segja hvað sé rétt og hvað ekki.

Árið 1563 er aðeins ein hjáleiga við Krýsuvík (Sveinbjörn Rafnsson 1982:421-22). Ekki er þess getið hver hún var.
Í manntali árið 1703 eru hjáleigurnar orðnar sex að tölu, en ekki er nafna þeirra getið (Manntal á Íslandi árið 1703:3). Í Jarðabók frá sama ári segir að hjáleigurnar séu fimm, en tvíbýli á einni þeirra, Nýjabæ. Hjáleigurnar voru Suður hjáleiga (Suðurkot), Norður-hjáleiga (Norðurkot), Nyie Bær, Litle Nyie Bær og Austur hús (Jarðabók 1923-24:4-7). Austurhús gæti verið við [Stóra] Nýjabæ, en þegar þar var tvíbýli voru húsin kölluð Austurbærinn og Vesturbærinn (Stefán Stefánsson 1967 (a)). Skúli Magnússon landfógeti segir að árið 1703 hafi hjáleigurnar verið sjö (Landnám Ingólfs 1935:109). Ekki er nafna þeirra getið.

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn um 1789, séð frá NNA. Sennilega er Norðurkot neðst á myndinni t.v. Þar virðist vera hringlaga túngarður með nokkrum húsum fyrir innan. Arnarfellið sést t.v. og Bæjarfellið t.h. Myndin er úr sömu heimild og næsta mynd á undan.

Árið 1781 er eitt höfuðból í Krýsuvík og sjö hjáleigur. Segir í heimild frá þessum tíma að áður hafi verið tvíbýli í Krýsuvík. (Landnám Ingólfs 1935:109).
Í manntali frá árinu 1801 eru hjáleigurnar við Krúsuvík fjórar (fimm sé reiknað með tveimur á Stóra Nýjabæ). Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóre Niebær 1. og 2. og Litle-Niebær. (Manntal 1978:320-21).
Nokkrum árum síðar, eða í manntali 1816 eru hjáleigurnar þær sömu og árið 1801. (Manntal 1953:375).
Árið 1840 eru hjáleigurnar orðnar sex talsins og allar nafngreindar. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri- og Litli Nýibær, Lækur, og Vigdísarvellir. (Sýslu- og sóknalýsingar 1979:219). Sennilega var tvíbýli á Stóra Nýjabæ, sem gerir hjáleigurnar í raun sjö.

Krýsuvík

Fell – tóftir.

Í manntali frá árinu 1845 eru hjáleigurnar taldar upp sjö talsins. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri Nýibær 1 og 2 Litli Nýibær, Vigdísarvellir og Bali. (Manntal 1982:346-47).
Í jarðartali Johnsens frá árinu 1847 eru hjáleigurnar einnig taldar vera sjö. Þær eru Suður- og Norðurkot, Stóri- og Litli Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur. Lögbýlið Krýsuvík virðist vera tvíbýli. (Johnsen 1847:84). Ekki kemur fram hvort Stóri Nýibær hafi verið tvíbýli eða ekki. Af þessu má ráða að sumar hjáleigurnar hafa verið í ábúð meira og minna frá árinu 1703, jafnvel lengur. Aðrar koma og fara, en samtals verða þær aldrei fleiri en sjö talsins til ársins 1847.

Eyri

Eyri – bæjartóftir.

Sumar hjáleigur virðast vera svo stutt, eða seint, í ábúð að þeirra er ekki getið í jarðabókum né manntali. Þær eru Fitjar, Fell, Eyri (fór í eyði 1775. (Örnefndaskrá (b)), Arnarfell (sama og Fell?), Hafliðastekkur, Snorrakot, Snartakot(?) og Hnaus. Einhverjar þessara hjáleiga gátu verið tómthús, svo sem Snorrakot, Snartakot og Hnaus. Um önnur býli, sem vel gátu verið lögbýli, er nánast ekkert vitað, svo sem Gestsstaði og Kaldrana, en þau geta verið býsna forn.

Kaldrani

Kaldrani í Krýsuvík.

Um staðsetningu Fells og Eyrar er næsta lítið vitað. Get ég mér þess til að Eyri hafi verið sunnan í Selöldunni, og Fell rétt hjá Grænavatni (sé það ekki hið sama og Arnarfell). Um Snartakot, Snorrakot og Hnaus er vitað að þau stóðu í túni eða túnjaðri Krýsuvíkur.
Talið er að býlið Kaldrani hafi staðið skammt SV af Kleifarvatni og voru garðar sýnilegir þar um aldamótin síðustu. Segir Brynjólfur Jónsson svo frá staðháttum: „Sést þar 34 fpm. langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan, suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist vera flutt þangað af mönnum. Gæti það verið leifar af bænum. Því garðspottinn sýnir það, að þar hafa menn búið á sínum tíma“. (1903:50).

Seltún

Seltún – minjar brennisteinsvinnslunnar.

Ekki fundust ummerki þau sem getið er hér að ofan við vettvangskönnun, nema ef átt sé við garðstúf. Ekki er það þó líklegt. Sennilega eru allar minjar um býlið komnar undir sand/vikur.
Árið 1753 var fyrsta brennisteinshreinsunarstöð landsins reist við námurnar í Krýsuvík (við Seltún?). Skömmu síðar, eða árið 1755, var stöðin flutt að Krýsuvíkurbænum og var þar a.m.k. til ársins 1763. (Landnám Ingólfs 1935:111). Hvar nákvæmlega þessi stöð stóð eftir flutninginn er ekki vitað í dag, en varla hefur hún verið mjög nálægt bæjarhúsunum sjálfum. Giska ég á að hún kynni að hafa staðið niður við lækinn þar sem stífla og rúst eru staðsett.

Seltún

Brennisteinsnámuvinnslusvæðið við Seltún.

Stöðin gæti fyrst hafa verið þar sem kallast Brennisteinshúsarústir (Örnefnaskrá (a)), eða Brennisteinshúsatættur (Örnefnaskrá (b)), framan við Seltúnið á Seltúnsbarði, sunnan Selgilsins. Öruggar minjar um stöðina fundust ekki við vettvangsathugun, en einu minjarnar sem fundust við Seltúnið, auk selsins, voru grunnur að einhverju húsi sem gæti hafa verið undir stöðvarhúsinu. Sá grunnur gæti þó verið mun yngri.

Fornleifarnar

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur Bjarna F. Einarssonar.

Engar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar á fornleifum á könnunarsvæðinu, svo mér sé kunnugt um. Í Húshólma í Ögmundarhrauni hafa jarðlög verið könnuð af jarðfræðingum og fimm geislakols-aldursgreiningar verið gerðar þar og í næsta nágrenni. Fornleifarnar í hrauninu munu hafa verið teiknaðar upp af fornleifafræðingi, en þær teikningar ekki verið birtar. Niðurstöður geislakolsgreininganna voru að byggð hafi verið á staðnum á 11. öld. (Haukur Jóhannesson o.fl. 1988:79). Torfgarður í Húshólma var sömuleiðis kannaður af jarðfræðingum og því haldið fram að hann hafi verið eldri en landnámsgjóskan svokallaða, en hún féll árið 871 eða 872. (Sami 1988:83). Því bendir ýmislegt til þess að mjög fornar fornleifar sé að finna í Ögmundarhrauni, en hvernig þær tengjast fornleifum í Krýsuvík er ekki ljóst.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki hafa allar gamlar þjóðleiðir verið skráðar sérstaklega og stafar það af því að þegar engin ummerki um slíkar leiðir finnast er þeim sleppt. Dæmi um slíkar leiðir má sjá á korti í bók Guðrúnar Gísladóttur (1998, m.a. kort 14) og korti í grein Ólafs Þorvaldssonar (1949:86). Þessar leiðir voru t.d. Engjafjallsvegur, Austurengjavegur og vegur um Bleiksmýri, sunnan við Arnarfell og suður úr. Önnur leið lá norðan við Arnarfellið og austur úr. Ekki ber kortunum alveg saman um nákvæma legu þessara og annarra leiða, enda ekki víst að menn hafi í raun séð leiðirnar almennilega, þegar þeir settu þær inn á kort.

Brennisteinsámur eru ekki skráðar hér og er ástæðan fyrst og fremst sú að undirritaðan skortir þekkingu á að lesa námurnar út í landslaginu og bróðurpartur þeirra er utan við könnunarsvæðið.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal.

En aftur má benda á Guðrúnu Gísladóttur og að auki skýrslu Ole Henchels í ferðabók Ólafs Olaviusar (1965). Í þeirri skýrslu er kort af námusvæðunum og virðast flest allar námurnar þar vera fyrir utan könnunarsvæðið.“

Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja.

Frá því að framangreind skýrsla varð gerð hefur mikið vatn runnið til sjávar…
Auðveldlega væri hægt að gera verulegar athugasemdir við framangreinda „fornleifaskráningu“, en það er ekki markmiðið með þessari fróðleiksupplýsingu.
Benda má þó á eitt að lokum – Krýsuvík er skrifað í texta með „ý“ en ekki „í“, enda má benda til fornra tilvitnaðra textaskrifa í meðfylgjandi lýsingum því til staðfestingar – sjá HÉR.

Arnarfell

Arnarfell – uppdráttur ÓSÁ.