Krýsuvík og Krýsuvíkurland – Stefán Stefánsson – II. hluti
„Svo er talið, að Ögmundarhraun hafi runnið (eða brunnið, eins og Snorri goði mundi hafa orðað það) um miðja 14. öld.
Um stað þann, sem nú er kallaður Húshólmi, þar sem er miklu eldra hraun undir gróðrinum en Ögmundarhraun er, hefur hraunstraumurinn klofnað. Hefur önnur álman runnið fyrir vestan hólma þennan, en hin fyrir austan hann og báðar beint í sæ út. Rétt austan við vestari hrauntunguna eru bæjarrústir nokkrar, og er auðsætt, að eitthvað af húsunum hefur orðið undir hraunstraumnum.
Er og almennt álitið, að þarna hafi bærinn Krýsuvík upphaflega staðið, enda lítt hugsanlegt, að bænum hafi verið valið víkurnafnið, ef hann hefði frá öndverðu verið þar, sem hann nú er, nálega hálfa fimm kílómetra frá sjó, enda ekki um neina vík neins staðar að ræða. Bæjarrústir þessar eru og enn þann dag í dag jafnan nefndar gamla Krýsuvík eða Krýsuvík hin forna. Suður og suðvestur af bæjarrústum þessum verður lægð nokkur í hraunstrauminn, og álíta sumir, að einmitt þar hafi víkin sjálf verið, sú er bærinn dró nafn sitt af rétt vestan við Húshólmann við Húshólmafjöruna. Kirkjuflöt heitir og rétt hjá rústunum.
Ráðleggja mætti þeim, sem skoða vildu tóftarbrot þessi og vinna sé það á sem auðveldastan hátt, að fara í bifreið úr Grindavík austur fyrir Ögmundarhraun, (akstur eins og vegurinn er nú), ganga síðan suður með austurjarðri hraunsins, þar til komið er að stíg þeim, sem liggur yfir eystri hraunálmuna út í Húshólmann, þar til komið er að bæjarrústunum. Mun ganga þessi vara eina klukkustund, þótt ekki sé allrösklega farið.
Svo sem mörgum er kunnugt liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan við vatnið, virðist sem fjöll þessi nái saman við norðurenda vatnsins. Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum, og skal því ekki farið út í þá sálma hér, enda ekki leikmönnum hent að leggja þar orð í belg.
Sá hluti af Krýsuvíkurengjunum, sem lægst liggur og næst vatninu að sunnan, heitir Nýjaland (hið inna og fremra). Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjasvæði þessi liggja oft svo árum skiptir í senn undir ágangi Kleifarvatns, en mjór malarhryggur, sem gengur til vesturs frá norðurenda Hvammholtsins, skiptir Nýjalandinu í tvennt, hið innra og fremra, og kallast tangi sá Rif.
Vestan við Fremralandið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá, er nefnist Ós inn á Innralandið og í vatnið sjálft. Á Ósinn upptök sín að mestu á Vesturengjunum og í Seltúnshverfunum, en smálindir koma þó í hann af Austurengi, úr Hvömmunum og Lambafellum.
Svo er landslagi háttað, að Fremralandið var miklu lengur slægt en hið innra, og nam sá tími einatt nokkrum sumrum. Mátti í góðu grasári heyja um sex hundruð hestburði á hvoru Nýjalandi, þegar vatnið var svo þorrið, að unnt var að slá þau bæði.
Ekki er það fátítt, að stararstráin á Nýjalandi verði rúmlega álnarhá, því að oftast nær flæðir Ósinn yfir að vetrarengi, hvað sem vexti Kleifarvatns líður.
Hverir eru í vatninu, og sjást reykir nokkrir leggja upp úr því í logni, en á vetrum eru þar jafnan vakir. Sjaldan leggur vatnið fyrir vetrarsólstöður.
Þegar lítið var í vatninu, var jafnan “farið með því”, þá er sækja þurfti til Hafnarfjarðar. Lá sú leið eftir allri vesturströnd vatnsins, milli þess og Sveifluháls, þar sem seinna var gerður akvegur. Er sá vegur greiðfærari miklu og talsvert skemmri en sá að fara Ketilsstíg og síðan “með hlíðunum”.
Á korti herforingjaráðsins er nafnið Ketilstígur sett fram með Sveifluhálsi að norðvestan, en það er ekki nákvæmt, því að Ketilsstígur heitir aðeins sá hluti þeirrar leiðar, sem liggur upp á Sveifluháls að Norðanverðu, og er stígur þessi innan í gömlum gíg, sem kallast Ketill.
Austur og suðaustur af Arnarfelli er mýrarfláki, stór nokkuð, sem kallast Bleiksmýri, og var þar mikill áfangastaður á þeim tímum, sem þeir Árnesingar og Rangæingar fóru skreiðarferðir til verstöðvanna á Reykjanesskaga. Mátti einatt sjá marga tugi eða jafnvel nokkur hundruð hesta á Bleiksmýri í einu og fjöldi tjalda, þegar hæst stóðu lestaferðirnar. Mun og mörgum hestinum hafa þótt gott að koma í Bleiksmýri úr hagleysinu og vatnsskortinum á Reykjanesskaganum. Var og ekki óalgengt að menn lægju þar einn og tvo daga til þess að hestar þeirra fengju sem besta fylli sína, áður en lengra var haldið.
Víða í hraununum á Reykjanesskaga, eins og reyndar víðar á landi hér, getur að líta nokkuð djúpa götutroðninga í hraunhellunum eftir margra alda umferð. Má þar um segja: “Enn þá sjást í hellum hófaförin“.”
Í Ögmundarhrauni mynduðust holur með þröskuldum á milli, og var hver hola um eitt fet í þvermál og hnédjúp hestum, og í rigningatíð stóðu holur þessar fullar af vatni. Fyrir nokkrum áratugum var gerð vegabót nokkur í Ögmundarhrauni, og holur þessar fylltar upp. Í gamalli og alþekktri vísu segir svo:
“Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturna
og fyrir oss brjóta skeifurnar.”
Það mun mega teljast hæpið hvort örnefnið Gullbringa sé sýnt á alveg réttum stað á korti herforingjaráðsins, þar sem það er sett á hæð eina, 308 metra háa, sunnarlega í Vatnshlíðinni. Þeir, sem kunnugir eru á þessum slóðum, hafa jafnan kallað Gullbringu lyngbrekku þá, sem er vestan í Vatnshlíðinni og nær niður undir austurströnd Kleifarvatns. Ýmsir telja, að sýslan dragi nafn sitt af þessari brekku. Mætti í því sambandi benda á það, að ekki eru þeir allir fyrirferðarmiklir staðirnir á Íslandi, sem heilar sýslur draga nafn sitt af.
Þrjá til fjóra kílómetra austur frá bænum í Krýsuvík er Eldborgin, og svipar henni að mörgu leyti til nöfnu sinnar í Hnappadalssýslu – þeirrar, sem Hendersen gerði víðfræga með teikningu sinni. Skarð það, er verður millum Eldborgar og Geitahlíðar, heitir Deildarháls, og liggur alfaravegurinn yfir hann.
Dr. Þorvaldur Thoroddsen taldi gíginn í Eldborg vera 500 fet að ummáli að ofan og 105 á dýpt, en hæð fellsins telur hann 172 fet. Meinaði hann þar eflaust hæð Eldborgarinnar yfir jarðlendinu umhverfis hana, því að á korti herforingjaráðsins er hæð hennar yfir sjávarmáli talin 180 metrar.
Efst í Geitahlíð er og gígur mikill, en hann er eldri en síðasta jökulöld, eins og reyndar hlíðin öll er. Barma gígs þessa ber hærra en aðra hluta Geitahlíðar, er heita Æsubúðir. Niður af Æsubúðum, en sunnan í Geitahlíð, verður hvammur sá, er kallast Hvítskeggshvammur eða Hvítskeifshvammur, og er til prentuð þjóðsaga um þessi örnefni, en eigi er sú sögn allsennileg.
Skammt fyrir austan Deildarháls og hvamm þennan eru Kerlingar (sagan um Krýs og Herdísi), Bálkahellir (lítt eða ekki kannaður), Gvendarhellir (bóndi í Krýsuvíkurhverfinu, Guðmundur að nafni, hýsti fé sitt í þessum helli þá er harðindi gengu, líklega á fyrri hluta 19. aldar), og Kerið á Keflavík (uppi á 6 metra háum hamri ofan við Keflavík er op, Kerið, niður í flæðamál).
Leirhverin mikil í Krýsuvík, sá er myndaðist við sprengjugosið, er þar varð haustið 1924 og olli landskjálftum nokkrum víða um Surðurland, er þar, sem áður var vatnshver lítill og hét Austurengjahver. Virðist svo, að leirhverinn megi og vel halda sama nafninu. Fúlipollur er næstum á miðjum Vesturengjum, og er hann eitthvert stærsta hverastæðið, sem til er í Krýsuvík, virðist ekki þurfa að velkja það lengi fyrir sér, að endur fyrir löngu hafi þarna orðið sprengigos líkt því, er varð þá, er Austurnegjahver endurmagnaðist, haustið 1924. Auðsætt er, að hverinn er á hrörnunarskeiði. Ýms merki virðast og benda til þess, að Austurnegjahver muni ekki heldur verða neinn Ókólnir.
Ekki skal hér rætt um breinnisteininn í Krýsuvík né þann í Brennisteinsfjöllunum, enda eru Brennisteinsfjöllin austan sýslumarkanna og því í Herdísarvíkurlandi.
Þess hefur orðið vart, að sumir menn halda, að örnefnið Víti sé hver, en svo er eigi. Víti er hraunfoss, sem fallið hefur vestur af hálendisbrún þeirri, sem verður norður af Geitahlíð, og er hraunfoss þessi sennilega á svipuðum aldri og Ögmundarhraun. Hann er nú storknaður fyrir löngu og allur gróinn þykkum grámosa.
Eiríksvarða á Arnarfelli er vel þekkt úr þjóðsögum, sem segja, að séra Eríkur Magnússon, hinn fjölkunnugi Vogsósaklerkur, hafi hlaðið hana og mælt svo um, að aldrei skyldu Tyrkir koma í Krýsuvík meðan varðan stæði uppi. Nú er varðan hrunin, næstum í grunn, en Bandaríkjamenn komu í Krýsuvík, þegar seta þeirra í landinu hófst.
Vestan í Geitahlíð og skammt fyrir neðan fjallsbrúnina sjálfa leggur jafnan á vetrum þykka fönn, langa en ekki breiða. Er fönn þessi sjaldan horfin með öllu fyrr en um Jónsmessu, og dregur hún nafn sitt af því.
Krýsuvík hefu lengi verið talin einhver mesta útigöngujörð fyrir sauðfé á landi hér, einkum þó þeirra jarða, sem ekki hafa fjörubeit, og ekki var það ótítt að sumt féð þar lærði aldrei átið.
Vægar jarðhræringar voru ekki sjaldgæfar í Krýsuvíkurhverfinu og voru þær kallaðar hverakippir þar.
Mótak er þar sums staðar í mýrunum, en ekki þykir mórinn þar góður til eldsneytis. Er hann allur mjög blandinn hveraleir, svo að af sumum kögglunum leggur brennisteinslyktina, þegar þeim er brennt.
Fremur þykir vera þokusamt í Þrýsuvík og lengi hefu verið við brugðið, hversu myrk þokan geti orðið þar. Er það haft eftir manni nokkrum, að eitt sinn hafi hann verið á ferð um Sveifluháls í svo miklu myrkviðri, að hann hafi séð þokuna sitja í olnbogabótinni á sér. Rigningasamt í meira lagi þykir og vera þar, svo einatt er þurrviðri í næstu byggðarlögum, þótt rigning sé í Krýsuvík.
-Úr sunnudagsblaði Tímans 2. júlí 1967 – Stefán Stefánsson.