Krýsuvíkurnámur – Ólafur Olavius
Ólafur Ólafsson, sem síðar latíniseraði nafn sitt að lærðra manna sið og kallaðist Olavius, var vestfizkrar ættar. Fæddur var hann á Eyri í Seyðisfirði vestra árið 1741. Ingibjörg, systir Olaviusar, varð amma Jóns Sigurðssonar forseta.
Jafnframt læknanámi í Skálholti og síðar guðfræðinámi í Kaupmannahöfn fékkst hann við ritstörf. Hann hefur sýnilega verið gagntekinn af anda fræðslustefnunnar, sem þá ruddi sér til mjög til rúms, en jafnframt fullur áhuga á að efla framfarir og menningu meðal Íslendinga.
Ólafur Olavius ferðaðist um Ísland sumurin 1775-77 en honum hafði verið falið að kynna sér m. a. hafnir og lendingar, hvar heppilegast væri að koma upp fiskiþorpum. Olavius ritaði bók um ferðir sínar og rannsóknir, Oeconomisk Reise igiennem Island, og kom hún út 1780.
Í bók II er skýrsla Ole Henchels um brennisteinsnámur á Íslandi og hreinsun brennisteins, 30. janúar 1776. Í henni lýsir Ole m.a. leir og brennisteini í Krýsuvíkurfjalli og hvernig vatnsborð Kleifarvatns hafði lækkað eftir landskjálfta, „trúlega eftir að sprunga hafi opnazt í vatnsbotninum“.
„Hjá syðstu námunum rétt við fjallsræturnar var fyrsta hreinsunarstöðin reist, en þar sem ekkert eldsneyti var þar að hafa, var hún flutt og sett niður fjórðung mílu frá bænum, en þar er mótekja góð. Síðan var hún flutt heim undir bæinn, því að mönnum þótti léttara að flytja brennisteininn þangað niður eftir en að flytja eldsneytið upp eftir að fyrsta stöðvarhúsinu. Heima við bæinn er einnig léttara að ná í vatn, því að lækur með góðu vatni rennur þar framhjá.
Ég athugaði ásigkomulag húsanna, með tilliti til þess að aftur yrði tekin upp brennisteinsvinnsla. Þau voru gerð úr torfi og grjóti á íslenzka vísu, en um þau og annan útbúnað, sem til vinnslunnar heyrði, er það skemmst að segja, að það var allt gersamlega ónýtt og húsin fallin, svo að allt verður að gera að nýju, ein og þar hefði aldrei farið fram brennisteinsvinnsvinnsla eða nokkur hús og mannvirki til þeirra hluta verið þar. Þar sem aðeins eru liðin 8-9 ár síðan brennisteinsvinnslan lagðist niður, hefðu þó hús og áhöld átt að vera í nothæfu ástandi, ef eitthvert eftirlit hefði verið haft með þeim. Það hefði legið beint við að fela bóndanum í Krýsuvík umsjá með húsunum gegn einhverri lítilli þóknun, þar sem hann er þarna búsettur og hafði unnið við brennisteinsvinnsluna. Síðan hefði kaupmaðurinn í Grindavík, sem er einungis 2 1/2 mílu í burtu þaðan, getað farið til Krýsuvíkur eini sinni á sumri til þess að líta eftir, að umsjónin væri sómasamlega rækt. Þá hefði ekki þurft nema smávegis aðgerðir, þegar vinnslan yrði upp tekin á nýjan leik…
Bóndinn í Krýsuvík vissi ekki nema af einum stað öðrum, þar sem brennisteinn fyndist. Er hann 2 1/2 mílu í norðaustur þaðan. Síðast meðan unnið var í Krýsuvík að brennisteinsnámi, sótti hann þangað allan þann brennistein, sem þar var að fá, á 50 hesta, og hefur það þá verið nálægt 80 ættum. Ekki vissi hann, hvort brennisteinn hefði skapazt þar síðan, og væri það vert athugunar.
Ef til þess skyldi koma, að brennisteinsvinnsla yrði hafin hér að nýju, þá mundi stofnkostnaðurinn verða allmikill, eins og þegar hefur verið bent á. En ég þori að fullyrða, að þetta er kleift, ef hagsýni er gætti. Í fyrsta lagi verður að taka brennisteininn með hinni mestu varkárni. Þá verður og að fara skynsamlega að við hreinsunina og ætti fyrst að þvo hrábrennisteininn. Með þeim hætti hygg ég, að mætti ekki aðeins spara mikið lýsi, heldur einnig yrði brennisteinninn betri en ella. Hversu þessu yrði bezt fyrir komið, skal ég lýsa, þegar ég síðar lýsi þeim aðferðum, sem nú eru notaðar við hreinsun brennisteins í hreinsistöðinni á Húsavík.
Í Krýsuvík er brennisteinninn hreinni og betri en á Norðurlandi. Það þarf ekki heldur að flytja hann óhreinsaðan langar leiðir eftir vondum vegum, svo að framleiðslukostnaðurinn verður minni en á Húsavík. Hins vegar verður að kannast við það, að frá Krýsuvík þarf að flytja brennisteininn hreinsaðan 6 mílna leið til Hólmshafnar, en þaðan er hann fluttur út. En Grindavíkurhöfn er aðeins 2 1/2 mílu frá Krýsuvík og allgóður vegur þar á milli. Ef brennisteinsvinnslan yrði upp tekin, verða starfsmenn verzlunarinnar að skera úr því, hvort muni vera ódýrara, að flytja brennisteininn á hestum til Grindavíkur og þaðan á bátum til Básendahafnar, þar er ekki er siglt á Grindavíkurhöfn, eða flytja hann á hestum alla leið í Hólminn eða til Hafnarfjarðar. En þeir geta gert það betur en ég, því þeir hafa fyrrum haft umsjá með flutningunum og vita, hvað þeir hafa kostað. Þeir ættu einnig að geta reiknað nokkurn veginn, hvað flutningskostnaðurinn yrði, eins og ég hef stungið upp á, og er þá létt að bera það saman, hvor leiðin reyndist ódýrari, og að velja hana að sjálfsögðu.
En þegar nú þar að auki nokkrar smáskútur eru gerðar út til fiskveiða við Ísland, gætu þær tekið brennisteininn á Grindavíkurhöfn, og þá er flutningurinn á landi mjög stuttur.
Hins vegar get ég ekki heitið því, að unnt sé að stunda brennisteinsnám í Krýsuvík um langt skeið í einu, þar eð námurnar eru allar á einum stað og ná ekki yfir sérlega stórt svæði. Þegar brennisteinninn hefur verið tekin úr þeim í 3-4 ár, mun þurfa að hvíla þær um jafnlangan tíma, nema menn yrðu svo heppnir að finna þar kaldar námur, sem hægt væri að vinna meðan brennisteinn myndaðist á ný í lifandi námunum, en ekki er hægt að gera því skóna með nokkurri vissu.
En ef ekki sýnist tiltækilegt að hefja brennisteinsvinnslu í Krýsuvík að þessu athuguðu, virðist mér samt, svo að námurnar liggi ekki þar engum til gagns, að rétt væri að lofa bændum þeim, er þar búa, að hreinsa brennisteininn, gegn því að þeir afhendi hann verzluninni og fengju erfiði sitt og fyrirhöfn goldið eftir landsvenju. Verzlunin mundi að vísu ekki græða mikið á þessu, en hafa þó nokkurn ágóða.
Þá rannsakaði ég, eins og mér var boðið, hvort jarðhitinn væri nokkurs staðar svo mikill, að unnt væri að nota hann til brennisteinshreinsunarinnar. En hann reyndist mér hvergi meiri en svo, að kvikasilfrið kæmist í suðumark. Hann er þannig með öllu ónógur til að bræða með brennisteinn eða eima hann, þegar hann er í föstu formi. En þó að hitinn væri nægur, þá er jarðvegurinn of laus til þess, að hægt sé að koma þar fyrir húsi eða nokkrum tækjum til að handsama hitann, því að þar er hvorki hægt að ganga né standa án þess að hætta sé á, að maður sökkvi í leðjuna, og varð ég oft fyrir því að vaða jörðina upp í hné.
Dagana 18. – 19. júlí fór ég um fjöllin, sem liggja suðvestur frá Kleifarvatni og fram hjá brennisteinsnámunum og beygja síðan í suðaustur til sjávar. Svipaðist ég þar um eftir kalki, sem mér datt í hug, að kynni að finnast þar, af því að kalk er algeng bergtegund í öðrum löndum. En hversu vel sem ég leitaði, fann ég hvergi nokkurn kalkvott, því að hvarvetna þar, sem ég fór eða sá yfir, var enga aðra bergtegund að sjá en sandstein þann, sem áður hefur verið lýst.“
Áhugavert væri að leita uppi leifar húsanna, sem lýst er hér að framan.
Heimild:
-Ólafur Olavius – Ferðabók II og II, Steindór Steindórsson frá Hlöðumíslenskaði, Bókfellsútgáfan, 1964, bls. 272-274 (II).