Kúluhattshellar – ný rás
Gengið var frá Geitafelli á móts við Stórahvamm. Þaðan voru 3.4 km upp í “Kúluhattshella” ofan við Guðrúnarbotna í Heiðinni há.
Ætlunin var að skoða þá betur. Svarta þoka var á svæðinu svo varla sást út úr augum. Auk þess var stormur af suðaustan. Einhver hefði ekki talið þetta árennilegt, en FERLIR, sem er vant miklum hitum á ferðum sínum, tekur andblæ sem þessum fagnandi. Og eftir að hafa sett upp FERLIRshúfur virtist þokunni sem svipt í burt. Þá var ekkert í veginum að leggja af stað. Gengið var þvert á Guðrúnarbotnana og á heiðina.
Fyrst var kíkt í austasta gatið. Það er í jarðfalli, u.þ.b. fjórum metrum í þvermál og tæplega tveggja metra djúpt. Rás, sem liggur niður úr því til suðausturs er um 20 metra löng, talsvert hrunin. Efri hluti jarðfallsins skiptist í tvær rásir. Önnur liggur til norðurs, en hin til norðvesturs. Sú nyrðri er víð, en fremur stutt. Í henni eru dropasteinar og aðrar fallegar hraunmyndanir. Hin er öllu lengri. Nú var rásin könnuð að fullu. Hún er um 100 metra löng. Efst í henni eru tvö önnur op, þar af eitt stórt og mikið.
Skammt neðan við það op, fremst í lægri rás, er beinagrind af hreindýrskálfi. Þessi rás er heil og eru dropasteinar á gólfinu. Hraunstrá eru í lofti. Svo er einnig í stóru rásinni. Löng hraunstrá hanga hér og þar úr loftinu, en víða, einkum neðri hlutinn, er nokkuð hruninn. Á móts við og ofan við þveropið þar sem hreindýrsbeinin eru, er fallegur brúnn flór. Ofan við hann er enn fallegri rauður flór.
Annað jarðfall er þarna skammt vestar. Sunnan í því var stór og mikil hraunrás, en hún endar með hruni eftir um 10 metra. Handan við hrunið má sjá niður í rásina þar sem hún hélt áfram til suðausturs. Ofar í jarðfallinu lá hraunrás upp á við, um 60 metra löng. Hún endar í hruni.
Við skönnun á nágrenninu sást ofan í enn eina rásina. Eftir smátilfæringar var hægt að skríða ofan í hana. Hún rúmgóð og slétt í botninn í fyrstu, en síðan tók við mold I gólfinu uns rásin lokaðist nokkru neðar. Hægra megin neðan við opið er mjög falleg 15 metra þverrás. Í henni er eitt fallegasta hraunsráaloft, sem finnst í helli á Reykjanesi – sannkallaður hraunstráaskógur. Hæðin á rásinni er u.þ.b. mannhæð og eru hraunstráin um 30 cm löng. Loftið er gljáandi og má vel sjá á því hvernig útfellingarnar hafa orðið og hraunstráin hafa orðið til. Þessi rás lokast skyndilega þar skammt innar. Ef mynda á hraunstrá þá ætti að gera það þarna.
Svæðið í nágrenni við þessi göt lofa góðu. Þegar komið var upp aftur var komið enn verra veður en áður, en það lagaðist strax og húfurnar höfðu verið settar upp.
Í þessari ferð var gerður uppdráttur af hellunum á “Kúluhattssvæðinu” og ljósmyndir teknar.
Frábært veður í kvöldkyrrðinni. Gangan tók 4 klst og 2 mín.