Lambafellshraun (Leitarhraun) – 4 op
Spáð var mikilli vætu, en FERLIR hafði náð að semja um þokkalegt veður á svæðinu. Einn FERLIRsfélagi, sem var að skoða leiðir nálægt Ólafsskarðsvegi nýlega, hafði rekist á fjögur op, sem skoða þurfti niður í. Undirniðrið var áður ókannað.
Gengið var ásamt félögum úr HERFÍ frá mælimastrinu við Þrengslaveginn um Lambafellshraun (Leitarhraun) til að skoða þetta betur.
Sæmilegur hellir reyndist vera undir einu opanna, 25-30 metra langur, en lágur (mest 1.20 m), þangað til komið var að þröngu gati (12 cm). Þar fyrir innan virtist rásin víkka, en ekki var hægt að komast þangað inn að þessu sinni. Í öðrum reyndist vera 15-20 metra þröng rás.
Gengið var áleiðis að syðri Eldborginni. Við hraunjaðar „Kristnitökuhraunsins“ (Svínahrauns) var áberandi varða á hraunhól. Sú varða virtist tengjast röð varða frá henni til suðausturs, niður hraunið í átt að Löngubrekkum (þær sem Hraunsel stendur við austan Raufarhólshellis).
Svo er sjá, ef marka má vörðurnar, að um geti verið að ræða gamla leið frá austanverðu Ölfusi upp á Ólafsskarðsleið og áfram til Reykjavíkur eða/og um Heiðarveg, sunnan Bláfjalla og niður á Selvogsleið við Grindarskörð.
Rifjuð var upp sagan af Ólafi, bryta Skálholtsbiskups, er sinnaðist við ráðskonuna. Lagði hún á hann slíkt að hann truflaðist við, hljóp sem leið lá frá Skálholti áleiðis til Reykjavíkur, tapaði lyklum af Skálholtssetrinu við Lyklafell og hljóp síðan til baka um svonefndan Ólafsskarðsveg um Ólafsskarð ofan Jósepsdals, niður með Geitafelli, að Ölfusá, yfir hana og áfram austurúr þangað til hann sprakk á endanum (mjög stytt).
Ólafsskarðsvegur er varðaður (og reyndar stikaður að hluta). FERLIR skoðaði á sínum tíma Hlíðarendasel, en gatan liggur yfir það þriðjung frá Geitafelli að Vörðufelli í suðri (þrjár tóftir og stekkur).
Gengið var á Lambafellsháls og síðan niður brattar hlíðar Lambafells að norðanverðu þar sem komið var niður í Sléttahraun. Austan undir sunnanverðu Lambafelli er gömul varða á hraunhól, að því er virðist ein og stök, en áberandi. Við hana eru grasbalar og lægðir. Gæti verið gamall áningastaður.
Ferðin tók 3 klst og 12 mín. Frábært veður.