Laufdælingastígur I
Í bókinni „Mosfellsbær – saga í 1100 ár„, bls.177 stendur: „Fyrrum lá Laufdælingastígur frá Vilborgarkeldu meðfram sýslumörkum við Árnessýslu suður að Lyklafelli“.
Í „Reiðleiðir í Árnessýslu“ segir: „Þarna eru sýslumót Kjalarnesþings og Árnessýslu, ræður svo Laufdælingastígur sem lá vestur eftir heiðinni allt að Lyklafelli“.
Laufdælingar, gæti það hafa verið „Laugdælingar“?
Hefur þú heyrt um að Stóra Reykjafell hafi verið kallað Sandhalahjúkur?
Jón Pálsson Skrifar í „Austantórum“ um Lágskarðsveginn „Þegar beygt er norður að Kolviðarhóli, við suðvesturhornið á Sandhalahnjúki“.
„Við Lucy gengum í dag frá Nesjavallavegi eftir sýslumótum upp á há Mosfellsheiði. Fundum fljótlega götur sem lágu um graslautir upp á heiðina sem ég held að sé Laufdælingastígur. Vörður voru við götuna og svo aðrar sem ég held að séu á sýslumótum. Snérum svo við sniðhallt við Borgarhóla.
Tók myndir af hleðslu við Helgutjörn. –Kveðja Jón Svanþórsson.“
Þegar FERLIR skoðaði Laufdælingastíg mátti sjá hvar hann liggur upp frá norðaustanverðu Lyklafelli og síðan um gróninga upp austanverða heiðarbrúnina þar sem hún lækkar til austurs og verður svo til að móaflatneskju milli hennar og Dyrfjalla (Sköflungs). Á leiðinni eru nokkrar vörður og vörðubrot. Stefnuvarða er á efsta hól þegar gengið er til norðausturs og önnur, síður veglegri, á lægri rana út úr suðaustanverðum hólnum. Eftir það liggur leiðin um móa og gróninga með stefnu á hæsta hólinn í austanverðri heiðinni. Frá honum hallar landið niður til norðurs. Þegar niður fyrir hólinn er komið sést varða eftst á honum. Hefur hún átt að vera mönnum vegvísir á suðvesturleiðinni. Önnur leið, mun sléttari, liggur litlu austar og á hún eflaust átt að spara fótinn á leiðinni suður. Eftir að halla tekur til norðurs liggur leiðin sem fyrr um gróninga svo til alla leið niður að Vilborgarkeldu.