Leiðarendi – verndun
Hellaferð í Leiðarenda er spennandi ferð fyrir ævintýraþyrsta hópa. Hentar vel eftir vinnu eða sem hluti af lengri ferð. Hellirinn er aðeins í u.þ.b. 10 km fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu.
Einn slíkur, samsettur af fólki á öllum aldri, fór í Leiðarenda nú eitt síðdegið. Í ljós kom að Árni Stefánsson er kominn langt með að ganga þannig frá varnargirðingum og merkingum að draga megi úr líkum á að dropsteinum og öðrum listaverkum náttúrunnar verði raskað af gáleysi. Hins vegar er hægt að skemma alla hluti, ef vilji er til slíks. Hafa ber þó í huga að dropsteinar í hellum njóta verndunarákvæða skv. gildandi reglum um friðlýsingu dropsteina.
Hraunbreiður Íslands geyma steingerða ævintýraheima þar sem glóandi hraunelvur hafa runnið neðanjarðar og skilið eftir sig ranghala og hvelfingar. Í hraunhellum er að finna einstakar jarðmyndanir, s.s. dropasteina, hraunspena, straumfægða veggi og litríkar útfellingar.
Allt þetta hefur Leiðarendi í Tvíbollahrauni upp á að bjóða. Í nýju Hellahandbók Björns Hróarssonar segir að hellirinn sé um 180 metra frá Bláfjallavegi, í Stórabollahrauni. Tvíbollahraunið er ofan á því. Alls er hellirinn er um 900 m langur, greiðfær og aðgengilegur.
Stórabollahraun er u.þ.b. 2000 ára gamalt og hafa dropsteinar og aðrar myndanir lítið breyst allan þann tíma. Brýnt var því sérstaklega fyrir þátttakendum að raska engu og taka ekkert nema myndir.
Áður en Árni hóf störf sín í hellinum fór hann þangað með stjórn Reykjanesfólkvangs. Nota átti tækifærið að skoða hellinn og ræða um leið ástand og aðgerðir við hraunhella í fólkvanginum. Árni var einn þeirra, sem fyrstur kannaði Leiðarenda árið 1991. Þá var hellirinn algerlega ósnortinn, en þótt ekki séu liðin mörg ár hafa ýmsar dásemdir hans verið eyðilagar og jafnvel fjarlægðar, s.s. langir dropsteinar.
Árni sagðist sjá verulegan mun á hellinum frá því sem var. Margir háir og fallegir dropsteinar hafa verið brotnir, sömuleiðis hraunstrá, hraundellur og -rósir. Þá hefur verið þreifað á viðkvæmum bakteríumyndunum á veggjum. Hann sagði þó enn vera mikið heillegt til að varðveita fyrir áhugasamt hellafólk. Hafði hann þegar lagt drög að áætlunum um tilteknar ráðstafanir inni í hellinum sjálfum svo draga megi úr líkum á frekari skemmdum – og um leið auka áhuga og aðgengi að hellinum. Í þær framkvæmdir réðist hann svo í s.l. vetur og vor.
Árni hefur komið fyrir skiltum og gert ýmsar varnaraðgerðir inni í hellinum og sett upp eftirmyndir tveggja stórra dropasteina, sem nú eru horfnir, á þeim stöðum þar sem þeir voru. Á annarri eftirmyndinni af hinum stóru dropsteinum, sem fjarlægðir hafa verið úr hellinum, stendur þetta: „Brotinn 02.04.-23.06.2007“.
Þá hefur Árni límt upp þá dropsteina, sem brotnir hafa verið, en brotin skilin eftir á staðnum. Upplýst skal hér að dropsteinar eru einungis fallegir þar sem þeir eru fæddir á eða undir hellisþakinu. Um leið og búið er að bera þá út úr hellinum breytist mikilfengleiki þeirra í eftirsjá. Skyldu framangreindir dropsteinar t.d. nú vera notaðir einhvers staðar sem stofustáss? Áreiðanlega ekki. Líklega hefur gerandanum þegar hefndst fyrir því skv. þjóðsögunni hvílir bölvun á hverjum þeim er raskar minjum, þ.m.t. náttúruminjum, auk þess sem líkt er refsivert skv. lögum mannanna.
Hafa ber í huga að vitleysingjar hafa alltaf verið til og þeir munu verða til. Spurningin er hvort girðingar munu duga til að hindra skemmdarfíkn þeirra? Langflestir hellagestir ganga þó vel um og þannig á það líka að vera!
Til dropsteinamyndana teljast bæði dropsteinsdrönglar sem hanga niður úr hellisþökum og standa upp úr gólfum. Með auglýsingu nr. 120/1974 voru dropsteinar í öllum hellum landsins friðlýstir. Bannað er að brjóta eða skemma á annan hátt umræddar dropsteinsmyndanir.
Auglýsingin um friðlýsingu dropsteina hljóðar svo: „Samkvæmt heimild í 23. gr. laga nr. 47/1971 um náttúruvernd hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið, fyrir sitt leyti, að lýsa dropsteina í hellum landsins náttúruvætti. Tekur friðlýsing þessi til allra hella landsins.
Til dropsteinsmyndana teljast bæði dropsteinsdrönglar, sem hanga niður úr hellisþökum og niður með hellisveggjum, svo og dropsteinskerti, sem standa á hellisgólfum og syllum hellisveggja.
Bannað er að brjóta eða skemma á annan hátt umræddar dropsteinsmyndanir. Um viðurlög vegna brota á reglum þessum fer eftir ákvæðum náttúruverndarlaga. Felld eru úr gildi eldri ákvæði um vernd dropsteina.
Ráðuneytið er samþykkt friðlýsingunni og birtist hún hér með skírskotun til 32. og 33. gr. laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, og tekur friðlýsingin gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum.
Í menntamálaráðuneytinu, 3. apríl 1974.“
Í bæklingi, sem Slysavarnarfélagsið Landsbjörg gaf út í samvinnu við Hellarannsóknarfélagið, HELLASKOÐUN – FORVARNIR OG UPPLÝSINGAR, segir m.a. um umgengni um hellana o.fl.:
„Hellaskoðun – Að skoða hella er áhugaverður kostur fyrir útivistarfólk og gefur alveg nýja sýn á íslenska náttúru. Til að fá sem mest út úr hellaskoðun þarf að undirbúa ferðirnar vel, vera með réttan búnað og rétt hugarfar. Ef undirbúningurinn er ekki góður þarf ekki mikið til þess að eitthvað fari úrskeiðis og ekki auðveldar það aðstæðurnar ef maður er fastur ofan í helli.
Ferðaáætlun – Hellar eru oftar en ekki í afskekktum hraunum þar sem fáir eru á ferli og fáir þekkja til. Ef eitthvað kemur upp á þarf að vera hægt að finna viðkomandi og spilar ferðaáætlunin þar stórt hlutverk. Hana þarf alltaf að skilja eftir hjá nánustu aðstandendum.
Búnaður – Mjög mikilvægt er að hafa með sér réttan búnað þegar skoða á hella en hann getur tryggt að við komum heil heim. Þegar farið er ofan í helli er góð regla að skilja eitthvað með áberandi lit eftir uppi á yfirborðinu. Það getur flýtt verulega fyrir ef leita þarf að fólki. Ef um óþekktan helli er að ræða er þetta enn mikilvægara.
Hjálmur – Mikilvægt er að hafa hjálm við hellaskoðun. Í hellum er svo til engin veðrun og grjótið getur verið oddhvasst.
Skór – Góðir gönguskór eru mikilvægir. Yfirleitt er ferðin að hellinum yfir ójafnt hraun og ofan í hellum er oft stórgrýti sem klöngrast þarf yfir. Stífir gönguskór sem styðja vel við ökkla koma í veg fyrir óþarfa slys.
Ljós – Í hellum er algert myrkur. Eina ljósið sem þangað kemur er það sem gestir hafa með sér. Ekki þarf mikið til að pera í vasaljósi skemmist og svo er alltaf hætta á að rafhlöður tæmist. Hver hellafari ætti því að hafa minnst tvö ljós, auka rafhlöður og perur. Mjög gott er að hafa ljós á hjálminum til að hafa hendur frjálsar til að geta stutt sig við gólf eða veggi við erfiðar aðstæður. Kerti og kyndlar eru ekki æskilegir ljósgjafar í hellum, auk þess sem þeim fylgir óþrifnaður.
Fatnaður – Hitastig í hellum er í flestum tilvikum 1-4°C, sama hvaða árstími er. Þótt úti sé sólríkur sumardagur þarf að gera ráð fyrir köldu og röku loftslagi hellisins. Ofan í hellum er síðan oft aur, bleyta og hvasst grjót og jafnvel þótt ekkert hafi rignt undanfarna daga getur dropað mikið úr loftinu þannig að auðvelt er að blotna í gegn. Hlífðarfatnaður getur því verið mjög gagnlegur.
Hanskar – Gott er að hafa góða hanska til að verja hendur fyrir hvössu grjóti.
Fjarskipti – Ekkert fjarskiptasamband er í hellum. Mikilvægt er að hafa það í huga þar sem ekki er hægt að treysta á neinn nema góðan ferðafélaga ef eitthvað kemur upp á.
Hættur – Hellar geta verið mjög hættulegir yfirferðar ef ekki er farið gætilega og rétt að hlutunum.
Ís í hellum – Á veturna og vorin geta hellar verið algjörlega ófærir vegna íss. Þetta á sérstaklega við um þá hella þar sem mikið vatn dropar úr lofti.
Grjóthrun – Hrun í hellum á meðan á heimsókn stendur er sjaldgæft. Það hrun sem fólk sér í hellum er yfirleitt frá því að hellirinn myndaðist og hraunið var að kólna. Jarðskjálftar eiga einhvern þátt í hruni en það er einnig sjaldgæft. Líklegast er að hrun geti verið við hellismunna eða rétt fyrir innan hann þar sem áhrifa frosts og þíðu gætir helst.
Laust grjót – Þegar farið er um hella er oft lauslegt grjót sem hangir í lofti eða í og við veggi. Þetta grjót ætti að láta alveg í friði. Ef hreyft er mikið við grjóti, sérstaklega í lofti, er auðvelt að koma af stað hruni.
Umgengni – Að heimsækja hella krefst bæði aga og virðingar fyrir náttúrunni. Mörg dæmi eru um að fallegir hellar hafi verið skemmdir í gegnum tíðina en þar hefur rangt hugarfar oftast stjórnað gjörðum fólks.
Viðkvæmar hraunmyndanir – Dropsteina er að finna í mörgum íslenskum hellum. Þeir standa á gólfi og syllum og geta verið í öllum stærðum og gerðum. Dropsteinar eru viðkvæmir og geta auðveldlega brotnað séu þeir snertir og ber því að forðast það. Brotna dropsteina má alls ekki fjarlægja úr hellum. Hraunstrá er einnig hægt að finna
í mörgum hellum. Þau hanga niður úr loftinu, eru hol að innan og þola alls ekki snertingu. Ýmsar aðrar viðkvæmar myndanir er líka að finna í hellum. Oft myndast bekkir þar sem hraun hefur runnið lengi. Þeir eru oft þunnir og það má alls ekki setjast eða stíga á þá. Þunnur glerungur myndast stundum á gólfum og molnar auðveldlega undan skóm. Reynið að ganga til hliðar við þess konar svæði.
Rusl – Því miður hefur safnast mikið rusl í marga þekktari hella landsins í gegnum tíðina. Takið allt rusl með ykkur út úr hellinum sem þið eruð að skoða og ef þið sjáið rusl eftir aðra, vinsamlegast takið það líka með.
Kerti og kyndlar – Kerti og kyndlar eiga ekkert erindi inn í hella. Kertin skilja eftir mikinn sóðaskap þegar vax slettist niður og kyndlar geta bæði skemmt hella og verið hættulegir fólki. Þegar kyndlar brenna kemur af þeim bæði reykur og sót. Sótið sest á myndanir hellisins og reykurinn getur verið fólki hættulegur, sérstaklega innarlega í hellum þar sem loftstreymi er lítið.“
Á skiltum inni í Leiðarenda má m.a. lesa eftirfarandi: 1. Hellirinn myndaðist við eldgos fyrir um 2000 árum. Minjar hellisins hafa gildi fornminja. 2. Gefið ykkur tíma til að aðlagast myrkrinu. 3. Notið góð ljós, helst höfuðljós. 4. Flýtið ykkur hægt, sýnið aðgát. 5. Horfið og njótið. 6 Ekki snerta og ekki taka myndanir, hvorki brotnar eða óbrotnar. 7. Leyfið beinum lambsins að hvíla í friði. 8. Ekki snerta slím á veggjum í efri enda hellisins. 9. Ekki snerta loft þar sem hrunið hefur úr. Lifið heil.
Stjórn Reykjanesfólkvangs og Hafnarfjarðarbær styrktu framkvæmdina.
Þegar út var komið hafði unga fólkið lært a.m.k. eitt; hvorki má snerta né fjarlægja hellamyndanir. Það er margt hægt að kenna litlu fólki á skömmum tíma.
Frábært veður (skiptir reyndar ekki máli þegar inn er komið). Ferðin tók 1 klst og 1 mín.
Heimild m.a.:
-www.ust.is