Litlar dyngjur virðast elstar eldstöðvanna á Reykjanesskaga – Jón Jónsson

Jarðfræðikort

Í Morgunblaðinu 1978 er viðtal við Jón Jónsson jarðfræðing um aldursákvarðanir á hraunum á Reykjanesskaga (niðurstöðurnar þarf að taka með fyrirvara því ýmiss þróun við áldursákvarðanir hefur orðið síðan viðtalið var birt) undir fyrirsögninni:“Litlar dyngjur virðast elstar eldstöðvanna á Reykjanesskaga„:

Jón Jónsson„Jón Jónsson jarðfræðingur fékk í júní s.l. 200 þúsund króna styrk úr Vísindasjóði vegna kostnaðar við aldursákvarðanir á hraunum á Reykjanesskaga. Til þess að forvítnast nánar um störf Jóns og rannsóknir átti Mbl. viðtal við hann á skrifstofu hans hjá Orkustofnun í vikunni.
Í byrjun kvaðst Jón hafa átt við rannsóknir sínar á Reykjanesskaga að meira eða minna leyti frá árinu 1960, en þó hafi þær fyrstu 5—6 árin verið hrein ígripavinna hjá sér. Ennfremur hefði hann í tvö ár af þessum tíma verið staddur í Mið-Ameríku á vegum Sameinuðu þjóðanna við jarðhitarannsóknir, fyrst í El Salvador og síðan í Nicaragúa. og í þann tíma ekki hafa getað sinnt þessu starfi.
Á vegg í skrifstofu hans er geysistórt kort af Reykjanesskaganum og aðspurður sagði Jón að hann hefði unnið það eftir loftmyndum, en hreinteikningu þess hefðu jarðfræöingarnir Jón Eiríksson og Sigmundur Einarsson unnið. Slíkt kort hefur ekki áður verið gert af Reykjanesskaga né öðru svæði á Íslandi. En núna næstu daga lýkur prentun á skýrslu Jóns um rannsóknir hans, en skýrslan er kostuð og gefin út af Orkustofnun og er í tveimur heftum.
Gígaröð
„Ég hef merkt inn á loftmyndir hvern einasta hraunstraum og hverja eldstöð vestan frá Reykjanestá og austur undir Hellisheiði og þá kortlagt bæði eldri hraunmyndanir og yngri, og hef þá sérstaklega lagt áherzlu á eldstöðvar og hraun sem orðið hafa til eftir að ísöld lauk, þ.e. á síðast liðnum 10—12 þúsund árum. Og það kemur í ljós að ef talið er utan af Reykjanestá og að Hellisheiði þá nálgast eldstöðvarnar töluna 200. Hugsanlega hefur mér einhversstaðar yfirsézt, en ég á orðið mörg sporin á Reykjanesskaganum og held að það geti ekki verið mikið ef eitthvað er. Á þessum tíma, sem ég nefndi áðan, hefur um 42 rúmkílómetrar af hrauni komið upp.“
— Nei, hrauntegundirnar eru ekki þær sömu á þessu svæði. Þeim er skipt í þrjá meginflokka, þ.e. litlar dyngjur, sem gosið hafa því sem við köllum pikrít-basalt og þær virðast vera elztar eldstöðvanna á skaganum eftir að ísöld lauk.

Háleyjabunga

Háleyjabunga.

Sem dæmi um litlar dyngjur get ég nefnt Háleygjabungu, vestast á Reykjanesinu, Lágafell, Vatnsheiði hjá Grindavík, Búrfell í Ölfusi og Dimmadalshæð rétt fyrir ofan Hlíðardal.
— Næst koma svo stórar dyngjur í aldursröð og stærst þeirra er Heiðin há suð-vestur undir Bláfjöllum og er hún nokkuð yfir 60 tengiskílómetra. Önnur stór dyngja er Þráinsskjöldur, sem er gamalt nafn sem ég hef vakið upp á ný og er úr Ferðabók Eggerts og Bjarna, en Þráinsskjaldarhraun þekur alla Vatnsleysuströndina.

Vatnsheiði

Vatnsheiði.

Stóru dyngjurnar á Reykjanesskaga hafa lagt til um 70% af hraununum og hafa gosið hrauni sem við köllum olivin þoleít.
— Þriðji og síðasti meginflokkurinn er sprungugosin og má þar nefna sem dæmi gígaraðirnar sitt hvoru megin við Vesturháls.
— Samanlagt er hraunflöturinn 1064 ferkílómetrar og rúmtakið 42 km. Ef þessari framleiðslu er jafnað niður á 10 þúsund ár, þá gerir það 4.2 rúmkílómetra á hverjum þúsund árum.
— Eftir að landnám hófst, þá virðast hafa komið upp hraun sem ná yfir 94 ferkílómetra svæði, að rúmmáli um 1.8 rúmkílómetra. — Í þessum tölum eru reiknuð hraun sem örugglega hafa runnið mjög stuttu fyrir landnám.

Allmörg hraun runnið eftir landnám

Tvíbollahraun

Tvíbollahraun.

— Það getum við ráðið af einu ljósu öskulagi, sem kallað hefur verið landnámslagið og hefur fallið um árið 900, en það fann Sigurður Þórarinsson fyrst austur í Þjórsárdal og reiknar hann aldur þess út frá rústunum sem þar finnast. Þetta lag er að finna víðsvegar á Reykjanesskaga en í því fann ég kolaðar viðarleifar og við aldursákvörðun þeirra fékkst árið 910 og þá eru skekkjumöguleikar ekki teknir með. Það sýnir að hraun, sem yfir lagið hefur runnið, hlýtur að vera yngra.
Tvíbollahraun— Í ljós hefur komið, að allmörg hraun hafa runnið eftir að landnám hófst og má þá telja Tvíbollahraun um 875, Rjúpnadyngnahraun um 900, Breiðdalshraun um 910, Nýjahraun eða Kapelluhraun um 1010, Ögmundarhraun um 1340 og Selvogshraun um 1340, en fasta aldursákvörðun hef ég ekki á því. Ögmundarhraun er því yngst og virðist ekki hafa gosið frá því að það kom upp.
Af eldri hraunum má telja Leitahraun sem upp hefur komið fyrir um 4600 árum, og er sú aldursákvörðun fengin með geislakolsrannsóknum eða C14 ákvörðun. Sandfellsklofahraun er um 3000 ára, en það er við vesturenda Sveifluháls, Sundhnjúkahraun við Grindavík um 2400 ára og Óbrynnishólar yngri sem eru um 2100 ára.
— Reykjafellshraun, sem ég leyfi mér að kalla svo en sumir kalla Kristnitökuhraun, reynist vera um 1800 ára, en í þessum tölum tek ég skekkjumöguleika ekki með.

Styrkurinn hrekkur ekki til

Strompahraun

Strompahraun.

— Ég veit um kolaðar gróðurleifar undir nokkrum hraunum og það er til aldursákvörðunar á þeim sem ég ætla styrkinn ur Vísindasjóði. Það er hraun úr Stóru-Eldborg undir Geitarhlíð austan við Krýsuvík og Litlu-Eldborg á sama stað. Þ.e. Ögmundarhraun og eldra hraun undir Ögmundarhrauni og svo hraun sem ég kalla Strompahraun, og það nafn hefur Örnefnanefnd samþykkt svo að það er löglegt að setja það á kort.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

— Nei, það er sýnilegt að styrkurinn hrekkur ekki til þessara rannsókna og því til stuðnings get ég talið til að hver aldursákvörðun kostar um 800 sænskar krónur, sem er þó nokkur fjárhæð. Við sendum sýnin út til aldursákvörðunar, en til þess þarf í raun heila rannsóknarstofu.
Tækjakosturinn minn? Ég nota aðeins smásjá, en til ákvörðunar á bergtegundum geri ég þunnsneiðar af berginu og í smásjánni má greina flest alla kristallana í því, nema málma sem eru um 10% af því.

Leiti

Leiti.

— Ég hef hlerað það að þeir í Háskólanum hafi áhuga á að koma upp rannsóknastofu þar sem m.a. mætti aldursgreina bergmyndanir og nota til rannsókna varðandi fornfræði og fleira, en slíkt fyrirtæki er mjög kostnaðarsamt og landið okkar er lítið.

Jarðskjálftar

Jarðskjálftar á Reykjanesi í júlí 2004.

— Nei, það er rétt að ekkert annað svæði á Íslandi hefur verið tekið fyrir á þennan hátt. Það sem er áhugavert við Reykjanesskagann er að hann er hluti af Reykjaneshryggnum eða Mið-Atlantshafshryggnum sem nær eftir Atlantshafinu endilöngu. — Og á þessum hrygg eiga nær allir jarðskjálftar upptök sín, en þessi hryggur liggur um Ísland þvert og það er raunar þetta sem við köllum gosbeltið. Á því eru allar eldstöðvar sem virkar hafa verið eftir að ísöld lauk og öll hájarðhitasvæðin. Atlantshafshryggurinn hefur vakið athygli jarðvísindamanna á síðustu áratugum og Reykjanesskaginn er eitt af þeim fáu svæðum sem er ofan sjávar og sá eini sem hefur í heild verið kortlagður eins nákvæmlega og nú hefur verið gert.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort. Dyngjurnar eru gullitaðar.

— Ég tel að með þessari vinnu minni sé lagður grundvöllur fyrir jarðfræðinga, efnafræðinga og jarðeðlisfræðinga til frekari rannsókna og fjölþættari en ég hef þegar gert. Ég vonast sem sagt til þess að þetta verði sæmilega traustur grundvöllur fyrir aðra að byggja á og ef sú verður raunin þá er ég ánægður.“ – ÁJR

Hafa ber í huga að framangreint viðtal við Jón var tekið árið 1978.

Heimild:
-Morgunblaðið, 184. tbl. 26.08.1978, „Litlar dyngjur virðast elstar eldstöðvanna á Reykjanesskaga“ – Rœtt við Jón Jónsson jarðfrœðing um aldursákvarðanir á hraunum á Reykjanesskaga, bls. 8-9.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.