Loftskeytastöðin á Rjúpnahæð
FERLIR var boðið í skoðunarferð um loftskeytastöðina á Rjúpnahæð. Stöðin, þakin möstrum, línum og lögnum, var reist af Bretum á hæðinni ofan og utan við höfuðborgina snemma í Seinni heimsstyrjöldinni.
Sjálf bækistöðin var hýst í tveimur bröggum efst á hæðinni, milli tveggja mastra er enn standa. Bandaríkjamenn yfirtóku síðan bækistöðina. Þeir voru rifnir og nýtt hús byggt undir vaxandi og ómissandi starfsemi árið 1952. Það hús stendur enn og hýsir um þessar mundir allar kynslóðir senda, allt frá örfáum vöttum til nokkurra þúsunda. Á næstu mánuðum (þetta er ritað í okt. 2007) verða möstrin felld og húsið jafnað við jörðu. Svæðið er komið á framkvæmd deiliskipulags Kópavogs og þá og þegar að því kemur verður engu þyrmt – ef af líkum lætur. Nú þegar er byrjað að grafa fyrir og leggja götur á svæðinu.
Umsjónarmaður loftskeytastöðvarinnar, greinilega eldklár á sínu sviði, en fannst greinilega miður, líkt og áheyrendum, að rífa þyrfti hið veglega hús á hæðinni. Skipulagið gerir þar ráð fyrir tvöföldum nútímavegi (sem eflaust verður orðinn úreltur eftir hálfa öld), en með ofurlítilli hugsun og broti af skynsemi hefði auðveldlega verið hægt að gera það að miðstöð svæðisins; annað hvort sem safnhúsi eða einhverju öðru ekki síður merkilegu. En gróðarhyggjan spyr ekki að slíku – lóðin mun vera verðmætari en húsræksnið, sem þó virðist bara í ágætu ástandi, enda vel vandað til verksins í upphafi.
Vangaveltur koma óneitanlega upp um hvers vegna íbúar Kópavogs hafi ekkert lagt til málanna í þessum efnum. Kannski hafa þeir bara ekki skoðað málið nægilega vel eða velt væntanlegum afleiðingum fyrir sér – sem og möguleikum á nýtingu hússins.
Ætla má að einhver hafi tekið skyndiákvörðun um brotthvarf þessara minja í reykfylltu herbergi án sérstakrar umhugsunar.
Loftnetin utandyra virtust fleiri en eyjarnar á Breiðafirði og hólarnir í Vatnsdal. Víravirkin eru sum að sjálfsögðu orðin úrelt, en þau þjónuðu þó sínum tilgangi á meðan var. Það eitt ætti að kalla á svolítið viðstaldur. Mannsævin er stutt, en ávallt minninga virði. Það finnst a.m.k. afkomendunum. Þeim finnst og mikilvægt að halda í minningu þeirra, öðrum eftirlifandi til áminningar og eftirbreytni. Ákvarðanatakar í bæjarstjórn Kópavogsbæjar virðast allir tröllum gefnir í þeim efnum.
Þegar inn í sendistöðina var komið birtist fyrst íslenskt karlkyns; Spói. Hann tók fagnandi á móti hálfkvenkynssammyndinni Brá – ætlaði reyndar aldrei að láta af fagnaðarlátununum. Greyið var reynar að koma úr eistaaðgerð og því ekki til stórræðna líklegur.
Inni í sendistöðinni var óendanlega mikið af sendum og öðrum tækjum. Aðallega stuttbylgju og langbylgjusendar fyrir flugfjarskipti. Í kjallaranum voru síðan fm sendar fyrir x-ið og einhverjar fleiri stöðvar. Ekki var þera neitt útvarpstæki, bara símtól sem hægt var að tengja við suma sendana. Í rauninni eru þarna minjar um upphaf fjarskipta hér á landi. Fyrsti sendirinn, „serial no 1“, brann að vísu yfir á sínum tíma, en þarna er enn „serial no 2“, sem verður að teljast allnokkur safngripur. Síðan tekur hver safngripurinn við af örðum – í þróunarröðinni. Sum nöfnin er alkunn, en önnur ekki. Í ljós kom að þekking og reynsla íslenskra sérfræðinga dugðu vel til að betrumbæta sum tækin þeannig að þau dugðu betur en áður þekktist. Það er jú varðveislunnar virði. Ekki er vitað til þess að saga loftskeytastöðvarinnar hafi verið skráð – líklegra er lengra í söguna en eyðileggingu hennar.
Fólk vill víst ekki hafa loftnetin þarna lengur, sem verður jú að teljast eðlilegt. Það verður víst að vera pláss fyrir fleiri blokkir eða einbýlishús í Kópavogi. Þó hefði ekki orðið fráfallssök þótt eitt ef elstu möstrunum hefði verið hlíft, sem minjamastri fyrir það sem var (hugsað fram í tímann).
Einkahlutafélag mun á næstunni hefja rekstur fjarskiptamastra á gamla varnarsvæðinu í nágrenni Grindavíkur samkvæmt upplýsingum blaðsins. „Í dag rekur félagið möstur við Rjúpnahæð í Kópavogi, en á því svæði stendur til að byggja og þurfa möstrin því að víkja. Þau möstur verða þó ekki flutt til Grindavíkur heldur munu Flugfjarskipti nota möstur sem bandaríski herinn skildi eftir við fjallið Þorbjörn. Möstrin á Rjúpnahæð verða tekin niður og gerður hefur verið samningur við Kópavogsbæ um frágang þess máls. Möstrin sem Flugfjarskipti hyggjast taka í notkun í námunda við Grindavík eru um 10-12 talsins, en þau verða notuð til fjarskipta við flugvélar á flugi í íslenska flugstjórnarsvæðinu yfir Norður-Atlantshafi.
Í fyrra keypti Flugfjarskipti hluta jarðarinnar á Galtarstöðum í Flóahreppi og hugðust flytja möstrin sem standa á Rjúpnahæð þangað. Stjórn hreppsins hafnaði hins vegar beiðni Flugfjarskipta um að fá að reisa möstrin þar, en hæð þeirra átti að vara 18-36 metrar. Gert er ráð fyrir að flutningurinn frá Rjúpnahæð fari fram í áföngum á þessu ári og næsta, en möstrin á Rjúpnahæð verða í notkun þar til að fyrirtækið er endanlega flutt á nýjan stað. Kópavogsbær reiknar með að hægt verði að hefja byggingar af fullum krafti næsta sumar og að svæðið verði að mestu full byggt 2010-2011.“ Hið jákvæða í þessu öllu saman er að starfsemin færist til Grindavíkur, en hið neikvæða felst í niðurrifshugsjóninni.
Til frekari fróðleiks er rétt að rifja upp að loftskeytastöðin á Melunum tók til starfa 17. júní 1918. Þetta var neistasendistöð með krystalviðtækjum. Tvö 77 metra möstur voru reist fyrir loftnet. Loftskeytastöðin sendi út og tók á móti á morsi fyrsta áratuginn. Síðar annaðist hún einnig talskipti og veitti öllum skipum í námunda við Ísland ómetanlega þjónustu sem stórbætti öryggi sjófarenda.
Frá örófi alda hafa menn reynt að finna aðferðir til að hafa samskipti við aðra. Sending reykmerkja og trumbusláttur eru meðal þeirra aðferða sem notaðar voru í upphafi en fjarskiptatækni nútímans byggist aftur á móti á eiginleikum rafmagns og rafsegulmagns. Gríðarlegar framfarir urðu í tæknimálum á 19. öld. Þá bjó t.d. Ampére til nálaritsíma og stuttu síðar smíðaði Morse nothæfan ritsímalykil og bjó til sérstakt stafróf. Árið 1876 talaði Bell í síma í fyrsta skipti og Marconi sendi fyrstu loftskeytin árið 1897.
Árið 1906 markar tímamót í fjarskiptasögu Íslendinga. Það ár var sæsímastrengur fyrir ritsíma lagður frá Skotlandi um Færeyjar til Íslands og kom hann á land á Seyðisfirði. Skeyta- og talsími var lagður frá Seyðisfirði um Akureyri og til Reykjavíkur og rauf hann einangrunina innanlands. Margir mótmæltu lagningu símans og töldu loftskeyti vænlegri kost en Hannesi Hafstein ráðherra tókst að sannfæra Alþingi um ágæti símans.
Það liðu þó mörg ár þar til allir landsmenn komust í símasamband en lagningu síma í sveitir lauk í kringum 1960 og voru þá enn margir símar á sömu línunni.
Landssími Íslands var stofnaður sama ár og símtæknin kom til landsins, árið 1906, og var hann til húsa í gamla barnaskólanum í Reykjavík á horni Pósthússtrætis og Hafnarstrætis. Fyrsti yfirmaður Landssímans var Norðmaðurinn Olav Forberg sem hafði stjórnað lagningu símalína um landið. Fyrstu menntuðu íslensku símamennirnir voru símritarar sem höfðu verið í námi hjá Mikla norræna ritsímafélaginu í Kaupmannahöfn.
Eftirsóknarvert þótti að vinna við talsímann og sköpuðust með honum ný atvinnutækifæri fyrir karla og konur. Árið 1935 var síma- og póstþjónustan sett undir einn hatt en árið 1998 skildu leiðir á ný og Landssími Íslands hf. var stofnaður.
Loftskeytastöð tók til starfa á Melunum í Reykjavík þann 17. júní 1918 í því húsi sem Fjarskiptasafnið er nú og kallaðist hún Reykjavík radíó. Sunnan- og norðanmegin hennar voru tvær 77 m háar loftnetsstangir. Fyrsta kallmerki stöðvarinnar var OXR en árið 1919 var Íslandi úthlutað kallmerkinu TF og bar stöðin síðan kallmerkið TFA. Upphaflega var loftskeytastöðin hugsuð sem varasamband til útlanda, viðbót við sæsímann, en aðalhlutverk hennar varð brátt þjónusta við skip og báta og var hún bylting fyrir öryggi þeirra.
Í fyrstu fóru öll fjarskipti við skip fram á morsi en talfjarskipti hófust árið 1930. Fyrsta íslenska fiskiskipið sem fékk loftskeytatæki var togarinn Egill Skallagrímsson, árið 1920.
Tveimur árum síðar var fyrsti loftskeytamaðurinn ráðinn til starfa á íslenskt skip. Þegar skipum með loftskeytatæki fór að fjölga varð hörgull á mönnum sem gátu sinnt þessum störfum og var því efnt til námskeiðs fyrir unga menn sem vildu læra loftskeytafræði. Lauk fyrsti hópurinn námi árið 1923. Á hernámsárunum var Reykjavík radíó undir eftirliti hernámsliðsins. Þá voru loftskeytastöðvar reistar víða um land, t.a.m. á Rjúpnahæð og tvær við Grindavík.
Síminn hefur sinnt radíóþjónustu við flugvélar frá því í lok síðari heimsstyrjaldar. Þeirri þjónustu er sinnt í Gufunesi. Stöðinni á Rjúpnahæð hefur jafnan verið fjarstýrt þaðan.
Árið 1963 fluttist öll starfsemi Reykjavík radíó í Gufunes sem er nú aðalstrandstöð fyrir skip auk þess að veita flugvélum fjarskiptaþjónustu.
Reykvíkingar voru fljótir að taka við sér og fá sér síma. Árið 1912 voru notendur í bænum alls 300 talsins, tíu árum síðar voru þeir nær 1100 og árið 1928 voru um 2400 símnotendur í Reykjavík. Þrátt fyrir að búið væri að byggja eina hæð ofan á gömlu símstöðina voru þrengslin orðin slík að ekkert pláss var fyrir fleiri skiptiborð og voru vinnuaðstæður mjög erfiðar. Ákveðið var að reisa nýtt hús fyrir starfsemi Símans og fékkst til þess lóð við Austurvöll.
Árið 1932 voru fyrstu sjálfvirku símstöðvarnar í Reykjavík og Hafnarfirði teknar í notkun. Þá gátu bæjarbúar hringt hver í annan án þess að fá samband í gegnum „miðstöð“ og hafa eflaust einhverjir saknað þess að þurfa ekki lengur að tala við stúlkurnar þar.
Sjálfvirkum stöðvum fjölgaði smám saman á landinu og árið 1976 voru allir þéttbýlisstaðir komnir með sjálfvirkan síma. Árið 1986 voru allir símar landsmanna tengdir sjálfvirkum stöðvum og fréttir sem menn heyrðu óvart í gegnum sveitasímana heyrðu sögunni til.
Símastaurar og línur sáust vart lengur í landslaginu þar sem farið var að plægja strengina í jörðu eða setja upp radíósambönd. (Vonandi mun slík þróun og verða v/jarðvarmavirkjanir hér á landi til lengri framtiðar litið).
Lagning ljósleiðara um landið hófst árið 1985. Með honum jukust talgæði til muna en stafræn kerfi eru auk þess öruggari og hagkvæmari en fyrri kerfi. Flutningur annarra gagna en símtala varð mögulegur og var almenna gagnaflutningsnetið tekið í notkun ári síðar. Fyrstu stafrænu (digital) símstöðvarnar voru opnaðar árið 1984 og náði sú tækni til allra símstöðva ellefu árum síðar. Með stafrænu tækninni var unnt að bjóða upp á ýmsa sérþjónustu. Íslendingar eru fljótir að tileinka sér nýjungar og það átti svo sannarlega við um farsímana. NMT-kerfið hóf göngu sína árið 1986 og GSM-kerfið árið 1994. Árið 1998 var breiðbandið tekið í notkun og verður það notað fyrir margvíslegan gagnaflutning í framtíðinni, s.s. síma, sjónvarp, útvarp og tölvur. Það hefur verið kallað upplýsingahraðbraut framtíðarinnar.
Talsamband við útlönd á stuttbylgjum var opnað árið 1935 og voru um 250 samtöl afgreidd fyrsta mánuðinn. Gjaldið fyrir útlandasímtal þætti hátt í dag en það var þá 33 kr. fyrir þriggja mínútna símtal sem jafngilti því sem næst heilu ærverði. Til samanburðar má geta þess að áskrift að dagblaði kostaði á sama tíma 2-3 kr. á mánuði. Nýr sæsímastrengur, Scotice, milli Skotlands og Íslands var tekinn í notkun árið 1962 og olli hann enn einni byltingunni í samskiptum Íslendinga og annarra þjóða. Í tengslum við strenginn var komið upp telexþjónustu hér á landi og varð hún mjög vinsæl hjá fyrirtækjum og stofnunum. Ári síðar var Icecan-strengurinn, milli Íslands og Kanada, formlega tekinn í notkun.
Árið 1980 kom jarðstöðin Skyggnir til sögunnar og fóru þá samtöl til útlanda um gervihnött. Þá var fyrst hægt að hringja beint til annarra landa. Skyggnir sinnir enn hluta þjónustunnar og er einnig notaður sem varaleið en árið 1994 var nýr sæstrengur, Cantat-3, tekinn í notkun. Hann liggur þvert yfir Atlantshafið, frá Evrópu til Ameríku, en grein frá honum tengist Íslandi. Um hann fer nú meirihluti símtala frá landinu til útlanda og mikill gagnaflutningur, s.s. Internetið.
Í deiliskipulagi fyrir Rjúpnahæð segir m.a.: „Í tillögunni er gert ráð fyrir nýju íbúðarsvæði vestast í Rjúpnahæð. Nánar tiltekið afmarkast deiliskipulagssvæðið af opnu svæði við fyrirhugaða Smalaholti til vesturs, skógræktarsvæði og golfvelli GKG til norðurs, fyrirhugaðri byggð við Austurkór, Auðnukór og Álmakór til austurs sveitarfélagsmörkum Kópavogs og Garðabæjar til suðurs. Áætlað er að á svæðinu rís 120 íbúðir í sérbýli og fjölbýli. Aðkoma er fyrirhugðu Ásakór um Austurkór.“
Svo mörg voru þau orð…
Við skoðun FERLIRs komu í ljós tóftir norðan við afmarkaða girðingu loftskeytastöðvarinnar. Í gögnum segir að „í norðurhlíðum Rjúpnahæðar ofan golfvallar eru menjar gamals sels. Selið var verndað með bæjarvernd í tengslum við framkvæmdir sem áætlaðar voru á svæðinu. Framkvæmdir þessar voru Landgræðsluskógrækt, lagning reiðstíga og gerð golfvallar.“
Ef grannt er skoðað er þarna um að ræða leifar beitarhúss, væntanlega frá Fífuhvammi. Fífuhvammslækur hefur áður runnið um dalverpið, sem nú hefur verið fylt upp. Ofan við bakka þess hefur nefnt sel að öllum líkindum verið. Erfitt verður að staðsetja það af nákvæmni úr því sem komið er, bæði vegna þess að trjám hefur verið plantað í neðanverða hlíðina auk þess sem verulegt rask hefur orðið neðan hennar vegna undangenginna framkvæmda.
Mannvirkin og söguleg tilvist þeirra mun að óbreyttu hverfa á næstu mánuðum. Reyndar er leitt til þess að vita því áhugafólk um söfnun minja frá stríðsárunum hefur lengi leitað eftir slíku húsnæði fyrir safn. Myndirnar hér að ofan voru teknar í okt 2007, en myndin að neðan ári síðar. Segja má að nú sé Snorrabúð stekkur.
Heimildir m.a.:
-http://siminn/saga_simans/+loftskeytast.is
-http://www.fjarskiptahandbokin.is/
-Kopavogur.is