Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi – IV
Guðmundur Björgvin Jónsson skrifaði bókina „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleystrandarhreppi„, sem hann gaf út árið 1987. Bókin er merkileg heimild um framangreint í hreppnum.
Formáli
Guðmundur Björgvin er fæddur að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd 1. október 1913, en þar bjuggu þá foreldrar hans, Jón Einarsson útvegsbóndi, d. 1929, og Margrét Pétursdóttir, d. 1918. Hann var því ungur að árum er hann missti móður sína, aðeins 5 ára, og föður sinn á 7. ári. Hann ólst upp hjá móðursystur sinni Guðríði Pétursdóttur að Brekku undir Vogastapa og manni hennar Magnúsi Eyjólfssyni.
Í bók Guðmundar, „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi„, sem hann gaf út árið 1987, koma m.a. fram fróðlegar upplýsingar um fólk og aðbúnað þess á Vatnsleysuströndinni fyrrum.
Í Landnámu er sagt frá Steinunni hinni gömlu, er gaf Eyvindi fóstra sínum land milli Hvassahrauns og Kvígu-Vogabjargs og er það land nú nefnt Vatnsleysustrandarhreppur.
Um nafnið Vatnsleysuströnd hefur verið nokkur meiningarmunur. Oftast er nafnið tengt við vatnsleysi, sbr. að varla sjáist rennandi vatn. Önnur skýring er til, sú að vatn renni laust og óbundið neðanjarðar og er hún trúlegri. Vatnið er í miklum mæli flæðandi undir þunnum hraunhjúp, eftir opnum æðum og sprungum (gjám) frá hálendinu þar til það fellur í sjó fram og er vel greinanlegt með fram allri strandlengjunni í Vatnsleysustrandarhreppi, að vísu einungis á lágum sjó, fjöruvötnum.
Áður hefur verið fjallað um bæina á Ströndinni allt frá Vogastapa að og með Kálfatjarnarhverfi. Hér verður fjallað um „Innheiðarbæina“ austan Kálfatjarnarhverfis.
Flekkuvík (Vesturbær)
Innheiðarbæirnir byrja á Flekkuvík að sunnan.
Fyrir aldamótin, og reyndar eftir það, var tvíbýli í Flekkuvík. Vesturbærinn brann til grunna árið 1935. Hjónin Úlfar Bergsson og Aðalheiður Guðmundsdóttir keyptu síðar Minni-Vatnsleysu af Auðunni Sæmundssyni, sem flutti til reykjavíkur árið 1938.
Flekkuvík (Austurbær – rústir)
Í Austurbæ bjuggu um 1880 hjónin Stefán Stefánsson, f. 1874, og kona hans Katrín Guðmundsdóttir. Þau ólu upp systurson Katrínar, Guðmund Jóhannesson, síðar bónda í Flekkuvík.
Guðmundur var eftirsóttur til allrar vinnu vegna dugnaðar og hagsýni og var hann oft í ábyrgðarstörfum fyrir sveit sína. Hann vann mikið út frá heimili sínu þó erfitt væri að sækja vinnu að heiman. Flekkuvík var fjærst allra byggða í hreppnum hvað samgöngur snerti, hvort sem var gamli gönguvegurinn eða fyrsti akvegurinn. Átti Guðmundur því mörg spor að heiman og heim, en húsfreyjan var bundin heimilinu með 12 börn, en gaf þó ekki bónda sínum eftir í dugnaði og nægjusemi. Þau nytjuðu túnið og höfðu mjólk handa heimilinu og ekkert fram yfir það, þó aðrir bændur væru farnir að selja mjólk til Reykjavíkur.
Guðmundur bóndi byggði upp bæ sinn árið 1926. Hann lést árið 1959, þá afleggst Austurbær.
Flekkuvíkurland og fjaran þar er fyrir það merkilegt, að þangað sækja fuglaskoðendur mikið.
Rifshali (rústir)
Í Rifshala bjuggu fyrir og eftir aldamót Halldór Auðunsson, f. 1855, og kona hans, Ingibjörg Sigurðardóttir, f. 1857. Rifshali mun hafa greitt landskuld til Eystribæjar Flekkuvíkur og fór í eyði um 1922-23.
Minni-Vatnsleysa
Minni-Vatnsleysa var með stærstu býlum hreppsins hvað varðaði húsakost og heimilisfólk. Sjósókn og sjávarútvegur var þar með því mesta í hreppnum, enda oft vitnað í fjölda vermanna þar á vetrarvertíð, auk heimilisfólks. Um aldamót bjuggu þar Sæmundur Jónsson og kona hans Guðrún Lísbet Ólafsdóttir.
Sæmundur gerði út mörg skip þegar best lét, m.a. átti hann hlut í m/b Hermanni, en hann fórst 26. mars 1916. Var Sæmundur þá orðinn hálfáttræður og var farinn að láta undan síga vegna aldurs og lést hann árið 1925.
Auðunn Sæmundsson tók við búi foreldra sinna, gerist skipstjóri og stundaði sjómennskuna meðan kraftar leyfðu. Kona hans var Vilhelmína Þorsteinsdóttir og eignuðust þau 12 börn. Þaðan var seld mjólk til Reykjavíkur og voru börnin dugleg að koma mjólkurbrúsunum í veg fyrir mjólkurbílinn, þó löng væri leiðin, um óveg og í myrkri að vetri til, og svo þurfi að koma skepnufóðri og öðrum nauðþurftum heim að kvöldi.
Dugnaði þeirra var líka viðbrugðið seinna á æviskeiði þeirra. Enn í dag er minnst á Auðunssystkinin frá Minni-vatnsleysu sökum atgervis.
Margir af þessum bræðrum urðu landskunnir togaraskipstjórar og einnig mágar þeirra.
Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur árið 1938 og þá keypti Úlfar Bergsson hús og jörð. Reif hann síðan gamla húsið og byggði, að mestu úr efnivið þess gamla, nýtt íbúðarhús árið 1941 og lét forskala það, eins og það er kallað og þá var í tísku.
Um 1944 varð eigandi að Minni-Vatnsleysu Arngrímur Vídalín Guðmundsson, en seldi Halldóri Ágústssyni frá Halakoti árið 1948. Hann og kona hans, Eyþóra Þórðardóttir frá Stóru-Vatnsleysu, seldu Þorvaldi Guðmundssyni 1953, eiganda að stærsta svínabúi landsins. Þorvaldur notaði íbúðarhúsið sem starfsmannaíbúð, uns hann reif það árið 1978 og byggði ný hús fyrir menn og skepnur.
Nálægt grunni gamla hússins á Minni-Vatnsleysu lét Þorvaldur setja styttu, sem hann hafði látið gera. Heitir hún Litli sjómaðurinn, til minningar um þá er sóttu sjóinn. Styttuna gerði listamaðurinn Ragnar Kjartansson.
Styttan stendur vestan við Ráðsmannsbústaðinn, skammt ofan við sjávarkambinn.
Miðengi
Miðengi var grasbýli í landi Minni-Vatnsleysu, niður við sjó við landamörk Minni- og Stóru-Vatnsleysu. Þar bjuggu Sigurður Lárus Jónsson, f. 1877, og kona hans Ingibjörg Jónasdóttir, f. 1886.
Sigurður þótti afburða sjómaður og mannkostamaður. Hann fórst við Garðskaga 26. mars 1916 þegar Hermann m/b sökk. Eftir þetta slys flutti Ingibjörg til Hafnarfjarðar og lét flytja húsið þangað og er það nú Krosseyrarvegur 2, en hefur tekið breytingum.
Stóra-Vatnsleysa (Vesturbær)
Þar bjuggu Sigurður Jónsson, silfursmiður, f. 1814, og kona hans Oddný. Samtími og á eftir Sigurði bjuggu í Vesturbænum Sigurjón Jónsson, f. 1873, og sambýliskona hans, Guðrún Filippusdóttir. Síðustu ábúendurnir í Vesturbænum voru Pétur Jóakimsson, f. 1878, og kona hans, Agnes Felixdóttir. Þau fluttu til Hafnarfjarðar en bærinn lagðist undir Austurbæ og var ekki rifinn fyrr en um 1940.
Stóra-Vatnsleysa (Austurbær)
Í Austurbænum bjuggu Stefán Pálsson frá Hvassahrauni, f. 1838, og kona hans, Guðrún Gísladóttir, f. 1823.
Stefán rak mikla útgerð, var vel efnaður og hafði fjölda vinnuhjúa. Hann byggði upp Austurbæ um 1884-85 úr „James Town“ strandinu í Höfnum. Var húsið hæð og ris með 10 herbergjum.
Bjarni Stefánsson, sem tók við búinu, var mikill búhöldur. Kona hans var Elín, dóttir Sæmundar bónda á Minni-Vatnsleysu. Bjarni hélt áfram útgerð og var ekki eftirbátur föður síns með umfangsmikinn búskap sem að sjálfsögðu þurfti mikinn mannafla, enda húsakostur stór og góður.
Bjarni seldi 2/3 hluta Stóru-Vatnsleysu, sem þá var fyrir löngu orðið einbýli. Var kaupandinn Þórður Jónasson, bóndi, og kona hans, Þórunn Einarsdóttir. Þau komu frá Keflavík.
Á Stóru-Vatnsleysu fékk Þórður tækifæri við sitt hæfi, fór fljótt að koma upp bústofni, jafnframt sjósókn og var um tíma með stærsta einkarekstur í hreppnum. Á þeim 27 árum er hann bjó á Stóru-Vatnsleysu eignaðist hann 7 vélskip frá 2 tonnum til 35 tonna. Árið 1952 byggði hann núverandi íbúðarhús og í framhaldi af því 51 kúa fjós.
Þórði höfðu aukist grasnytjar, eftir að hann sjálfur lét gera akfæran veg í gegnum hraunið um 10 km langan, frá Kúagerði og til fjalla að Höskuldarvöllum. Þegar Þórður var búinn að koma þessu í kring og nýlokið við fjósbygginguna, veiktist hann og lést árið 1959, 64 ára gamall. Sá því aldrei stærsta draum sinn rætast.
Bjarni Stefánsson var samtímis Þórði með sinn 1/3 af jarðarbúskap, þar til hann féll frá 1954.
Eftir lát Þórðar Jónassonar tók við búinu sonur hans, Sæmundur, og hefur hann rekið það síðan árið 1961.
Með nokkrum rétti má segja að á Stóru-Vatnsleysu hafi verið þríbýli um aldamótin, því norður og niður af Vesturbænum var lítið hús sem kallað var Skálinn og við sóknarmannatal árið 1900 var fólkið úr þessum þrem húsum allt skrifað á Stóru-Vatnsleysu án sundurliðunar.
Á Stóru-Vatnsleysu dvaldi Magnús nokkur Eyjólfsson frá Torfastöðum í Fljótshlíð, f. 1827. Magnús var kallaður „gjörtlari“, en það er fornt nafn á gull- og silfursmiðum. Magnús var ölkær maður, þó aldrei yrði það neinum til meins. Svo hagar til á Stóru-Vatnsleysu, að í gegnum túnið liggur Hrafnagjá og sagt er að hún liggi í sjó fram út í Vatnsleysuvík.
Er gjá þessi víða hættuleg í túninu, með stöllum og syllum og heitir ein syllan „Magnúsarsæti“ eftir Magnúsi „gjörtlara“. Er sagt að margar ferðir hafi Magnús farið á syllu þessa og sofið þar úr sér vímuna. Í bergið fyrir ofan syllu þessa eru höggnir stafir, ME. 1888, og þar fyrir neðan S.J Stafirnir gætu verið upphafsstafir þess er meitlaði þetta í bergið og að ME. eigi við Magnús. S.J. gæti átt við tvo menn frá Stóru-Vatnsleysu. Annar var Sigurjón Jónsson, síðar bóndi í Garðhúsum í Vatnsleysutúninu, en árið 1888 er Sigurjón 14 ára gamall og vil ég síður eigna honum þetta verk. Hinn var Sigurður Jónsson, bóndi og silfursmiður, f. 1814, og hefur hann þá verið 74 ára árið 1888 og því trúlegra að hann hafi gert þessa stafi, þó orðinn þetta gamall, en stafirnir eru gerðir af hagleiksmanni með góðum verkfærum.
Stóra-Vatnsleysa (Skálinn)
Norðan og neðan við Stóru-Vatnsleysu var lítið hús úr timbri sem var kallað Skálinn. Þar bjuggu hjónin Guðjón Jónsson, bátasmiður, f. 1857, og Guðrún Torfadóttir, f. 1861. Guðjón byggði Skálann sjálfur, en árið 1901 flutti fjölskyldan til keflavíkur. Guðjón reif húsið og flutti það til keflavíkur og byggði úr því íbúðarhúsið Framnes í keflavík og þar bjó fjölskyldan til dauðadags. Framnes var rifið árið 1986.
Vatnsleysa I
Vatnsleysu byggði Einar Þórðarson frá Stóru-Vatnsleysu árið 1966 í landi Stóru-Vatnsleysu. Einar stundaði sjó, einkabílarekstur og kyndiltækjaviðgerðir hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, auk annarskonar vinnu.
Vatnsleysa II
Húsið bar byggt í landi Stóru-Vatnsleysu, austan hennar við heimaksturinn og vestan Vatnsleysu. Húsið lét Sigrún Þórðardóttir kennari frá Stóru-Vatnsleysu byggja árið 1986.
Móabær (rústir)
Móabær var í landi Stóru-Vatnsleysu, við girðingu milli Vatnsleysanna og austan við götu sem þar er á milli. Var það lítið grasbýli. Þar bjuggu hjónin Jón Jónsson, f. 1838, og Ragnheiður Halldórsdóttir, f. 1838. Jón og Ragnheiður voru í Móabæ fram yfir 1900 og síðustu búendur þar.
Nýibær (rústir)
Nýibær var lítið grasbýli niður af Móabæ, við sjávarkambinn, í landi Stóru-Vatnsleysu. Þar bjuggu hjónin Jónas Guðmundsson, f. 1848, og Ólöf Helgadóttir, f. 1886. Síðar flutti það fólk til Hafnarfjarðar með það sem nýtilegt var úr Nýjabæ og byggði upp þar sem nú er Vörðustígur 3 í Hafnarfirði.
Naustakot (tóftir)
Naustakot var austur af Nýjabæ, niður við sjó, lítið grasbýli í landi Stóru-Vatnsleysu. Þar bjuggu hjónin Páll Jóhannesson, f. 1849, og Guðlaug Jónsdóttir, f. 1830. Bjuggu þau þarna til dauðadags.
Páll var oft kallaður Stóri-Palli og bærinn Pálsbær eða Pallakot. Fyrir neðan bæinn var einnig Pallavör (lending) Páll var mikill sjómaður og öruggur við allt er laut að sjó. Páll mun hafa verið síðastur allra kotbænda á Stóru-Vatnsleysulandinu og var í Naustakoti lítið fram yfir 1930.
Garðhús
Garðhús var austur af Naustakoti niður við sjó, tómthús í landi Stóru-Vatnsleysu. Þar byggðu og þangað fluttu Sigurjón Jónsson og sambýliskona hans, Guðrún Filippusdóttir. Komu þau frá Stóru-Vatnsleysu, Vesturbæ. Þau byggðu Garðhús rétt eftir aldamótin og voru þar í nær 20 ár, en fluttu síðan til Hafnarfjarðar, rifu bæinn og byggðu hann upp þar sem nú er Krosseyrarvegur 11. Enginn var eftir þeirra dag í Garðhúsum.
Hvassahraun
Hvassahraun var lengi tvíbýli 1 og 2, auk hjáleigukota. Hvassahraun 1 var löngum talið höfðingjaheimili.
Þar höfðu búið 5 ættliðir fram til ársins 1914 og var síðasta húsfrú Þórunn Einarsdóttir. hennar maður var Guðmundur Stefánsson, f. 1860. Um aldamótin voru 12 í heimili í Hvassahrauni 1.
Árið 1914 komu ung hjó að Hvassahrauni 1, Sigurður Sæmundsson og Kristín Þórðardóttir. Sigurður var stórbóndi í Hvassahrauni, minnst af sjó, en mest af sauðfjárrækt. Þegar best lét var hann talinn fjársterkasti bóndi sunnan Hafnarfjarðar, enda jörðin kostajörð og hraunið gjöfult og snjólétt, og gekk fé þar úti að jafnaði.
Sigurður og Kristín fluttu frá Hvassahrauni til Hafnarfjarðar árið 1942 og bjuggu þar til dauðadags.
Af Sigurði keypti Þóroddur Jónsson, heildsali, Hvassahraun árið 1942 og seldi síðan aftur eftir 13 ár, eða árið 1955, Þorkeli Helgasyni, sem svo seldi Fjáreigandafelagi Reykjavíkur, en tók undan óunnið land og hefur látið það undir sumarbústaði. Árið 1962 var jörðin tekin af ábúðarskrá.
Hvassahraun 2 (horfið)
Í Hvassahraun 2, sem líka var grasbýli, bjuggu Sveinn Steindórsson, f. 1860, og Þórunn Guðmundsdóttir, f. 1864. Fleiri bæir voru þarna, td.d. Hvassahraunskot, en þaðan var Hannes Hannesson. Þarna var og bær er hét Sönghóll.
Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson 1987, bls. 343-366.