Núpshlíðarháls

Jarðfræði

Meginhálsar Reykjaneskagans eru tveir; Vesturháls og Austurháls, öðrum nöfnum Núpshlíðarháls og Sveifluháls. Báðir eru afurðir gosa á sprungureinum Norður-Atlantshafshryggjarins er ísaldarjökull þakkti landið. Meiri „hryggjarleifar“ eru á Reykjanesskaganum eftir gos á sprungureinum undir jökli, s.s. hluti Brennisteinsfjalla (Sandfell og Vörðufell) og Fagradalsfjall (og Vatnsfellin, Litli-Keilir og Keilir).

Sog

Í Sogum.

Hér er ætlunin að gefa svolitla mynd af Núpshlíðarhálsi. Syðsti hluti hans er einstakur hvað varðar gosmyndanir eftir að síðasta jökulskeiði lauk. Tvær gígaraðir á gossprungum liggja upp eftir honum í NA, allt inn að Djúpavatni austanverðu. Sjá má gígana utan í móbergshlíðunum. Ennþá áhugaverðara er að ganga eftir þeim og berja augum hinar einstöku jarðmyndanir og litbrigði. Gígarnir sunnan Vigdísarvalla eru einstaklega formfagrir, Slaga er austan Vallanna og gígur skammt norðaustar á sprungureininni virðist líkt og teygja sig út úr Fögruflatarhorni. Ketill austan Traðarfjalla og Djúpavatns er hluti af gígaröðinni.
Selsvellirnir vestan við Núpshlíðarháls eru eins og vin í eyðimörk, og þar var og er eftirsótt beitiland fyrir búfé. Selsvellir tilheyrðu Stað í Grindavík og notuðu Staðarprestar og hjáleigubændur þeirra selstöðuna. Um miðja nítjándu öld höfðu hér 6 bændur í seli ásamt prestinum á Stað og átti hver sitt selhús. Samtals voru þá um 500 fjár og 30 nautgripir á Selsvöllum. Við austanverða og suðvestanverða Vellina eru miklar tóftir frá selstöðunum.
Norðan Selsvalla taka aftur við hraun, mosavaxin víðast hvar, sunnan Einihlíða og Mávahlíða.
Núpshlíðarháls-loftmynd Spölkorn suðvestan við Núpshlíðarháls, úti í hrauninu sunnan við hann, er einn fallegasti hraungígurinn á Reykjanesskaga, Moshóll. Því miður er búið að skemma hann með umferð ökutækja og er það sorglegt dæmi um virðingarleysi í umgengni okkar við náttúruna. Hann er nyrsti gígurinn á gígaröð sem Afstapahraun nýrra er runnið úr. Það rann í norður og í sjó fram í Vatnsleysuvík, hjá Kúagerði, eftir að land byggðist. Úr suðurhluta sprungunnar er Leggjabrjótshraun runnið, sem fyrr er nefnt. Jarðhiti er á svæðinu á milli Sandfells og Oddafells.
Austan í sunnanverðum Núpshlíðarhálsi er gígaröð á sprungurein sem fyrr er lýst. Nær hún langleiðina upp fyrir Djúpavatn austanvert. Syðst er röðin tvískipt. Í henni austanverðri eru einstaklega fallegar gosmyndanir með mikilli litadýrð. Undir einum gíganna er hellir.
Alls hafa fundist tæplega 200 tegundir blómaplantna og byrkninga (burknar, elftingar, jafnar) í Reykjanesfólkvangi. Flestar tegundirnar eru algengar um land allt, en einstaka eru bundnar við Suðurland, t.d. grástör og gullkollur.
Við fyrstu sýn virðist svæðið hrjóstrugt á að líta, en ef betur er að gáð kemur í ljós margbreytilegt gróðurfar. Fyrst ber að nefna mosann sem klæðir hraunin á stórum svæðum eins og t.d. í Ögmundarhrauni og setur hann óneitanlega mikinn svip á landið. Grámosi(gamburmosi) er ríkjandi tegund og ræðst tilvist hans af hinu raka úthafslofti. Annars staðar er gróskumikill lynggróður, t.d. krækilyng, bláberjalyng, aðalbláberjalyng, sortulyng og beitilyng. Lítið er um kjarrlendi í Reykjanesfólkvangi.  Kjarrgróður er einkum norðanmegin á svæðinu, en ljóst er að núverandi kjarr eru leifar víðáttumeira kjarrlendis. Einna vöxtulegastur trjágróður er umhverfis Búrfell og Smyrlabúð. Birki er aðaltrjátegundin sem myndar kjarr, en á stöku stað má sjá allstóra gulvíðirunna. Undirgróðurinn er einkum lyng og grös, s.s. hálíngresi, ilmreyr, bugðupuntur, svo og blómplöntur, t.d. blágresi, brennisóley og hárdepla. Burnirót má finna í hlíðunum.

NúpshlíðarhálsStór hluti fjallgarðsins eru sandberg, bólstraberg, melar og bersvæði. Gróður er mjög strjáll á slíku landi og einungis harðgerðar tegundir þrífast þar, t.d. melskriðublóm, holurt, geldingahnappur og lambagras.
Þéttur valllendisgróður liggur víða undir fjallshlíðum með ríkjandi grastegundum; týtulíngresi, hálíngresi og blávingli. Flest eru valllendin tún fornra bæja eða selja eins og örnefnin gefa til kynna: Selvellir, Seltún og Vigdísarvellir.
Mýrargróður er helst að finna undir austanverðum hlíðunum miðjum, í Krókamýri. Þar vaxa algengar mýrarplöntur eins og mýrarstör, gulstör, klófífa, engjarós, mýrardúnurt og horblaðka.
Eitt af sérkennum í Núpshlíðarhálsi eru jarðhitasvæðin og þar eru nokkrar einkennisplöntur. Fjölskrúðugastur er gróðurinn á jarðhitasvæðinu í Sogunum og Sogadal. Þar vaxa tegundir svo sem laugasef, lindasef og lækjadepla. Einnig er margbreytilegur gróður í volgrunni sem rennur um norðanverða Selsvelli, t.d. sefbrúða og laugabrúða. Af sjaldgæfari tegundum má nefna ýmsar blómplöntur, t.d. fjalldalafífil. skógfjólu, geithvönn og jarðaberjalyng, sem einnig finnast í Geitahlíð.
GrænavatnseggjarFjallgarðurinn er á miðju virka gosbeltinu, sem liggur eftir Reykjanesskaga endilöngum. Gossaga skagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin hefur verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin og virðast koma í hrinum sem koma á um 1000 ára fresti og stendur yfir í u.þ.b 200 ár. Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos. Það elsta eru Bláfjallaeldar sem hófust árið 930 og stóðu yfir í u.þ.b. 100 ár. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151. Í gosinu opnaðist um 25 km löng sprunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan myndaðist Ögmundarhraun í þessu gosi en að norðan rann Nýjahraun sem flestir nefna Kapelluhraun. Í þriðju goshrinunni urðu Reykjaneseldar sem stóðu yfir frá 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó þar sem Eldey reis upp úr sjónum.

Eldvirkni raðar sér á svokallaðar sprungureinar þar sem eru gosstöðvar og opnar gjár. Oft eru sigdalir eftir endilöngum Hrútaberjalyngsprungureinunum og gígaraðir. Sprungureinarnar eru yfirleitt 25-50 km langar og 5-7 km breiðar. Ein þeirra fer um Hálsana, þ.e Krýsuvíkurrein sem liggur frá suðvestri í norðaustur yfir Reykjanesskagann. Háhitasvæði er á sprungureinuninni, þ.e. í Sogunum og nágrenni við þau.
Jarðlögin í og utan við Núpshlíðarháls eru grágrýtishraun frá síðustu hlýskeiðum ísaldar, móberg og bólsturberg sem hafa myndast undir jöklum síðustu jökulskeiða og hraun runnin eftir að jökull hvarf af svæðinu. Í Núpshlíðarhorni, og þar suður af allt til sjávar, er grágrýti sem jöklar hafa sorfið og skafið. Austar eru væntanlega leifar af fornum dyngjum og hafa líklega myndast á síðasta hlýskeiði sem lauk fyrir 120 þúsund árum. Geitahlíð er t.d. gömul grágrýtisdyngja og grágrýtishella er líka vestan og austan af hálsinum. Sunnan, vestan og norðan Kleifarvatns er móberg og líkt og Núpshlíðarháls er Sveifluháls móbergshryggur sem hafa hlaðist upp undir jökli. Segja má að þessi jarðmyndum sé eitt af sérkennum Íslands. Á Reykjanesskaganum er þessar myndanir hvað mest áberandi, þar sem Norður-Atlantshafshryggurinn „gengur á land“. Landið gliðnar og meginlandsflekarnir, Ameríkuflekinn og Evrópuflekinn, og fjærjaðrarnir færast hægt og rólega frá hvorum öðrum. Á millum þeirra alast upp afkvæmi herra Elds og frú Kviku.

Heimildir m.a.:
-http://www.umhverfisstofa.is/reykjanesfolkvangur/
-http://www.utivist.is/greinar/
-http://www.umhverfisstofa.is/reykjanesfolkvangur/natturuf.htm

Sogin