Nýja Grindavík numin
Í vor og í vetur hefur vatnsyfirborð Kleifarvatns lækkað nokkuð umfram sem það hefur verið undanfarin ár.
Eyja hefur m.a. stungið upp kollinum undan vesturströndinni. Síðdegis þann 6. júlí s.l. sigldu FERLIRsfélagar á Túttunni út í eyjuna og numu þar land. Við skoðun reyndist þarna vera u.þ.b. 16 m2 kollur á um 6 m háum brotabergsstandi. Eyjan, sem eflaust á eftir að stækka með lækkandi yfirborði vatnsins, var nefnd „Nýja Grindavík“ líkt og New York og New England. Því til staðfestingar var „kú“ leidd hringinn í kringum eyjuna og hélt teymandinn á skjaldarmerki Grindavíkur. Áður en eyjan var yfirgefin var hinu nýja landi sýndur íslenski fáninn til að koma í veg fyrir að einhverjir útlendingar gætu síðar „fyrstir manna“ sett upp sína fána til staðfestingar þeirra landnámi.
Nýja Grindavík var lýst fríríki og þar gilda engin lög – nema kannski sönglög. Eftir ánægjulega áningu í Nýju Grindavík var siglt til lands.