Oddur V. Gíslason – brúðarránið
Í bók Guðna Jónssonar, Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur XII, er m.a. fjallað um „Brúðarránið“ svonefnda. Erlendur Marteinsson er heimildarmaður og segir hann frá því þegar séra Oddur V. Gíslason, nam konu þá er hann elskaði, á brott frá Kirkjuvogi í Höfnum og flúði með hana til Reykjavíkur einn fagran haustdag árið 1870. Í frásögnum hefur brúðarrán þetta verið sagt hafa verið það „mesta“ er um getur hér á landi. Frásögnin er svona:
„Síra Oddur V. Gíslason var bráðgáfaður maður og þar eftir skemmtilegur í allri umgengni. Einnig lá honum allt í augum upp á veraldlega vísu. Var hann hugvits – og hugsjónarnaður, en ekki að sama skapi heppinn með áform sín. Eitt af því, sem hann gerði tilraun með, líklega fyrstur manna hér á landi, var að gera þorskalifur að verðmætri vöru, bræða úr henni lýsi. Sigldi hann til Englands í þeim tilgangi að læra lýsisbræðslu, en setti sig síðan niður suður í Höfnum, því þar var þá einn mestur merktarmaður Vilhjálmur Kristinn Hákonarson bóndi í Kirkjuvogi. Þar settist Oddur að. Vilhjálmur átti dóttur þá, er Anna hét. Var hún forkunnar fríð og myndarleg og eftir því góð stúlka. Brátt felldu þau Oddur og Anna hugi saman, og kom svo, að þau bundust heitorði með samþykki foreldra hennar.
Nokkur síðar sigldi Oddur öðru sinni til frekari ráðagerða við Englendinga. Hafði hann nú í hyggju að kom aupp postulínsvinnslu á Reykjanesi, og gat hann komið svo málum sínum við enska menn, að þeir lögðu fram fé nokkurt, og var gerð tilraun með postulínsbræðslu. En hvað sem olli, fór tilraun þessi út um þúfur og varð engum að notum. Þá er svo var komið, tók Vilhjálmur karl að snúast á móti ráðahag Odds og Önnu. Hann var þannig gerður, að hann kunni betur við að sjá arð af því, sem í var lagt, og mat menn mjög eftir því, hvernig þeim gekk að afla fjár, eins og einkennt hefir ríkismenn bæði fyrr og síðar. Þar við bættist, að Oddur fór um sinn að blóta Bakkus meira en góðu hófi mundi gegna. En tryggð Önnu helzt óbreytt eftir sem áður.
Nú líður svo nokkur tími, að tvísýnt þótti um, hvort Oddur og Anna fengju að njótast sökum ofríkis föður hennar. Þá var það einn fagran haustdag í byrjun jólaföstu, að Vilhjálmur bóndi í Kirkjuvogi lá fyrir dýr suður á Reykjanesi. En er rökkva tók, verður fólk í Kirkjuvogi vart við það, að Anna er horfin og sjást engin merki um burtför hennar, nema föt hennar utast og innst fundust úti á kirkjulofti. Er Önnu nú leitað á bæjum þar í Höfnum, en enginn hafði orðið hennar var. Þá er hennar leitað með sjónum og í útihúsum, ef vera kynni, að hún hefði gripið til örþrifaráða, en leitin bar engan árangur. En um kvöldið á vöku kemur Gunnar bóndi Halldórsson í Kirkjuvogi heim, en hann hafði legið fyrir dýr inni í Ósabotnum um daginn. Hann segir þau tíðindi, að ekki muni þurfa að óttast um Önnu, því að Oddur muni vera kominn með hana inn í Voga. Segist hann hafa mætt tveim mönnum á heiðinni, sem að vísu hafi verið búnir sem karlmenn, ern þar muni Anna þó verið hafa reyndar. Eru nú sendir þrír eða fjórir menn á eftir þeim Oddi.
En er þeir koma inn á heiði, hita þeir mann með söðulhest. Þeir spyrja hann erinda, en hann segist vera að bíða eftir Oddi Gíslasyni, hann sé að sækja kvenmann suður í Hafnir og eigi hún að ríða hestinum. Sjá nú hvorir tveggju, að þeir eru gabbaðir, og snúa hvorur sína leið. En af Oddi og Önnu er það að segja, að þau fara rakleitt inn í Njarðvíkur til Björns bónda í Þórukoti. Flýtur þar í vörinni sexmannafar með allri áhöfn. Er ekki að orðlengja það, að undin eru upp segl og siglt til Reykjavíkur um nóttina.
Oddur hafði svo ráð fyrir gert, að maður væri sendur þegar í stað úr Njarðvíkum suður að Kirkjuvogi til þess að segja foreldrum Önnu, hvað komið var. Til ferðar þessarar var valinn Björn nokkur Auðunsson, hávaðamaður og svakafenginn nokkuð. Hann kemur að Kirkjuvogi, er búið var að loka dyrum. Guðar hann því á glugga, kallar inn og segir: „Þið þurfið ekki að spyrja um hana Önnu. Hún er komin til Reykjavíkur með Oddi V. Gíslasyni“.
Vilhjálmur bóndi, sem var nú kominn heim og var í mjög æstu skapi, tók fregn þessari svo, að hann þreif til byssu sinnar og gerði sig líklegan til skjóta út um gluggan á sendimanninn. Hin góða og hægláta kona hans, Þórunn Brynjólfsdóttir prests á Útskálum, gat þó afstýrt þessu tiltæki manns síns. En Vilhjálmur lagðist í rúm sitt og lá síðan lengi vetrar og varð raunar aldrei samur maður eftir þetta, svo stórt var skap hans. Það skal þó tekið fram, að Oddur sættist fullum sáttum við tengdaforeldra sína, og Anna fékk fullan arf, þegar þar að kom, en sú var venja á þeim tímum, ef börn gerðu stórlega á móti vilja foreldra sinna, að svipta þau arfi.
Þau Oddur og Anna giftust á gamlársdag 1870, og var Oddur síðar prestur í Grindavík og þjóðkunnur maður fyrir baráttu sína fyrir slysavörnum á sjó og rit sín og leiðbeiningar um þau efni. Síðar fluttist hann til Vesturheims, stundaði þar prestsstörf og lækningar og andaðist í Winnipeg 1911. Eignuðust þau hjón mörg börn og efnileg.
Að lokum vil ég bæta því við, að atburður sá, sem hér er sagt frá, er mér í fersku minni, þó að ég væri þá aðeins 6 ára drengur í Merkinesi í Höfnum. En Þau Odd og Önnu þekkti ég persónulega að öllu góðu.“
(Handrit Guðlaugs E. Einarssonar í Hafnarfirði veturinn 1934-35 eftir frásögn Erlends Marteinssonar frá Merkinesi, síðar að Kirkjuvegi 10 í Hafnarfirði).
Heimild:
-Guðni Jónsson, Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur XII, 1934-35, bls. 126-129.