Örnefni – tilfærsla
Þekkt er að örnefni hafa tilhneigingu til að breytast, bæði hvað varðar staðsetningu og heiti í tíma og rúmi.
Ástæðurnar geta verið margar; t.d. nýtt fólk kemur á vettvang þar sem það þekkti ekki til áður, skrásetjarar fara rangt með (m.a. vegna þess að þeir fóru aldrei á vettvang), þeir sem þekktu best til voru aldrei spurðir (áður en þeir féllu frá), ný tilefni fyrir örnefnum verða til og glaðklakkanlegir einstaklingar einfaldlega giska á bæði heiti og staðsetningu örnefna.
Eitt dæmið er svonefnd „Ófeigskirkja“ í Garðahrauni. Skv. örnefnalýsingu og öðrum skriflegum heimildum fór hún („stór klettur“) undir núverandi Álftanesveg á sínum tíma (staðsetningin er þekkt). Til að viðhalda örnefninu var það allnokkru síðar fært yfir á næsta „stóra klett“ skammt norðar í hrauninu. Leiknir og lærðir, sem aldrei höfðu áður komið á vettvang, hafa fengið tækifæri til að staðfesta flutninginn. Sumir þeirra trúa jafnvel að í klettinum þeim arna sé nú fjölmennur samkomustaður bæði dverga og álfa). Og „Grenshóll“ (þar sem menn lágu fyrir tófu á sínum tíma“ er allt í einu orðinn að athvarfi álfa. A.m.k. tveir segjast hafa séð þessar verur á staðnum.
Ef sú ákvörðun verður tekin að endurbæta núverandi Álftanesveg (í stað þess að gera nýjan veg um Garðahraun) þarf væntanlega að gera ráð fyrir undirgöngum, eða göngubrú, yfir veginn – svo hvorki dvergum né álfum verði bráður bani búinn á ferð þar yfir á leiðinni að samkomustöðunum.
Svo hlýtur alltaf að vera hægt að flytja bara „álfakirkjuna“ fyrst hún hefur nú áður verið færð – án vandræða.