Öskjuhlíð – fornsteinarnir?
Í „Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024“ er m.a. getið um tvo fornsteina í Öskjuhlíð er nú prýða innganginn að kirkju Árbæjar í Árbæjarsafni:
„Um 15 m austan við núverandi Bústaðaveg þar sem nú er göngu- og hjólastígur, um 90 m suðaustur af gatnamótum Bústaðavegar og Litluhlíðar, var tóft sem merkt er inn á kort Bolla Thoroddsen.
Árið 1939 skrifaði Ólafur Friðriksson grein í Fálkann um fornleifar í Öskjuhlíð og segir þar frá tóftinni. „Austan við þar, sem vegurinn liggur nú yfir Öskjuhlíðina gengur dálítil kvos inn í hana, og hefur hún ef til vill gefið hlíðinni nafn. En þarna í kvosinni eru fornminjar sem ekki hefur verið tekið eftir, þó að þær séu þarna rétt hjá langfjölfarnasta þjóðvegi landsins, Hafnarfjarðarbraut. […] Veitti jeg eftirtekt, að austan við veginn, ofan við áðurnefnda kvos, var steinn sem unninn var af manna höndum.“ Virtist Ólafi í fyrstu að þetta væri steinkross en við nánari athugun hafði steinninn lögun sem Þórshamar.
Þegar hann leit í kringum sig sá hann annan stein sem hann taldi líka tilhöggvinn, í laginu eins og stóll. Ólafur velti fyrir sér hverjir hefðu höggvið þessa steina og í hvaða tilgangi og taldi að þetta myndi vera fornt hof.“
Árið 1963 fjallaði Lárus Sigurbjörnsson um þessa sömu tóft í grein í Vísi. Þar segir hann frá því að Matthías Þórðarson þjóðminjavörður hafi talið líklegra að þetta væru rústir af gömlu seli frekar en hoftóft. „Í henni fundust tveir merkilegir steinar, annar greinilega tilhöggvinn sem sæti en hinn í lögun sem Þórshamar. Báðir þessir steinar eru nú komnir í Árbæjarsafn. Af rúst þessari sér ekki urmul lengur. Hún er gersamlega horfin, og var farið yfir það síðasta af henni með ýtu.“
Steinarnir tveir standa nú fyrir framan safnkirkjuna á Árbæjarsafni, þeir eru skráðir undir jörðina Árbæ og eru ekki taldir manngerðir.
Á ljósmynd sem fylgdi grein Ólafs af öðrum steininum er hægt að áætla að um sömu rúst sé að ræða og er merkt inn á kort frá 1933. Á myndinni er langt útihús sem stóð á Norðurmýrarbletti 33 (Litlu-Hlíð), sama húsið sést á ljósmynd HAP RVK. Á annarri ljósmynd; ÁBS, sem er tekin úr vestri í austur, má sjá að rafmagns- og símastaurar eru að norðan við veginn. Samkvæmt grein Ólafs fór vinur hans upp í einn staurinn til að sjá betur yfir og rissaði upp rústina. Var stærð hennar um 11 stikur á hvorn veg og telur Ólafur að um hof Ingólfs sé að ræða.
Á korti Björns Gunnlaugssonar frá 1850 sem sýnir mýrar í Reykjavík er merki á svipuðum stað eða norður af Leynimýri, býlið „Háfaleiti“ sem er líklega nafnið á þessum rústum.
Fyrir margt er þetta sérstakur staður, líklega hafa þetta verið í grunninn gömul útihús frá Reykjavík sem hugsanlega hefur verið búið í um 1850, Háfaleiti kemur ekki fram í manntölum. Háfaleiti svipar mikið til örnefnisins Háaleiti sem er þarna ekki langt frá.“
Þegar steinarnir í Árbæjarsafni eru skoðaðir er augljóst, þrátt fyrir allar fyrrum spekulagsjónir hinna fyrrum „sérfræðinga“, að þarna er um aðflutta náttúrumyndun að ræða.
Heimildir:
-Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.
-Páll Líndal, Reykjavík: Sögustaðir við Sund, bindi 2 og 3.
-Ljósmyndasafn Reykjavíkur. KAN 001 145 4-1. Ljósmyndari Karl Christian Nielsen.
-Borgarsögusafn. Korta- og uppdráttasafn. Bolli Thoroddsen, [Rauðará – Öskjuhlíð – Vatnsmýri 1932–1933].