Óttarsstaðasel – Tóhólaskúti – Óttarsstaðarselshellir – Meitlaskjól
Selstígurinn hefur einnig verið nefndur Rauðamelsstígur. Rauðamelsstígur er nafnið á leiðinni milli Dyngjuranans við enda Trölla- og Grænudyngju og Rauðamelanna (Stóra- og Litla Rauðamels) sem voru þar sem núna er Rauðamelstjörn í Rauðamelsnámu. Þessir tveir Rauðamelir voru mjög áberandi kennileiti sérstaklega þegar komið var að sunnan, annaðhvort frá Grindavík, Selatöngum eða Krýsuvík og tóku menn stefnu á Stóra-Rauðamel sem var með vörðu upp á.
Það var allt eins hægt að tala um Rauðamelsstíg þegar farið var frá Rauðamel, yfir Alfaraleiðina suður í selið, eða rétt norðvestan þess. Þaðan liggur vörðuð leið vestan Tóhóla í áttina að Rauðhól. Síðan liggur leiðin vestan við Einihól og Merardali yfir í Skógarnefið og þaðan um Mosastíg í Mosum, vestan við Einihlíðar að Lambafellunum (Stóra- og Litla-Lambafell, eða Eystra- og Vestara Lambafell). Þar kvíslaðist leiðin annarsvegar í Hálsagötur, sem liggja með Núpshlíðarhálsi um Selsvelli að Vigdísarvöllum, Selatöngum eða Grindavík, og hinsvegar liggur leiðin yfir Dyngjurana í áttina að Ketilsstíg og Krýsuvík (reyndar hægt að fylgja Móhálsadalsleið að Vigdísarvöllum eða að Selatöngum). Drumbsstígur lá síðan uppfrá Bleikingsvöllum yfir Sveifluhálsinn til Krýsuvíkurbæjanna.
Menn hafa jafnvel notað Rauðamelsstígs-nafnið yfir alla leiðina frá Óttarsstöðum að Ketilstíg þegar svo bar við, þó það sjáist varla alla leið norður að Rauðamelunum fyrr en menn voru komnir upp á Dyngjuhálsinn, austan úr Krýsuvík.
Þó svo að þessi leið heiti í heildina Rauðamelsstígur hafa einstakir kaflar hennar mörg og misjöfn nöfn eins og venjan var um svo langar leiðir sem nýttust á köflum í tengslum við hrísrif, skógartöku, mosatöku, vetrarbeit, selfarir eða eitthvað annað. Til dæmis var leiðin á milli Óttarsstaðasels og bæjanna við ströndina ætíð nefnd Óttarsstaðaselsstígur af þeim sem bjuggu í Hraunum, en einnig Skógargata þegar menn fóru til skógarhöggs og kolagerðar. Stundum fóru þeir alla leið upp í Bringur eða Skógarnefið eða Búðarvatnsstæðið, en stundum ekki lengra en í Brenniselið, sem er nærri Bekkjarskúta og Álfakirkju.
Þar var aldrei sel í beinum skilningi þess orðs heldur geymslugerði fyrir hrís og kol því þar lágu menn í skútum þegar þeir útbjugu brenni eða gerðu til kola á haustin. Það má líka vera að menn hafi geymt rjúpnafenginn fyrir jólin í þessu gerði sbr. Loftsskútann í Grændölum, Hvassahraunsmegin landamerkjanna.
Sá hluti leiðarinnar sem telst vera Skógargatan liggur upp í Bringurnar. Mosastígur liggur frá Óttarsstaðarselsstíg norðan við Bekkina (tvær fallnar vörður við stíginn) og liðast til suðvesturs upp hraunið, áleiðis að Skógarnefi. Hann er varðaður að hluta. Þessa leið munu Hraunamenn hafa farið þegar þeir sóttu sér mosa til eldsneytis. Fleiri nöfn hafa verið nefnd til sögunnar á þessum stígum eða götum í gegnum ofanverð hraunin.
Annar Mosastígur er um Mosana við Böggukletta, áleiðis niður að Hvassahrauni.
Sjálfur Rauðamelur eða melirnir tveir, voru endanlega eyðilagðir í tengslum við efnisnám þegar Keflavíkurflugvöllur var byggður upp. Hluti af efninu úr Litla-Rauðamel hafði reyndar verið notað um aldamótin 1900 þegar Suðurvegurinn var lagður (Keflavíkurvegurinn elsti) og einnig nokkru fyrr þegar unnið var við lagfæringar á gamla Sýsluveginum. Það var vörubílstjóri, sem var jafnan kallaður Hrauna-Berti, afi Lovísu Ásbjarnardóttur, einn af eigendum Óttarsstaðalandsins, sem var stórtækastur í efnistökunni í Rauðamelsnámunni á sínum tíma, enda átti hann þetta land og gat nýtt það á hvern þann hátt sem honum hentaði. Það er enn hægt að sjá hluta af selstígnum (Rauðamelsstíg) norðan við námuna þar sem hann liggur niður á bæjunum.
Meitlilshellir er í Stóra-Meitli við Rauðameslsstíg. Gróið er í kringum hann og hleðslur við opið. Þegar verið var að voma í kringum Meitlana stökk ljósgráflekkótt tófa upp á einn hraunhólinn, skimaði í kringum sig, en lét sig síðan hverfa. Mikið af lóuhreiðrum voru í móanum, auk hreiðurs skógarþrastar og þúfutittlings. Ekk voru í öllum hreiðrum, sem skoðuð voru.
Norðvestan undan seltóftunum er lægð í hrauninu. Þar undir vesturveggnum skammt neðan við selið er skúti, opinn mót austri. Í honum eru heillegar hleðslur. Væntanlega hefur verið þarna kví í skjóli.
Tóftir Óttarsstaðarsels eru áberandi þegar komið er að þeim. Norðvestan við þær er vatnsstæðið, en stekkir bæði austan og norðan við þær. Gengið var áfram upp í Óttarsstaðahelli, sem stundum hefur verið nefndur Fjárskjólið mikla eða Rauðhólsskúti þótt Rauðhóllinn sé nokkru ofan við hann.
Óttarsstaðaselsskúti syðri er með nokkuð áberandi fyrirhleðslu sem blasir við þegar komið er í námunda við hann. Fleiri skútar tilheyra selinu og eru þeir flestir með svipuðu sniði. Þeir voru nýttir sem fjárskjól, en ekki síður sem förumannskýli.
Tóhólaskúti er í Tóhólatagli spölkorn vestur af Tóhólum. Tóhólaþyrpingin, sem stendur dreift, er nærri Rauðamelsstíg ofan (sunnan) við selið. Spottakorn sunnar eru Merarhólar. Þar voru sumarhagar þeirra fáu hrossa sem Hraunamenn áttu að jafnaði. Vestan Óttarsstaðasels er Þúfhólsskúti.
Þegar sest er niður ofan við Óttarsstaðarsel í kvöldkyrrðinni og horft yfir tóftirnar má vel ímynda sér hvernig þar hefur verið umhorfs fyrr á öldum. Selsmatsseljan á ferð um selsstöðuna skipandi smalanum um að gæta að fénu, hann hlaupandi um hjörðina, hún með mjókurfötuna í hendi, kemur sér fyrir í kvínni, hann færandi henni hverja ána á fætur annarri uns allar hafa veri mjólkaðar, hún á ferð með mjókina í strokkinn eða flatbyttuna, hann strokkar, hún fylgist með og hleypir undan, grysjað og síað, bóndinn sést nálgast selið ríðandi með annan í taumi, kostir og gallar; forði og kröfur, bóndinn tekur af vistir, biður um afurðir, selsmatsseljan færir þær út úr geymsluvistinni í viðhlítandi umbúnaði.
Bóndinn færir á klifbera, brosir og virðist ánægður, smalinn situr álengdar og fylgist með (hans bíður yfirseta, svefnleysi og kuldahrollur), bóndinn kyssir á kinn, skreiðist á bak og heldur til baka með reiðingshestinn eftir selsstígnum, selsmatseljan færir kostinn inn í búrið, bætir sprekum á eldinn í eldhúsinu, sem stendur til hliðar við svefnaðstöðuna og búrið og fer síðan inn í lágreista vistarveruna, sest á flet sitt og nagar harðfisk. Kvöldverkin eru framundan og mjaltir undir morgun. Svona var lífið í þá daga uppi í heiðinni.
Í bakaleiðinni var gengið niður Mosastíg vestan Óttarsstaðarsels, vel varðaða leið, og þá komið við í Sveinsskúta vestan Óttarsstaðarselsstígs, í Bekkjaskúta og síðan Brenniseli áður en haldið var yfir Alfaraleiðina sunnan Smalaskálahæða og að Óttarsstaðarborg.
Frábært veður – eins og ávallt í Hraununum.