Óttarsstaðaselsstígur – Skógargata

Óttarsstaðasel

Gengið var eftir Óttarsstaðaselsstíg (Skógargötu/Rauðamelsstíg) upp í Óttarstaðasel. Til hliðsjónar var uppdráttur frá árinu 1932, en á hann er stígurinn merktur.

Óttarstaðasel

Óttarsstaðasel – vatnsból.

Tóftir selsins voru skoðaðar, litið á fallegt vatnsstæðið norðaustan þess og síðan haldið áfram sem leið lá upp eftir ætluðum stíg sunnan selsins. Hraunið er vel gróið þarna og ef stígur hefur legið í gegnum selið og áfram upp á hæðirnar væri hann að öllum líkindum horfinn. Gengið var framhjá Rauðhólsskúta og mið tekið á vörðu á hraunhól í hæðunum. Önnur varða var skammt ofan við hana, en síðan ekki söguna meir. Stefnan var því tekin meira ti vesturs, yfir í Skógarnef. Þegar komið var að landamerkjagirðingu Óttarsstaða og Hvassahrans var byrjað að skyggnast eftir Skógarnefsskúta, bæði ofan við ásana neðst í nefninu og neðan þeirra, en án árangurs að þessu sinni.

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.

Landamerkjalínan, sem kemur ofan úr Markhelluhólnum við Búðarvatnsstæðið, um Kolhól og Skógarnef, á að liggja um Skógarnefsskútann og Skógarnefnsgrenin og áfram niður í gegnum Mið-Krossstapa og niður með Skorás. Grenin sáust skammt neðan við bakkana, skammt vestan girðingarinnar. Hlaðið er um eitt grenið og tveir uppraðaðir steinar þar hjá. Heilleg varða er á hraunhól við girðinguna ofan við bakkana.
Á leið til norðurs í gegnum gróið hraunið neðan við Skógarnefið var komið að hlaðinni vörðu. Við hana var gata með stefnu upp að þeirri við girðinguna í Skógarnefi. Önnur stærri var á hraunhól skammt frá. Þegar betur var að gáð sáust vörður eða vörðubrot í stefnu til norðurs með ca. 10-20 metra millibili.

Þeim var fylgt áfram niður hraunið, en ekki var að sjá greinilegan stíg. Hins vegar var leiðin mjög greiðfær í hrauninu þar sem hún lá með hólum og hryggjum.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Vörðurnar voru greinilega mjög gamlar, en auðvelt var að fylgja þeim. Þegar komið var á stíginn, sem liggur milli Óttarstaðasels og Lónakotssels, skammt vestan við hið fyrrnefnda, mátti sjá vel hlaðna vörðu. Stígurinn hélt þar spölkorn áfram til norðurs og beygði síðan til norðausturs, inn á Óttarsstaðaselsstíg / Rauðamelsstíg neðan (norðan) við Meitlana. Þar við gatnamótin voru tvær fallnar vörður og enn önnur skammt sunnar, með stefnu á milli hinna tveggja. Rauðamelsstígurinn upp í Óttarstaðaselið er þarna greinilegur, en gatnamótin hins vegar ekki, nema mjög vel sé að gáð. Telja má nær öruggt að þarna sé sá hluti Rauðamelsstígsins er nefnist Mosastígur.

Óttarsstaðaselsstígur

Gatnamót Skógargötu (tvær vörður).

Þetta er mjög líklega sá hinn sami stígur og Hraunamenn nefndu Mosastíg. Hann var farinn þegar menn voru að rífa mosa til upphitunar (JG). Það er reyndar annar Mosastígur sem liggur upp með Brunanum, sem er á allt öðrum stað (miklu mun vestar og liggur frá Mosum áleiðis niður að Hvassahrauni).
Í Skógarnefi er hann varðaður þar í gegn, áleiðis upp á Mosa þar sem Mosastígur tekur við áleiðis upp fyrir Lambafell. Á uppdrættinum er hann sýndur liggja til vesturs norðan Trölladyngju, en af stígnum að dæma virðist hann liggja til suðurs austan við Trölladyngju, áleiðis yfir að Hrútafelli og að Ketilsstíg yfir Sveifluháls.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðaselsstígur.