Óttarsstaðir – Sauðaskjól

Óttarsstaðir

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Óttarsstaði segir m.a. um svæðið umleikis Óttarsstaðafjárborgin (Kristrúnarborg): „Vestur af Löngubrekkuhæðum er gömul fjárborg glögg, sem heitir Borg, og þar vestar og niður að vegi er hóll, Sauðaskjól. Nú er á honum hár rafmagnsstaur.
Ottarsstadir-531Norðvestur frá Sauðaskjóli eru Högnabrekkur í Lónakotslandi.
Ofan við Borgina eru svonefndir Litluskútar, og þar ofar liggur þar þvert yfir svonefndur Breiðiás, hraunbreiða, sér hæð, er með keri ofan í. Vestur af Litluskútum er í Lónakotslandi Skjöldubali. Upp af Löngubrekkum, í norðaustur af Breiðás, er Litliás rétt ofan við gamla veginn. Þar austur af honum heita Brenniselshæðir, og austan við Löngubrekkur er svo Gvendarbrunnshæð í Straumi.
Austur af Lónakotsseli eru tveir klettar, nefndir Valklettar, og þar austur af er sérkennilegur hóll með helli undir, sem heitir Steinkirkja.“
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði segir um sama svæði: „Frá Gvendarbrunni liggur gamla hestaslóðin (fyrsti Keflavíkurvegurinn) vestur framan við Gvendarbrunnshæð og áfram suður með Löngubrekkum. Vegurinn er nú uppgróinn fyrir löngu, en þó sést víða móta fyrir honum. Víða voru hlaðnar vörður á klapparhólum með veginum, og standa sumar þeirra enn.
Ottarsstadir-532Þar suður og upp af er stakur klapparhóll, klofinn, kallaður Steinkirkja. Norðan í henni er upphlaðinn fjárskúti. Suðvestur af Steinkirkju eru hólar, sem Valklettar heita. Vestur og niður af þeim er hæð, sem nefnist Breiðás.
Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla, frá því fyrir aldamót. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.
Skammt suður frá fjárbyrginu eru Litluskútar og þar austur af slétt hæð, sem nefnist Litliás.“
Einungis Ari minnist á svonefnt „Sauðaskjól“ og tilgreinir staðsetninguna. Að vísu er staurinn stóri horfinn, en enn má sjá umbrot eftir hann á „hólnum“. En þar sem leiða mátti líkur að því að hóll hefði aldrei fengið slíkt örnefni var umhverfið gaumgæft. Kom þá í ljós nefnt sauðaskjól. Um hefur verið að ræða allgott skjól í stóru grónu jarðsigi með fyrirhleðslum.

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Óttarsstaði, Ari Gíslason.
-Örnefnalýsing fyrir Óttarsstaði, Gísli Sigurðsson.

Óttarsstaðaborgin

Óttarsstaðaborgin.