Prestastígur – Ólafur Sigurgeirsson
Nafnið Prestastígur er nýlegt heiti á fornri og fyrrum fjölfarinni þjóðleið á Reykjanesi. Sú skýring á nafninu er þó líkleg að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið.
Þegar þessi forna þjóðleið er farin frá Höfnum liggur leiðin frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn, þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru Sandvík, þaðan hjá Haug og yfir Haugsvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar. Þar fylgir gatan hraunjaðri Eldvarpahrauns. Á vegi okkar verður þá nýlegur vegaslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðara. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá og þaðan að Húsatóftum í Staðarhverfi.
Öll þessi leið [15 km] er vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir. Víða sést hvar umferðin hefur markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefur verið tínt úr götunni og lagt til hliðar. Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi, sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi og þar hafa skreiðarlestir verið á ferð. Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þarna um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda, þótt þeir hafi einnig farið sjóleiðina, en á 17. og 18. öld urðu þeir að sæta því í nokkra áratugi að sækja verslun þangað sökum þess að kaupmenn treystu sér ekki til að sigla til Grindavíkur vegna skipskaða sem urðu þar á fyrri hluta 17. aldar. Þá hefur Sigvaldi Sæmundsson póstur verið þarna á ferð á leið sinni milli Básenda og Grindavíkur en hann var fyrsti póstur sem ráðinn var með skriflegum samningi til póstferða árið 1785.
Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils Ketilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip á árunum 1870 – 1880 og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna. Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma. Hann byggði steinkirkju þá sem enn stendur á Hvalsnesi, en Ketill átti m.a. alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík.
Landkostum hefur á síðari árum hrakað mjög í Höfnum vegna sandágangs og margir bæir farið í eyði af þeim sökum, þar á meðal Haugsendar, sem fóru snemma í eyði. Haugsendar voru milli Kirkjuvogs og Merkisness, tún þar voru mikil, húsaskipan vegleg og myndarlega búið. Sagnir um mannlíf þar lifa í gömlum húsgangi:
Á Haugsendum er húsavist
sem höldar lofa.
Þar hefur margur glaður gist,
og gleymt að sofa.
Í seinni tíð er farið að nefna þessa fornu þjóðleið Prestastíg en hvergi finnast þess merki í gömlum heimildum. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin en segir svo: „Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast, liggur upp frá Húsatóftum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá einni sem héðan farinn verður þangað“. Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.
Jarðfræði (Haukur Jóhannesson)
Prestastígur liggur milli tveggja heimsálfa þar sem hann liggur yfir flekaskilin milli Evrópu- og Norðurameríkuflekanna, sem svo eru nefndir. Því má segja, að þegar Prestastígur er genginn, þá fari ferðalangar frá Ameríku og til Evrópu. Reykjanes er að vissu leyti einstakt í sinni röð þar sem þar er eini staðurinn á jarðríki þar sem sést greinilega hvernig úthafshryggur gengur á þurrt land. Best er að skoða sprungukerfið í Stóru-Sandvík eða sunnan við Valahnúk.
Þegar farið er frá Kalmanstjörn er gengið yfir nokkuð slétt, uppblásið helluhraun. Helluhraun þetta er hluti af stórri dyngju sem jarðfræðingar nefna Sandfellshæð. Í Sandfellshæð er stór gígskál, Sandfellsdalur, og þar á hraunið upptök sín. Hraunið er talið hafa runnið fyrir um 12 þúsund árum. Þegar norrænir menn komu til Íslands, síðla á níundu öld, var svæði þetta allt vel gróið en eftir mikil eldsumbrot og öskufall á Reykjanesi á öðrum fjórðungi þrettándu aldar hófst uppblástur á svæðinu. Ef grafið er niður í sandbollana í hrauninu þá er komið niður í jarðveg. Í hrauninu ber mikið á hraunhólum sem eru sprungnir í kollinn.
Þar sem Prestastígur liggur hæst er komið fram á gjábrún. Þar heitir Haugsvörðugjá. Uppi á bakkanum vestan megin eru gjallgígahrúgöld og nefnist þar Haugur. Í kringum gígana er þunnt gjallkennt hraun og er það eldra en 8000 ára.
Ef veður er gott er þess virði að taka stuttan útúrdúr og ganga á Einiberjahól sem er ævagamall, stakur gígur skammt sunnan við Prestastíg, suðvestur af Sandfellshæð.
Sunnan undir Sandfellshæð er stakur gíghóll, Rauðhóll og frá honum hefur runnið hraun til suðurs og suðvesturs og er Prestastígur milli hrauns og hlíðar, þ.e. liggur um slakkann þar sem Rauðhólshraunið rennur upp að Sandfellshæð. Rauðhólshraun er 2000-3000 ára.
Gengið er framhjá Rauðhól og austan við hann tekur við mosagróið apalhraun. Það er yngsta hraunið á svæðinu og rann árið 1226. Þá opnaðist liðlega 10 km löng gossprunga og nefnist hún Eldvörp. Meðal jarðfræðinga er hraunið nefnt einu nafni Eldvarpahraun en í tali heimamanna hétu einstök svæði þess ýmsum nöfnum, m.a. Sundvörðuhraun. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir og er gígaröðin ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur [að mestur] verið hlíft við efnistöku. Um tveimur kílómetrum norðar en þar sem Prestastígur fer yfir gígaröðina er allnokkur jarðhiti og þar hefur verið borað á vegum Hitaveitu Suðurnesja. Eldsumbrotin á þrettándu öld yst á Reykjanesskaganum stóðu með hléum frá um 1210 til 1240. Mest gekk á árið 1226. Þessi hrina er nefnd Reykjaneseldar af fræðimönnum.
Þar sem Prestastígur fer yfir þetta sögulega hraun er það um 1,5 km á breidd. Þá er komið ofan í kima upp í hraunið og fyrst ber þar við stór og mikil gjá er nefnist Hrafnagjá og er hún í svonefndum Tóttarkrókum. Hraunið sem tekur við er blásið helluhraun og úr Sandfellshæð eins og vestar. Í Tóttarkrókum eru forn hlaðin byrgi sem menn vita nú ekki til hvers voru notuð. Austan við Eldvarpahraunið og niður að Húsatóftum ber mikið á stórum opnum gjám. Fyrr er nefnd Hrafnagjá og næst er Miðgjá og næst Húsatóftum er Baðstofa.
Heimild um jarðfræði: Kristján Sæmundsson. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, blað 2. Unnið af Orkustofnun fyrir Hitaveitu Suðurnesja.
Ólafur Sigurgeirsson, var verslunarmaður í Reykjavík og um árabil einn af fararstjórum Ferðaf. Íslands.