Rannsókn á seljum í Reykjavík

Sel

Margrét Björk Magnúsdóttir skrifaði skýrslu um „Rannsókn á seljum í Reykjavík“ árið 2011:

Elstu ritheimildir sem varða sel á Íslandi eru trúlega Grágás, lagasafn íslenska þjóðveldisins sem talið er ritað á þjóðveldisöld og varðveist hefur í handritum frá 13. öld, og Íslendingasögur sem flestar eru taldar ritaðar á 13. öld. Talið er að ákvæði um sel í Grágás séu aðlöguð frá Norskum lögum. Þar segir meðal annars að sel skuli vera inna landamerkja og þau megi ekki staðsetja á afrétti. Í Jónsbók lagabók Magnúsar lagabætis sem tók gildi árið 1281 og var í notkun framá 18. öld, í skinnhandriti frá því um 1363, eru ákvæði sem varða sel.24 Þar er mönnum sagt hvernig þeir skuli haga ferðum sínum til sels (sætr), að fara skuli fornar götur yfir landareignir annarra, og hvar selin skuli vera.25 Þetta ákvæði er vísbending um að sel hafi getað verið langt frá bæ. Í Jónsbók er einnig kveðið á um á hvaða tíma eigi að hafa í seli en þar kemur fram að halda skuli kýr og fé sem skilið hefur verið frá lömbum sínum í seli yfir sumarið frá miðjum júní fram í miðjan ágúst. Þá eru sel einnig oft nefnd í lýsingu stærri býla og kirkjustaða. Af umfjöllun þessara miðaldaritheimilda má sjá að sel hafa verið mikilvæg og verðmæt. Sel koma nokkuð oft fyrir í Íslendingasögum sem bendir til þess að seljabúskapur hafi verið útbreiddur og vel þekktur á Íslandi á þeim tíma sem ritun sagnanna hófst á 13. öld. Í Laxdælu er seli og staðsetningu þess lýst. Selið er sagt samanstanda af tveimur húsum íveruhúsi og búri, nálægt á. Í síðari heimildum er talin venja að þrjú rými séu í seli, búr, eldhús og svefnstaður.
Rannsóknir á seljum á Íslandi eru nokkrar en fram til þessa hefur aðeins farið fram einn fornleifauppgröftur á rústum sem taldar eru hafa verið sel út frá staðsetningu og árstíðabundini notkun. Sú rannsókn fór fram árið 2005 vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda á Kárahnjúkum sem eru á austanverðu hálendinu. Þar fór fram heildaruppgröftur á stað sem heitir Pálstóftir en hann er í 600 m hæð yfir sjávarmáli, um 90 km frá næstu strönd og í minnst 15 km fjarlægð frá næsta bæ. Rannsóknin á Pálstóftum leiddi í ljós að þar hefði verið árstíðabundin búseta og bentu gjóskulög á staðnum til notkunar á tímabilinu 940 til 1070. Þar komu einnig fram vísbendingar um fjölbreyttar athafnir t.d. handverk, veiðar og trúariðkun.29 Fjórar rústir voru grafnar upp á svæðinu, rústir I-IV. Aðalhúsið rúst I var stærst um 15m², þar var eldstæði í miðju og hefur trúlega verið svefnstaður. Rúst II var um 3m² og var túlkuð sem geymsla. Rúst III lá í halla frá hinum og sneri öðruvísi en hin húsin. Hún var um 9m² að stærð og allt benti til að þar hefði verið opið aðhald kannski notað til mjalta. Rúst IV var óvenjulegust, var seinni viðbót við suðurhlið byggingar I minna en 9m² með eldstæði í miðju og steini lagðri stétt frá eldstæðinu og út. Talið var að það gæti hafa verið svefnstaður fyrir eina til tvær manneskjur. Fram að uppgreftrinum á Pálstóftum höfðu rannsóknir á seljum aðallega byggt á ritheimildum.
Daniel Bruun var danskur kafteinn sem tók sér fyrir hendur að rannsaka íslenskar fornleifar og ferðaðist í þeim tilgangi um landið í 14 sumur í kringum aldamótin 1900 síðar.
Niðurstöður hans birtust árið 1928 í bókinni Fortidsminder og Nutidshjem paa Island. Þar segir hann að fjarlægari beitilönd hafi verið hagnýtt til selstöðu og sellönd séu eign jarðanna sem liggi langt frá bæjum. Bruun segir að sel hafi til forna ýmist verið kölluð sumarsetur eða sumarhús og þangað hafi flestir flutt af bæjunum með allar kvíær, kýr og margt af hestum flutt til að hlífa heimahögum. Hann telur að selstöðum hafi fækkað vegna þess að kúm fækkaði. Bruun segist hafa séð gamlar seltóftir á nokkrum stöðum sem voru venjulegast þrjú sambyggð hús, eldhús, selbaðstofa og mjólkurbúr og kvíar í grennd við húsin.
Í bók norska sagnfræðingsins Lars Reinton Til seters. Norsk seterbruk og seterstell frá árinu 1969 kemur fram að í Noregi þekkist þrjár megin gerðir selja sem notaðar voru á mismunandi tíma yfir sumarið. Heimasel (n.heimsetrane) voru nálægt bæjarhúsum og þangað var flutt strax á vorin. Millisel (n. mellomsetrar) voru lengra frá bæ en lengst frá bæ voru sumarselin (n. sommarsetra) sem voru aðalselin og voru inní skógi eða upp til fjalla.
Reinton telur að svipað seljakerfi hafi verið notað á Íslandi á söguöld. Hann greindi selin í Noregi einnig eftir eðli þeirra og skilgreindi þrennskonar sel; fullsel, mjólkursel, heysel eftir þeim störfum sem þar fóru fram. Fullsel voru yfirleitt reisulegust þar sem aðstaða til mjólkurvinnslu þurfti að vera góð. Þar þekktust einnig vetrarsel þar sem haft var geldfé til að klára heyforða. Þessa þrískiptingu selja telur Guðrún Sveinbjarnardóttir að ekki eigi við á Íslandi.
Dr. Egon Hitzler gaf út árið 1979 doktorsritgerð sína um sel og selfarir á Íslandi bókina SelUntersuchungen zur Geschicte des isländischen sennwesens sit der landnahmezeit. Rannsókn hans byggðist að mestu leiti á ritheimildum og er grundvallarrit um sel og selstöður á Íslandi. Niðurstaða hans varðandi skipulag húsa í seljum var að venjulegast hafi verið 3 byggingar aðskildar eða í þyrpingu, raðað á mismunandi vegu.
Árið 1991 skrifaði Guðrún Sveinbjarnardóttir fornleifafræðingur grein um rannsókn sem hún gerði á seljum á þrem landsvæðum á Íslandi, Eyjafjallasveit, Berufirði og Ausur og Vesturdal í Skagafirði. Guðrún rannsakaði ritheimildir um landnám á svæðinu, kortlagði minjar og tímasetti útfrá gjóskulögum. Þá var einnig gerð fornvistfræðileg rannsókn á staðnum Engihlíð í Fossárdal til þess að reyna að greina hvort þar hefði verið sel eða býli. Niðurstaða Guðrúnar var að fjarlægð frá býli að seli var yfirleitt stutt. Fjöldi bygginga í seljunum var yfirleitt 1-2 sem skiptust í 3-4 rými. Á tveimur stöðum fundust aðeins ein bygging og einum stað voru tíu byggingar. Uppröðun bygginga var mjög breytilegt á milli staða og einnig hæð yfir sjávarmáli. Mest af selstöðunum sem voru staðsettar lægra virtust vara elstar. Bæði Eyjafjallasveit og Berufirði og benda sel nöfn bæja til að þeir hafi í fyrstu verið sel á láglendi. Í Skagafirði eru dæmi um sel frá fyrstu tíð staðsett innarlega í landi langt frá bæ sem breyttust í býli og aftur í sel eða beitarhús. Í Aðaldal voru sel nýtt sem beitarhús á vetrum og sýnir sú mikla notkun beitarlands mikilvægi þess fyrir efnahag bæja áður fyrr. Allar minjarnar eru taldar vera frá miðöldum og til 1800 og líkjast ekki bæjum frá þeim tíma. Greinilegt var af gögnum að mörkin milli býlis og sels var stundum stutt. Á þeim stöðum í Aðaldal þar sem notkun var breytileg telur Guðrún að notkunin hafi væntanlega stjórnast af veðurfari og hagsæld. Margir staðir í Vesturdal sem túlkaðir hafa verið sem smábýli höfðu meiri einkenni sels en býlis og Engihlíð í Fossárdal er kannski dæmi um slíkan stað. Niðurstöður greininga frá Engihlíð voru að á síðasta notkunarskeiði staðarins hefði það verið nýtt sem sel með hugsanlega einhverri heyvinnslu en ekki var hægt að greina hvort staðurinn hefði í fyrstu verið býli. Til að fá úr þessu skorið var lagt til að gerð yrði nánari sýnataka í tengslum við uppgröft á staðnum.
Árið 2002 skoðaði Sædís Gunnarsdóttir fornleifafræðingur í mastersritgerð sinni sel sem hluta af búsetu landslagi jaðarbyggða og tók fyrir Saurbæjarhreppi í Eyjafjarðarsýslu.
Sædís notaði GIS til þess að skilja dreifingu tengsla á milli selja og sjálfstæðra og ósjálfstæðra býla. Þar kom fram að fjarlægð milli bæjar og sels sýndi tvíþætt mynstur. Stærri hópurinn var um það bil 1,5 km frá bæ en minni hópurinn í 3 km fjarlægð. Þetta mynstur virtist tengt efnahag bæjanna þar sem efnaðri býli áttu fjarlægari sel, kannski vegna þess að þeir áttu einnig stærra landsvæði. Sædís telur að nota megi hæð yfir sjávarmáli til að greina á milli smærri býla og selja. Sel voru að meðaltali í 300 m h.y.s. en býli í 150 m h.y.s. Halli á landi var líka meiri í seljum eða um 12° en á býlum um 6° halli.
Albína Hulda Pálsdóttir fornleifafræðingur skrifaði árið 2005 BA ritgerð þar sem hún gerði fræðilega úttekt á seljum. Í rannsókn sinni notaði hún gögn úr fornleifaskráningum frá Fornleifastofnun Íslands og vann úr þeim tölfræðilegar upplýsingar um sel. Hún skoðaði fjölda rústa á hverjum selstað og var meðalfjöldi á hverju selstæði 2,30 en algengast var að aðeins sé ein rúst sé á hverjum stað en á flestum selstæðum er ein til þrjár rústir. Albína skoðaði einnig tengsl á milli dýrleika jarða árið 1686 og fjölda rústa á selstæði, hólfafjölda og flatarmáls. Niðurstaðan var, að eftir því sem dýrleiki jarða var hærri þá jókst fjöldi rústa, hólfa og flatarmáls. Einnig skoðaði hún meðalfjarlægð frá bæ í sel í beinni loftlínu og var niðurstaðan að rúmir 2 km eru á milli í beinni loftlínu og sjaldnast hafi verið nema 1-4 klukkustunda gangur frá bæ í sel.
Árið 2007 skrifaði Ómar Smári Ármannsson viðamikla BA ritgerð um sel og selstöður. Hann hefur lengi leitað uppi sel og selstöður og var ritgerðin afrakstur 6 ára vinnu og í henni er að finna upplýsingar um mikinn fjölda selja. Hann segir megingerð selja á Reykjanesskaganum sé þrískipt rými þar sem eldhús sé fráskilið og stekkir séu skammt frá eða áfast húsumum. Seljastígar sem lágu frá bæ að seli sem enn eru sjáanlegir séu oftast um 7 km eða um 1½–2 klukkustunda gangur. Einnig telur hann að staðsetning selja í útlendum jarða hafi verið skilaboð um eignarhald.

Í þessari rannsókn hafa verið teknar saman heimildir um sel og selstöður allra jarða sem eru innan borgarmarka Reykjavíkur eða tilheyra þeim árið 2010. Með samantektinni er komið yfirlit yfir fjölda og staðsetningu selja sem nota má til samanburðar og frekari rannsókna. Þegar sel í Reykjavík eru skoðuð með hliðsjón af fyrri rannsóknum á seljum annars staðar á landinu, kemur í ljós að fjölbreytileiki þeirra er álíka og annarstaðar á landinu.
Í fyrri rannsóknum hefur athyglin beinst að nokkrum þáttum eins og fjölda húsa og rýma innan þeirra á hverjum stað, fjarlægð frá býli að seli, hæð yfir sjávarmáli og halla lands, en auk þess hafa sel verið skoðuð sem hluti af búsetulandslagi. Þegar fjöldi húsa og rýma var skoðaður kom í ljós að fjöldi húsa á hverri selstöðu var 1-2 hús en meðaltal þeirra var 1,42. Í flestum húsum eru 3-4 rými og að meðaltali eru 3 rými í hverju húsi. Þessar tölur eru líkar og fram hafa komið í öðrum rannsóknum og heimildum.
Fjarlægð frá býli að seli var einnig skoðuð. Algengasta fjarlægð var annarsvegar um 12 km, hinsvegar 7 km og síðan um 2 km. Meðalvegalengd var 8,6 km en meðalgildi var 7,3 km. Þegar dýrleiki jarða og fjarlægð sels frá býli var skoðað var ekki hægt að greina fylgni þar á milli.
Af þessari samantekt má sjá að töluverður efniviður er til staðar til frekari rannsókna á seljum og selstöðum. Tóftir seljanna eru mikilvægar menningarminjar og vitnisburður um þátt í atvinnusögu okkar allt frá landnámi framá 20. öld. Það er því mikilvægt að gerðar verði nákvæmar athuganir á þeim, en frekari rannsóknir geta gefið svör við ýmsum spurningum. Náttúrufegurð er mikil á öllum selstöðusvæðunum innan borgarmarkanna og eru þau kjörin til útivistar. Þar sem tóftir selja eru enn vel greinanlegar auka þær á upplifun landsins þar sem þær kúra að því er virðist samvaxnar landinu.“

Sjá Skýrsluna.
Sjá úrdrátt úr BA-ritgerð ÓSÁ um „Sel vestan Esju“ frá árinu 2007.

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Rannsókn á seljum í Reykjavík – Reykjavík 2011, Minjasafn Reykjavíkur; Skýrsla nr. 159.