Stakkavíkursel

Hér segir Jónas Jónasson frá Hrafnagili frá aðkomu ferðamanns í sel. Lýsir frásögnin ágætlega hvernig þar var umhorfs.

Árbæjarsafn

Hlóðir.

“Ég hafði farið einum tvisvar sinnum yfir heiðina áður, en í hvort tveggja skiptið með öðrum, og því minna tekið eftir landslagi og gatnamótum fyrir það. Samt minnti mig nú, að mér hefði verið sagt, að einhvers staðar þarna í heiðarbrúninni ætti að vera sel. Datt mér strax í hug, að þar skyldi ég ná í morgunkaffið, ef mér tækist að hafa upp á selinu. Vegurinn lá þarna fram með melhrygg einum, og brekkan ofan við götuna var alþakin víði, fjalldrapa, fjólum og blágresi. Vel var loðið á milli runnanna af kjarngóðu língresi. Ég reið því út úr götunni og upp í brekkuna, vatt mér af baki, lét Skjóna eiga sig, en fór að kjaga upp á melinn til þess að skyggnast um og vita, hvað fyrir augun bæri.

Árbæjarsafn

Eldhús fyrrum.

Ég var lafmóður, þegar ég komst upp á melhrygginn. Hinum megin við hrygginn blasti við mér stór og fagur bugmyndaður hvammur — og þarna var selið í miðjum hvamminum. Og búverkareykurinn — eða kaffireykurinn — strokaði sig beint upp úr eldhússtrompinum í háalopt eins og stór viðarbolur og dreifðist þar svo út eins og furutoppur og bauð mig margvelkominn. Það má nærri geta, hvað mér þótti vænt um. Ég lét ekki lengi bíða að ná í klárinn, en hann orðinn fastur í munninum þarna í brekkunni og vildi hvergi fara; hann hefur ekki búist við betri kjörum annars staðar en þarna. Samt lét hann þó tilleiðast; ég teymdi hann upp á melkambinn, fór þar á bak og reið svo heim að selinu.
Ég reið svo liðugt sem ég gat yfir holt og, þangað til ég komst heim að seldyrunum. Þar stiklaði ég af baki og sleppti klárnum í varpann.

Vogsósasel

Vogsósasel.

Undir eins og ég kom af baki, fór ég að skyggnast inn í eldakofann. Hann var frálaus selhúsunum sjálfum. Og það var mér þá „hjartkær happasjón“, sem ég sá: Það skíðlogaði í hlóðunum, og rétt um leið og ég kom inn úr dyrunum, bullsauð upp úr katlinum. Og er það ekki gaman að koma þreyttur og slæptur ofan af heiði og hitta á það að það bullsýður upp úr katlinum! Ég sá engan í eldhúsinu. Ég hljóp því að seldyrunum og sá þar kerlingu skammt fyrir innan dyrnar, sem var að renna trogi. Undanrennan streymdi í flatri, margsnúinni bunu undan hendinni á kerlingunni út úr trogshorninu ofan í stóra fötu sem stóð þar á gólfinu. Ég varð allt í einu þurr í kverkunum af þorsta.

Stakkavíkursel

Í Stakkavíkurseli.

Ég kallaði óðara til kerlingar og sagði: „Gáðu að katlinum — það er að sjóða upp úr honum.“ Kerling leit við og varð svo hverft við, að hún var nærri búin að missa trogið. En ég beið ekki boðanna, úr því að hún var vant við látin, og brá mér sem skjótast út í kofann aftur og bjargaði katlinum, mætti kerlingunni í dyrunum, heilsaði henni hlæjandi og fékk henni þann svarta.
Kerling tók mér vel; hún hafði séð mig einu sinni eða tvisvar áður og þekkti mig.

Hraunssel

Hraunssel.

Það var því ekki að sökum að spyrja — hún tók mér eins og gömlum kunningja, enda hefi ég jafnan átt því láni að fagna, að verða átrúnaðargoð allra kerlinga, sem ég hef kynnst; það hefur gengið öllu erfiðara með þær yngri. Hún byrjaði með að spyrja mig, hvort hún mætti bjóða mér að smakka skyr og rjóma. Ég var heldur á því, að lítið hefði verið um slíkt þar uppi á heiðinni í nótt.
Meðan ég geiflaði á skyrinu, spurðumst við almæltra tíðinda, en fátt bar þó sögulegt á góma, sem taki því að færa það í letur.

Árbæjarsafn

Hangilæri í ráfri.

Mest spunnust umræðurnar út af því, hvernig mjólkaði í selinu; best sagði hún mér að mjólkaði, ef fénu væri haldið frammi og uppi í Borgarrústum, en langmest væri smjörið, ef því væri haldið í Víðilágunum og upp hjá Grenishólunum; en samt heyrðist mér á henni, að húsmóðurinni þætti það aldrei um of og fannst mér það ekki nema eðlilegt.

Þegar ég var búinn að borða nægju mína af skyrinu, var kerlingin búin að hella á könnuna, og sýndist mér hún renna til hennar mjög hýru auga. Það leið heldur ekki á löngu, að kaffið kæmi, og væri synd að segja annað, en það væri vel útilátið; pörin voru í fínna lagi, og sú tíska þekktist ekki þarna uppi í óbyggðum, að hafa borð á bollann; undirskálin var líka hálf eða vel það. Skjóni stóð úti og nagaði grængresið úr selbrekkunni og var hinn rólegasti, þó að það væri fremur snöggt. Mér þótti synd að ónáða hann undir eins og sat því enn, á meðan kerling var að búa í strokkinn; ég varð líka hálffeginn að hvíla mig ofurlítið og láta líða úr mér.”

Heimild:
-Úr “Sagan af Jóni halta” eftir Jónas Jónasson frá Hrafnagili (1850 – 1918)
-http://skolavefurinn.is/

Selhús

Sel – dæmigerð selhús á Reykjanesskaganum.