Ratleikur Hafnarfjarðar 2019
- Vestan Hvaleyrarvatns – Selhóll
Hraunhveli eru einnig nefnd Troðhólar. Þau myndast vegna þrýstingsáhrifa sem verða sökum mismunandi rennslishraða á milli hálfstorknaðs yfirborðs og hraunkviku þar undir. Hólar og hæðir í helluhraunum geta líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins. Eitt dæmi þessa er stakt hraunhvelið vestan Hvaleyrarvatns. Vestan í því er gamalt tófugreni. - Selhöfði
Á Selhöfða, líkt og á flestum höfðunum ofan Hafnarfjarðar má sjá hvalbök; jökulrispaðar klappir.
Jökulrákaðar klappir eru eitt af aðaleinkennum grágrýtissvæða sem skriðjöklar hafa farið yfir. Jökulsorfnir klapparhólar hafa oft sérkennilega lögun. Á þeirri hliðinni sem vísar móti skriðstefnunni, slithliðinni, en þar mæddi jökulþunginn mest á, eru þeir fremur sléttir og aflíðandi og oft fagurlega rákaðir eða rispaðir. Hliðin, sem vissi undan straumi, varhliðin, er hins vegar stöllótt og brött og oft með þverhnípt stál, enda hefur jökullinn plokkað þar úr berginu. Jökulsorfnar klappir af þessari gerð nefnast hvalbök. Þau eru mjög algeng hér á landi og setja stundum svip á landslagið. Í Hafnarfirði og nágrenni eru hvalbök algeng, t.d. efst í Fremstahöfða, á Svínahöfða og víðar. Hvalbök gefa, ásamt jökulrákum, skriðstefnu jökla mjög vel og áreiðanlega til kynna og veita vitneskjum um stærð og skriðstefnu ísaldarjökla. Nafnið sjálft vísar að sjálfsögðu til þess hve líkir jökulsorfnir klapparhólar geta verið baki stórhvelis sem rekur kryppuna upp úr sjónum. - 3. Stórhöfði
Höfðinn er að mestu úr móbergi. Móberg er bergtegund, sem verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu, öfugt við bólstraberg, sem myndast djúpt undir vatni. Rétt undir yfirborðinu er þrýstingurinn ekki nægur til að halda kvikunni niðri heldur brýst hún upp á yfirborðið í gufusprengingum og verður að gosösku, sem er glersalli. Oft hefjast neðansjávargos eða gos undir jökli með bólstrabergsmyndun ef gosopið er á nægilegu dýpi en þegar á líður grynnkast á opinu og gufusprengingar hefjast með samfarandi gjóskumyndun. Í móberginu má gjarnan finna bólstrabergsbrot eða framandsteina, sem kvikan hefur hrifið með sér á leið upp á yfirborðið. Ef gosopið kemst upp úr vatninu, þannig að gufuspreningum lýkur, hefst hraunrennsli og myndast þá stapar með hraunlagi ofan á móbergsmynduninni, líkt og sjá má á Fjallinu Eina (sjá nr. 224).
4. Setbergsselsfjárhellir
Víða ofan byggða á Reykjanesskaganum, þ.á.m. ofan Hafnarfjarðar, má sjá hvernig fólk fyrrum nýtti sér umhverfið til hinna ýmsu nytja, s.s. hella og skjól. Hlaðið var fyrir munna og op til skjóls fyrir skeppnur – og jafnvel fólk á löngum leiðum. Setbergsselshellir er dæmi þessa. Hann er í stuttri hraunrás. Um hana miðja liggja landamerki (sjá ofanverða vörðu); annars vegar Setbergs og hins vegar Hamarkots. Í hraunrásinni er hleðsla er aðskilur selsfjárskjól Setbergs og Hamarskots. Stekkir seljanna eru beggja vegna opanna. - 5. Selvogsgata
Fyrir um tæplega 8000 árum varð eldgos sem myndaði eldborgina Búrfell fyrir suðaustan Hafnarfjörð. Í heild sinni nefnast þau Búrfellshraun, en þó bera ýmsir hlutar þess sérstök nöfn, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun.
Einn taumurinn, Gráhelluhraun, rann til sjávar í Hafnarfirði. Selvogsgatan (Suðurferðavegur) liggur með vestanverðum hraunkantinum vestan Smyrlabúða, um Setbergssel og niður með Setbergshlíð (Stekkjarhrauni).6. Leið
Fornar götur og leiðir lágu jafnan um slétt hraun og hraunkanta. Ein slík lá á með Stórhöfða frá Ási upp að Kaldársseli. Kaldárssel var fyrrum sel frá Görðum, síðar frá Setbergi. Í millitíðinni hýstu bæði Krýsuvíkur-Gvendur og Þorsteinn Þorsteinson fé sitt um skamma tíð í selinu. Á þessari leið má sjá ýmsar fágætar jarðminjar, s.s. Hreiðrið og Kaðalhellir er nefndur var svo af innanbúðarkrökkum í sumarbúðum KFUKogK í Kaldárseli.
7. Lambagjá
Lambagjá er stórbrotið dæmi um hrauntröð. Hún hefur nú verið friðuð.
Í Lambagjá eru hlaðnar þverfyrirhleðslur á a.m.k. tveimur stöðum og einnig er hlaðið fyrir þar sem auðvelt hefur verið að komast upp úr gjánni miðsvæðis. Líklegt má telja að gjáin hafi verið notuð sem aðhald fyrrum og jafnvel sem nátthagi um tíma. Hraunhaft er í hrauntröðinni er ganga má í gegnum. - 8. Helgadalur
Í Helgadal er áberandi misgengisveggur. Misgengi verður þar sem jarðlög haggast og fletir brotsins ganga á misvíxl á brotalínu með tímanum. Sniðgengið verður þegar misgengisfletir renna lárétt fram hvor með öðrum. Sniðgengi geta gengið til hægri eða vinstri og heita þá hægra eða vinstra sniðgengi. Siggengi verður þegar slútveggur sígur niður miðað við flávegg. Samgengi verður á hallandi misgengisflötum þegar slútveggurinn færist upp miðað við flávegginn. Misgengisstallur er sá hluti misgengisflatar, á fláveggnum, sem nær uppfyrir slútvegginn.
Framangreindar fyndnar og flóknar útskýringar má m.a. bera augum í Helgadalsmisgenginu.9. Fosshellir
Fosshellir er dæmigerð hraunrás innan við jarðfall í þeirri sömu og Rauðshellir og Hundraðmetrahellir milli Helgadals og Búrfellsgýgs.
Um tíma var Rauðshellir nefndur Pólverjahellir, að sögn eftir pólskri áhöfn báts, sem dvaldist um tíma í Hafnarfjarðarhöfn, en fengu ekki inni í bænum. Nafnið mun hinsvegar vera komið vegna þess að börnin í Pólunum í Reykjavík fóru þangað í sumarferðir og höfðu gaman af.
Önnur heimfærð sögn um tilurð nafnsins er sú að skipshöfn af pólsku skipi í Hafnarfirði hafi gist í hellinum vegna þess að enga slíka var þá að fá í Hafnarfirði. Það ku jú vera tómur tilbúningur.
Hraunrásin, sem slík, er vel þess virði að ferðast um hana milli aðgengilegra opanna. - 10. Réttarklettar
Vestan Lónakost er strýtumyndaður hóll, nefndist Nípa. Þar upp af í hrauninu var fjárskjól, Nípuskjól og Nípurétt, tóft réttar við hellisskúta syðst í lægðinni. Nokkru lengra vestur eru klettastrýtur; Réttarklettar. Milli þeirra eru allvel grónar flatir og réttartættur, garðar og skjól. Eldri heimildir herma að þarna hafi um tíma verið kot, svonefnt Svínakot.
Réttarklettar eru afmörkuð klettahraunborg, tilkomumikil á að líta. Allt umhverfis hana er hlaðnir garðar og gras þar fyrir innan. Stekkur er norðaustan við klettana og grónar tóftir norðvestan undir þeim. Vestar er Grænhólsfjárskjólið; dæmigert fjáskjól í hraunum. Vestar eru hinar fallegu Dulatjarnir. Í þeim gætir fljóðs og fjöru.11. Óttarsstaðafjárborg
Óttarsstaðafjárborgin er heilleg menninigararfleifð. Hún hefur einnig verið nefnd Kristrúnarborg eftir samnefndri konu Sveinsdóttur frá Óttarsstöðum, sem hafði forgöngu um byggingu hennar um 1870.
Í Smalaskálahæðum eru sprungur. Ein þeirra kom við sögu í nýlegu sakamáli. Í hæðunum er falleg hraunskál með rauðamölshæð. Á henni var listaverk, Slukaríki, sem skemmt var af veðrum og vindum, en hefur nú verið heimfært.
Norðan við borgina má sjá námu. Í þverskurði námunnar, hvað svo sem segja má um námuvinnslu yfirleit, má berlega sjá berglögin er skópu landið fyrrum….12. Þorbjarnastaðarauðamelur
Rauðamelurinn sá er leifar af eldvarpi, sem myndaðist í sjó á sama hátt, líkt og svo margir aðrir í ágrenninu, s.s. Stóri Rauðamelur (nú eyðilagður vegna námuvinnslu) og Litli-Rauðamelur þar skammt frá.
Melatíglar eru net fjölhyrninga sem myndast þannig að smásteinar raðast upp í reglulegt mynstur á gróðurvana melum, í loftslagi þar sem tíðum skiptist á frost og þíða. Á grónu landi myndast þúfur, sem ásamt melatíglum eru algengustu íslensk dæmi um frostmyndanir af þessu tagi. Á hallandi landi myndast melarendur í stað melatígla og paldrar (þúfnastallar eða -garðar) í stað þúfna og jafnvel doppur á stökum stað.13. Smyrlabúð
Austanverð Smyrlabúð er dæmigert misgengi er verður til þar sem jarðlög haggast og fletir brotsins ganga á misvíxl á brotalínu o.s.frv. , sbr. framangreint.
Í ratleiknum er vísað til nokkurra sambærilegra misgengissvæða, s.s. í Helgadal og í Sauðabrekkum. Fjölmörg sambærileg má finna víðs vegar á landinu, t.d. í Hrafnagjá vestan Þórðarfells sem og austan Almannagjár á Þingvöllum.14. Nýjahraun – Kapelluhraun – Bruninn
Samkvæmt annálum urðu eldgos í Trölladyngjum á Reykjanesskaga árin 1151 og 1188. Líkur benda til að 1151 hafi Ögmundarhraun í Krýsuvík og Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar runnið er umbrotahrina varð í eldstöðvarkerfi Trölladyngju. Hraunið var nefnt Nýjahraun, en var jafnan nefnt Brunininn af heimamönnum, síðar Kapelluhraun.
Elstu heimildir um nafnið Nýjahraun er annars vegar í annálum og hins vegar í Kjalnesingasögu. Annálar greina frá skiptapa við Hafnarfjörð árið 1343 og fórust með skipinu 23 eða 24 menn. Annálar segja þannig frá slysinu: “Braut Katrínarsúðina við Nýja hraun.” (Annáll Flateyjarbókar). Í Gottskálksannál, bls. 352 segir: “Braut Katrínar súðina fyrir Hvaleyri, drukknuðu þar iiij menn ogg xx.”
Í Kjalnesingasögu (1959) er tvívegis minnst á Nýjahraun. Þar segir senmma í sögunni að Þorgrímur Helgason hafi reist bú að Hofi (á Kjalarnesi) og “hafði hann mannforráð allt il Nýjahrauns og kallað er Brunndælagoðorð”. Undir lok sögunnar segir svo frá því er Búi Andríðsson tók við mannaforræði eftir Þorgrím og “hafði hann allt út á Nýjahrauni og inn til Botnsár”.15. Litluborgir – gervigígar og hraunborgir
- Skammt vestan við Litluborgir eru a.m.k. tveir gervigígar.
Gervigígur er náttúrufyrirbæri sem líkist eldgígi en er án gosrásar. Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir votan jarðveg á borð við mýri eða grunnt stöðuvatn. Vatnið nær að lokast inni í eða undir hrauninu og skapa mikinn gufuþrýsting. Að lokum springur hraunþekjan og eftir verður gíglaga hóll.
Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir vatnsósa jarðveg, til dæmis mýri, vatnsbakka eða árfarveg. Gervigígar eru ekki í neinu frábrugðnir öðrum gígum í útliti ef þeir ná að gjósa nokkrum sinnum. Aðal munurinn á gervigígum og öðrum gígum liggur í því að þeir fyrrnefndu hafa engar rætur, það er að segja það eru engar aðfærsluæðar (gangar) að þeim eins og í öllum öðrum gígum.
16. Skúlatún – Skúlatúnshraun – hraunreipi
Helluhraun eru jafnan slétt og greiðfær yfirferðar. Þau myndast einkum þegar um hreint hraungos án kvikustrókavirkni er að ræða. Yfirborð hraunanna storknar oft og myndast þannig fremur þunn og seig skán sem sígur áfram með rennslinu á bráðnu undirlaginu. Við það gárast skánin þannig að yfirborðið verður alsett fíngerðum gárum sem líkjast helst kaðalhönk og kallast gárurnar hraunreipi. Dæmi þessa eru sérstaklega áberandi í helluhrauninu ofan Skúlatúns.17. Gullkistugjá
Gullkistugjá er löng sprungurein sem fer m.a. í gegnum suðausturhluta Helgafells og suður um hraunið. Séra Friðrik Friðriksson stofnandi sumarbúða KFUM og K í Kaldárseli gaf sprungureininni nafnið Gullkistugjá. Manngerð brú er þvert yfir miðja gjána. Þar skammt frá hafði lóan jafnan verpt eggjum sínum.
Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, er í Landnámu sagður hafa búið á Skúlastöðum. Han nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og Álftanes allt. Munnmæli munu vera um að Skúlastaðir hafi verið þar sem Skúlatúnshraun sé, norðan við Lönguhlíðarhorn, sbr. umfjöllun í ritinu Garðabær – byggð milli hrauns og hlíða. Árni Helgason minnist á Skúlastaði og menjar þeirra í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 (bls. 211). Hafi Skúlastaðir staðið þar sem munnmæli segja, eru líkur fyrir því að Almenningsskógalandið og Garðaland hafi verið hluti af landnámsjörð Ásbjörns heitins. Ekki er vitað til þess að fornleifarannsókn hafi farið fram í Skúlatúni.18. Gvendarselssgígar
Gvendaselsgígar kallast hraungígar á stuttri gossprungu í bakhlíðum Undirhlíða milli Kaldárbotna og Gvendarselshæðar. Talið er að gosið hafi um miðja 12 öld. Hraunið rann annarsvegar á milli Helgafells og Undirhlíða og niður með Kaldá en hinsvegar í hraunfossi norður yfir Undirhlíðar þar sem þær liggja lægst.
19. Helgafell
Gatið í vestanverðu Helgafelli er til komið vegna ágangs vatns og vinda í kjölfar yfirgangs ísaldarjökulsins. Guðni, ratleiksleiðbeinandinn, ákvað að koma merkinu fyrir ofarlega í neðanverðu „gatinu“. Fara þarf þarna varlega um fótstigu…
Kerið er dæmigert sem einn af hinum fjölmörgu gígum á sprungurein er varð til í afgerandi eldgosinu árið 1151. Sprungureinin náði allt frá suðurströnd Reykjanesskagans, þar sem elsta frumbyggjabyggð landsins laut undir hraun, á um 25 km langri gossprungu – allt að litlum gíg er nú má líta vestan Helgafells.
- Skammt vestan við Litluborgir eru a.m.k. tveir gervigígar.
- 21. Fjallsgjá
Fjallsgjá er dæmigert dæmi um gliðnun jarðsskorpunnar. Slíka gliðnun má sjá víða í gömlum hraunum á Skaganum. Hún er einka greinilegust á Vogaheiðinni.22. Fjallið eina„Fjallið eina“ er í landamerkjalínu milli Krýsuvíkurlands og fyrrum Garðalands, annars vegar Grindavíkur og Hafnarfjarðar. Það þykir þó öllu merkilegra vegna bergstapans ofanverðan. Við gos undir jökli fyrrum jökulskeiðs náði goshrinan endrum og eins upp úr jökulhellunni. Skýr dæmi þess má sjá á Fjallinu eina.23. Sauðabrekkur
Meginhluti Almennings er hraun úr Hrútargjárdyngju. Þó má sjá yngri hraun þar inni á milli, s.s. hraun úr gígum Sauðabrekkugjár. Hraunið hefur verið þunnfljótandi og líklega tekið fljótt af. Meginhluti hraunsins er, líkt og gígarnir, norðan gjárinnar, en hún er auk þess sprunga er mótar Sauðabrekkugjármisgengið. Það er mest áberandi efst í gjánum, upp undir austanverðum Sauðabrekkuunum. Lítill hrauntaumur hefur runnið til austurs, myndað þunnfljótandi tjörn og m.a. fyllt upp samhliða djúpa sprungu austan Sauðabrekkugjár. Einungis lítill hluti, sennilega sá dýpsti og breiðasti, hefur „lifað af“ fljóðið, en á veggjum hans má sjá hvernig þunnfljótandi hraunið hefur náð að smyrja veggina. Um merkilegt jarðfræðifyrirbæri er þar um að ræða.24. Sauðabrekkugjá
Sauðabrekkugjá er afskekktur staður. Þegar gott er veður við Sauðabrekkugjá er veðrið hvergi betra en þar. Hamraveggurinn er tilkomumikill. Smyrill á sér árlegt hreiður í gjáveggnum.
Gjáin er dæmigert misgengi, sjá nr. 8.25. Draughólshraun
Draughólshraun er dæmigert apalhraun.
Apalhraun er skilgreint sem úfið hraun er verður til í þeim eldgosum þar sem er flæðigos með basískri, ísúrri eða súrri kviku.
Apalhraun er myndast þar sem seigfljótandi kvika flæðir í opnum rásum (hrauntröðum). Þar myndast í eldgosum þar sem kvikustrókavirkni er mikil. Yfirborð hraunanna er úfið, þakið gjalli og er verulega erfitt yfirferðar. - 26. Óttarsstaðselsrétt – nátthagi
- Í seljum fyrrum, er lögðust af hér á Reykjanesskaganum í kringum 1870, var magvíslegastur húsakostur, auk meðfylgjandi nytjastaða, s.s. vatnsból, fjárskjól, stekki o.m.fl.
Nátthagahleðslurnar ofan við Óttarsstaðasel verða að teljast til hinna markverðustu í þeim u.þ.b. 400 þekktum á svæðinu.
27. Urðarás
Urðarás er merkilegt jarðfræðifyrirbæri.
Um er að ræða svonefndan „brothring“. Hraunið hefur fallið niður á nokkrum kafla eftir að neðanjarðarhrauná, sennilegast úr Hrútagjárdyngju, hefur stíflast og glóandi hraunkvikan með þrýstingi sprengt sér leið upp með þeim afleiðingum að rásþakið hefur brotnað upp og síðan sigið niður aftur þegar glóandi hraunið flæddi undan. Sambærileg fyrirbæri má sjá á og við stærstu hella landsins. Ólíklegt, enda var það ekki að sjá, að hraunkvikan hafi náð upp á yfirborðið, en hins vegar náðst að tæmast eftir öðrum leiðum eftir að þakið brast. Nokkurn veginn jafnslétt er neðan brothringssins, en svolítill halli ofan hans. Þessar aðstæður gætu skýrt það að ekkert hraun hafi komið upp úr annars djúpri rásinni. Eftir stendur stórbrotinn „brotadalur“ í miðju hrauni. Gaman er að eiga a.m.k. eitt slíkt á Reykjanesskagnum, og það eitt hið merkilegasta á landinu.
Helstu heimildir:
-www.ferlir.is, Wikipedia, Jarðfræðiglósur GK og Vísindavefur HÍ.