Hvernig er mýrarrauði unninn?
Fyrst; er nógu mikið járn í íslenskum mýrarrauða til vinna það með raunhæfum hætti? Er magn járns með breytilegu vatnsmagni (Fe2O3 * H2O) í íslenskum mýrarrauða nægilega mikið til að vinna það úr rauðanum eins og landnámsmenn Íslands gerðu fram eftir öldum með þeirri aðferð sem talið er að þeir hafi notað, rauðablæstri? Er þessi aðferð raunhæf til að vinna járn?
Engin ástæða er til að ætla að íslenskur mýrarauði sé verri nú en hann var fyrr á öldum, þannig að útaf fyrir sig mætti vinna járn að hætti forfeðranna ef einhver nennti því. Þó gæti rauðablástur aldrei orðið annað en tómstundagaman því að járn er einn þeirra málma sem finnst í þekktum auðugum námum sem sér ekki fyrir endann á.
Raunar var rauðablástur stundaður með fornum aðferðum í Noregi allt fram á 18. öld, og hét sá Ole Evenstad í Austurdal sem stórtækastur var. Hann og menn hans gerðu allt að fimm bræðslur á dag í frumstæðum ofni þar sem hráefnið var mýrarauði og viðarkol, og náðu um 30 pundum (ca. 15 kg) af járni í hverri bræðslu.
Kristján Eldjárn taldi að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafi hin forna iðja, rauðablástur, verið sjálfsögð á hverjum bæ eins og hver önnur störf bóndans. Hins vegar vegar eru litlar menjar um rauðablástur eftir miðja 13. öld og kann hvort tveggja að valda, skógleysi og minnkandi uppgrip af rauða. Ekki hefur þörfin þó minnkað, heldur er sennilegt að margir bændur sem bjuggu við rýra járntekju eða skógleysi hafi þurft að kaupa járn af öðrum sem framleiddu umfram þarfir. Gjallhaugur að Eiðum svarar til þess að þar hafi verið framleidd 500-1500 tonn af járni. Fræðimenn telja að Íslendingar hafi sjálfir framleitt allt sitt járn þangað til farið var að flytja inn svonefnt ásmundarjárn um miðja 15. öld.
Rauðablástur fer þannig fram, að þurrkuðum mýrarauða er blandað saman við viðarkol sem unnin eru með því að brenna viði í kolagröf þannig að loft komist ekki að. Síðan er kveikt í blöndunni í ofni. Við brunann afoxast járnið úr (vötnuðu) járnoxíði í járnmálm sem er bráðinn og seytlar niður í botn ofnsins og er síðan „hleypt undan“. Eftir verða efnasambönd (steindir) sem ekki bráðnuðu, og nefnast sori eða gjall. Jafna efnahvarfanna er sýnd hér neðanmáls. Af henni sést að öllu máli skiptir hlutfallið milli járnoxíðs og kísils í hráefninu — í jöfnunni er það 2:1, en sé það 1:1 gengur ekkert járn af. Sorinn hér er fayalít (Fe2SiO4).
Á áttunda áratugnum voru greind á Raunvísindastofnun Háskólans nokkur sýni af mýrarauða og gjalli (sora) til að reikna út hugsanlegan afrakstur rauðablástursins. Í íslenskum mýrum er mikið um steinefni, öskulög og áfok, sem inniheldur yfir 50% af SiO2, og vafalítið hefur þessi staðreynd spillt fyrir rauðablæstri hér á landi þótt allt sé þetta nokkuð bundið landshlutum og áfokið hafi að minnsta kosti stóraukist í kjölfar landnámsins.
Eftirfarandi samantekt, sem finna má á vefslóðinni IDAN.is, er til frekari glöggvunar á vinnslu mýrarrauða hér á landi:
Járn
Vinnsla á járni úr jörðu hefur verið þróaðasta náttúrunám á Íslandi á miðöldum. Járnið var unnið úr mýrarauða en sú aðferð var algeng í Noregi fyrir landnám Íslands og líklegt að aðferðin hafi flust með norskum landnámsmönnum hingað til lands. Aðferðin, sem notuð var við járngerðina, var kölluð rauðablástur og byggðist á því að bræða járnið úr mýrarauða yfir viðarkolaglóð í þar til gerðum ofni.
Á þjóðveldisöld er líklegt að mestallt járn, sem notað var til framleiðslu á ýmsum nytjahlutum, hafi verið unnið hér á landi og má því til stuðnings benda á að engar heimildir eru til um innflutning á smíðajárni á þeim tíma.
Járngerð á Íslandi, rauðablástur, lagðist af um 1500 þegar vinnsla járngrýtis hófst á Norðurlöndum. Í kjölfar þess hófst innflutningur á svokölluðu ásmundarjárn en þó er líklegt að vinnsla járns úr mýrarauða hafi tíðkast eitthvað eftir 1500 þar sem slík þekking leggst ekki af á einni nóttu.
Fyrsti Íslendingurinn, sem ber starfsheitið járnsmiður í ritaðri heimild, er landnámsmaðurinn Ljótólfur og má því segja að hann sé fyrsti járniðnaðarmaðurinn sem sögur fara af.
Járngerð
Hugsanlegt er að finna verksummerki um járngerð víða á landinu. Helsta vísbendingin er gjall af tiltekinni gerð. Þegar rauðinn (járnið) var bræddur urðu eftir úrgangsefni, sem runnu saman í hellu eða klump og storknuðu. Yfirborð þessara gjallstykkja var götótt, dökkt og gljáandi, líklega 6 – 10 sm að þykkt og ummáli. Þau líkjast hraunsteini en eru mun þyngri og mótaðri en steinninn. Stykkin gætu innihaldið lífrænar leifar eins og kol og jarðveg.
Eftirfarandi má einnig hafa í huga þegar hugsanlegir járngerðarstaðir eru skoðaðir. Orðið gjall er dregið af lýsingarorðinu að gjalla eða hljóma. Þegar slegið er í gjallstykki heyrist málmhljóð. Til járngerðar þurfti rauða úr mýrum og við til kolagerðar en viðurinn var oftast af skornum skammti þegar leið á miðaldir. Kolin voru þannig gerð að grafnar voru djúpar holur og fylltar grönnum viðarstofnum. Síðan var kveikt í og hulið með torfi. Þessar holur hafa líklega verið all djúpar, samanber ákvæði í Grágás þar sem sekt er við því að fylla ekki kolagrafir svo að fé falli ekki í þær.
Undirritaður fann nýlega stað á Reykjanesi er gæti hafa verið notaður til kolagerðar. Nafnið bendir a.m.k. til þess, þ.e. Kolhóll. Í honum er stór skál, sem grafa þyrfti í. Ef þetta reynist rétt er um að ræða fyrstu kolagröfina, sem finnst á svæðinu.
Mýrarauði
Mýrarauði er eins konar jarðefnisklumpar eða agnir sem finna má í mýrum hér á landi. Mýrarauði gat verið á stærð við sandkorn og allt að 50 kg klumpi.
Mýrarauði er líkt járnryði að ytra útliti, mógulur eða mórauður á litinn. Rauðinn er gjallkenndur viðkomu og oft gljúpur og holóttur. Mýrarauði myndast þegar vatn tekur í sig járn úr bergi og hið járnblandaða vatn (mýrarlá) verður fyrir áhrifum jurtagróðurs.
Mýrarauða er helst að finna í mýrum neðst í fjallshlíðum. Margir dalir og dalverpi á Íslandi eru þannig frá náttúrunnar hendi að mýrarnar þar geta náð töluvert upp í fjallshlíð. Finna má köggla af mýrarauða þar sem mýrar hafa þornað og land blásið upp.
Ofnar
Lítið er vitað um ofninn sem notaður var við rauðablástur. Engar áreiðanlegar heimildir eru til um útlit hans eða gerð né hvernig hann var hannaður. Meðfylgjandi uppdráttur er gerði ÓSÁ eftir rissi Ragnars Edvardssonar, kennara í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Tilgátan er byggð á samskonar ofnum, sem enn eru í notkun meðal frumstæðra þjóða og vitað er að voru til meðal víkinga. Hugmyndin er einföld, möguleg í framkvæmd hér á landi og líkleg til að geta skilað árangri. Ætlunin er jafnvel að gera tilraunir með ofninn n.k. sumar.
Samkvæmt nýjustu fræðiathugunum og opinberum kenningum er hins vegar talið að ofnar hafi ekki verið gerðir úr varanlegu efni. Þeir hafi verið tunnulaga, oftast úr torfi og jafnvel timbri og með gati neðst til að hægt væri að blása í gegnum það lofti að kolunum.
Á sínum tíma var talið að rauðablástursofn hefði fundist á Belgsá í Fnjóskadal en sá ofn var grafinn í jörðu og klæddur grjóti en engar áreiðanlegar heimildir styðja þetta. Bent hefur verið á að þetta gæti ekki verið rauðablástursofn þar sem ekki væri hægt að blása lofti að kolunum um gat neðst á ofninum eins og norski bóndinn gerði en aðrir töldu að lofti hefði verið blásið beint ofan í ofninn.
Ofnar til járnsmíða þróuðust og breyttust í tímans rás en byggðust þó á þeirri hugmynd að blásið var lofti með smiðjubelg eða físibelg að kolum í ofninum til að framkalla nægan hita til að vinna járnið. Slíkir ofnar voru oftast hlaðnir með sléttum hellusteini efst eða járnplötum og áfastur físibelgur á einni hlið.
Rauðablástur
Rauðablástur kallast það þegar mýrarauði er bræddur yfir viðarkolaeldi þannig að út fellur nothæft járn sem síðan er hamrað og unnið með. Lítið er vitað um nákvæma aðferð við rauðablástur eins og hann tíðkaðist á Íslandi, og virðist sú þekking glötuð. Á 18. öld vann norskur bóndi, Ole Evenstad, járn úr mýrarauða á þann hátt sem ætla má að líkist að einhverju leyti þeirri aðferð sem notuð var til forna hér á landi.
Aðferð:
1. Rauðinn var tekinn og mulinn í smátt.
2. Viður var brenndur í ofni þar til hann var orðinn að glóandi viðarkolum.
3. Viðarkolunum var þrýst niður og muldum rauða stráð yfir glóðina. Þrír skammtar fóru í hverja brennslu eða sem samsvarar 24 lítrum.
4. Þegar rauðinn var orðinn glóandi var blásið lofti að kolunum inn um gat neðst á ofninum.
5. Um leið og kolin brunnu sigu þau niður en mest fyrir miðju þar sem hitinn var mestur.
6. Rauðaglóðinni var nú skarað að miðju og blásið áfram um gatið neðst á ofninum þar til rauðaglóðin rann saman í klump í miðjunni.
7. Járnið var nú tekið úr ofninum og hamrað til.
Aðferðin byggist á því að bræðslumark járns er hærra en steinefnanna sem mynda gjallið. Þess vegna sígur gjallið niður á botn ofnsins meðan járnið rennur saman í klump ofan á gjallinu. Fundist hafa járnklumpar sem líta þannig út að járnið hefur verið látið síga saman í miðjum ofni á sama hátt og norski bóndinn lýsir.
Í Landnámabók er skýrt frá því að Björn nokkur hafi numið land í Borgarfirði. “Hann blés fyrstur mann rauð á Íslandi, ok var hann af því kallaður Rauða-Björn.” Fræðimenn hafa dregið þessa fullyrðingu Landnámabókar í efa með þeim rökum að þessi frásögn hafi ekki verið til annars en að skýra viðurnefni Bjarna. Rauðablástur var vel þekktur frá Noregi og hafði verið stundaður þar löngu fyrir landnám Íslands og því hefur vinnsla járns úr mýrarauða ekki verið annað en sjálfsagt framhald af ýmissi verkmenningu sem fluttist hingað frá Noregi.
ÓSÁ tók saman 19.11.’03